Stórslys er stjórnlaus atburðarás í meðferð efna svo sem leki, eldsvoði eða sprenging sem hefur í för með sér alvarlega hættu fyrir heilsu manna og/eða umhverfið. Þá er bæði átt við innan og utan starfsstöðvar þar sem efnin eru geymd eða notuð.
Magn hættulegra efna
Fyrirtæki sem nota mikið magn hættulegra efna þurfa að gera áætlun um stórslysavarnir og hafa öryggisstjórnkerfi þar sem fylgst er stöðugt og kerfisbundið með hættum og hættulegum efnum á starfsstöðinni. Starfsstöðvar eru flokkaðar í lægri eða hærri mörk eftir eðli og magni efna. Dæmi um starfsstöð sem geymir fljótandi própan gas:
Ef magnið er yfir 50 tonn en minna en 200 tonn flokkast starfsstöðin í lægri mörk.
Ef magnið fer yfir 200 tonn flokkast hún í hærri mörk.
Lægri mörk geta verið allt niður í 200 kg ef efnin eru þess eðlis.
Meiri kröfur eru um eftirlit og upplýsingagjöf fyrirtækja og starfsstöðva í hærri mörkum. Þau þurfa einnig að gera neyðaráætlun fyrir svæðið og halda grenndarkynningar.
Eldfim efni geta valdið eldsvoðum sem breiðast út fyrir starfsstöðvar.
Sprengifim efni geta eyðilagt stór svæði og valdið manntjóni.
Eiturefni sem komast úr geymslustað sínum geta valdið fólki tjóni og umhverfisskaða löngu eftir lekann.
Noti fyrirtæki mikið magn hættulegra efna þarf að gera áætlun um stórslysavarnir.
Áætlun um stórslysavarnir skal vera skrifleg og kröfurnar sem gerðar eru í henni vera í samræmi við umfang stórslysahættunnar sem starfsstöðinni fylgir. Í henni skulu koma fram meðal annars:
almenn markmið og meginreglur rekstraraðila í sambandi við aðgerðir gegn stórslysahættum
hlutverk og ábyrgð stjórnenda
skuldbindingar um stöðugar endurbætur á vörnum gegn stórslysahættu
hvernig tryggja megi mikla vernd fyrir heilbrigði manna og umhverfis
Eftirfarandi upplýsingar þurfa að vera aðgengilegar almenningi, þar á meðal rafrænt:
Viðbragðsáætlun innan starfsstöðvar
með það að markmiði að:
halda óhöppum í skefjum og hafa stjórn á þeim til þess að lágmarka áhrif þeirra og draga úr þeim skaða sem þau valda heilbrigði manna, umhverfi og eignum
innleiða nauðsynlegar ráðstafanir til þess að vernda heilbrigði manna og umhverfi fyrir áhrifum stórslysa
koma nauðsynlegum upplýsingum til almennings og þeirra þjónustuaðila eða stjórnvalda sem málið varðar á svæðinu
Viðbragsáætlun utan starfsstöðvar
í því skyni að:
tryggja öryggi starfsmanna, almennings og umhverfis þegar stórslys af völdum hættulegra efna ber að höndum
efla samvinnu um björgunaraðargerðir á sviði almannavarna ef til meiri háttar neyðarástands kemur
Fyrirtæki í hærri mörkum
þurfa auk þess að:
Skila inn öryggisskýrslu.
Veita þeim hluta almennings sem málið varðar aðgengilegar og skýrar upplýsingar um öryggisráðstafanir og hvernig eigi að bera sig að verði stórslys af völdum hættulegra efna.
Afhenda almenningi, sé þess krafist, öryggisskýrslu og skrá yfir hættuleg efni (með undantekningum).
Í þeim tilvikum sem ekki er unnt að afhenda öryggisskýrslu í heild skal afhenda samantekt sem ekki er á tæknimáli, þar sem fram koma almennar upplýsingar um stórslysahættu og möguleg áhrif á heilbrigði manna og umhverfi komi til stórslyss.
Vinnueftirlitið getur veitt nánari upplýsingar um starfstöðvar, svo sem innsendar öryggisskýrslur, skrá yfir hættuleg efni og neyðaráætlanir. Sumar upplýsingar kunna að vera bundnar trúnaði vegna almannahagsmuna.
Rekstraraðilar stórslysavarnaskyldra starfsstöðva í hærra mörkum þurfa að tryggja að einstaklingar og lögaðilar sem stórslys getur bitnað á, fái óumbeðið upplýsingar um:
öryggisráðstafanir
hvernig bregðast skuli við ef slys verður
Starfsstöðvarnar sjá sjálfar um grenndarkynningu og upplýsingadreifingu. Meðal upplýsinga sem fram þurfa að koma eru:
Hætta og áhrif slyss. Hvaða stórslysahættur geta skapast, hver er versta sviðsmyndin og hver eru hugsanleg áhrif á fólk og umhverfi?
Viðvaranir um slys. Hvernig verður farið að því að vara íbúa og fyrirtæki við slysi og leyfa þeim að fylgjast með gangi mála?
Viðbrögð nágranna. Hvað eiga íbúar í nágrenni eða starfsmenn nágrannafyrirtækja að gera og hvernig eiga þeir að hegða sér ef slys verður?