Hættuleg efni eru skilgreind út frá eðli sínu og þeirri hættu sem þau valda eða geta valdið. Til að teljast hættuleg þurfa þau að uppfylla skilyrði í reglugerð um flokkun, merkingu og umbúðir efna og efnablandna (CLP reglugerð). Í henni er ítarlega farið yfir hvaða eiginleikar efna valda því að þau teljast til dæmis ætandi. Hættuleg efni eiga að vera merkt sérstaklega.
Geislavirk efni falla ekki undir fyrrnefnda reglugerð. Sérstök lög, sem eru á forræði Geislavarna ríkisins, fjalla um notkun og merkingar geislavirkra efna.
Krabbameinsvaldandi efni eru efni sem geta valdið krabbameini í mönnum og/eða dýrum. Oftast er um langtímaáhrif að ræða og oft líða ár eða áratugir þar til afleiðingarnar koma fram.
Nanóefni er ört vaxandi flokkur efna. Um er að ræða efni, annað hvort hættumerkt eða ekki, sem eru unnin þannig að þau eru í formi lítilla agna, 1-100 nanómetrar. Efnin eru til dæmis notuð við yfirborðsmeðhöndlun flata meðal annars til að auðvelda sótthreinsun.
Ýmsar rannsóknir benda til að efni geti verið skaðlegri á nanó-formi en hefðbundnu.
Sprengiefni eru töluvert notuð við mannvirkjagerð. Til að mega kaupa og nota sprengiefni þarf sérstakt leyfi lögreglu sem menn öðlast að þessum skilyrðum fulllnægðum:
hafa staðist verklegt próf viðurkennds sprengidómara á vegum Vinnueftirlitsins.
Varnarefni eru efni sem eru notuð til útrýmingar á meindýrum eða til að vinna gegn plöntusjúkdómum. Þessi efni eru ekki alltaf flokkuð sem eiturefni, það er að segja með GHS 06 merki.
Til að mega kaupa og nota varnarefni við vinnu þarf leyfi frá Umhverfisstofnun.
Merking hættulegra efna
Umbúðir hættulegra efna eiga samkvæmt reglugerð að vera merktar með hættumerkjum sem gefa til kynna hvaða hættur stafa af efnunum. Þetta eru svokölluð GHS merki, en nánar er fjallað um þau í bæklingnum Hættuleg efni á vinnustað.
Hættumerktum efnum eiga að fylgja öryggisblöð (Safety Data Sheets (SDS)). Öryggisblöð eru upplýsingablöð í sextán liðum þar sem fjallað er um hættur, forvarnir, persónuhlífar og fleira, sem á við um viðkomandi efni.
Birgjar efna eiga að afhenda öryggisblöð með efnum á íslensku eða ensku, kaupendum að kostnaðarlausu.
Atvinnurekendur bera ábyrgð á að kynna starfsfólki efni blaðanna.
Efni geta verið sprengifim, eldfim, eldnærandi, geislavirk, eitruð, ertandi, ætandi og umhverfisspillandi. Þau geta verið lofttegundir undir þrýstingi, eða haft áhrif sem koma fram seinna. Þá geta mismunandi hættur fylgt sama efni og getur sama efni verið eldfimt, ætandi og heilsuskaðlegt.
Á vinnustöðum þar sem hættuleg efni eru notuð þarf að gera sérstakt áhættumat vegna hættulegra efna. Áhættumatið á að vera byggt á upplýsingum úr öryggisblöðum, sem fylgja þeim efnum sem notuð eru. Áhættumatið er hluti af skriflegri áætlun fyrirtækisins um öryggi og heilbrigði.
Til stuðnings má nota rafrænt verkfæri til að greina efnahættur, til að finna og draga úr hættum sem tengjast hættulegum efnum og efnavörum á vinnustað.
Persónuhlífar eru allur búnaður, sem er hannaður til að klæðast eða halda á og allur viðbótar- eða aukabúnaður sem starfsfólk notar sér til verndar gegn því sem stefnt getur öryggi og heilsu þess í hættu.
Dæmi um Persónuhlífar geta verið:
hanskar
hlífðarfatnaður
öndunargrímur
Persónuhlífar þarf alltaf að nota við notkun hættulegra efna ef ekki er hægt að fjarlægja hættu til dæmis með notkun á hættuminni efnum eða tryggja loftræstingu. Á öryggisblöðum sem fylgja hættulegum efnum, á að koma fram í lið átta, hvernig persónuhlífar skal nota með viðkomandi efni.
Efni geta borist inn í líkamann eftir mismunandi leiðum eins og um:
öndunarfæri
húð
meltingarveg
Á vinnustöðum er hættan að öllu jöfnu mest við innöndun, svo við húðsnertingu en sjaldnast í gegnum meltingarveg.
Skaðlaus efni geta verið hættuleg þegar þau eru í öðru ástandi en vanalega, sem dæmi:
Mjög heitt vatn getur til dæmis valdið alvarlegum bruna í húð og hveitiryk getur valdið sprengingu við ákveðnar aðstæður.
Tvö eða fleiri skaðlaus eða skaðlítil efni geta hvarfast saman ef þau komast í snertingu við hvert annað og myndað hættulegri efni.
Sama efni getur verið í mismunandi ástandi svo sem lofttegund, vökvi eða fast. Ástand efnisins getur skapað sjálfstæðar hættur.
Vinnsluaðferðir og verklagsreglur þarf stöðugt að endurskoða, með tilliti til þess hvort hægt sé að ná sama árangri með hættulausum eða hættuminni efnum.
Geymslustaður og geymsluílát hættulegra efna þarf að vera vel merktur með hættumerkjum og/eða viðvörunarskiltum.
Geyma á hættumerkt efni í lokuðu íláti, vel merkt og í upprunalegum umbúðum ef mögulegt er, á öruggan hátt í læstri geymslu.
Efnalisti þarf að vera til staðar og uppfærður reglulega, þannig að hann gefi rétta mynd af þeim efnum sem eru í geymslunni á hverjum tíma.
Farga þarf efnum sem ekki eru í notkun á viðeigandi hátt. Upplýsingar um förgun er að finna í lið 13 á öryggisblaði.
Efni sem daga uppi í geymslum geta skapað sérstaka hættu. Umbúðir geta gefið sig með tímanum og efni lekið úr þeim og skapað hættu. Því er mikilvægt að yfirfara geymslur reglulega og farga efnum sem ekki eru í notkun á öruggan hátt.
Mengunarmörk á vinnustöðum eru hámarksstyrkur efna sem má vera í innilofti á vinnustöðum bæði miðað við átta tíma vinnudag og fimmtán mínútna toppa (þakgildi).