Samnorræn vitundarvakning um algengi fallslysa og forvarnir gegn þeim
26. september 2024
Fallslys eru algeng vinnuslys á öllum Norðurlöndunum og er þá bæði átt við fall á jafnsléttu og fall úr hæð. Slysin geta haft alvarlegar afleiðingar í för með sér og má tiltölulega auðveldlega koma í veg fyrir mörg þeirra með viðeigandi ráðstöfunum.
Vinnueftirlitið í samvinnu við systurstofnanir í Danmörku, Noregi og Finnlandi vekja nú í sameiningu athygli á algengi þessara slysa og mikilvægi forvarna gegn þeim með auglýsingu á samfélagsmiðlum, en hún er í birtingum samtímis í öllum löndunum.
Um 25 prósent af tilkynntum vinnuslysum á Íslandi eru vegna falls á jafnsléttu og er það ein algengasta tegund vinnuslysa sem tilkynnt er til Vinnueftirlitsins. Jafnframt eru 10 prósent tilkynntra vinnuslysa vegna falls úr hæð, en þau slys eru til dæmis vegna falls úr stiga, af verkpöllum og þegar stigið er niður úr vinnuvélum.
Helstu áverkar sem starfsfólk verður fyrir vegna falls við vinnu eru á fótum þar með talið á læri, hné, ökkla og kálfa, en einnig eru algengir áverkar á öxl, axlarliðum, hrygg og hryggjarliðum. Draga þarf úr líkum á því að fólk falli við vinnu með því að meta áhættu á því og grípa til viðeigandi öryggisráðstafana.
Samhliða hefur Vinnueftirlitið gefið út nýtt fræðsluefni um fall við vinnu þar sem farið er yfir helstu tegundir fallslysa, hvaða aðstæður geta valdið falli og helstu áhættuþætti við vinnu í hæð. Þar er sömuleiðis fjallað um til hvaða forvarna er hægt að grípa til að koma í veg fyrir fall við vinnu.