Markmið áhættumats er greina áhættuþætti í vinnuumhverfinu svo unnt sé að bregðast við þeim til að koma í veg fyrir slys, óhöpp, meiðsl, álag, vanlíðan eða annað það sem getur ógnað öryggi, heilsu og vellíðan starfsfólks.
Við matið er mikilvægt að greina áhættuþættina með því að fara kerfisbundið yfir hvort eitthvað í vinnuumhverfinu, vinnuskipulaginu eða við framkvæmd vinnunnar geti hugsanlega ógnað öryggi, heilsu og vellíðan starfsfólks.
Tilgangurinn er að tryggja að starfsfólk starfi við eins litla áhættu og hægt er.
Góð regla er að sé hægt að koma alveg í veg fyrir áhættuna, svo sem með því að gera tæknilegar úrbætur eða tryggja notkun hlífa eða annarra öryggisráðstafana á vélar, ætti það ávallt að vera fyrsti kosturinn. Eins er mikilvægt að huga að þjálfun og leiðsögn til starfsfólks varðandi öryggisreglur.
Mælt er að með að hafa samráð við starfsfólkið því það þekkir vel störf sín og getur komið með góðar hugmyndir til að draga úr áhrifum hættunnar. Jafnframt er mikilvægt að virkja það starfsfólk sem hefur verið falið hlutverk í vinnuverndarstarfi vinnustaðarins, svo sem öryggisverði, öryggistrúnaðarmenn og öryggisnefndir.
Aðferðin sem valin er við áhættumatið þarf að hæfa bæði störfum vinnustaðarins og stærð hans. Enn fremur þarf atvinnurekandi að sjá til þess að þeir sem annast matið hafi til þess nægilega þekkingu. Skilgreina þarf hvernig best sé að fara reglulega yfir alla þætti þannig að tryggt sé að gripið sé til nauðsynlegra úrbóta á öllum sviðum. Eins þarf að innleiða aðferðir til að meta árangur.
Undirbúningur
Mælt er með að gerð áhættumats sé samstarfsverkefni atvinnurekenda, stjórnenda og starfsfólks á vinnustaðnum. Hópurinn sem valinn er til að vinna áhættumatið þarf að afla sér ýmissa upplýsinga áður en hafist er handa og meðan á verkinu stendur.
Að fela einhverjum einum aðila verkstjórn við verkefnið.
Tryggja þarf þeim sem koma að gerð áhættumatsins aðgengi að nauðsynlegum upplýsingum, þjálfun, stuðningi, tíma og öllu öðru sem hugsanlega þarf til að verkið geti gengið vel.
Að stjórnendur og starfsfólk taki þátt í að gera áhættumatið og komi með tillögur að úrbótum.
Að tryggja að annað starfsfólk vinnustaðarins hafi tíma til samvinnu við þá sem koma að gerð áhættumatsins þegar á þarf að halda.
Að skilgreina hvernig tryggt er að upplýsingar berist til starfsfólks um niðurstöður áhættumatsins og aðgerðir sem fylgja í kjölfarið, ef einhverjar eru.
Að tímasetja aðgerðir og skilgreina leiðir til að meta árangur þeirra, gera endurbætur og uppfæra áætlunina þegar þörf krefur.
Framkvæmd
Fara þarf skipulega yfir öll störf innan vinnustaðarins og meta áhættuþætti í hverju starfi. Taka skal mið af eðli starfseminnar, samsetningu starfsmannahópsins, stærð og skipulagi vinnustaðarins. Sérstaklega skal skoða störf þar sem fyrirsjáanlegt er að heilsa og öryggi starfsfólks sé meiri hætta búin en annars starfsfólks.
Mikilvægt er að gefa sér ekki fyrirfram hvers konar áhættuþættir séu til staðar. Sumir áhættuþættir eru augljósir á meðan erfiðara getur verið að koma auga á aðra. Getur það til dæmis átt við um sálfélagslega áhættuþætti og þætti sem valda álagi á stoðkerfi starfsfólks.
Meginþættir vinnuverndar
Til að tryggja heildstætt áhættumat ber að horfa á starfsemina og vinnuumhverfið í heild og þá er gott að styðjast við fimm meginþætti vinnuverndar, og sértæka þætti ef við á. Meta þarf bæði skammtíma- og langtímaáhrif hvers áhættuþáttar.
Það er mikilvægt að fá sem besta mynd af því hvernig starfið er raunverulega unnið, ekki bara hvernig ætlast er til að það sé gert. Auk þess að fara yfir fyrirliggjandi verklagsreglur getur verið gagnlegt að fylgjast með hvernig starfsfólk framkvæmir störf sín og meta áhættuna út frá því.
Stundum getur hentað að gera flæðirit yfir einstaka verkþætti, sérstaklega þegar þarf að vinna í ákveðinni tímaröð. Sú skoðun getur um leið gefið tækifæri til úrbóta.
Þegar starfið hefur verið greint er ráðlagt að fara yfir matið með starfsfólkinu og spyrja um tiltekin atriði eða jafnvel leggja til nýjar aðferðir sem gætu verið öruggari.
Staðbundin starfsemi
Vinnustaðir sem eru í föstum skorðum eru til dæmis skrifstofur, iðnfyrirtæki eða fjármálafyrirtæki. Á slíkum stöðum er oft hægt að nýta sama áhættumatið fyrir mörg störf í senn. Forsenda þess er þó sú að störfin séu svipuð og aðstæður sambærilegar.
Færanleg og breytileg starfsemi
Við breytilegar aðstæður, eins og á byggingarstöðum, er hægt að útbúa almenn viðmið. Dæmi er viðmið vegna vinnu á verkpöllum. Viðmiðunum er fylgt þrátt fyrir að pallarnir séu settir upp á nýjum stað en ávallt þarf að meta aðstæður heildstætt þar sem pallarnir eru settir upp.
Einnig geta aðstæður breyst eftir því sem verkinu miðar áfram og þarf því að áhættumeta störfin eftir því hvar verkið er statt. Dæmi er byggingarvinnustaður þar sem verið er að reisa stórt hús. Í fyrstu þarf að meta áhættuþætti sem fylgja jarðvegsvinnu og vinnu við uppslátt. Síðan rís nokkurra hæða hús og að lokum er unnið við frágang innan dyra og breytast áhættuþættirnir eftir því sem verkinu fram vindur.
Þá þarf að hafa í huga að á sumum vinnustöðum eru störfin mjög mismunandi á milli árstíða. Við störf utanhúss getur verið töluverður munur á áhættunni í starfi eftir veðri og árstíðum. Dæmi eru störf í landbúnaði og ferðaiðnaði.
Þegar áhættumat starfa leiðir í ljós að ekki verði dregið úr áhættunni nema með notkun persónuhlífa og hún því nauðsynleg þarf að meta hvers konar persónuhlífar henti til varnar þeirri áhættu sem um er að ræða.
Atvinnurekandi þarf að upplýsa starfsfólk fyrir fram um þá áhættu sem persónuhlífunum er ætlað að vernda það gegn og skyldu þess að nota slíkar hlífar.
Persónuhlífar þurfa að vera mátulegar fyrir þau sem þurfa að nota þær og því kann að vera mikilvægt að starfsfólk sé haft með í ráðum við val og notkun á persónuhlífum. Einnig þarf atvinnurekandi að sjá til þess að starfsfólk fái þjálfun og ef við á sýnikennslu við notkun persónuhlífa en það getur skapað nýja áhættu séu þær notaðar með röngum hætti.
Við gerð áhættumats getur verið gott að spyrja sig spurninga eins og:
Hvernig notar starfsfólk verkfæri?
Eru vinnuaðferðir óskipulagðar eða hættulegar?
Eru gönguleiðir alltaf greiðfærar og vel merktar?
Er skráning slysa og veikindafjarvista nýtt til að koma auga á minna augljósa áhættuþætti?
Eru viðhorf og skoðanir á vinnustaðnum sem fara ekki saman við stefnu hans og sett viðmið, svo sem hvernig starfsfólk talar um eða við hvert annað?
Þarf að taka tillit til þungaðra foreldra, ungs fólks eða fólks með ólíka starfsgetu?
Skoða skrá yfir slys og óhöpp sem orðið hafa á vinnustaðnum.
Skoða og ræða atvik þar sem legið hefur við óhappi til að fyrirbyggja að slíkt endurtaki sig.
Samtöl við starfsfólk og stjórnendur.
Lesa leiðbeiningar sem fylgja með verkfærum og tækjum. Þetta hentar vel til að meta hvort búnaður og tæki séu notuð í samræmi við leiðbeiningar framleiðanda eða hvort starfsfólk hafi fengið nauðsynlega þjálfun í notkun hans.
Afla upplýsinga um slys og frávik í sambærilegum rekstri.
Skoða gögn sem til eru um eftirlit og viðhald á vélum, tækjum og húsnæði.
Skoða niðurstöður kannana og mælinga sem gerðar hafa verið innan vinnustaðarins.
Skoða niðurstöður, leiðbeiningar eða fyrirmæli Vinnueftirlitsins eða þjónustuaðila ef við á.
Skoða annað hjálpar- og fagefni á netinu.
Gæta þarf vel að mannlegri hegðun og greina við hvaða aðstæður er líklegt að starfsfólki geri mistök
Til dæmis vegna:
álags
lélegra samskipta
verkefna sem það er ekki vant að vinna
vaktaskipta
þjálfunarleysis á fyrstu dögum í starfi og eftir orlof
Við greiningu á áhættuþáttum má styðjast við ýmiss hjálpargögn. Þegar gerð áhættumatsins krefst færni sem atvinnurekandi eða starfsfólk hans hefur ekki yfir að ráða skal leita til viðurkennds þjónustuaðila.