Þátttaka starfsfólks lykillinn að árangri
5. nóvember 2024
Vinnueftirlitið hélt fimmtudaginn 31. október ráðstefnuna: Hvernig má nýta tæknilausnir til að auka öryggi og vellíðan í starfi - lærum af reynslu hvers annars. Þar sögðu hinir ýmsu vinnustaðir frá vegferð sinni við að nýta tæknilausnir í störfum sínum og hvaða áhrif það hefur haft á starfsfólk út frá öryggi, vellíðan og menningu á vinnustaðnum.
Hátt í þrjú hundruð manns ýmist sóttu eða hlýddu á ráðstefnuna sem var haldin á Grand hóteli og í streymi.
Erindin komu úr ólíkum áttum eða frá Sýslumannaráði, Myllunni-Ora, Krónunni, Skattinum, Norðuráli, Húsheild/Hyrnu og Landspítalanum. Í þeim öllum var sagt frá jákvæðri reynslu við að nýta tæknina ýmist til að auka öryggi og vellíðan starfsfólks eða bæta þjónustu. Í öllum erindum var jafnframt minnst á áskoranir við að fá bæði starfsfólk og viðskiptavini með sér í lið. Rauði þráðurinn í gegnum öll erindin var sá að lykillinn að árangri er að virkja starfsfólkið, efla frumkvæði og að vera reiðubúin til að taka hluti til endurskoðunar.
"Verum óhrædd við að tileinka okkur nýjungar sem eru til þess fallnar að bæta þjónustuna, einfalda okkur störfin og tryggja öryggi okkar enn frekar á vinnustaðnum," sagði Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, forstjóri Vinnueftirlitsins í opnunarávarpi sínu, en benti samhliða á mikilvægi þess að hlúa að starfsfólki á tímum breytinga og stuðla þannig að öryggi þess og vellíðan. "Starfsfólk þarf að fá bæði tækifæri til að hafa áhrif á vegferð breytinganna og að viðra upplifun sína eða tilfinningar. Þá er mikilvægt að öll á vinnustaðnum séu reiðubúin til að taka þátt og bera ábyrgð."
Áhugavert var að heyra samhljóminn í orðum þeirra ólíku aðila sem fluttu erindi á ráðstefnunni um að þátttaka starfsfólks í að þróa og innleiða tæknilausnirnar sé lykillinn að árangri.