Prentað þann 21. nóv. 2024
1290/2022
Reglugerð um notkun persónuhlífa.
I. KAFLI Almenn ákvæði.
1. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um persónuhlífar sem ætlaðar eru til notkunar á vinnustöðum sem lög nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, gilda um, sbr. þó strangari ákvæði í sérlögum og sérreglum um einstakar persónuhlífar. Reglugerðin gildir jafnframt um persónuhlífar sem seldar eru eða leigðar jöfnum höndum til notkunar við atvinnurekstur eða til einkanota af almenningi séu þær ekki háðar öðrum lögum eða reglum.
Reglugerðin gildir ekki um:
- venjuleg vinnuföt og einkennisbúninga sem ekki eru sérstaklega hannaðir til að vernda öryggi og heilsu starfsmanna,
- búnað sem notaður er af þeim er sinna neyðaraðstoð og björgun,
- persónuhlífar sem notaðar eru af lögreglu eða öðrum sem sjá um að halda uppi lögum og reglu,
- persónuhlífar til nota í eða á ökutækjum,
- íþróttabúnað,
- búnað til sjálfsvarnar eða viðvörunar,
- færanlegan búnað til að finna, staðsetja og gefa til kynna hættur eða óþægindi.
2. gr. Orðskýring.
Í reglugerð þessari merkir orðið persónuhlíf allan búnað sem er hannaður fyrir starfsfólk, til að klæðast eða halda á, sér til verndar gegn einni eða fleiri áhættu sem stefnt geta öryggi þess og heilsu í hættu svo og allan viðbótar- eða aukabúnað sem ætlað er að þjóna sama tilgangi.
3. gr. Meginregla.
Nota skal persónuhlífar þegar ekki er unnt að komast hjá áhættu eða takmarka hana nægilega með tæknilegum aðgerðum sem veita almenna vernd eða með ráðstöfunum, aðferðum eða annarri tilhögun við skipulagningu vinnunnar.
II. KAFLI Skyldur atvinnurekanda.
4. gr. Almenn ákvæði.
Persónuhlífar skulu uppfylla gildandi reglur á Evrópska efnahagssvæðinu um gerð, hönnun og framleiðslu á persónuhlífum, að því er varðar öryggi og hollustuhætti, þ.m.t. gildandi reglugerð um gerð persónuhlífa eftir atvikum. Allar persónuhlífar verða að:
- henta til varnar þeirri áhættu sem um er að ræða án þess að þær leiði sjálfar til aukinnar áhættu,
- hæfa ríkjandi aðstæðum á vinnustað,
- miðast við vinnuvistfræðilegar kröfur og heilsu hlutaðeigandi starfsfólks,
- vera mátulegar fyrir þann sem þær ber þegar þær hafa verið stilltar eftir því sem nauðsyn krefur.
Þegar áhætta er þess eðlis að starfsfólk þarf að bera fleiri en eina persónuhlíf samtímis verða slíkar hlífar að falla hver að annarri þannig að þær veiti ekki minni vernd en ef persónuhlíf hefði verið notuð ein og sér.
Ákvarða skal við hvaða skilyrði ber að nota persónuhlífar á grundvelli þess hve mikil áhættan er, hve oft starfsfólk þarf að starfa við áhættuna, einkenni vinnustöðva starfsfólks og þess hversu mikla vernd persónuhlífarnar veita.
Persónuhlífar eru eðli sínu samkvæmt ætlaðar til einstaklingsnota. Ef aðstæður krefjast þess að persónuhlíf sé notuð af fleiri en einum notanda skal gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að slík notkun hafi ekki skaðleg áhrif á notendur hvað varðar heilsu eða hreinlæti.
Veita skal nægilegar upplýsingar um hverja gerð persónuhlífa skv. 1. og 2. mgr. og þær gerðar aðgengilegar innan vinnustaðarins.
Atvinnurekandi skal láta persónuhlífar í té endurgjaldslaust og tryggja með nauðsynlegri umhirðu, viðgerðum og endurnýjun að þær séu í góðu lagi og svo hreinar að fullnægjandi teljist. Heimilt er þó að gera samkomulag um, í samræmi við venjur eða kjarasamninga, að starfsfólk taki þátt í kostnaði við vissar tegundir persónuhlífa séu þær ekki eingöngu notaðar á vinnustaðnum.
Atvinnurekandi skal upplýsa starfsfólk fyrir fram um þá áhættu sem persónuhlífunum er ætlað að vernda það gegn og skyldu þess til að nota slíkar hlífar.
Atvinnurekandi skal sjá til þess að starfsfólk fái þjálfun og ef við á sýnikennslu í notkun persónuhlífa.
Einungis er heimilt að nota persónuhlífar í því skyni sem þær eru ætlaðar til nema við sérstakar aðstæður sem heyra til undantekninga. Enn fremur skal nota þær í samræmi við notkunarleiðbeiningar sem þurfa að vera starfsfólki vel skiljanlegar.
Atvinnurekandi skal með hliðsjón af þeirri vinnu sem fram fer og eftir því sem nauðsyn krefur setja upp eitt eða fleiri skilti sem gefa til kynna hvaða gerðir af persónuhlífum ber að nota á viðkomandi vinnustað. Skiltin skulu samræmd gildandi reglum um öryggis- og heilbrigðismerki á vinnustöðum, vera úr varanlegu efni og skal þeim haldið við á fullnægjandi hátt.
5. gr. Mat á persónuhlífum.
Áður en persónuhlífar eru valdar þarf atvinnurekandi að meta hvort þær persónuhlífar sem hann hyggst nota fullnægi kröfum skv. 1. og 2. mgr. 4. gr. þessarar reglugerðar. Mat þetta skal fela í sér:
- að áhætta sem ekki er hægt að forðast með öðru móti sé greind og metin,
- að þeir eiginleikar sem persónuhlífar þurfa að hafa til að koma að gagni sem vörn gegn áhættu skv. a-lið séu skilgreindir og sé þar tekið mið af hvers kyns áhættu sem hlífarnar sjálfar kunna að hafa í för með sér,
- samanburð á eiginleikum þeirra persónuhlífa sem fáanlegar eru við þá eiginleika sem persónuhlíf þarf að hafa skv. b-lið.
Mat skv. 1. mgr. skal endurskoða ef einhverjir þættir þess breytast.
6. gr. Notkun persónuhlífa.
Atvinnurekandi skal ávallt leitast við, með tilliti til eðlis starfseminnar, að koma í veg fyrir alla áhættu sem er fyrir hendi á vinnustað en sé það ekki unnt skal hann draga úr henni eins og kostur er. Atvinnurekandi skal þá gera almennar ráðstafanir til verndar starfsfólki og, sé ekki annarra kosta völ, gera ráðstafanir til að vernda sérhvern einstakling með notkun persónuhlífa.
Við val á viðeigandi persónuhlífum fyrir starfsfólk á vinnustað skal atvinnurekandi fara að niðurstöðum áhættumats vinnustaðarins skv. 65. gr. a. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, og hafa jafnframt til hliðsjónar leiðbeiningar í I. - III. viðauka reglugerðar þessarar þar sem er að finna lista yfir tegundir persónuhlífa og lista yfir störf og starfsgreinar þar sem nauðsynlegt getur reynst að nota persónuhlífar.
Starfsfólk skal nota þær persónuhlífar sem því eru látnar í té meðan á vinnu stendur. Það skal leggja sitt að mörkum við að ganga úr skugga um að persónuhlífarnar komi að tilætluðum notum og tilkynna um bilanir eða ágalla sem upp kunna að koma.
7. gr. Upplýsingar til starfsfólks.
Starfsfólk og/eða fulltrúar þess skulu fá upplýsingar um allar ráðstafanir sem gripið er til í tengslum við öryggi og heilsu starfsfólks er það notar persónuhlífar á vinnustöðum.
8. gr. Samráð við starfsfólk og þátttaka þess.
Atvinnurekandi skal hafa samráð við starfsfólk og/eða fulltrúa þess um þau málefni sem reglugerð þessi tekur til, svo sem um val á persónuhlífum skv. 2. mgr. 6. gr., sbr. II. kafla laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, og gildandi reglugerðar um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum.
III. KAFLI Ýmis ákvæði.
9. gr. Eftirlit.
Vinnueftirlit ríkisins hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar, sbr. 82. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.
10. gr. Viðurlög.
Með brot gegn reglugerð þessari skal fara eftir ákvæðum 99. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.
11. gr. Kæruheimild.
Heimilt er að kæra ákvarðanir Vinnueftirlits ríkisins sem teknar eru á grundvelli reglugerðar þessarar til ráðuneytisins innan þriggja mánaða frá því aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina, sbr. 98. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.
IV. KAFLI Gildistaka.
12. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 38. og 47. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins, til innleiðingar á tilskipun ráðsins 89/656/EBE, frá 30. nóvember 1989, um lágmarkskröfur varðandi öryggi og hollustu er starfsmenn nota persónuhlífar á vinnustöðum (þriðja sértilskipun í skilningi 1. mgr. 16. gr. tilskipunar 89/391/EBE), sem vísað er til í XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2019/1832, frá 24. október 2019, um breytingu á viðaukum I-III við tilskipun ráðsins 89/656/EBE, sem vísað er til í XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 223/2022, öðlast þegar gildi. Á sama tíma falla úr gildi reglur nr. 497/1994, um notkun persónuhlífa.
Félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, 28. nóvember 2022.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson.
Bjarnheiður Gautadóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.