Heit vinna er vinna með skurðarverkfæri, eins og slípirokk, logsuðu, rafsuðu, heitt loft, gasloga og fleira. Neistar eða eldur getur myndast við slíka vinnu og valdið sprengi- og brunahættu.
Heit vinna felur í sér mikla áhættu fyrir starfsfólk. Því þarf samkvæmt lögum alltaf að gera áhættumat áður en slík vinna er hafin.
Fara þarf vandlega yfir allar aðgerðir til þess að minnka hættu á bruna áður en heit vinna hefst.
Undirbúningur og vinna
Brennanlegt efni skal helst fjarlægja, annars hylja eða bleyta áður en skurðvinna eða vinna með opinn eld hefst. Þetta á líka við um:
brennanlegt efni sem fellur til vegna vinnunnar eins og til dæmis umbúðir og timburbretti vegna þakvinnu
gaskúta sem ekki eru í notkun
Við skurðarvinnu geta glóandi málmkúlur (gjall) skotist langar leiðir. Því ætti alltaf að hugsa fyrir því hvar gjallið gæti lent og gera viðeigandi ráðstafanir áður en skurðarvinnan hefst.
Við suðu- og skurðarvinnu getur vinnufatnaðurinn sjálfur brunnið. Því þarf starfsfólk að vera í vinnufatnaði sem þolir gjallið sem getur myndast við skurðinn eða suðuna. Þetta á við um vettlinga, skóbúnað og galla.
Gæta þarf þess við suðu- og skurðarvinnu að gjall geti ekki lent ofan í vasa, uppábroti fatnaðar, ofan í skóm eða inni í vettlingum.
Minnst tvö slökkvitæki sem henta verkinu skulu vera til taks.
Slökkvitæki skulu í mesta lagi vera í 10 metra fjarlægð frá vinnusvæðinu.
Ákveðinn starfsmaður þarf að hafa það hlutverk að fylgjast með brunahættu meðan á verkinu stendur. Hann þarf að vera upplýstur um hvað felst í því hlutverki.
Skurðar- og suðuvinna felur í sér loftmengun. Við slíka vinnu þarf ávallt að tryggja loftræstingu.
Ekki er æskilegt að logskera eða sjóða galvaníserað stál.
Fastir suðustaðir ættu að vera útbúnir með staðbundnu afsogi.
Við tilfallandi suðuvinnu ætti að nota færanlegan afsogsbúnað.
Við skurðar- eða suðuvinnu í lokuðum rýmum ætti ávallt að blása fersku lofti inn ásamt því að vera með afsog við skurðar- eða suðustað.
Huga þarf að loftræstingu og nota grímu þegar unnið er með slípirokk.
Íkveikju- og sprengihætta stafar af gasi og súrefni. Þegar unnið er með gas við suðuvinnu þarf að fara varlega og nota allan viðeigandi öryggisbúnað.
Við gaskúta eiga að vera bakslagslokar sem hindra að logað geti upp í gashylkið. Í handfangi á að vera einstefnuloki við gas og súrefnisslöngu.
Að lokinni notkun skal ávallt skrúfa fyrir súrefnis- og gaskúta.
Slöngur þarf að yfirfara reglulega og endurnýja eftir þörfum. Gas og súrefnisslöngur geta lekið og í lokuðu rými felur það í sér mikla eld og sprengihættu.
Olíu og feiti má alls ekki nota á búnað sem tengist súrefni. Súrefnið getur hvarfast við olíuna og valdið eld- og/eða sprengihættu.
Aðeins skal nota viðurkenndan búnað fyrir gas og súrefni.
Gashylki á verkstað
Á meðan ekki er verið að nota gaskúta eiga þeir að vera í geymslu á öruggum stað. Verkstaður er ekki geymslustaður fyrir gas sem á að nota síðar.
Gashylki í notkun skulu ávallt varin gegn veltu eða falli.
Ef gashylki eru á vagni skulu þau tryggilega fest við hann.
Vinna við að sjóða eða skera í lokuð rými eins og við tanka, kúta eða katla, felur í sér sérstaka sprengi- og brunahættu.
Áður en vinna hefst við að skera eða sjóða í lokuðu rými skal ganga úr skugga um að ekki séu eldfimar leifar af til dæmis eldsneyti eða öðrum sambærilegum efnum á staðnum. Í tökum þar sem eldsneyti eða önnur eldfim efni hafa verið geymd þarf að gasmæla áður en vinna hefst til að staðfesta að sprengifimt andrúmsloft sé ekki til staðar.
Ekki er æskilegt að rafsjóða á röku eða blautu yfirborði. Rafleiðni getur myndast milli suðumanns og rafsuðutækja.
Mikilvægt er að vera í þurrum hönskum þegar skipt er um suðuvír.
Gæta þarf þess að suðutöng sé einangruð.
Fjarlægja skal suðustubb úr suðutöng áður en hún er lögð til hliðar.
Algeng slys við slípirokk verða þegar skurðar-/slípiskífa fer í hendi eða líkamspart þess sem er að vinna með hann. Algengast er að það gerist þegar hlíf er tekin af slípirokk og þegar hendur eru notaðar til að styðja við stykki sem verið er að skera eða slípa, í stað verkfæra.
Við skurð eða slípun myndast oft gjall sem felur í sér bruna- og sprengihættu.
Brennanlegt efni í námunda við verkstað skal fjarlægja, hylja eða bleyta. Hafa skal slökkvitæki í námunda við verkstað.
Huga þarf að loftræstingu.
Nota skal fatnað og persónuhlífar sem þolir gjall frá slípi- og skurðarvinnu og mælt er með að nota grímu/andlitshlíf því agnir vilja komast undir gleraugu. Gleraugu verja ekki andlit.
Báðar hendur skulu alltaf vera á slípirokk við vinnu. Ef þörf er á að festa stykki sem verið er að slípa/skera skal nota skrúfstykki, þvingur eða önnur hentug verkfæri.
Óheimilt er að fjarlægja hlíf af slípirokk.
Á flestum slípirokkum er handfang til þess að halda við rokkinn. Það er óráðlegt að fjarlægja handfangið af rokknum og nota hann þannig.
Slípirokkur er ekki hentugt verkfæri til þess að vinna við þröngar aðstæður.
Þegar skipt er um skífu í slípirokk þarf að gæta þess að hann fari ekki óvart í gang. Því þarf ávallt að taka hann úr sambandi á meðan.
Huga þarf að nærumhverfi og öðru starfsfólki. Skerma sig af eða breyta vinnutilhögun þannig að annað starfsfólk sé ekki í hættu.
Brunavakt í 60 mínútur er mikilvæg eftir að skurðarvinnu eða vinnu með opinn eld lýkur.
Ganga skal úr skugga um að allt efni sem verið var að bræða, sjóða eða skera sé orðið kalt áður en vettvangur er yfirgefinn.
Þau sem standa vaktina skulu hafa tiltækt slökkvitæki.
Vinnueftirlitið hefur í samstarfi við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun gefið út veggspjöld með varúðarráðstöfunum við heita vinnu (pdf.).
Veggspjöldin eru í stærð A3. Þau er bæði til lóðrétt og lárétt og fáanleg á íslensku, ensku og pólsku.
Á íslensku
Er öryggið í lagi? Lóðrétt (A3)
Er öryggið í lagi? Lárétt (A3)
Á ensku
Er öryggið í lagi - Is safety secured? Portrait (A3)
Er öryggið í lagi - Is safety secured? Landscape (A3)
Á pólsku
Þjónustuaðili
Vinnueftirlitið