Örorkulífeyrir frá 1. september 2025
Í stuttu máli
Örorkulífeyrir frá 1. september 2025 er fyrir þau sem eru metin með 0 - 25% getu til virkni á vinnumarkaði samkvæmt samþættu sérfræðimati. Nýr örorkulífeyrir er varanlegur. Hann kemur í stað örorkulífeyris, tekjutryggingar og sérstakrar framfærsluuppbótar.
Fyrir hverja
Einstaklinga á aldrinum 18-67 ára sem geta ekki sinnt störfum á vinnumarkaði vegna þess að geta þeirra til virkni á vinnumarkaði er metin 0 - 25% samkvæmt samþættu sérfræðimati.
Fjárhæðir og frítekjumörk
Nánast öll þau sem fá greiddan örorkulífeyri fá hærri greiðslur í nýja kerfinu.
Fullur örorkulífeyrir frá 1. september 2025 er:
396.340 krónur á mánuði fyrir skatt án heimilisuppbótar.
462.049 krónur á mánuði fyrir skatt með heimilisuppbót.
Örorkulífeyrir er tekjutengdur, sem þýðir að aðrar skattskyldar tekjur hafa áhrif til lækkunar.
Rétt er að benda á að mismunandi þættir hafa áhrif á greiðslur hvers og eins, til dæmis aldur, búseta, hvort þú búir ein/n, eigir börn, hvaða tekjur þú hefur og fleira. Gott er að skoða reiknivél örorkulífeyris til að setja inn þínar aðstæður og reikna út hvaða mögulegu greiðslum þú átt rétt á.
Almennt frítekjumark fyrir örorkulífeyri í nýju kerfi er 100.000 krónur á mánuði. Það tekur til allra tekna sem áhrif hafa á greiðslur hjá Tryggingastofnun, þar með talið atvinnutekna, lífeyrissjóðstekna og fjármagnstekna. Áhrif tekna er 45% til lækkunar af tekjum yfir frítekjumörkum.
Ekki er um að ræða sérstakt frítekjumark atvinnutekna vegna örorkulífeyris.
Sjá fjárhæðir og frítekjumörk hér.
Í reiknivél örorku- og endurhæfingargreiðslna eftir 1. september 2025 er hægt að reikna út mögulegar greiðslur örorkulífeyris í nýju kerfi.
Áhrif búsetu
Fullt búsetuhlutfall miðast við 40 ára búsetutíma á Íslandi 16 til 67 ára. Þetta er óbreytt í nýju kerfi. Lágmarks búsetuskilyrði sem þarf að uppfylla má lesa um hér.
Ísland hefur gert samninga við fjölda landa til að tryggja að fólk geti flutt og starfað erlendis án þess að missa áunnin réttindi.
Uppbót vegna breytts örorkukerfis
Í nýja örorkukerfinu hefur verið sett á uppbót vegna afmarkaðs hóps örorkulífeyrisþega sem eru búsetuskertir, það er reiknað þannig að áætlað er hverjar óbreyttar greiðslur einstaklings væru í eldra kerfi. Til frádráttar eru reiknaðar 65% allra tekna en þeirra sem koma frá TR. Sé sú upphæð hærri en greiðslur einstaklings í nýju kerfi kemur samanburðargreiðsla til að tryggja að viðkomandi lækki ekki í greiðslum.
Tökum sem dæmi einstakling sem býr einn, er með 50% búseturétt, fær fulla aldursviðbót, og er með 100.000 kr. á mánuði í tekjur.
461.194 kr. áætlaðar óskertar greiðslur í eldra kerfi*
-65.000 kr. frádráttur vegna tekna
-246.670 kr. greiðslur í nýju kerfi
= 149.524 kr. uppbót vegna breytts kerfis
*Óbreyttar greiðslur í eldra kerfi eru áætlaðar með því að leggja saman framfærsluviðmið framfærsluuppbótar og þann hluta aldursviðbótar og tekjutryggingar sem var undanþeginn skerðingu á henni. Þessi nálgun tryggir að upphæðin verður aldrei lægri en raunin er, og í einstaka tilvikum eilítið hærri.
Aldursviðbót
Þau sem eiga rétt á örorku- eða hlutaörorkulífeyri geta fengið greidda aldursviðbót að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.
Full aldursviðbót að upphæð 31.290 krónur greiðist þeim sem eru 18 til 24 ára þegar annað hvort skilyrði endurhæfingarlífeyris voru fyrst uppfyllt eða þegar örorka var fyrst samþykkt. Fjárhæðin lækkar um 5% frá og með 25 ára aldri fram að 44 ára aldri og er ekki greidd þeim sem eru eldri en 43 ára við fyrsta örorkumat.
Dæmi: Ef einstaklingur fær samþykkt mat í fyrsta sinn 25 ára fær viðkomandi 95% af fullri aldursviðbót og heldur þeirri greiðslu.
Dæmi: Ef einstaklingur fær samþykkt mat í fyrsta sinn 43 ára fær viðkomandi 5% af fullri aldursviðbót og heldur þeirri greiðslu.
Aldursviðbót er tekjutengd og lækkar samanlögð fjárhæð lífeyris, heimilisuppbótar og aldursviðbótar ef við á um 45% af tekjum lífeyrisþega umfram frítekjumörk, uns hún fellur niður.
Heimilisuppbót
Skilyrði um heimilisuppbót eru óbreytt í nýju kerfi.
Heimilisuppbót er tekjutengd og lækkar samanlögð fjárhæð lífeyris, heimilisuppbótar og aldursviðbótar ef við á um 45% af tekjum lífeyrisþega umfram frítekjumörk, uns hún fellur niður.
Barnalífeyrir
Barnalífeyrir breytist ekki í nýju kerfi. Hann er greiddur ef foreldri eða framfærandi fær greiddan örorkulífeyri, hlutaörorkulífeyri eða sjúkra- og endurhæfingargreiðslur. Barnalífeyrir er ótekjutengdur.
Uppbætur á lífeyri
Uppbætur á lífeyri eru óbreyttar í nýju kerfi. Þær eru mánaðarleg upphæð sem bætist við örorkulífeyri ásamt sjúkra- og endurhæfingargreiðslur ef réttur er til staðar.
Hlutaörorkulífeyrir
Frá 1. september 2025 getur einstaklingur með rétt til örorkulífeyris óskað eftir að færast yfir á hlutaörorkulífeyri. Hægt er að senda fyrirspurn á ororka@tr.is, skoðað er hvort kemur betur út fyrir viðkomandi að vera áfram á örorkulífeyri eða færast á hlutaörorkulífeyri og ákvörðun tekin út frá því.
Örorkustyrkur
Örorkustyrkur er ekki metinn í nýja kerfinu. Það fá því engir nýjir einstaklingar örorkustyrk eftir 1. september 2025. Hins vegar voru einstaklingar sem voru með örorkustyrk til 31. ágúst 2025 fluttir yfir í nýja kerfið og fengu varanlegan örorkustyrk. Einstaklingar með örorkustyrk geta sótt um örorkulífeyri frá 1. september 2025.
Fjárhæð örorkustyrks er:
48.591 króna á mánuði fyrir 18 ára til 61 árs,
65.730 krónur á mánuði fyrir 62 til 67 ára.
Viðbótargreiðslur með örorkustyrk:
þau sem eru með börn undir 18 ára á sínu framfæri fá 75% af upphæð barnalífeyris með hverju barni,
hreyfihamlaðir geta sótt um uppbót vegna reksturs bifreiðar.
Örorkustyrkur fellur niður ef:
launagreiðslur fara yfir frítekjumörk, sem eru 214.602 kr. á mánuði og
2.575.220 kr. á áriumsókn um endurmat berst of seint,
einstaklingur verður 67 ára því þá myndast réttur til ellilífeyris. Sækja þarf sérstaklega um ellilífeyri.
Þjónustuaðili
Tryggingastofnun