Nýr örorkulífeyrir
Almennt
Nýr örorkulífeyrir frá 1. september 2025 er fyrir þau sem eru metin með 0 - 25% getu til virkni á vinnumarkaði samkvæmt samþættu sérfræðimati. Nýr örorkulífeyrir er varanlegur. Hann kemur í stað örorkulífeyris, tekjutryggingar og sérstakrar framfærsluuppbótar.
Ef þú er með gilt örorkumat 31. ágúst 2025 eða lengur, færðu varanlegan rétt til örorkulífeyris frá og með 1. september 2025.
Þú þarft hvorki að sækja um né fara í nýtt mat við þessa breytingu, en getur óskað eftir samþættu sérfræðimati samkvæmt nýju kerfi.
Fyrir hverja
Einstaklinga sem geta ekki sinnt störfum á vinnumarkaði vegna þess að geta þeirra til virkni á vinnumarkaði er metin 0 - 25% samkvæmt samþættu sérfræðimati.
Með gilt örorkumat til 31. júlí 2025 eða skemur
Þarftu að senda inn umsókn um endurmat fyrir 1. september 2025 ef þörf er á áframhaldandi örorkulífeyri. Þá fer fram hefðbundið endurmat samkvæmt núgildandi kerfi. Verði endurmatið samþykkt færðu varanlegar örorkulífeyrisgreiðslur samþykktar frá og með 1. september 2025.
Berist umsókn um endurmat eftir 1. september 2025 fer umsækjandi í samþætt sérfræðimat samkvæmt nýju kerfi.
Með gilt örorkumat 31. ágúst 2025
Færð þú greitt frá 1. september 2025 samkvæmt nýju kerfi í samræmi við tekjur þínar. Langstærsti hluti þeirra sem fá greiddan örorkulífeyri í núverandi kerfi fá hærri greiðslur í nýja kerfinu.
Eftir 1. september 2025 getur einstaklingur með rétt til örorkulífeyris óskað eftir samþættu sérfræðimati til að færast yfir á hlutaörorkulífeyri. Ef það kemur ver út fyrir viðkomandi er hægt að draga umsóknina til baka.
Örorkustyrkur
Með örorkustyrk til 31. júlí 2025 eða skemur
Þau sem fá örorkustyrk og eru með gilt örorkumat til
31. júlí 2025 eða skemur þurfa að fara í hefðbundið endurmat í núverandi kerfi. Umsókn um endurmat þarf að hafa borist fyrir 1. september 2025.
Með örorkustyrk 31. ágúst 2025
Þau sem fá örorkustyrk og eru með gilt örorkumat til 31. ágúst 2025 færast yfir í nýtt kerfi og fá varanlegar greiðslur frá 1. september 2025.
Þau sem fá örorkustyrk geta sótt um örorkulífeyri eða hlutaörorkulífeyri eftir 1. september 2025 og þurfa þá að fara í samþætt sérfræðimat.
Fjárhæðir og frítekjumörk
Langflest sem fá greiddan örorku- eða endurhæfingarlífeyri samkvæmt gildandi kerfi munu fá hærri greiðslur í nýju kerfi frá 1. september 2025. Rétt er að benda á að mismunandi þættir hafa áhrif á greiðslur hvers og eins, til dæmis aldur, búseta, hvort þú búir ein/n, eigir börn, hvaða tekjur þú hefur og fleira. Tryggingastofnun mun veita upplýsingar um greiðslur til hvers og eins á Mínum síðum TR samkvæmt nýju kerfi um leið og slíkt er mögulegt.
Fullur örorkulífeyrir frá 1. september 2025 er:
380.000 krónur á mánuði fyrir skatt án heimilisuppbótar.
443.000 krónur á mánuði fyrir skatt með heimilisuppbót.
Örorkulífeyrir er tekjutengdur, sem þýðir að aðrar skattskyldar tekjur hafa áhrif til lækkunar.
Almennt frítekjumark fyrir örorkulífeyrisgreiðslur í nýju kerfi verða 100.000 krónur á mánuði. Það tekur til allra tekna sem áhrif hafa á greiðslur hjá Tryggingastofnun, þar með talið atvinnutekna, lífeyrissjóðstekna og fjármagnstekna.
Ekki er um að ræða sérstakt frítekjumark atvinnutekna vegna örorkulífeyrisgreiðslna.
Sjá fjárhæðir og frítekjumörk hér.
Í reiknivél lífeyris er hægt að reikna út mögulegar greiðslur örorkulífeyris í nýju kerfi til samanburðar við mögulegar greiðslur í dag. Fyrst eru settar inn forsendur í viðeigandi reiti og fenginn útreikningur miðað við mögulegar greiðslur í dag og þá kemur upp valmöguleiki um útreikning greiðslna eftir 1. september 2025.
Áhrif búsetu
Fullt búsetuhlutfall miðast áfram við 40 ára búsetutíma á Íslandi 16 til 67 ára. Þetta mun ekki breytast í nýju kerfi.
Heimilisuppbót
Núgildandi skilyrði um heimilisuppbót, breytast ekki í nýju kerfi.
Heimilisuppbót er tekjutengd og lækkar samanlögð fjárhæð lífeyris, heimilisuppbótar og aldursviðbótar ef við á um 45% af tekjum lífeyrisþega umfram frítekjumörk, uns hún fellur niður.
Barnalífeyrir
Það verða ekki breytingar á barnalífeyri. Barnalífeyrir er greiddur ef foreldri eða framfærandi fær greiddan örorkulífeyri, hlutaörorkulífeyri eða sjúkra- og endurhæfingargreiðslur. Fjárhæð barnalífeyris er föst fjárhæð.
Aldursviðbót
Þau sem eiga rétt á örorku- eða hlutaörorkulífeyri geta fengið greidda aldursviðbót að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Aldursviðbót er ekki greidd þeim sem hafa rétt á sjúkra- eða endurhæfingargreiðslum.
Full aldursviðbót að upphæð 30.000 krónur greiðist þeim sem eru 18 til 24 ára þegar annað hvort skilyrði endurhæfingarlífeyris voru fyrst uppfyllt eða þegar örorkumat var fyrst samþykkt. Það á við hvort sem fyrsta örorkumatið átti sér stað fyrir 1. september 2025 eða eftir. Fjárhæðin lækkar um 5% frá og með 25 ára aldri fram að 44 ára aldri og er ekki greidd þeim sem eru eldri en 43 ára við fyrsta örorkumat.
Dæmi: Ef einstaklingur fær samþykkt mat í fyrsta sinn 25 ára fær viðkomandi 95% af fullri aldursviðbót og heldur þeirri greiðslu.
Dæmi: Ef einstaklingur fær samþykkt mat í fyrsta sinn 43 ára fær viðkomandi 5% af fullri aldursviðbót og heldur þeirri greiðslu.
Aldursviðbót er tekjutengd og lækkar samanlögð fjárhæð lífeyris, heimilisuppbótar og aldursviðbótar ef við á um 45% af tekjum lífeyrisþega umfram frítekjumörk, uns hún fellur niður.
Nýr örorkulífeyrir - algengar spurningar
Þjónustuaðili
Tryggingastofnun