Fara beint í efnið
Vinnueftirlitið Forsíða
Vinnueftirlitið Forsíða

Vinnueftirlitið

Fimm styrkir veittir úr nýstofnuðum Vinnuverndarsjóði

16. febrúar 2024

Fyrsta úthlutun úr nýstofnuðum Vinnuverndarsjóði hefur farið fram og hlutu fjórar rannsóknir og eitt verkefni styrki. Til stendur að auglýsa aftur eftir umsóknum um styrki í sjóðinn á þessu ári.

Styrkþegar

Vinnuverndarsjóður, sem var settur á fót á síðastliðnu ári, er samstarfsverkefni félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins og Vinnueftirlitsins. Markmið hans er að efla rannsóknir á sviði vinnuverndar og stuðla að bættri vinnuvernd á íslenskum vinnumarkaði. Sjóðnum er ætlað að styrkja rannsóknir og verkefni sem miða að því.

Félags- og vinnumarkaðsráðherra skipaði sjóðnum stjórn með fulltrúa stjórnvalda, fulltrúa samtaka launafólks og fulltrúa samtaka atvinnurekenda.Auglýst var eftir umsóknum um styrki í sjóðinn á vef Vinnueftirlitsins.

Frestur til að skila inn umsóknum var til 12. desember síðastliðinn. Alls bárust sextán umsóknir og hlutu fimm þeirra styrk.

Sjóðurinn hafði tíu milljónir króna til úthlutunar og var hámarksstyrkur á verkefni/rannsókn fjórar milljónir króna. Til stendur að auglýsa aftur eftir umsóknum um styrki í sjóðinn síðar á þessu ári og verður sama styrkupphæð til úthlutunar.

Eftirtalin hlutu styrki:

  • Titill rannsóknar:

    Frá vinnuklefa til sófans: Áhrif vinnuaðstæðna á líðan starfsfólks.

Umsækjendur: Dr. Thamar Heijstra og dr. Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessorar í félagsfræði við Háskóla Íslands.
Styrkupphæð: 3.000.000 krStutt lýsing: Spurningalisti verður lagður fyrir starfsfólk sem vinnur í fjarvinnu og niðurstöður hans bornar saman við samanburðarhóp sem ekki vinnur í fjarvinnu.

  • Titill rannsóknar:

    Áhrif sjálfvirknivæðingar og fjarvinnu á starfstengda kulnun, starfstengd viðhorf, upplifun og hegðun í formi áforma um starfslok, auk tengsla við fjarvistir og starfsmannaveltu.

Umsækjendur: Arney Einarsdóttir, prófessor við Háskólann á Bifröst og doktor í mannauðsstjórnun, og Katrín Ólafsdóttir, dósent í Háskólanum í Reykjavík og doktor í vinnumarkaðshagfræði.
Styrkupphæð: 2.990.000 kr.Stutt lýsing: Markmiðið er að rannsaka tengsl bæði sjálfvirknivæðingar og fjarvinnu við kulnun og önnur lykilviðhorf og upplifun starfsfólks á vinnustöðum, eins og starfsánægju, upplifun á sanngirni, trausti og jafnrétti.

  • Titill rannsóknar:

    Áhrif starfsumhverfis hjúkrunarfræðinga á kulnun í starfi.

Umsækjandi og verkefnisstjóri: Ásdís Aðalbjörg Arnalds, doktor í félagsráðgjöf og forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands.
Styrkupphæð: 2.000.000 kr.Stutt lýsing: Eigindleg rannsókn á orsökum kulnunar meðal hjúkrunarfræðinga á Landspítala. Markmiðið er að öðlast skilning á því hvernig kerfisbundnir þættir í starfi hjúkrunarfræðinga geta gert þá útsetta fyrir kulnun. Rannsóknarniðurstöður verða nýttar til að móta tillögur að úrbótum á starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga í samráði við starfsfólk Landspítala.

  • Titill rannsóknar:

    Heilsueflandi vinnuumhverfi og góð vinnustaðamenning í skólum

Umsækjendur: Dr. Sigrún Gunnarsdóttir, prófessor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og Dr. Anna Magnea Hreinsdóttir, aðjunkt við Deild kennslu- og menntunarfræða í Háskóla Íslands
Styrkupphæð: 1.000.000 kr.Stutt lýsing: Rannsókn sem miðar að því að auka þekkingu á heilsueflandi vinnuumhverfi og góðri vinnustaðamenningu í grunn- og leikskólum, sem getur haft góð áhrif á vellíðan kennara og dregið úr fjarveru þeirra og brottfalli úr starfi. Rannsóknin byggir á viðtölum við stjórnendur og kennara í skóla þar sem vel gengur.

  • Titill verkefnis:

    Vinnuvernd og vinnuréttur – fræðsla fyrir nemendur með erlendan tungumála- og menningarbakgrunn.

Umsækjandi: Tækniskólinn, skóli atvinnulífsins. Verkefnisstjóri er Þröstur Þór Ólafsson, öryggisstjóri Tækniskólans.
Styrkupphæð: 1.000.000 kr.Stutt lýsing: Gerð fræðsluefnis um vinnuverndarmál á íslenskum vinnumarkaði fyrir nemendur með erlendan tungumála- og menningarbakgrunn.


Vinnueftirlitð óskar styrkþegum innilega til hamingju og vonar að niðurstöður þeirra komi til með að auka þekkingu á sviði vinnuverndar svo stuðla megi enn frekar að bættri vellíðan og öryggi starfsfólks á innlendum vinnustöðum.

Vinnueftirlitið

Hafðu samband

Sími: 550 4600

Netfang: vinnueftirlit@ver.is

Afgreiðslu­tími þjón­ustu­vers

Mánudaga til fimmtudaga: 9 til 15

Föstudaga: 9 til 14

Kennitala

420181-0439