Áhættumat á vinnustöðum
Niðurstaða og næstu skref
Að áhættumati loknu skal gera samantekt á þeim áhættuþáttum sem eru í vinnuumhverfinu. Á grundvelli hennar þarf að meta hver viðbrögð atvinnurekanda þurfa að vera til að tryggja öryggi, heilsu og vellíðan starfsfólks á vinnustað.
Viðbrögð í kjölfar áhættumats
Atvinnurekandi kann að þurfa að gera ráðstafanir með því annaðhvort að:
koma í veg fyrir áhættuna
draga úr henni eins og frekast er unnt. Það þýðir að draga þarf úr áhættunni þannig að hún fullnægi að minnsta kosti lágmarkskröfum sem koma fram í lögum og reglugerðum á sviði vinnuverndar, til dæmis með tæknilegum úrbótum, notkun persónuhlífa eða hjálpartækja.
Markmiðið er ávallt að tryggja að starfsfólk starfi við eins litla áhættu og kostur er
Fyrsti kostur er því ávallt að koma í veg fyrir áhættuna eða fjarlægja hana.
Annar kostur er að skoða hvort hægt sé að draga úr áhættunni með almennum ráðstöfunum til verndar starfsfólki. Til dæmis með tæknilegum úrbótum eða notkun hlífa eða annarra öryggisráðstafana á vélar.
Þegar almennar ráðstafanir verða ekki taldar nægilegar til verndar starfsfólki skal grípa til sértækari ráðstafana, svo sem notkun persónuhlífa og hjálpartækja.
Tímasett aðgerðaáætlun
Ef ekki er hægt að grípa til ráðstafana þegar í stað þarf að gera tímasetta áætlun um heilsuvernd og forvarnir.
Enn fremur þarf að huga vel að þjálfun og leiðsögn til starfsfólks varðandi öryggisráðstafanir og -reglur.
Mikilvægt er að starsfólki séu kynntar þær áhættur sem kunna að fylgja starfinu eða störfunum sem það sinnir.
Eftirfylgni
Atvinnurekandi þarf að meta hvort þær ráðstafanir sem gripið hefur verið til hafi haft tilætluð áhrif á öryggi og vellíðan starfsfólks og hvort frekari aðgerða sé þörf.
Það þarf einnig að fylgjast með hvort að eldri ráðstafanir séu enn að hafa tilætluð áhrif eða hvort grípa þurfi til nýrra ráðstafana. Þar getur verið nauðsynlegt að skilgreina mælikvarða til að meta áhrifin.
Þjónustuaðili
Vinnueftirlitið