Ársskýrsla 2024

Ársskýrsla 2024
Sífellt fleiri fyrirtæki með áætlun um öryggi og heilbrigði
Vinnueftirlitið hvetur vinnustaði landsins til að stuðla að vellíðan og öryggi starfsfólks. Við minnum sífellt á að heilbrigð vinnustaðamenning leggur grunn að öryggi og vellíðan starfsfólks og hefur jákvæð áhrif á árangur og orðspor vinnustaða. Þegar öllum á vinnustaðnum líður vel og starfsfólk er öruggt eru meiri líkur á að öll eigi heilbrigð samskipti, sýni ábyrgð í starfi og nái árangri saman.
Stjórnendur gegna lykilhlutverki og þurfa að ganga á undan með góðu fordæmi. Ábyrgðin er þó ekki einungis þeirra heldur þurfa öll sem starfa saman á vinnustað að bera ábyrgð á því hvernig þau koma fram hvert við annað og hvernig þau leysa verkefnin.
Við hjá Vinnueftirlitinu erum þar engin undantekning. Við fengum viðurkenningu sem fyrirmyndarstofnun 2024 þegar við urðum í þriðja sæti í könnun Sameykis og fjármála- og efnahagsráðuneytisins um Stofnun ársins. Við erum stolt af vinnustaðnum okkar en vitum jafnframt að við þurfum að halda áfram að vera til staðar fyrir hvert annað, tileinka okkur jákvæð viðhorf og uppbyggilega endurgjöf.
Við viljum einnig vera til staðar fyrir vinnustaði landsins og veita áreiðanlega og góða þjónustu. Því höfum við hafið reglubundnar þjónustukannanir í kjölfar vettvangsathugana, vinnuvélaskoðana og námskeiða til að fylgjast með upplifun þeirra sem njóta þjónustu okkar. Okkar eigin líðan á vinnustað endurspeglast í upplifun þeirra sem við þjónum – sem sést meðal annars á því að stofnunin hlaut 4,5 af 5 mögulegum í heildaránægju með þjónustu árið 2024.
Á árinu unnum við markvisst að stafvæðingu þjónustu okkar með það að markmiði að veita skilvirka og aðgengilega þjónustu sem notendur geta nýtt sér þegar þeim hentar. Hlaut stofnunin viðurkenningu Stafræns Íslands fyrir að hafa innleitt sjö af níu stafrænum skrefum.
Það er líka ánægjulegt að sjá að sífellt fleiri vinnustaðir hafa gert skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði sem er grunnstoð þess að starfsfólk upplifi öryggi og vellíðan á vinnustað. Í könnun sem Maskína gerði fyrir Vinnueftirlitið í lok ársins 2024 kemur fram að 63% vinnustaða voru með slíka áætlun í samanburði við 51,7% vinnustaða árið áður.
Við fögnum því sem áunnist hefur og lítum á árangurinn sem hvatningu til frekari umbóta. Við vitum að við getum og verðum að gera enn betur. Enn eru of mörg vinnuslys sem rekja má til þekktrar áhættu á vinnustöðum sem flest er koma að málum þekkja vel hvernig koma má í veg fyrir með einföldum og markvissum forvörnum.
Gefum okkur tíma til að staldra við í annríki dagsins og förum yfir hvaða áhættur kunna að leynast í vinnuumhverfinu. Frestum ekki forvörnum til morguns – þær geta skipt sköpum og jafnvel bjargað lífi.
Gerum það sem í okkar valdi stendur til að öll komi heil heim.

Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir,
forstjóri Vinnueftirlitsins.
Vinnueftirlitið er miðstöð vinnuverndarstarfs í landinu. Hlutverk þess er að stuðla að bættri vellíðan og öryggi starfsfólks þannig að öll komi heil heim úr vinnu, starfsævina á enda. Kjarnastarfsemi þess lítur að vettvangsathugunum, stafrænum samskiptum og eftirliti með vinnuvélum og tækjum.
Gildi Vinnueftirlitsins
Traust – Samvinna – Forvarnir - Árangur
Með samvinnu og trausti stuðlum við að forvörnum og náum árangri saman.
Eftirlit með vélum og tækjum er stór þáttur í starfsemi Vinnueftirlitsins.
Vettvangsathuganir og stafræn samskipti eru einnig veigamiklir þættir í starfseminni. Þar er haft eftirlit með aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi á vinnustöðum og kallað eftir gögnum um vinnuvernd sem eiga að vera til staðar á vinnustöðum. Gefin eru fyrirmæli um úrbætur gerist þess þörf. Áhersla er á þverfaglega nálgun með tilliti til fimm meginþátta vinnuverndar sem eru efni og efnahættur, álagsþættir er tengjast stoðkerfinu, sálfélagslegt vinnuumhverfi, tæki og vélbúnaður og umhverfisþættir.
Vinnueftirlitið hefur einnig það hlutverk að halda skrá yfir vinnuslys sem atvinnurekendum er skylt að tilkynna til stofnunarinnar. Tilgangurinn er að afla þekkingar um tíðni og orsakir vinnuslysa svo efla megi forvarnarstarf á vinnustöðum og koma í veg fyrir að slys endurtaki sig á sama eða sambærilegum vinnustöðum.
Vinnuvélaeftirlit
33.576 vélar og tæki voru á skrá hjá Vinnueftirlitinu í lok árs 2024. 32.380 vélar og tæki voru á skrá í lok árs 2023 og fjölgaði þeim því um 3,6 prósent milli ára.
29.644 vélar og tæki voru til skoðunar. Til samanburðar voru 29.360 vélar og tæki til skoðunar árið 2023.
22.518 vinnuvélar og tæki voru skoðuð á árinu. Skoðunarhlutfall vinnuvéla og tækja sem átti að skoða hækkaði á milli ára. Það fór úr 69,7 prósentum árið 2023 þegar 20.465 vélar og tæki voru skoðuð í 76 prósent árið 2024.
92,2 prósent lyfta voru skoðaðar. Hlutfallið var 90 prósent árið 2023.
1.605 vinnuvélar og tæki voru nýskráð. Nýskráningar á árinu 2023 voru samtals 2.000 og nam fækkunin um 19,5 prósentum milli ára.
1.320 vinnuvélar og tæki voru afskráð. Afskráningar á árinu 2023 voru 1.388 og fækkaði því um 5 prósent milli ára.
5.530 eigendaskipti voru afgreidd. Þeim fjölgaði úr 4.870 árið 2023 eða um 14 prósent á milli ára.
Framkvæmd voru 4.521 verkleg próf. Verkleg próf á árinu 2023 voru 5.325. Þeim fækkaði því um 15 prósent á milli ára.
Vettvangsathuganir
Starfsfólk Vinnueftirlitsins fór í 1.456 vettvangsathuganir hjá vinnustöðum árið 2024. Þær voru 1.212 árið 2023 og fjölgaði því um 20 prósent milli ára.
70,8 prósent vinnustaða sem fengu fyrirmæli í vettvangsathugunum gerðu úrbætur innan gefins frests. Hlutfallið var 57 prósent árið 2023.
Vinnueftirlitið hefur lagt ríka áherslu á það síðustu misseri að fylgja markvisst eftir fyrirmælum til vinnustaða um úrbætur í vinnuumhverfinu. Viðbrögð vinnustaða hafa verið góð og verða sífellt betri og bregðast þeir að öllu jöfnu hratt og vel við þegar kemur að því að bæta vinnuumhverfið.
Stafræn samskipti
Árið 2023 voru tekin upp stafræn samskipti við vinnustaði landsins. Það þýðir að haft er samband rafrænt við vinnustaðina og kallað eftir gögnum um vinnuvernd sem eiga að vera til staðar, svo sem skriflegri áætlun um öryggi og heilbrigði. Þegar umrædd gögn eru ekki fyrir hendi er gefin út eftirlitsskýrsla með fyrirmælum um úrbætur.
Haft var samband við 200 vinnustaði með þessari aðferð á árinu 2024. Þeir voru 112 árið 2023 og fjölgaði því um 78 prósent milli ára. Markmiðið er að fjölga slíkum samskiptum enn frekar og ná þannig til fleiri vinnustaða en ella.

Mynd 1. Vettvangsathuganir og stafræn samskipti. Heimild: Vinnueftirlitið.
Fyrirtækjum með áætlun um öryggi og heilbrigði fjölgar
Í könnun sem Maskína gerði fyrir hönd Vinnueftirlitsins árið 2024 kom í ljós að 63 prósent íslenskra fyrirtækja er með skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað, en samkvæmt lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum eiga allir atvinnurekendur að sjá til þess að slík áætlun sé til staðar óháð stærð vinnustaðar. Hlutfallið var 51,7 prósent í sambærilegri könnun sem framkvæmd var árið 2023 svo þróunin er í rétta átt.
Mikill meirihluti fyrirtækja með 50 starfsmenn eða fleiri eru með skriflega áætlum um öryggi og heilbrigði. 87 prósent fyrirtækja með 150 eða fleiri starfsmenn, 85 prósent með 50 til 149 starfsmenn og 61 prósent með 11-49 starfsmenn. Hins vegar eru aðeins 26 prósent vinnustaða með 10 starfsmenn eða færri með slíka áætlun. Þeim hefur þó fjölgað en hlutfallið var einungis 18 prósent árið 2023. Fyrrnefnd könnun leiddi í ljós að 56,8 prósent fyrirtækja er með öryggistrúnaðarfólk og - verði eða öryggisnefndir. Hlutfallið var 46,7 prósent árið 2023.
Regluleg námskeið
Vinnueftirlitið býður upp á ýmis námskeið tengd vinnuvélum, vinnuvernd, efnum og efnahættum.
Árið 2024 sátu samtals 2.158 nemendur námskeið hjá Vinnueftirlitinu. Þeim fjölgaði úr 1.970 árið 2023 eða um 10 prósent milli ára
Samtals sátu 532 nemendur vinnuverndarnámskeið. Þar af 512 námskeið fyrir öryggistrúnaðarmenn og öryggisverði og 20 nám til viðurkenningar í vinnuvernd.
Samtals sátu 1.358 réttindanámskeið fyrir stjórnendur vinnuvéla. Þar af sátu alls 1.289 nemendur frumnámskeið. Af þeim sátu 847 frumnámskeið á íslensku, 215 frumnámskeið á ensku, 178 frumnámskeið á pólsku, 13 frumnámskeið á spænsku, 18 frumnámskeið á rúmensku og 18 frumnámskeið á arabísku.
69 sátu byggingakrananámskeið. Þar af 10 á íslensku, 18 á ensku, 5 á pólsku og 36 á rúmensku53 sátu ADR námskeið til að öðlast réttindi til að flytja hættulegan farm á götum úti.
38 sátu námskeið um meðhöndlun á asbesti.
Ýmis verkefni
Símtöl: Það hringdu 10.526 í okkur árið 2024. Við svöruðum tæplega 97 prósent símtala sem vörðu lengur en í 15 sekúndur. Símtölum fækkaði um 10% milli ára. Fóru úr 11.664 árið 2023.
Netspjall: Netspjöll voru 695.
Tölvupóstar: Rúmlega 2.800 tölvupóstar voru afgreiddir í þjónustuveri.
Komur:Það komu að meðaltali 4 viðskiptavinir á starfsstöðvar okkar á dag. Þeir voru að meðaltali 5 árið 2023 en eitt af markmiðum stofnunarinnar með aukinni stafvæðingu er að viðskiptavinir geti leyst sín mál á vefnum þegar þeim hentar og þurfi ekki að gera sér sérstaka ferð á starfsstöð okkar.
Heimsóknir á vefsíðu: Vefur Vinnueftirlitsins flutti yfir til Island.is í apríl. Heimsóknum á vefinn fjölgaði úr 87 þúsund árið 2023 í 97 þúsund 2024 eða um 11 prósent.
Útgáfa skírteina: Vinnueftirlitið gaf út 3.520 vinnuvélaskírteini. Endurútgefin skírteini voru 951. Ný og endurútgefin ADR skírteini voru 161.
Götuskráningar: 332 umsóknir um götuskráningar vinnuvéla voru afgreiddar.
Skjalavarsla: 6.737 mál voru skráð í GoPro skjalakerfið okkar. Þeim fjölgaði úr 4.716 árið 2023.
Umsagnir vegna leyfa: Umsögnum vegna starfsleyfi, markaðsleyfa, veitingahúsaleyfa og löggildingu rafvirkja fækkaði um 7,3 prósent milli ára. Fóru úr 982 í 910.
Mannauður
64 störfuðu hjá Vinnueftirlitinu í lok árs 2023 í 61,03 stöðugildum. 42 karlar og 22 konur með fjölbreytta menntun og víðtæka þekkingu og reynslu á starfssviði stofnunarinnar. Meðalfjöldi stöðugilda (ársverk) á árinu var 60,4.
Starfsemin er dreifð á 9 starfsstöðvar um allt land. Árið 2023 var 60,94% starfsfólks starfandi í Reykjavík en 39,06% á öðrum starfsstöðvum.
Atvinnurekendum ber að tilkynna til Vinnueftirlitsins um slys þar sem starfsfólk verður óvinnufært í einn eða fleiri daga, auk þess dags sem slysið varð. Atvinnurekendum ber líka að tilkynna ef starfsfólk lætur lífið. Tilgangur þessara skráninga er að afla upplýsinga um tíðni og orsakir vinnuslysa á innlendum vinnumarkaði og að auka þannig þekkingu í því skyni að efla forvarnarstarf á vinnustöðum. Við viljum koma í veg fyrir vinnuslys þar sem þau valda bæði hinum slasaða og vinnustaðnum skaða. Standa því vonir til að meðfylgjandi tölfræði verði til þess að auka þekkingu á þróun slysa í þeim atvinnugreinum þar sem slysatíðni er há þannig að unnt sé að grípa til viðeigandi forvarna svo fækka megi slysum.
Fjöldi tilkynntra vinnuslysa stóð nokkurn veginn í stað árið 2024 samanborið við árið 2023. Lítils háttar fjölgun varð á vinnumarkaði samkvæmt tölum Hagstofunnar milli ára eða um 2,3 prósent. Þegar fjöldi vinnuslysa er skoðaður í samhengi við hlutfall af fjölda starfandi helst hlutfallið nokkuð stöðugt milli ára, en um einn af hverjum hundrað starfandi lendir í vinnuslysi sem er tilkynnt til Vinnueftirlitsins. Hlutfallið á síðastliðnum tveimur árum virðist vera heldur lægra en á árunum fyrir heimsfaraldur COVID-19.
Fjöldi tilkynntra vinnuslysa
Tafla 1. Fjöldi tilkynntra vinnuslysa á árunum 2017-2024
Ár | Fjöldi starfandi á vinnumarkaði | Heildarfjöldi tilkynntra vinnuslysa | Hlutfall tilkynntra vinnuslysa af fjölda starfandi (%) | Fjöldi tilkynntra vinnuslysa Karlar | Fjöldi tilkynntra vinnuslysa Konur |
|---|---|---|---|---|---|
2017 | 197.081 | 2.137 | 1,08 | 1.395 | 742 |
2018 | 202.942 | 2.204 | 1,09 | 1.439 | 765 |
2019 | 201.326 | 2.234 | 1,11 | 1.380 | 854 |
2020 | 191.483 | 1.810 | 0,95 | 1.145 | 665 |
2021 | 194.953 | 1.876 | 0,96 | 1.176 | 700 |
2022 | 208.867 | 1.965 | 0,94 | 1.267 | 698 |
2023 | 217.861 | 2.229 | 1,02 | 1.418 | 811 |
2024 | 223.051 | 2.231 | 1,00 | 1.427 | 804 |
Heimild: Hagstofan og Vinnueftirlitið.
Fjöldi vinnuslysa eftir atvinnugreinum
Ef tilkynnt vinnuslys eru skoðuð eftir atvinnugreinum (ÍSAT bálkum Hagstofu) þá eru slysin flest í framleiðslu (ÍSAT bálkur C) en þar undir falla meðal annars störf í fiskvinnslu, matvælaframleiðslu og ýmsum iðnaði. Þar eru slysin nánast jafn mörg á árunum 2023 og 2024 en 416 slys voru tilkynnt til Vinnueftirlitsins árið 2023 og 418 slys árið 2024.
Á eftir framleiðslu kemur opinber stjórnsýsla (ÍSAT bálkur O) og fer vinnuslysum þar heldur fækkandi þar sem slysin voru 431 árið 2023 en 386 árið 2024. Nemur fækkunin innan opinberrar stjórnsýslu rúmum 10 prósentum en í þann flokk falla meðal annars störf í stjórnsýslu, við löggæslu, varnarmál og almannatryggingar. Næst kemur mannvirkjagerðin (ÍSAT bálkur F) en þar voru 266 vinnuslys tilkynnt til Vinnueftirlitsins á árinu 2024. Þeim hefur fjölgað frá árinu áður þegar 245 vinnuslys voru tilkynnt og nemur fjölgunin tæpum 8 prósentum.

Mynd 1. Fjöldi vinnuslysa eftir atvinnugreinum 2020-2024. Heimild: Vinnueftirlitið.
Bókstafirnir á myndinni standa fyrir tiltekna ISAT bálka.
Þeir eru eftirfarandi:
C = Framleiðsla
O = Opinber stjórnsýsla og varnarmál, almannatryggingar
F = Byggingastarfssemi og mannvirkjagerð
H = Flutningur og geymsla
G = Heild og smásöluverslun, viðgerðir á vélknúnum ökutækjum
Q = Heilbrigðis og félagsþjónusta
I = Rekstur gististaða og veitingarekstur
E = Vatnsveita, fráveita, meðhöndlun úrgangs og afmengun
P = Fræðslustarfssemi
Tíðni tilkynntra vinnuslysa eftir atvinnugreinum
Þegar fjöldi tilkynntra vinnuslysa er skoðaður samanborið við fjölda starfandi í einstökum atvinnugreinum sést að slysatíðni (slys á hverja 1.000 starfandi) er hæst í atvinnugreininni vatnsveitu, fráveitu, meðhöndlun úrgangs og afmengun (ÍSAT bálkur E) og fer hún vaxandi umfram fjölgun starfandi í greininni. Þannig fer slysatíðnin úr 36,2 árið 2023 í 44,1 árið 2024. Mikilvægt er ávallt að skoða slysatíðnina í svo fámennum atvinnugreinum sem þessari þar sem fjöldi slysa getur verið tiltölulega lítill í samanburði við fjölmennari atvinnugreinar. Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru 1.337 starfandi við vatnsveitu, fráveitu, meðhöndlun úrgangs og afmengun á árinu 2024 og hafði þeim fjölgað um tæp 5 prósent frá árinu áður (1.272).
Svipuð þróun á sér einnig stað í mannvirkjagerð (ÍSAT bálkur F) þar sem slysatíðnin hækkaði úr 13,2 árið 2023 í 13,7 árið 2024. Horfa verður til þess að verulega dró úr hækkun á slysatíðni milli ára samanborið við árið á undan en slysatíðnin var 10,7 árið 2022. Í því sambandi virðist sem að það hafi orðið meiri umræða meðal vinnustaða í mannvirkjagerð um öryggi og vellíðan starfsfólks sem vonandi er að skila þessum árangri. Til marks um það má nefna að haustið 2024 ákváðu fulltrúar launafólks og atvinnurekenda innan mannvirkjagerðar í gegnum samstarfsvettvanga fræðslumála, Iðuna fræðsluseturs og Rafmenntar, að koma á öryggisskóla fyrir starfsfólk í greininni að tillögu vinnuverndarráðs í mannvirkjagerð. Stefnt er að opnun hans árið 2025 og standa vonir til að þátttaka starfsfólks í skólanum muni stuðla að aukinni öryggismenningu í mannvirkjagerð og þar með fækkun slysa.
Umtalsverð fjölgun starfsfólks hefur verið í greininni á framangreindu tímabili en fjöldinn jókst um 9 prósent milli áranna 2022 (16.721) og 2023 (18.406) samkvæmt tölum Hagstofunnar og aftur um 5 prósent milli áranna 2023 og 2024 (19.397). Fjölgun vinnuslysa í mannvirkjagerð er þó eins og áður segir umfram fjölgun starfandi í greininni.
Næst á eftir atvinnugreininni vatnsveita, fráveita, meðhöndlun úrgangs og afmengun kemur opinber stjórnsýsla þar sem slysatíðnin er 25,9 árið 2024. Hún fer þó lækkandi þar sem hún var 35,9 árið 2023. Sömu þróun má sjá í atvinnugreinum sem falla undir flutning og geymslu (ÍSAT bálkur H) en þar fer slysatíðnin úr 18,7 árið 2023 í 16,9 árið 2024. Einnig hjá heilbrigðis- og félagsþjónustu þar sem slysatíðnin fer úr 7,2 árið 2023 í 6,7 árið 2024 en þar er slysatíðnin nokkuð lægri.
Í framleiðslu stendur slysatíðnin nokkurn veginn í stað eða fer úr 17,9 árið 2023 í 18,2 árið 2024. Í öðrum atvinnugreinum er slysatíðnin nokkuð lægri og ýmist stendur í stað eða lækkar milli ára.

Mynd 2. Tíðni vinnuslysa miðað við 1.000 starfandi í greinunum þar sem slysatíðni er hæst á árunum 2022 - 2024. Heimild: Vinnueftirlitið.
Bókstafirnir á mynd 2 standa fyrir tiltekna ISAT bálka.
Þeir eru eftirfarandi:
E = Vatnsveita, fráveita, meðhöndlun úrgangs og afmengun
O = Opinber stjórnsýsla og varnarmál, almannatryggingar
C = Framleiðsla
H = Flutningur og geymsla
F = Byggingastarfssemi og mannvirkjagerð
Q = Heilbrigðis og félagsþjónusta
D = Rafmagns, gas og hitaveitur
G = Heild og smásöluverslun, viðgerðir á vélknúnum ökutækjum
Orsakir tilkynntra vinnuslysa
Tilgangur þess að afla upplýsinga um tíðni og orsakir vinnuslysa er að auka þekkingu í því skyni að efla forvarnarstarf á vinnustöðum og koma þannig í veg fyrir að sambærileg slys endurtaki sig. Þess vegna er mikilvægt að skoða hverjar orsakir slysa eru svo vinnustaðir geti gripið til viðeigandi forvarnaraðgerða.
Þegar orsakir slysa eru skoðaðar í þeim þremur atvinnugreinum þar sem slysatíðni er hæst sést að fall á jafnsléttu er algengasta ástæða slysa í þeim öllum. Með falli á jafnsléttu er átt við slys þar sem fólk fellur til dæmis um hluti á gólfi eða rennur til í hálku eða bleytu.
Hlutföllin eru mismunandi eftir atvinnugreinum en tæplega 30 prósent slysa sem verða við störf sem tilheyra vatnsveitu, fráveitu, meðhöndlun úrgangs og afmengun verða vegna falls á jafnsléttu. Í opinberri stjórnsýslu verða 40 prósent slysa vegna falls á jafnsléttu og um 19 prósent við störf í framleiðslu. Þetta á þó ekki eingöngu við um umræddar atvinnugreinar því orsakir 25 prósent allra tilkynntra vinnuslysa á tímabilinu 2021-2024 má rekja til falls á jafnsléttu. Var það ástæða þess að stofnunin hóf sérstaka vitundarvakningu um fallslys við vinnu með norrænum systurstofnunum sínum á árinu 2024.
Eins og sjá má á mynd 4 er ofbeldi eða árás nokkuð algengt í opinberri stjórnsýslu en það er ekki algeng orsök í hinum greinunum þar sem fall úr hæð og að missa stjórn á hlut eða verkfæri kemur næst á eftir falli á jafnsléttu. Mismunandi orsakir skýrast af ólíku eðli starfa en nánar má sjá skiptingu orsaka slysa á myndum 3 – 5 í vatnsveitu, fráveitu, meðhöndlun úrgangs og afmengun, opinberri stjórnsýslu og framleiðslu.

Mynd 3. Helstu orsakir slysa í vatnsveitu, fráveitu, meðhöndlun úrgangs og afmengun (ÍSAT bálkur E) árið 2024. Heimild: Vinnueftirlitið.

Mynd 4. Hér má sjá helstu orsakir vinnuslysa í opinberri stjórnsýslu (ÍSAT bálkur O) 2024. Heimild: Vinnueftirlitið.

Mynd 5. Helstu orsakir slysa í framleiðslu (ÍSAT bálkur C) 2024. Heimild: Vinnueftirlitið.
Kyn, aldur og ríkisfang þeirra sem lenda í tilkynningaskyldum vinnuslysum
Ef kynjaskipting er skoðuð sést að um tveir af hverjum þremur sem lenda í tilkynningarskyldu vinnuslysi eru karlar. Hlutfallið helst stöðugt milli ára. Í þessari skýrslu verður eingöngu fjallað um kynin konur og karlar en einungis eitt slys hefur verið tilkynnt til Vinnueftirlitsins þar sem viðkomandi var af öðru kyni. Ungir karlar lenda frekar í vinnuslysum líkt og fyrri ár, en konum er hættara við slysum þegar líður á starfsævina.

Mynd 6. Fjöldi vinnuslysa eftir aldri og kyni 2024. Heimild: Vinnueftirlitið.
Þegar þær atvinnugreinar sem eru með hæstu slysatíðnina eru skoðaðar eiga þær það sameiginlegt að karlar lenda í meirihluta slysanna fyrir utan opinbera stjórnsýslu. Þar voru konur tæplega 57 prósent þeirra sem lentu í tilkynntu vinnuslysi árið 2024 og karlar rúmlega 43 prósent. Ekki liggja fyrir upplýsingar hjá Hagstofunni um kynjaskiptingu í þeirri atvinnugrein. Til samanburðar lentu karlar í 91,5 prósent tilkynntra vinnuslysa í vatnsveitu, fráveitu, meðhöndlun úrgangs og afmengun og konur í 8,5 prósent en í þeirri atvinnugrein voru karlar í meirihluta starfandi á árinu 2024 samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar eða tæplega 83 prósent. Hið sama á við um mannvirkjagerðina en þar lentu karlar í 97,5 prósent tilkynntra vinnuslysa og konur í 2,5 prósent. Karlar eru jafnframt í meirihluta starfandi í þeirri atvinnugrein samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar eða rúmlega 92 prósent. Sama gildir um framleiðslu en þar voru karlar einnig í meirihluta þeirra sem lentu í tilkynntum vinnuslysum eða um 78 prósent. Karlar eru 68 prósent starfandi í greininni og konur 32 prósent.
Þegar litið er til afleiðinga slysa fyrir konur og karla virðist sem hlutfall kvenna sem beinbrotna í samanburði við hlutfall karla sé svipað og hlutfall kynjanna sem lenda í tilkynntum vinnuslysum. Að meðaltali voru konur 33 prósent þeirra sem beinbrotnuðu í tilkynntum vinnuslysum á tímabilinu 2021 – 2024 og 66 prósent voru karlar enda þótt að hlutfall kvenna sem beinbrotnuðu á árinu 2024 hafi hækkað lítillega (38 prósent).
Eins og sést í töflu 2 þá hefur starfsfólk beinbrotnað í að meðaltali um 16,9 prósent tilkynntra vinnuslysa á umræddu tímabili. Þegar horft er eingöngu til fjölda slysa án tillits til fjölda starfandi í atvinnugreinum eru slík slys flest í framleiðslu, opinberri stjórnsýslu og mannvirkjagerð á umræddu tímabili.
Tafla 2. Fjöldi vinnuslysa þar sem afleiðing er beinbrot.
Ár | Heildarfjöldi | Hlutfall af öllum slysum % | Þar af karlar | Þar af konur |
|---|---|---|---|---|
2021 | 283 | 15,1 | 185 | 98 |
2022 | 364 | 18,5 | 247 | 117 |
2023 | 383 | 17,2 | 267 | 116 |
2024 | 378 | 16,9 | 234 | 144 |
Heimild: Vinnueftirlitið.
Innflytjendum (fyrsta og önnur kynslóð) hefur fjölgað á innlendum vinnumarkaði samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands eins og sjá má á mynd 7. Þegar vinnuslys eru skráð hjá Vinnueftirlitinu er óskað upplýsinga um ríkisfang þess sem lendir í slysinu. Íslendingar eru enn í meirihluta þeirra sem lenda í vinnuslysum á innlendum vinnumarkaði (1.403 árið 2024) en starfsfólki með erlent ríkisfang (828 á árinu 2024) sem lendir í vinnuslysum hefur fjölgað á síðustu árum.
Mikilvægt er að skoða þá þróun í samræmi við þróun á þátttöku þeirra almennt á vinnumarkaði og í einstökum atvinnugreinum. Í þeim samanburði eru nýttar tölur frá vef Hagstofu Íslands og úr slysaskrá Vinnueftirlitsins. Sá fyrirvari er þó gerður að þar er ekki með öllu um sambærilegar tölur að ræða en þykja gefa vísbendingar um hlutfall annars vegar Íslendinga og hins vegar fólks með erlent ríkisfang sem lendir í tilkynntum vinnuslysum miðað við þátttöku þess á vinnumarkaði (fjölda starfandi með innlendan bakgrunn og innflytjenda).

Mynd 7. Hlutfall starfandi með íslenskan bakgrunn og innflytjenda á íslenskum vinnumarkaði á árunum 2018-2024. Heimild: Hagstofa Íslands.
Ef skipting slysa er skoðuð eftir ríkisfangi þá er hinn slasað í um 37 prósent tilkynntra vinnuslysa á árinu 2024 með erlent ríkisfang (sjá mynd 8).

Mynd 8. Hlutfall Íslendinga og fólks með erlent ríkisfang sem lenti í tilkynntu vinnuslysi á árunum 2018-2024. Heimild: Vinnueftirlitið.
Við nánari greiningu er hlutfall starfandi innflytjenda í tilteknum atvinnugreinum hærra en að meðaltali yfir vinnumarkaðinn og virðist fara hækkandi. Þetta á til dæmis við um þær atvinnugreinar þar sem slysatíðni er tiltölulega há eða í störfum er heyra undir byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð (ÍSAT bálkur F) (35,6 prósent starfenda eru innflytjendur árið 2024), vatnsveitu, fráveitu, meðhöndlun úrgangs og afmengun (ÍSAT bálkur E) (30,1 prósent starfenda árið 2024) og framleiðslu (ÍSAT bálkur C) (37,8 prósent starfenda eru innflytjendur árið 2024). Svo virðist því sem að innflytjendur starfi frekar í atvinnugreinum þar sem áhætta í vinnuumhverfinu er mikil. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hlutfall starfandi eftir bakgrunni í opinberri stjórnsýslu (ÍSAT bálkur O) á vef Hagstofunnar.

Mynd 9. Hlutfall starfandi eftir bakgrunni í vatnsveitu ofl (E), mannvirkjagerð (F), framleiðslu (C) og ferðaþjónustu (IF) á árunum 2018-2024. Heimild: Hagstofa Íslands.
Í framangreindum atvinnugreinum að opinberri stjórnsýslu undanskilinni fer hlutfall slasaðra með erlent ríkisfang vaxandi eins og sjá má af mynd 10. Á það við án tillits til hver þróun slysatíðni er innan atvinnugreinarinnar, það er hvort slysum fjölgi eða fækki. Í tveimur af þessum þremur atvinnugreinum slasast þó fleiri Íslendingar en þau sem hafa erlent ríkisfang eins og gildir almennt um vinnumarkaðinn.
Hins vegar þegar litið er til hlutfalls starfandi eftir bakgrunni samkvæmt tölum Hagstofu Íslands í umræddum atvinnugreinum slasast hlutfallslega fleiri í þessum greinum með erlent ríkisfang en nemur hlutfalli starfandi innflytjenda í greininni.
Sem dæmi má nefna að 35,6 prósent (6.910) starfandi í mannvirkjagerð voru innflytjendur samkvæmt tölum Hagstofunnar og 64,4 prósent (12.487) með íslenskan bakgrunn. Hins vegar voru 47,7 prósent þeirra sem lentu í tilkynntu vinnuslysi í mannvirkjageiranum með erlent ríkisfang og 52,3 prósent Íslendingar. Enn fremur voru 30 prósent (403) starfandi í vatnsveitu, fráveitu, meðhöndlun úrgangs og afmengun innflytjendur samkvæmt tölum Hagstofunnar og 70 prósent (933) með íslenskan bakgrunn. Þegar litið er til hlutfalls þeirra sem lentu í tilkynntum vinnuslysum voru 40,7 prósent með erlent ríkisfang og 59,3 prósent Íslendingar. Ef framleiðsla er skoðuð voru 62 prósent (14.314) starfandi með íslenskan bakgrunn og tæp 38 prósent (8.711) innflytjendur. 47,6 prósent þeirra sem lentu í tilkynntum vinnuslysum í framleiðslu voru Íslendingar og 52,4 prósent með erlent ríkisfang.
Einnig er svo komið í ferðaþjónustu að fleira starfsfólk með erlent ríkisfang lendir í tilkynntum vinnuslysum samanborið við Íslendinga. Hlutfall starfandi innflytjenda er tiltölulega hátt í ferðaþjónustu (IF “einkennandi greinar ferðaþjónustu” samkvæmt Hagstofu) miðað við aðrar atvinnugreinar eða 45% árið 2024, eins og sést á mynd 9 . Slysatíðni þar er lægri en í þeim þremur atvinnugreinum sem fjallað hefur verið um að framan eða 4,7 á árinu 2024. Sú atvinnugrein sker sig þó úr að því leyti að þar eru fleiri sem slasast í vinnuslysum sem eru með erlent ríkisfang (62 prósent) en Íslendingar (37 prósent). Eins og að framan getur er í framleiðslu hlutfall starfsfólks með erlent ríkisfang af slösuðum líka hærra en þar er hlutfallið nokkuð jafnt eða 52,4 % innflytjendur og 47,8 % Íslendingar.

Mynd 10. Hlutfall vinnuslysa eftir bakgrunni í vatnsveitu ofl. (E) mannvirkjagerð (F), framleiðslu (C) og ferðaþjónustu (IF) á árunum2018-2024. Heimild: Vinnueftirlitið.
Vinnueftirlitið hvetur því vinnustaði þar sem starfsfólk með erlent ríkisfang er að störfum til að huga vel að öryggi og vellíðan þess og bendir á mikilvægi þess að innleiða heilbrigða vinnustaðamenningu þar sem ríkir traust og virðing á milli starfsfólks með ólíkan bakgrunn. Við gerð skriflegrar áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustað þarf að taka sérstakt tillit til þeirrar áhættu sem í því felst að starfsfólk starfi saman með ólíkan bakgrunn og grípa til viðeigandi forvarna.
Í því getur falist að tryggja að öll á vinnustaðnum skilji hvað fram fer á vinnustaðnum og að öryggisreglur og aðrar upplýsingar séu skýrar og á því tungumáli sem starfsfólk skilur. Enn fremur er þýðingarmikið að það ríki sálfélagslegt öryggi á vinnustaðnum eða verkstað þannig að starfsfólk treysti sér til að láta vita þegar öryggisatriðum er ábótavant eða hvernig því líður. Síðast en ekki síst þarf að huga vel að nýliðaþjálfun þegar bakgrunnur starfsfólks er ólíkur þar sem það getur verið að vinna við aðstæður sem eru þeim framandi. Kynntu þér málið inn á vef Vinnueftirlitsins en þar er bæði að finna nýlegt efni um gerð skriflegrar áætlunar um öryggi og heilbrigði og hvernig stuðla megi að heilbrigðri vinnustaðamenningu.
Fallslys ein algengasta tegund vinnuslysa
Ein algengasta tegund vinnuslysa sem tilkynnt eru til Vinnueftirlitsins eru vegna falls á jafnsléttu eða um 25 prósent á árunum 2021-2024. Með falli á jafnsléttu er átt við slys þar sem fólk fellur til dæmis um hluti á gólfi eða rennur til í hálku eða bleytu. Þá voru um 10 prósent tilkynntra vinnuslysa vegna falls úr hæð á sama tímabili, en þau slys eru til dæmis vegna falls úr stiga, af verkpöllum og þegar stigið er niður úr vinnuvélum.
Vinnueftirlitið tók á árinu þátt í samnorrænni vitundarvakningu um algengi þessara slysa og forvarnir gegn þeim með sameiginlegum auglýsingum á samfélagsmiðlum og fræðsluefni á vef. Í fræðsluefninu er meðal annars fjallað um við hvaða aðstæður fall við vinnu getur orðið og helstu áhættur ásamt því til hvaða forvarna þarf að grípa til að koma í veg fyrir slík slys, en afleiðingar þeirra geta verið mjög alvarlegar. Á mynd 11 og 12 má sjá helstu áverka vegna falls á jafnsléttu og falls úr hæð á árunum 2021-2024. Fræðsluefnið má nálgast hér á vefnum.

Mynd 11. Áverkar vegna falls á jafnsléttu árin 2021-2024. Heimild: Vinnueftirlitið.

Mynd 12. Myndin sýnir áverka vegna falls úr hæð árin 2021-2024. Heimild: Vinnueftirlitið.
Banaslys
Því miður urðu fimm banaslys við vinnu árið 2024, þar af fjögur við mannvirkjagerð. Á síðastliðnum árum hefur meirihluti banaslysa hérlendis átt sér stað við mannvirkjagerð að árinu 2023 undanskildu. Eingöngu karlar hafa látist í vinnuslysum hér á landi á síðastliðnum fimm árum, þar af voru 11 Íslendingar og 4 með erlent ríkisfang.

Mynd 13. Banaslys við vinnu árin 2020-2024. Heimild: Vinnueftirlitið.
Janúar
Fyrsta úthlutun úr Vinnuverndarsjóði
Fyrsta úthlutun úr nýstofnuðum Vinnuverndarsjóði fór fram í upphafi árs og hlutu fjórar rannsóknir og eitt verkefni styrki. Vinnuverndarsjóður er samstarfsverkefni félags- og húsnæðismálaráðuneytisins og Vinnueftirlitsins. Fulltrúar stjórnvalda, samtaka launafólks og samtaka atvinnurekenda eiga sæti í stjórn sjóðsins sem annast úthlutanir úr honum. Markmið hans er að efla rannsóknir á sviði vinnuverndar og stuðla að bættri vinnuvernd á íslenskum vinnumarkaði.
Atvinnurekendur minntir á að tilkynna vinnuslys
Vinnueftirlitið minnti atvinnurekendur á það á samfélagsmiðlum að tilkynna vinnuslys en þeim ber að tilkynna rafrænt til stofnunarinnar öll slys sem leiða til þess að starfsfólk verði óvnnufært í einn eða fleiri daga, umfram þann dag sem slysið varð. Einnig ef starfsmaður lætur lífið. Vinnueftirlitið heldur skrá yfir tíðni og orsakir vinnuslysa svo efla megi forvarnarstarf á vinnustöðum og koma í veg fyrir að slys endurtaki sig. Því skiptir miklu máli að atvinnurekendur sinni tilkynningarskyldu sinni.
Mars
Rætt um öryggi vinnuvéla og að stjórnendur þeirra hafi vinnuvélaréttindi
Sviðsstjóri sviðs vinnuverndar og leiðtogi straums vinnuvéla og tækja hjá Vinnueftirlitinu ræddu í Vinnuvélablaði Morgunblaðsins, sem kom út 1. mars, um mikilvægi þess að tryggja öryggi vinnuvéla og tækja og að þeir sem stjórna vinnuvélum og tækjum hafi tilskilin réttindi. Viðtalið má nálgast á facebooksíðu Vinnueftirlitsins.
Stafrænt námskeið fyrir öryggistrúnaðarmenn og öryggisverði
Vinnueftirlitið hóf að bjóða upp á stafrænt námskeið fyrir öryggistrúnaðarmenn og öryggisverði. Námskeiðið fjallar um alla helstu þætti vinnuverndar og er einkum ætlað öryggistrúnaðarmönnum og öryggisvörðum. Það hentar þó líka þeim sem hafa áhuga á vinnuverndarmálum og vilja bæta hjá sér vinnuumhverfið. Námskeiðið er kennt á netinu í fræðslukerfi Vinnueftirlitsins og því hægt að stunda það hvar og hvenær sem er.
Apríl
Vefurinn fluttur á Island.is
Vinnueftirlitið flutti vef sinn vinnueftirlitid.is til island.is. Með því var stigið mikilvægt skref í átt að því markmiði stjórnvalda að stafræn samskipti, í gegnum island.is, verði megin samskiptaleið hins opinbera við almenning og fyrirtæki og að hægt sé að eiga þau samskipti á einum stað. Samhliða flutningnum fór starfsfólk Vinnueftirlitsins yfir allt efni á vefnum með það fyrir augum að hafa það mannlegt, hvetjandi, skýrt og fræðandi.
Vinnueftirlitið á Verk og vit
Vinnueftirlitið tók þátt í sýningunni Verk og vit dagana 18. - 21. apríl. Markmiðið með þátttökunni var að vekja athygli á mikilvægi vinnuverndar. Starfsfólk Vinnueftirlitsins stóð vaktina og bauð meðal annars upp á fræðslu um vinnuvélaréttindi, heilbrigða vinnustaðamenningu, góða líkamsbeitingu í mannvirkjagerð, öryggi við jarðvegsvinnu, gerð skriflegrar áætlunar um öryggi og heilbrigði og vinnuslys.
Aðgerðavakningin #Tökum höndum saman: Grípum til aðgerða gegn kynferðislegri áreitni endurvakin
Í tilefni af alþjóðlega vinnuverndardeginum 28. apríl endurvakti Vinnueftirlitið aðgerðavakninguna #Tökum höndum saman: Grípum til aðgerða gegn kynferðislegri áreitni sem fyrst fór í loftið í upphafi árs 2023. Tilgangur hennar er að hvetja vinnustaði til að huga að samskiptum á vinnustaðnum og bregðast við kynferðislegri áreitni komi hún upp í vinnuumhverfinu.
Júní
Vitundarvakningin Hugsum um: Höfuð, herðar, hné og tær í samstarfi við VIRK
Vinnueftirlitið og VIRK Starfsendurhæfingarsjóður ses tóku höndum saman og stóðu fyrir vitundarvakningu undir yfirskriftinni Hugsum um: Höfuð herðar hné og tær við vinnu. Hún er um mikilvægi þess að stuðla að heilbrigðri vinnustaðamenningu sem leggur grunn að öryggi og vellíðan starfsfólks. Áherslan er ekki hvað síst á mikilvægi þess að tekið sé vel á móti ungu fólki inn á vinnumarkaðinn.
Vefsíðan hhht.is er hryggjarstykki vitundarvakningarinnar. Á vefsíðunni má finna gagnlegar upplýsingar og góð ráð um það hvernig við byggjum upp traust, stuðlum að fjölbreytileika og inngildingu og eflum jákvæð samskipti í vinnunni.
Júlí
Breytingar á mínum síðum
Þjónusta Vinnueftirlitsins vegna eigendaskipta, umráðamannabreytinga, götuskráninga tækja í notkun, afskráninga og beiðna um skoðun á tækjum á mínum síðum Vinnueftirlitsins færðist yfir á mínar síður á Ísland.is.
Varúðarráðstafanir við heita vinnu
Vakin var athygli á veggspjaldi um heita vinnu á samfélagsmiðlum en Vinnueftirlitið gaf það út í samvinnu við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun árið 2023. Jafnframt var athygli vakin á fræðsluefni um undirbúning heitrar vinnu og brunavarnir. Minnt var sérstaklega á mikilvægi þess að gera varúðarráðstafanir við lagningu þakpappa í ljósi alvarlegra atvika sem nýlega höfðu komið upp við slíka vinnu.
September
Morgunfundur: Er allt á gulu á þínum vinnustað?
Vinnueftirlitið, VIRK, starfsendurhæfingarsjóður ses og embætti landlæknis buðu upp á morgunfund um heilsueflandi vinnustaði á Teams undir yfirskriftinni „Er allt á gulu á þínum vinnustað? Þar var meðal annars fjallað um geðrækt og sjálfsvígsforvarnir í tilefni af gulum september sem er samvinnuverkefni stofnana og félagasamtaka sem vinna saman að geðrækt og sjálfsvígsforvörnum. Tveir sérfræðingar Vinnueftirlitsins fluttu erindi. Annars vegar um Höfuð herðar hné og tær - vinnuvernd frá toppi til táar og hins vegar um vörður að vellíðan í vinnu. Hér má nálgast upptöku frá fundinum.
Samnorræn vitundarvakning um algengi fallslysa og forvarnir gegn þeim
Vinnueftirlitið í samvinnu við systurstofnanir í Danmörku, Noregi og Finnlandi vöktu í sameiningu athygli á algengi fallslysa og mikilvægi forvarna gegn þeim með auglýsingu á samfélagsmiðlum og fræðsluefni á vef. Um 25 prósent af tilkynntum vinnuslysum á Íslandi eru vegna falls á jafnsléttu en það er ein algengasta tegund vinnuslysa sem tilkynnt eru. Jafnframt eru 10 prósent tilkynntra vinnuslysa vegna falls úr hæð. Fræðsluefnið fall við vinnu má nálgast hér.
Þátttaka á ráðstefnu um vinnumansal í Hörpu
Sérfræðingur Vinnueftirlitsins á sviði vinnuverndar flutti erindi á málstofunni: Eftirlit á vinnumarkaði - framkvæmd og reynsla í nútíð og framtíð í tengslum við ráðstefnu ASÍ og SA um vinnumansal sem haldin var í Hörpu. Sviðsstjóri sviðs vinnuverndar tók jafnframt þátt í pallborði um það hvernig koma skal í veg fyrir vinnumansal.
Sjö stafræn skref af níu
Vinnueftirlitið hlaut viðurkenningu fyrir að hafa lokið sjö stafrænum skrefum af níu á ráðstefnunni Tengjum ríkið sem haldin var á vegum Stafræns íslands. Stafrænu skrefin eru hvatningarverðlaun til opinberra aðila sem nýta opin og sameiginleg tól sem þróuð hafa verið af Stafrænu Íslandi. Enn fremur voru sviðsstjórar sviðs fólks, upplýsinga og þróunar og sviðs reksturs og greiningar með erindi þar sem farið var yfir stafræna vegferð stofnunarinnar.
Þátttaka í ráðstefnu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar
Alþjóðavinnumálastofnunin hélt alþjóðlega ráðstefnu undir yfirskriftinni „Vinnum saman að félagslegu jafnrétti með vinnueftirliti“ dagana 24. – 26. september. Noregur tók að sér að hýsa ráðstefnuna fyrir hönd Norðurlandanna í Þrándheimi en mikil áhersla er á þríhliða samstarf stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins sem norræna vinnumarkaðsmódelið byggist á. Forstjóri Vinnueftirlitsins sat ráðstefnuna og tók þátt í panelumræðum með forstjórum vinnueftirlitanna frá Danmörku og Svíþjóð.
Vitundarvakningin Hugsum um: Höfuð, herðar, hné og tær endurvakin
Vinnueftirlitið og VIRK Starfsendurhæfingarsjóður ses tóku höndum saman á ný og stóðu fyrir vitundarvakningu undir yfirskriftinni Hugsum um: Höfuð herðar hné og tær við vinnu. Hún er um mikilvægi þess að stuðla að heilbrigðri vinnustaðamenningu sem leggur grunn að öryggi og vellíðan starfsfólks. Áherslan er ekki hvað síst á mikilvægi þess að tekið sé vel á móti ungu fólki inn á vinnumarkaðinn. Á vefsíðunni hhht.is er að finna fræðsluefni tengt vitundarvakningarinnar.
Október
Heilbrigð vinnustaðamenning lykillinn að árangri vinnustaða
Forstjóri Vinnueftirlitsins, ræddi um mikilvægi heilbrigðar vinnustaðamenningar í Mannauði sem kom út með Morgunblaðinu 3. október. Þar sagðist hún meðal annars telja hana lykilinn að árangri vinnustaða. Viðtalið má finna á facebooksíðu Vinnueftirlitsins.
Alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn 2024 tileinkaður geðheilbrigði á vinnustað
Í tilefni af Alþjóðlega geðheilbrigðisdeginum 10. október sem var árið 2024 tileinkaður geðheilbrigði á vinnustað hvatti Vinnueftirlitið vinnustaði til að leggja metnað í að byggja upp heilbrigða vinnustaðamenningu sem leggur grunn að öryggi og vellíðan starfsfólks. Þá voru vinnustaðir hvattir til að kynna sér fræðsluefni stofnunarinnar um sálfélagslegt vinnuumhverfi og myndbönd um vinnustaðamenningu og traust á vinnustöðum.
Bronsdekkið fyrir góðan árangur í orkuskiptum
Vinnueftirlitið tók á móti viðurkenningu frá Orkustofnun en 34 prósent bílaflotans eru svokallaðir hreinorkubílar. Vinnueftirlitið hefur lagt áherslu á að hraða orkuskiptum og mun halda þeirri mikilvægu vegferð áfram. Markmiðið er að bifreiðarnar séu vistvænar og gangi fyrir innlendum orkugjöfum.
Námskeið fyrir öryggistrúnaðarmenn og verði á ensku
Vinnueftirlitið hóf að bjóða upp á starfrænt námskeið fyrir öryggistrúnaðarmenn og öryggisverði á ensku en það var gert aðgengilegt á íslensku í mars. Námskeiðið fjallar um alla helstu þætti vinnuverndar og er einkum ætlað öryggistrúnaðarmönnum og öryggisvörðum, en líka þeim sem hafa áhuga á vinnuverndarmálum og vilja bæta hjá sér vinnuumhverfið.
Viðurkenning Jafnvægisvogarinnar þriðja árið í röð
Vinnueftirlitið hlaut viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar þriðja árið í röð en hún er veitt fyrirtækjum, sveitarfélögum og opinberum aðilum sem hafa náð að jafna hlutfall kynja í efsta lagi stjórnunar í að minnsta kosti 40/60.
Fyrstu þjónustukannanir sendar út
Vinnueftirlitið hóf að senda út þjónustukannanir í kjölfar vettvangsathugana, vinnuvélaskoðana og námskeiða til að fylgjast með upplifun þeirra sem njóta þjónustu þess. Markmiðið er að veita áreiðanlega og góða þjónustu. Niðurstöðurnar eru mikið ánægjuefni en stofnunin hlaut 4,5 af 5 mögulegum í heildar ánægju með þjónustu 2024.
Þátttaka í málþingi Háskóla Íslands um skólamenningu
Menntavísindasvið og Félagsvísindasvið Háskóla Íslands stóðu fyrir málþingi um sýn stjórnenda og starfsfólks leik- og grunnskóla á áherslur sem skapa góða skólamenningu. Anna Magnea Hreinsdóttir, lektor við deild kennslu- og menntunarfræði, og Sigrún Gunnarsdóttir, prófessor í Viðskiptafræðideild kynntu niðurstöðu nýrrar rannsóknar sem varpa ljósi á reynslu í skólum þar sem vel gengur. Forstjóri Vinnueftirlitsins tók saman í lokin helstu atriðin sem rætt var um á málþinginu og lagði áherslu á mikilvægi þess að innleiða heilbrigða vinnustaðamenningu í skólum landsins.
Fjölsótt ráðstefna um tæknilausnir í tilefni af Evrópsku vinnuverndarvikunni
Vinnueftirlitið hélt fimmtudaginn 31. október ráðstefnuna: Hvernig má nýta tæknilausnir til að auka öryggi og vellíðan í starfi - lærum af reynslu hvers annars. Ráðstefnan var haldin í tilefni af Evrópsku vinnuverndarvikunni en yfirskrift hennar var: Örugg og heilbrigð vinna á tímum tækninnar (e. Safe and healthy work in the digital age). Á ráðstefninni sögðu hinir ýmsu vinnustaðir frá vegferð sinni við að nýta tæknilausnir í störfum sínum og hvaða áhrif það hefur haft á starfsfólk út frá öryggi, vellíðan og menningu á vinnustaðnum. Hátt í þrjú hundruð manns ýmist sóttu eða hlýddu á ráðstefnuna sem var haldin á Grand hóteli og í streymi.
Í tengslum við Evrópsku vinnuverndarvikuna var einnig minnt á nýlegt fræðsluefni Vinnueftirlitsins á samfélagsmiðlum. Má þar nefna um fall við vinnu, vinnutímaskráningu, heilbrigða vinnustaðamenningu og hugsum um höfuð herðar hné og tær við vinnu. Eins voru atvinnurekendur minntir á tilkynna vinnuslys.
Nóvember
Vöruvaktin sett á fót
Vefurinn Vöruvaktin var settur á laggirnar en að honum standa níu stofnanir sem sinna eftirliti með vörum sem eru seldar á íslenskum markaði, þar á meðal Vinnueftirlitið. Vefnum er ætlað að auðvelda neytendum að varast gallaðar og hættulegar vörur.
Þátttaka í opinni málstofu um verðmæti lífeyrisréttinda
Mannauður, félags mannauðsfólks á Íslandi, hélt opna málsstofu um verðmæti lífeyrisréttinda þar sem Vinnueftirlitinu var boðið að taka þátt og deila reynslu sinni af því að bjóða upp á sveigjanleg starfslok í samræmi við stefnu stjórnvalda. Sviðsstjóri sviðs fólks, upplýsinga og þróunar tók þátt í málstofunni fyrir hönd stofnunarinnar.
Desember
Minnt á leyfilegan vinnutíma barna og unglinga
Atvinnurekendur sem hafa ungmenni í vinnu voru hvattir til að gæta sérstaklega vel að þjálfun þeirra og vinnuskipulagi, en mörg börn og ungmenni vinna í skólafríum í kringum jól og áramót. Minnt var á veggspjald um vinnu barna og unglinga þar sem er meðal annars að finna töflu yfir leyfilegan vinnutíma ungmenna eftir aldri og umfjöllun um aðrar reglur sem gilda um vinnu barna og unglinga.
Fyrirmyndarskjalavarsla og skjalastjórn
Niðurstöður eftirlitskönnunar Þjóðskjalasafns Íslands, sem kynntar voru í desember, leiddu í ljós að Vinnueftirlitið er á meðal 14 afhendingarskyldra aðila ríkisins með fyrirmyndarskjalavörslu og skjalastjórn.
Vinnueftirlitið fær heimild til að leggja á stjórnvaldssektir
Vinnueftirlitið kynnti ný lög sem tóku gildi 1. janúar 2025 en með þeim er Vinnueftirlitinu heimilt að leggja stjórnvaldssektir á atvinnurekanda, verkkaupa eða fulltrúa hans þegar ítrekað er brotið gegn vinnuverndarlögunum. Í ákveðnum tilvikum þarf ekki að vera um að ræða ítrekuð brot heldur nægir eitt skipti. Atvinnurekendur voru eindregið hvattir til að kynna sér málið og verja fjármunum sínum frekar í öryggi og vellíðan starfsfólks en stjórnvaldssektir.
Vinnuverndarráð í mannvirkjagerð lauk störfum
Vinnuverndarráð í mannvirkjagerð, sem í sátu aðilar frá Samtökum atvinnulífsins, Alþýðusambandi Íslands og Vinnueftirlitinu, var skipað haustið 2020 til fjögurra ára og lauk því störfum í desember. Vinnuverndarráðið lagði meðal annars til að stofnaður yrði öryggisskóli fyrir starfsfólk í mannvirkjagerð. Haustið 2024 ákváðu fulltrúar launafólks og atvinnurekenda í gegnum samstarfsvettvanga fræðslumála, Iðuna fræðsluseturs og Rafmenntar, að koma á slíkum öryggisskóla og er stefnt að opnun hans árið 2025. Slysum í mannvirkjagerð hefur fjölgað hlutfallslega umfram starfandi í greininni síðustu tvö ár og þar verða jafnframt alvarlegustu slysin. Meginmarkmið skólans verður að stuðla að aukinni öryggismenningu í mannvirkjagerð og þar með fækkun slysa. Vinnueftirlitið þakkar ráðinu fyrir vel unnin störf.
Útgáfudagur: 26. júní 2025.
