Vinnueftirlitið hlýtur viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar þriðja árið í röð
14. október 2024
Vinnueftirlitið hlaut á dögunum viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar 2024 og er það þriðja árið í röð sem stofnunin hlýtur þann heiður. Viðurkenningin er veitt fyrirtækjum, sveitarfélögum og opinberum aðilum sem hafa náð að jafna hlutfall kynja í efsta lagi stjórnunar í að minnsta kosti 40/60.
Að þessu sinni hlutu 93 fyrirtæki, fimmtán sveitarfélög og tuttugu og tveir opinberir aðilar viðurkenningu úr hópi 247 þátttakenda sem hafa undirritað viljayfirlýsingu.
„Það má með sanni segja að við erum afar stolt af þessari viðurkenningu því við sem störfum hjá Vinnueftirlitinu vitum að jafnrétti kynjanna er ein forsenda þess að við náum árangri í okkar daglega starfi um leið og jafnrétti er mikilvægur hluti heilbrigðar vinnustaðamenningar,” segir Hanna Sigríður Gunnsteinsdóttir, forstjóri Vinnueftirlitsins.
Jafnvægisvoginni var komið á fót árið 2017. Eitt af meginmarkmiðum hennar er að árið 2027 verði hlutfallið á milli kynja 40/60 í framkvæmdastjórnum fyrirtækja á Íslandi. Vinnueftirlitið vill því hvetja aðra vinnustaði til að stuðla að jafnrétti kynjanna því jafnrétti er ákvörðun.