Ráðleggingar um mataræði ásamt ráðlögðum dagskömmtum næringarefna eru fyrst og fremst forvarnarráðleggingar ætlaðar heilbrigðu fólki með það að markmiði að efla heilsu bæði til skamms og langs tíma litið.
Þær eru hins vegar ekki sniðnar að þörfum einstaklinga með sjúkdóma eða aðra kvilla sem gætu haft áhrif á þörf fyrir næringarefni.
Ráðleggingarnar henta yfirleitt ekki þeim sem eru með langvarandi sýkingar, litla upptöku næringarefna (vanfrásog) eða efnaskiptatruflanir né heldur sem næringarmeðferð við sjúkdómum eða þyngdartapi. Eins gæti þurft að aðlaga ráðleggingarnar einstaklingum eða hópum með sérþarfir varðandi mataræði. Í þeim tilfellum er fólki bent á að fá einstaklingsmiðaða næringarráðgjöf hjá löggiltum næringarfræðingi eða löggiltum næringarráðgjafa.
Ráðleggingar um mataræði ásamt grundvelli þeirra og ráðlagðir dagskammtar næringarefna nýtast á ýmsa vegu, meðal annars sem:
Leiðbeiningar við skipulagningu matseðla fyrir hópa fólks, t.d. skólamáltíðir eða á vinnustöðum, fyrir matvælaframleiðendur og þá sem annast fræðslu um næringarmál.
Viðmið til að meta neyslu næringarefna meðal hópa eða þjóða.
Grundvöllur fyrir stefnumótun á sviði matvæla og næringar, t.d. heilbrigðisáætlun.
Með því að fylgja ráðleggingum um mataræði er auðveldara að tryggja að líkaminn fái þau næringarefni sem hann þarf á að halda og stuðla að góðri heilsu og vellíðan. Þannig má minnka líkur á ýmsum langvinnum sjúkdómum auk þess sem auðveldara er að halda heilsusamlegu holdafari.
Almennt er hægt að fullnægja næringarefnaþörfinni með fjölbreyttu og vel samsettu fæði. Þó er Íslendingum ráðlagt að taka D-vítamín sérstaklega sem fæðubótarefni, annað hvort lýsi eða D-vítamíntöflur. Ákveðnir hópar fólks geta haft þörf fyrir bætiefni, til dæmis er konum sem geta orðið barnshafandi ráðlagt að taka fólattöflu.
Það hefur ekki verið hægt að sýna fram á að neysla næringarefna í formi fæðubótarefna dragi úr hættu á langvinnum sjúkdómum eða hafi annan heilsufarslegan ávinning í för með sér fyrir heilbrigða einstaklinga sem borða fjölbreytt fæði og fullnægja orkuþörfinni.
Aftur á móti benda margar rannsóknir til að mikil neysla ákveðinna fæðubótarefna, aðallega vítamína með andoxunarvirkni, geti jafnvel aukið líkur á neikvæðum heilsufarsáhrifum. Það eru því engin vísindaleg rök fyrir því að nota fæðubótarefni til að bæta upp lélegt mataræði.
Nei, ráðleggingarnar eru ekki hugsaðar til að stuðla að þyngdartapi. Allir hafa ávinning af því að borða samkvæmt ráðleggingum óháð holdafari. Rannsóknir á þyngdartapi eiga það flestar sammerkt að sýna árangur til skemmri tíma en flestum reynist erfitt að viðhalda þyngdartapi til lengri tíma eða nokkurra ára.
Lágkolvetna mataræði, sem hefur reyndar ekki verið vel skilgreint og getur innihaldið allt frá mjög litlu magni af kolvetnum og yfir í nokkurt magn kolvetna á dag, hefur verið hampað að undanförnu sem góðri leið til að léttast. Samkvæmt sænskri skýrslu, sem byggð var á kerfisbundnu yfirliti, virðist slíkt mataræði virka betur til skemmri tíma litið sem leið til þyngdartaps, borið saman við lágfitumataræði.
Hins vegar virðist til lengri tíma litið jafnerfitt að halda sig við slíkt mataræði eins og aðra kúra og eftir eitt ár er ekki hægt að sjá neinn mun á þyngdartapi þegar mismunandi mataræði er skoðað.
Af þessum sökum verður að teljast heillavænlegra fyrir almenning að leggja áherslu á heilbrigða lifnaðarhætti almennt, svo sem að fylgja ráðleggingum um hollt mataræði, daglega hreyfingu, góðar svefnvenjur og að takmarka streitu, frekar en að einblína á þyngdartap.
Allt grænmeti og allir ávextir sem maður borðar teljast með. Eftirtaldar vörur eru þó ekki taldar með í 5 á dag: Kartöflur, ávaxtasafi, hnetur og þurrkaðir ávextir.
Kartöflur - Þrátt fyrir að kartöflur séu ekki taldar með í 5 á dag geta þær samt sem áður verið hluti af hollu mataræði.
Ávaxtasafi - Frekar er mælt með að borða ávexti heldur en að drekka þá þar sem drykkir veita minni seddu, m.a. vegna minna magns af trefjum. Það er auðvelt að innbyrða mikið magn af hitaeiningum með því að drekka ávaxtasafa en þeir geta innihaldið jafnmargar hitaeiningar og gosdrykkir. Hins vegar getur lítið glas af hreinum ávaxtasafa endrum og sinnum talist hluti af hollu mataræði þó það teljist ekki með í 5 á dag. Það sama gildir um heimapressaða safa.
Varðandi „smoothie“ og „boost“ úr grænmeti og ávöxtum þá fylgja öll næringarefni með, þ.m.t. trefjar, þannig að það getur verið fín leið til að borða meira af grænmeti og ávöxtum.Hnetur og þurrkaðir ávextir - Það er samt mælt með að borða 30 grömm af ósöltuðum hnetum daglega þar sem hnetur innihalda holla fitu sem hefur forvarnargildi fyrir hjarta- og æðasjúkdóma. Bæði þurrkaðir ávextir og hnetur eru góður valkostur í staðinn fyrir sælgæti og önnur sætindi. Þetta eru hins vegar orkuríkar fæðutegundir, mun orkuríkari en ferskir ávextir, og því er þetta ekki talið með í 5 á dag.
Börnum er einnig ráðlagt að borða fimm skammta á dag eins og fullorðnum en þau þurfa þó heldur minni skammta að 10 ára aldri.
Með grófu grænmeti er t.d. átt við spergilkál, blómkál, hvítkál, rótargrænmeti eins og gulrófur, rauðrófur og gulrætur. Slíkt grænmeti er sérstaklega trefjaríkt frá náttúrunnar hendi.
Með fínna og vatnsmeira grænmeti er t.d. átt við tómata, salat, agúrku og papriku.
Já, það er talinn vera munur á áhrifum ávaxtasykurs á líkamann eftir því hvort hann kemur úr ávöxtum eða hreinum ávaxtasafa. Sykur úr ávöxtum flyst hægar út í blóðrásina samanborið við ávaxtasafa eða sykraða drykki. Þar hefur meira magn trefja í ávöxtum áhrif en trefjar hafa margvísleg jákvæð áhrif á heilsu, t.d. hægja þær meðal annars á upptöku sykurs úr smáþörmum í blóðrás og auka seddu tilfinningu.
Sjá nánar grein í Læknablaðinu: Ávaxtasykur og lífsstílssjúkdómar: skiptir máli hvaðan sykurinn kemur?
Þá er átt við að neyta frekar heilkornavara, ávaxta og grænmetis en draga úr neyslu á fínunnum kolvetnum, þ.e. sykri, hvítu hveiti, hvítu pasta, hvítum hrísgrjónum, fínum brauðum sem eru trefjalítil og sykurmiklum mat. Þannig má ná ráðleggingum um trefjaneyslu sem er að minnsta kosti 25–35 grömm á dag fyrir fullorðna.
Með heilkornavörum er átt við vörur þar sem allir hlutar kornsins eru notaðir við framleiðsluna, þ.e. hýði/klíð, fræhvíta/mjölvi og kím. Kornið getur ýmist verið ómalað eða malað í gróft mjöl en ekki sigtað. Í heilkornavörum eru því allir hlutar kornsins til staðar í sömu hlutföllum og í korninu sjálfu. Heilkornavörur innihalda því öll næringarefni kornsins.
Dæmi um heilkornavörur:
Heilhveiti, rúgur, bygg, hafrar og maís, sem heilkorn eða malað
Ýmsar tegundir af brauðum, t.d. rúgbrauð, heilhveitibrauð, heilkorna flatkökur, hrökkbrauð
Ýmsar tegundir af grautum, t.d. hafragrautur og bygggrautur
Heilhveitipasta
Hýðishrísgrjón
Heilkornabúlgur
Ákveðnar tegundir af múslí og morgunkorni
Ráðlagt er að borða fisk tvisvar til þrisvar sinnum í viku sem aðalrétt. Algengur skammtur af fiski er um 150 g. Æskilegt er að ein af fiskmáltíðunum sé feitur fiskur, t.d. lax, bleikja, lúða eða makríll.
Regluleg neysla á feitum fiski getur dregið úr líkum á hjarta- og æðasjúkdómum. Bæði feitur fiskur og magur hefur jákvæð áhrif á heilsuna en næringarinnihaldið er ólíkt og þess vegna skiptir máli að borða hvort tveggja.
Þegar um saltríkar sjávarafurðir er að ræða, t.d. reyktan og grafinn fisk, er ráðlagt að stilla skammtastærðum í hóf.
Fyrir flesta er í lagi að borða þann fisk sem er á boðstólnum hér á landi. Barnshafandi konum er þó ráðið frá því að borða hráan fisk (einnig harðfisk), sjá nánar í bæklingnum Matur á meðgöngu. Einnig þarf að hafa í huga að í einstaka sjávarafurðum safnast aðskotaefni (t.d. þungmálmar og þrávirk lífræn efni, svo sem PCB-efni), sem barnshafandi konum, konum með börn á brjósti og konum sem hyggja á barneignir er ráðlagt að forðast.
Með unnum kjötvörum er átt við kjöt (oftast rautt kjöt) sem er reykt, saltað eða rotvarið með nítrati eða nítríti. Sem dæmi má nefna saltkjöt, spægipylsu, pepperóní, beikon, pylsur, bjúgu, kjötfars, hangikjöt og skinku.
Með rauðu kjöti er átt við t.d. nautakjöt, lambakjöt og svínakjöt en í raun telst villt kjöt og hrossakjöt einnig með.
Mikil neysla á rauðu kjöti, sér í lagi unnum kjötvörum, tengist auknum líkum á krabbameini í ristli og þyngdaraukningu. Feitar kjötvörur innihalda einnig mikið af mettaðri fitu. Þá tengist mikil saltneysla einnig auknum líkum á krabbameini í maga.
Því er ráðlagt að velja fyrst og fremst óunnið, magurt kjöt og takmarka neyslu á rauðu kjöti við 500 g á viku. Sérstaklega skal takmarka neyslu á unnum kjötvörum. Þetta samsvarar tveimur til þremur kjötmáltíðum á viku og smávegis af kjötáleggi.
Stór hluti mettaðrar fitu í fæði Íslendinga kemur úr mjólkur- og kjötvörum. Með því að skipta út hluta af mettuðu fitunni fyrir ómettaðar fitusýrur má lækka LDL-kólesteról í blóði og minnka líkur á hjarta- og æðasjúkdómum.
Með mýkri og hollari fitu er átt við að auka hlut mjúkrar fitu í fæðu á kostnað harðrar fitu. Með slíku mataræði má draga úr hættu á hjarta- og æðasjúkdómum. Þetta má gera með því að takmarka neyslu á kexi, kökum, sælgæti og snakki, skipta út feitum kjöt- og mjólkurvörum fyrir fituminni vörur og nota olíur í staðinn fyrir smjörlíki og smjör.
Hægt er að auka hlut hollrar fitu í fæðunni með því borða feitan fisk, (s.s. lax, bleikju, lúðu, síld), lárperur (avókadó), hnetur og lýsi svo eitthvað sé nefnt. Hins vegar er ekki æskilegt að skipta út mettaðri fitu fyrir fínunnin kolvetni, svo sem sykur og hvítt hveiti, þar sem það getur haft óæskileg áhrif.
Mjúka fitu er fyrst og fremst að finna í fæðu úr jurtaríkinu og í feitum fiski. Því mýkri sem fitan er við ísskápshita því meira er af ómettaðri fitu í vörunni. Mjúk eða ómettuð fita er ýmist einómettuð eða fjölómettuð. Með harðri fitu er átt við bæði mettaðar fitusýrur og transfitusýrur.
Það er ekki heildarmagn fitunnar sem skiptir máli heldur gæði hennar og má draga úr líkum á hjarta- og æðasjúkdómum ef hluta af mettuðu fitunni er skipt út fyrir fleirómettaðar og einómettaðar fitusýrur.
Þetta má gera með því að takmarka neyslu á kexi, kökum, sælgæti og snakki, skipta út feitum kjöt og mjólkurvörum fyrir fituminni vörur og nota olíur í staðinn fyrir smjörlíki og smjör.
Svo er hægt að auka hlut hollrar fitu með því að borða feitan fisk, lárperur, hnetur, fræ og taka lýsi. Hins vegar er ekki æskilegt að skipta út mettaðri fitu fyrir fínunnin kolvetni, svo sem sykur og hvítt hveiti, þar sem það getur haft óæskileg áhrif. Það er ekki þar með sagt að það eigi alls ekki að borða mettaða fitu, markmiðið er fyrst og fremst að stilla henni í hóf.
Æskilegt er að draga úr saltneyslu (NaCl) þannig að hún verði ekki meiri en 6 g á dag að meðaltali fyrir fullorðna. Þetta samsvarar 2,4 g á dag af natríum.
Fyrir börn frá 2 til 9 ára aldri ætti saltneysla að vera takmörkuð við 3–4 g á dag.
Mikið unnin matvæli eru yfirleitt saltrík, t.d. unnar kjötvörur, ostur, brauð, pakkasúpur og sósur, snakk, tilbúnir réttir og skyndibiti. Ráðlagt er að lesa utan á umbúðir matvæla og velja sem oftast saltminni kostinn. Þegar lesið er á umbúðir er hægt að nota sem grófa viðmiðun að vara sé saltrík ef hún inniheldur 1,25 g af salti eða meira í 100 g vöru.
Nei, tegund salts skiptir ekki máli, natríum úr hvaða salti sem er getur stuðlað að hækkun blóðþrýstings.
Neysla á sykurríkum vörum, þ.m.t. gosdrykkjum, eykur líkur á offitu og tannskemmdum. Mikil neysla á sykruðum gos- og svaladrykkjum getur auk þess aukið líkur á sykursýki af tegund 2. Hugsanlega skiptir neyslumynstur máli, en það virðist t.d. hafa mismunandi áhrif á efnaskipti líkamans hvort sykurs er neytt í minni skömmtum yfir daginn eða í miklu magni á stuttum tíma, eins og gerist þegar maður drekkur sykraða drykki, en þannig er auðvelt að innbyrða mikið magn sykurs á stuttum tíma.
Sjá nánar:
Kerfisbundin yfirlitsgrein (systematic review) á tengslum mikillar sykurneyslu og sykursýki af tegund 2: Does high sugar consumption exacerbate cardiometabolic risk factors and increase the risk of type 2 diabetes and cardiovascular disease.
Kerfisbundin yfirlitsgrein (systematic review) á tengslum neyslu næringarefna og mataræðis á langtíma þyngdarbreytingar: Dietary macronutrients and food consumption as determinants of long-term weight change in adult populations: a systematic literature review.
Sjá einnig í þessari grein: Dietary sugars and body weight: systematic review and meta-analyses of randomised controlled trials and cohort studies.
Kerfisbundin yfirlitsgrein (systematic reviw) á tengslum sykurs og tannskemmda: Effect on caries of restricting sugars intake: Systematic Review to inform WHO Guidelines.
Almennt er ráðlagt að takmarka neyslu á viðbættum sykri. Ekki er mælt með að velja vörur með sætuefnum frekar en með viðbættum sykri.
Varðandi mjólkurvörur: Frekar er mælt með ósykruðum eða lítið sykruðum mjólkurvörum en mjólkurvörum með sætuefnum.
Varðandi Skráargatið: Matvörur með sætuefnum geta ekki fengið Skráargatið þar sem ekki er talið æskilegt að venja neytendur á sætt bragð og það er ekki ætlunin með Skráargatinu að auka útbreiðslu vara með sætu bragði, hvort sem er með miklum sykri eða sætuefnum.
Varðandi gos- og svaladrykki: Hvorki er mælt með sykruðum gosdrykkjum né gosdrykkjum með sætuefnum heldur að drekka frekar vatn við þorsta og með mat. Kolsýrt vatn án sítrónusýru (E330) getur einnig verið góður kostur í stað gos- eða svaladrykkja. Sé gos- eða svaladrykkja neytt er æskilegt að takmarka magnið eins og kostur er.
Vert er að taka fram að drykkir með sætuefnum innihalda ýmsar sýrur, líkt og sykraðir drykkir, sem hafa glerungseyðandi áhrif.
Sjá nánar veggspjaldið Þitt er valið.
D-vítamín er í fáum algengum fæðutegundum. Mest er í lýsi, feitum fiski, eggjarauðum og D-vítamínbættum mjólkurvörum. D-vítamín myndast einnig í húðinni fyrir tilstilli útfjólublárra geisla sólar.
Á Íslandi er myndun D-vítamíns í húð ófullnægjandi yfir vetrarmánuðina. Til þess að stuðla að góðum D-vítamínhag yfir vetrarmánuðina er nauðsynlegt að taka D-vítamín sérstaklega sem fæðubótarefni, annað hvort lýsi eða D-vítamíntöflur.
Sjá nánari upplýsingar um D-vítamín.
Já, það þarf að taka D-vítamíni aukalega yfir vetrartímann. Eitt glas af D-vítamínbættri léttmjólk eða Fjörmjólk á dag veitir 2 míkrógrömm af D-vítamíni og ein 150 g laxamáltíð í viku veitir 16,4 míkrógrömm, eða samtals að meðaltali 4,3 míkrógrömm af D-vítamíni á dag.
Einstaklingar á aldrinum 10–70 ára þurfa því að bæta við u.þ.b. 10 míkrógrömmum af D-vítamíni, tekið inn með lýsi eða öðrum fæðubótarefnum sem innihalda D-vítamín. Einstaklingar yfir sjötugt þurfa að bæta við u.þ.b. 15 míkrógrömmum af D-vítamíni. Samkvæmt niðurstöðum landskönnunar á mataræði frá 2010–2011 fá Íslendingar að meðaltali 4–5 míkrógrömm af D-vítamíni úr matnum, mismunandi eftir aldri.
Já, D-vítamín er fituleysanlegt vítamín og getur safnast upp í líkamanum. Það hefur ekki verið hægt að sýna fram á gagnsemi skammta umfram 10–20 míkrógrömm/dag (400-800 alþjóðlegar einingar) fyrir heilbrigt fólk, en þessir skammtar eru jafnframt nauðsynlegir meðal annars fyrir beinheilsu.
Efri mörk ráðlagðrar neyslu eru 25 míkrógrömm (1000 AE) fyrir ungbörn yngri en 1 árs, 50 míkrógrömm (2000 AE) fyrir börn 1–10 ára og 100 míkrógrömm á dag (4000 AE) fyrir fullorðna. Skammta umfram efri mörk ætti aðeins að taka í samráði við lækni.
Sjá nánari upplýsingar um D-vítamín og í upplýsingum um ráðlagða dagskammta og nægjanlega neyslu af vítamínum og steinefnum.
Skráargatið er opinbert merki sem setja má á umbúðir matvara sem uppfylla ákveðin skilyrði varðandi samsetningu næringarefna:
Minni og hollari fita
Minni sykur
Minna salt
Meira af trefjum og heilkorni
Einnig má nota Skráargatið á ópakkaðan fisk, ávexti, ber, grænmeti og kartöflur.
Merkið auðveldar neytendum að velja hollari matvörur úr hillum verslana. Vörur sem bera merkið eru hollari en aðrar vörur í sama flokki sem ekki uppfylla skilyrði til að bera merkið.
Skráargatsmerktar vörur henta bæði börnum og fullorðnum. Merkið er fyrir þá sem vilja borða hollan mat.
Sjá nánar spurningar og svör um Skráargatið.
Ráðleggingar um mataræði, svokallaðar fæðutengdar ráðleggingar, er útfærsla á næringarráðleggingum sem segja til um æskilega neyslu næringarefna. Neytendur borða ekki einstök næringarefni heldur mat sem inniheldur fjölmörg ólík næringarefni. Þeir eiga því ekki að þurfa að telja ofan í sig einstök næringarefni heldur geta þess í stað fylgt einföldum leiðbeiningum um fæðuval.
Sé ráðleggingum um fæðuval fylgt eru góðar líkur á því að þörfinni fyrir einstök næringarefni sé fullnægt.
Ráðleggingarnar byggja á norrænum næringarráðleggingum frá árinu 2012 ásamt öðrum rannsóknum á sambandi næringar og heilsu og niðurstöðum kannana um mataræði Íslendinga, bæði barna og fullorðinna.
Sérfræðingar embættis landlæknis og Háskóla Íslands hafa staðið að gerð þessara ráðlegginga.
Aðrar heimildir sem ráðleggingarnar byggja á:
Norrænar næringarráðleggingar (NNR5) – Nordic Nutrition Recommendations 2012 – Integrating nutrition and physical activity
World Cancer Research Fund frá 2007: Food, Nutrition, Physical Activity, and the Prevention of Cancer: a Global Perspective.
Ráðleggingar um mataræði í öðrum löndum:
Heimasíða norrænu ráðherranefndarinnar um næringu: Nutrition the Nordic Way
Danmörk
De officielle kostråd
Evidensgrundlaget for danske råd om kost og fysisk aktivitet
DTU – Publikationer om ernæringNoregur
Anbelfalinger om kosthold, ernæring og fysisk aktivitet
Små greb, stor forskjell
Kostråd for å fremme folkehelsen og forebygge kroniske sykdommer – Metodologi og vitenskapeligt kunnskapsgrunnlagSvíþjóð
Ráðleggingar um mataræði eru í vinnslu, sjá nánar hjá sænsku matvælastofnuninni Livsmedelsverket
Þjónustuaðili
Embætti landlæknis