Atvinnurekendur eru eindregið hvattir til að verja fjármunum sínum frekar í öryggi og vellíðan starfsfólks en stjórnvaldssektir.
Með nýjum lögum sem taka gildi 1. janúar næstkomandi verður Vinnueftirlitinu heimilt að leggja stjórnvaldssektir á atvinnurekanda, verkkaupa eða fulltrúa hans þegar ítrekað er brotið gegn vinnuverndarlögunum. Með ítrekuðum brotum er átt við að Vinnueftirlitið hafi áður gefið fyrirmæli um úrbætur vegna sama brots.
Vakin er athygli á að þessi heimild er ekki bundin við ákveðnar starfsgreinar og getur því átt við hvaða atvinnurekanda sem er.
Í ákveðnum tilvikum þarf ekki að vera um að ræða ítrekuð brot heldur nægir eitt skipti.
Þetta á til dæmis við þegar:
Börn yngri en 13 ára ráðin til vinnu eða ungmenni ráðin til að vinna við hættulegar aðstæður.
Verkkaupi eða fulltrúi hans tilkynnir ekki um vinnustað áður en verklegar framkvæmdir hefjast.
Brotið er gegn banni við notkun á asbesti á vinnustöðum.
Eftirfarandi eru dæmi um brot á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum sem geta valdið sektum hafi Vinnueftirlitið áður gefið fyrirmæli um sömu brot. Athugið að listinn er ekki tæmandi.
Fallvarnarbúnaður er ekki til staðar eða ekki notaður. Til dæmis fallvarnarbelti eða línur.
Vinnupallar eða röraverkpallar uppfylla ekki kröfur um öryggi. Til dæmis ef vantar handrið, op eru í gólfum palla eða pallar eru of langt frá byggingu.
Persónuhlífar ekki til staðar eða ekki notaðar. Til dæmis hjálmar, öryggisskór og öryggisgleraugu.
Bann við vinnu ekki virt.
Öryggisbúnaður véla og tækja er ófullnægjandi. Til dæmis ef það vantar hlífar sem hindra að starfsfólk komist að hreyfanlegum hluta tækis eða ef neyðarstopp er ekki til staðar eða ekki virkt.
Brotið er alvarlega og með stórfelldum hætti gegn hvíldartíma starfsfólks. Til dæmis þegar starfsfólk vinnur við vélar og tæki þar sem skortur á hvíld getur leitt til alvarlegra afleiðinga fyrir starfsfólk og almannahagsmuni.
Atvinnurekandi tilkynnir ekki um vinnuslys eða veitir rangar eða villandi upplýsingar um vinnuslys sem leiðir til langvinns eða varanlegs heilsutjóns starfsmanns eða þess að hann lætur lífið.
Ungmenni undir 18 ára aldri ráðin til starfa í verslunum, á skyndibitastöðum og bensínstöðvum án þess að fullorðinn einstaklingur starfi með þeim.
Ungmenni undir 18 ára aldri, ráðin til starfa þar sem unnið er með hættuleg efni. Til dæmis eldfima vökva, sjálfhvarfgjörn efni og efnablöndur. Störf eins og meðhöndlun efna í efnalaugum eða dæling á bensíni og olíu á bensínstöðvum.
Börn sem eru í skyldunámi ráðin til starfa þar sem mikil slysahætta er til staðar. Til dæmis við mannvirkjagerð. Börnum sem náð hafa 15 ára aldri er þó heimilt að hefja starfsnám sem er nauðsynlegur hluti af iðn- eða starfsnámi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
Börn undir 15 ára aldri ráðin til vinnu við aðstæður þar sem vinnan er líklega ofvaxin líkamlegu eða andlegu atgervi þeirra eða þar sem vinnan getur valdið varanlegu heilsutjóni. Sama á við þar sem fyrir hendi er slysahætta eða sem felur í sér hættu vegna óvenjumikils kulda, hita, hávaða eða titrings. Störf sem hér gæti átt við er störf í mannvirkjagerð, fiskvinnslu og iðnaði.
Eins og sjá má í dæmunum hér að ofan er gjarnan um ræða öryggisatriði sem auðvelt að uppfylla og eru mikilvæg til að tryggja öryggi og vellíðan starfsfólks.
Vinnueftirlitið hefur í sumum tilfellum gefið vinnustöðum ítrekað sömu fyrirmæli um sjálfsögð öryggisatriði.
Til dæmis:
Gefin eru fyrirmæli um að starfsfólk noti hjálma og fallvarnarbúnað við vinnu. Þegar Vinnueftirlitið kemur aftur á staðinn er búnaðurinn hvergi sjáanlegur en sóttur út í bíl þar sem hann gerir lítið gagn.
Eftir áramótin getur slík yfirsjón leitt til kostnaðar fyrir vinnustaði vegna stjórnvaldssekta.
#Tökum höndum saman: virðum þær öryggisreglur sem gilda í vinnuumhverfinu og látum slysin ekki koma í bakið á okkur.
Hvernig er stuðlað að því að öll á vinnustað taki þátt?
Vinnueftirlitið hvetur vinnustaði til að innleiða menningu þar sem áhersla er lögð á vellíðan og öryggi starfsfólks. Heilbrigð vinnustaðamenning leggur grunn að vellíðan og öryggi á vinnustað.
Það þýðir að:
Atvinnurekendur og stjórnendur þurfa í samvinnu við starfsfólk að setja gildi og viðmið fyrir vinnustaðinn sem lúta að öryggi og vellíðan starfsfólks.
Öll á vinnustaðnum þurfa að fylgja þeim reglum og viðmiðum sem vinnustaðurinn hefur sett sér.
Stjórnendur þurfa að gefa tóninn og ganga á undan með góðu fordæmi.
Þegar gildum og viðmiðum er breytt þá breytist hegðun starfsfólks á vinnustaðnum smám saman og þá menningin um leið. Ávinningurinn verður aukið öryggi og vellíðan starfsfólks
Öll á vinnustaðnum hafa áhrif á vinnustaðamenninguna og bera því ábyrgð hvernig til tekst.
Það skiptir líka máli að starfsfólk viti að það geti látið stjórnendur vita þegar hlutirnir eru ekki í lagi.
Ekki mikla hlutina fyrir þér. Byrjaðu strax í dag!
Dæmi um viðmið á byggingavinnusvæðum:
Ávallt skulu notaðir hjálmar á verkstað.
Fallvarnarbúnaður er til staðar og í notkun þar sem við á.
Gengið er frá verkfærum eftir notkun svo enginn falli um þau.
Dæmi um viðmið varðandi vinnu við vélar:
Á þessum vinnustað er ekki kveikt á vélum ef öryggibúnaður er óvirkur.
Öryggishlífar véla eiga að vera á sínum stað.
Dæmi um viðmið varðandi samskipti á vinnustað:
Á þessum vinnustað hjálpumst við að og látum vita þegar hlutirnir eru ekki í lagi.
Dæmi um viðmið varðandi vinnu barna og unglinga:
Á þessum vinnustað hugum við sértstaklega vel að þjálfun og vinnuskipulagi barna og unglinga ef þau eru við störf.
Til að vinnuverndarstarf skili árangri þarf að huga að því daglega sem þýðir að fara þarf yfir þá áhættu sem er fyrir hendi þann daginn og bregðast við henni. Á það ekki síst við á vinnustöðum sem breytast dag frá degi eftir því sem verkinu vindur fram. Einnig þar sem veður getur haft áhrif á aðstæður.
Með því að huga að vinnuvernd daglega getur þú komið í veg fyrir slys, óhöpp og vanlíðan starfsfólks á vinnustaðnum þínum. Ef viðmiðin eru á hreinu ætti þetta ekki að taka langan tíma og gott að hafa í huga að ánægt og öruggt starfsfólk er líklegra til að ná árangri í starfi.
Vinnueftirlitið hefur eftirlit með að vinnustaðir tryggi öryggi, heilsu og vellíðan starfsfólks. Þegar hlutirnir eru ekki í lagi fær atvinnurekandinn fyrirmæli um úrbætur.
#Tökum höndum saman: metum áhættuna í vinnuumhverfinu og bregðumst við hættunum.
Láttu það ekki henda vinnustaðinn þinn að fá stjórnvaldssekt – þetta er í þínum höndum!
Stjórnvaldssektir eru sektir sem Vinnueftirlitið getur lagt beint á atvinnurekendur þegar þeir gerast brotlegir við lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerðum settum á grundvelli þeirra.
Tilgangurinn er að hvetja atvinnurekendur til að fylgja þeim reglum er gilda um öryggi og vellíðan starfsfólks á vinnustöðum.
Stjórnvaldssektir eru lagðar á án atbeina dómsstóla. Ef atvinnurekanda finnst sektin ósanngjörn má kæra ákvörðun Vinnueftirlitsins til félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins innan þriggja mánaða frá því að hún var birt atvinnurekanda.