Fara beint í efnið

Áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað er ætlað að stuðla að öryggi, heilsu og vellíðan starfsfólks. Atvinnurekendum ber að sjá til þess að áætlunin sé til staðar á öllum vinnustöðum, óháð stærð. Vinnueftirlitið kallar eftir henni í vettvangsathugunum og stafrænu eftirliti. Áætlunin felur í sér skriflegt áhættumat og skriflega áætlun um heilsuvernd og forvarnir.

  • Við gerð áhættumats þarf að greina áhættuþætti í vinnuumhverfinu sem hugsanlega geta ógnað öryggi, heilsu og vellíðan starfsfólks og ber að horfa heildstætt á alla þætti starfseminnar og vinnuumhverfisins. Þá er gott að styðjast við fimm meginþætti vinnuverndar, og sértæka þætti ef við á. Það fer eftir eðli starfseminnar hve fyrirferðamikill hver áhættuþáttur er í áhættumatinu.

  • Þegar áhættumat liggur fyrir er gerð áætlun um heilsuvernd og forvarnir sem fjallar um þær ráðstafanir sem þarf að grípa til svo koma megi í veg fyrir hætturnar eða draga úr þeim eins og frekast er kostur.

Hér er fjallað um sálfélagslegt vinnuumhverfi sem er einn af fimm meginþáttum vinnuverndar.

Almennt um sálfélagslegt vinnuumhverfi

Atvinnurekendur þurfa að tryggja öryggi, heilsu og vellíðan starfsfólks með því að greina áhættuþætti í vinnuumhverfinu sem tengjast skipulagi, stjórnun og samskiptum. Margir þættir falla undir sálfélagslegt vinnuumhverfi og er skipulag vinnustaðarins ákveðinn hornsteinn þess en ekki síður það vinnulag sem myndast vegna samstarfs og samskipta sem samstarfsfólk þarf að eiga vegna starfa sinna.  

Mikilvægt er að stuðla að heilbrigðri vinnustaðamenningu en þar er átt við þau gildi, venjur og viðhorf sem ríkja í vinnuumhverfinu og starfsfólk tileinkar sér í samskiptum, samvinnu og við lausn mála. Vinnustaðamenning leggur grunn að öryggi og vellíðan starfsfólks og þess vegna er svo mikilvægt að meta þá þætti í vinnuumhverfinu sem hafa áhrif á menninguna og þar með á líðan starfsfólks.   

Stjórnun og skipulag starfa

Ávallt ætti að reyna að fyrirbyggja og draga úr misskilningi, árekstrum og neikvæðum samskiptum innan vinnustaða. Ein leið til þess er að hafa skipurit og starfslýsingar skýrar svo starfsfólk viti til hvers er ætlast af því og til að fyrirbyggja vandamál.

Hér er meðal annars fjallað um vinnutíma, fræðslu og nýliðaþjálfun, skipulag verkefna, fjölbreytni, sjálfræði, sveigjanleika og einveru.

Nánar um skipulag starfa

Samskipti

Öll á vinnustað bera ábyrgð á heilbrigðum samskiptum. Stjórnendur sýna gott fordæmi, eru til staðar fyrir samstarfsfólk þegar á þarf að halda og veita því stuðning. Starfsfólk ber ábyrgð á eigin hegðun og því að koma vel fram við aðra.

Hér er fjallað um vinnustaðamenningu, traust, stuðning, breytingar, upplýsingagjöf, boðleiðir, samsetningu starfsmannahóps og ágreining.

Nánar um samskipti

EKKO - einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi

Stjórnendur og starfsfólk bera ábyrgð á því að stuðla að heilbrigðri vinnustaðamenningu þar sem einelti, áreitni og ofbeldi fær ekki að viðgangast.

Aðgerðir gegn einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustað þurfa að vera hluti af skriflegri áætlun um heilsuvernd og forvarnir hvers vinnustaðar. Vinnustaðir þurfa að setja skýra stefnu um að slík hegðun sé ekki liðin og hafa áætlun um til hvaða aðgerða skuli gripið ef einelti, áreitni eða ofbeldi kemur upp.

Nánar um EKKO

Þjónustuaðili

Vinnu­eft­ir­litið