Fara beint í efnið

Í stuttu máli

Áhættumat er hluti af áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað.

Tilgangur matsins er að koma auga á áhættuþætti í vinnuumhverfinu og meta hugsanleg áhrif þeirra á öryggi og vellíðan starfsfólks. 

Fyrir alla starfsemi

Áhættumat þarf að gera fyrir alla atvinnustarfsemi. Það á við hvort sem um er að ræða staðbundna eða færanlega starfsemi, verktaka eða starfsfólk starfsmannaleiga. Það á líka að gera óháð starfsmannafjölda sem getur verið frá einum og upp úr.

Gerð áhættumats

Fyrst þarf að greina og meta áhættuþætti í vinnuumhverfinu með því að fara kerfisbundið yfir vinnustaðinn og öll störf innan hans í leit að atriðum sem geta valdið slysum, óhöppum, meiðslum, álagi, vanlíðan eða öðru sem getur ógnað öryggi, heilsu og vellíðan starfsfólks, til lengri eða skemmri tíma. Mikilvægt er að matið nái til allrar starfsemi vinnustaðarins og alls vinnuumhverfisins og þá er gott að styðjast við  fimm meginþætti vinnuverndar, og sértæka þætti ef við á.

Ýmsar aðferðir eru færar við gerð áhættumats. Við greiningu á áhættuþáttum má jafnframt styðjast við ýmiss hjálpargögn. Má þar nefna vinnuumhverfisvísa, gátlista og gagnvirk áhættumatstæki

Síðan þarf að taka saman hverjir áhættuþættirnir eru á vinnustaðnum í skriflegt áhættumat.

Nánar um gerð áhættumats.

Niðurstaða og næstu skref

Þegar áhættumatið liggur fyrir þarf atvinnurekandi að kynna matið fyrir starfsfólki og gera þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru samkvæmt því. Þær koma fram í skriflegri áætlun um heilsuvernd og forvarnir.

Nánar um niðurstöður og næstu skref.

Þjónustuaðili

Vinnu­eft­ir­litið