Efni og efnahættur
Áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað er ætlað að stuðla að öryggi, heilsu og vellíðan starfsfólks. Atvinnurekendum ber að sjá til þess að áætlunin sé til staðar á öllum vinnustöðum, óháð stærð. Vinnueftirlitið kallar eftir henni í vettvangsathugunum og stafrænu eftirliti. Áætlunin felur í sér skriflegt áhættumat og skriflega áætlun um heilsuvernd og forvarnir.
Við gerð áhættumats þarf að greina áhættuþætti í vinnuumhverfinu sem hugsanlega geta ógnað öryggi, heilsu og vellíðan starfsfólks og ber að horfa heildstætt á alla þætti starfseminnar og vinnuumhverfisins. Þá er gott að styðjast við fimm meginþætti vinnuverndar, og sértæka þætti ef við á. Það fer eftir eðli starfseminnar hve fyrirferðamikill hver áhættuþáttur er í áhættumatinu.
Þegar áhættumat liggur fyrir er gerð áætlun um heilsuvernd og forvarnir sem fjallar um þær ráðstafanir sem þarf að grípa til svo koma megi í veg fyrir hætturnar eða draga úr þeim eins og frekast er kostur.
Hér er fjallað um efni og efnahættur sem er einn af fimm meginþáttum vinnuverndar.
Hættuleg efni
Hættuleg efni eru skilgreind út frá eðli sínu og þeirri hættu sem þau valda eða geta valdið. Til að teljast hættuleg þurfa þau að uppfylla skilyrði í reglugerð um flokkun, merkingu og umbúðir efna og efnablandna (CLP reglugerð).
Hér er fjallað um flokka og merkingu hættulegra efna, öryggisblöð sem eiga að fylgja hættumerktum efnum og umgengni við hættuleg efni.
Heit vinna
Heit vinna er vinna með með skurðarverkfæri, eins og slípirokk, logsuðu, rafsuðu, heitt loft, gasloga og fleira. Neistar eða eldur getur myndast við slíka vinnu og felur hún í sér mikla hættu fyrir starfsfólk.
Hér er meðal annars fjallað um undirbúning heitrar vinnu, persónuhlífar, brunavarnir, loftræstingu, íkveikju- og sprengihættu af gasi og súrefni, vinnu við lokuð ílát og lokuð rými, vinnu með rafmagn, vinnu við slípirokk og fleira.
Eins er hér að finna veggspjöld með varúðarráðstöfunum við heita vinnu..
Stórslysavarnir
Stórslys er stjórnlaus atburðarás í meðferð efna svo sem leki, eldsvoði eða sprenging sem hefur í för með sér alvarlega hættu fyrir heilsu manna og/eða umhverfið.
Fyrirtæki sem nota mikið magn hættulegra efna þurfa að gera áætlun um stórslysavarnir. Hér er meðal annars fjallað um gerð slíkrar áætlunar og framkvæmd grenndarkynningar. Eins er hér að finna lista yfir starfsstöðvar sem falla undir reglugerð um stórslysavarnir.
Vinna með asbest
Asbest er hættulegt heilsu og er notkun þess bönnuð á Evrópska efnahagssvæðinu. Eingöngu þau sem hafa réttindi og þekkingu til að vinna með asbest mega vinna við byggingar, vélar og báta sem innihalda asbest.
Vinnueftirlitið heldur reglulega réttindanámskeið fyrir þau sem vinna við niðurrif á asbesti og afgreiðir umsóknir um heimild til að vinna með asbest.
Hér er fjallað um heilsufarsáhættu af asbesti, mengunarmörk, hvar asbest er að finna, hvernig þekkja má asbest, hvernig öðlast má réttindi til að fjarlægja asbest og um niðurrif og förgun.
Þjónustuaðili
Vinnueftirlitið