Fara beint í efnið

Sálfélagslegt vinnuumhverfi

EKKO - einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni og ofbeldi

Einelti, áreitni og ofbeldi í vinnuumhverfinu geta leitt til mikils óöryggis og vanlíðunar starfsfólks.  Slík hegðun má ekki viðgangast á vinnustöðum og því er mikilvægt að atvinnurekendur og stjórnendur  stuðli að öflugum forvörnum og bregðist skjótt við í samræmi við reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi

Hér að neðan er að finna upplýsingar sem aðstoða stjórnendur og starfsfólk við að stuðla að heilbrigðu vinnuumhverfi þar sem einelti, áreitni og ofbeldi fær ekki að viðgangast. 

Skilgreiningar og dæmi:

Áhættuþættir og afleiðingar

Það eru margs konar áhættuþættir sem þarf að meta í vinnuumhverfi svo koma megi í veg fyrir að einelti, áreitni eða ofbeldi komi upp á vinnustað. Slík hegðun getur þróast við mismunandi aðstæður. Dæmi um slíka áhættuþætti eru breytingar á vinnustað, þar á meðal innleiðing nýrra ferla eða breyting á störfum, samskipti milli samstarfsfólks og tímaþröng við lausn verkefna.  

Stundum byrja mál sem ágreiningur um fagleg málefni, verkefni eða leiðir og er þá yfirleitt tímabundinn og getur verið jákvæður og skapandi. Ef ágreiningur fær að viðgangast er hætta á að hann leiði til erfiðleika í samskiptum sem annar aðilinn getur upplifað sem einelti, áreitni eða ofbeldi. 

Einelti, áreitni og ofbeldi getur haft alvarlega afleiðingar og valdið heilsutjóni hjá þolendum og þeim sem verða vitni að slíkri hegðun. Hún getur líka haft neikvæð áhrif á starfsánægju, árangur og orðspor vinnustaða. 

Einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustað hefur í för með sér samfélagslegan kostnað, meðal annars vegna veikinda, langtíma veikindafjarveru frá vinnu, sjúkrakostnaðar og í alvarlegri tilvikum getur það leitt til örorku. 

Hlutverk og ábyrgð stjórnenda

Ein af lykilskyldum atvinnurekenda er að tryggja öryggi, heilsu og vellíðan starfsfólks með forvörnum og skjótum viðbrögðum. 

Hluti af því er að stuðla að heilbrigðum samskiptum og fyrirbyggja að einelti, áreitni og ofbeldi eigi sér stað. Stjórnendur eru í lykilstöðu til að skapa vinnuumhverfi sem leyfir ekki slíka hegðun og grípa fljótt inn í þegar mál koma upp samkvæmt áætlun um öryggi og heilbrigði. Mikilvægt er að atvinnurekandi kynni sér vel efni reglugerðar um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.   

Flæðirit um ferli EKKO mála

Tilgangur flæðiritsins er að styðja við stjórnendur þegar upp koma mál tengd einelti, áreitni og ofbeldi – frá því að tilkynning berst og þar til máli telst lokið. 

Aðgerðir í ferlinu eru í samræmi við kröfur sem gerðar eru við úrlausn slíkra mála í reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi. Því er aðeins um ákveðnar grunnaðgerðir að ræða.

Ferlinu fylgir gátlisti sem gott er að hafa til hliðsjónar til að tryggja góða málsmeðferð.

Flæðirit fyrir feril eineltis, áreitnis og ofbeldismála

Fleiri verkfæri:

Hlutverk og ábyrgð starfsfólks

Starfsfólk gegnir mikilvægu hlutverki við að stuðla að öruggu og heilbrigðu vinnuumhverfi. 

  • Starfsfólk ber ábyrgð á eigin hegðun. 

  • Starfsfólk má undir engum kringumstæðum leggja í einelti, áreita kynferðislega, mismuna á grundvelli kyns eða beita ofbeldi. 

  • Starfsfólk þarf að láta vita ef það verður vitni að eða telur sig sjálft hafa orðið fyrir einelti, áreitni eða ofbeldi á vinnustaðnum. 

  • Starfsfólk þarf að kynna sér áætlun um öryggi og heilbrigði og vita hvar hægt er að nálgast hana á vinnustaðnum 

Efni fyrir starfsfólk er einnig aðgengilegt á pdf. formi

Sjónvarpsauglýsing

Hér að neðan má sjá auglýsingu sem er ætlað að vekja athygli stjórnenda og starfsfólks á kynferðislegri áreitni á vinnustöðum og benda á þau verkfæri sem aðgengileg eru til að fyrirbyggja og bregðast við slíkri hegðun.

Rannsóknir og tengt efni:

Þjónustuaðili

Vinnu­eft­ir­litið