Vinnueftirlitið hlaut bronsdekkið fyrir góðan árangur í orkuskiptum bílaflotans
9. október 2024
Vinnueftirlitið tók á dögunum á móti viðurkenningu frá Orkustofnun vegna góðs gengis í orkuskiptum bílaflotans en 34 prósent bíla stofnunarinnar eru nú svokallaðir hreinorkubílar.
Viðurkenningin er á formi veggspjalds sem er um leið skafmiði og skafa stofnanir nýtt dekk þegar ákveðnum áfanga í orkuskiptum er náð. Vinnueftirlitið hefur nú hlotið bronsdekkið og stefnir að næsta áfanga sem er að hljóta silfurdekkið, en það er veitt þegar 60 prósent markinu er náð.
Aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum felur í sér að ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki klári orkuskipti í flokki fólks- og sendibíla fyrir árið 2030. „Við höfum lagt áherslu á að hraða orkuskiptum á bílum okkar og er markmið okkar að þeir séu vistvænir og gangi fyrir innlendum orkugjöfum. Við erum því afar þakklát fyrir viðurkenninguna og munum halda þessari mikilvægu vegferð okkar áfram,“ segir Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, forstjóri Vinnueftirlitsins.