Fara beint í efnið
Vinnueftirlitið Forsíða
Vinnueftirlitið Forsíða

Vinnueftirlitið

Vöruvaktin til hagbóta fyrir neytendur

29. nóvember 2024

Vöruvaktin er nýr vefur sem opnaði fyrir skemmstu en honum er ætlað að auðvelda neytendum að varast gallaðar og hættulegar vörur.

Grafa

Vörur sem getur verið um að ræða eru til dæmis vélar, raftæki, fatnaður, snyrtivörur, leikföng og öryggisbúnaður barna. Að Vöruvaktinni standa níu stofnanir sem sinna eftirliti með vörum sem eru seldar á íslenskum markaði. Þær eru Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, ÁTVR, Geislavarnir ríkisins, Neytendastofa, Fjarskiptastofa, Samgöngustofa, Umhverfisstofnun, Lyfjastofnun og Vinnueftirlitið.

Hver stofnun er með sérþekkingu á sínu sviði. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) ber ábyrgð á samræmingu alls markaðseftirlits í landinu í samvinnu við hinar stofnanirnar. Á grundvelli þessarar samvinnu hafa umræddar stofnanir sameinast um einn vettvang til að miðla til neytenda upplýsingum um öryggi og gera þeim betur kleift að sneiða hjá hættulegum vörum. Eins getur almenningur í gegnum Vöruvaktina komið á framfæri eigin ábendingum um hættulegar eða ólöglegar vörur.