Grænkerafæði (vegan mataræði) - leiðbeiningar
Grænkerafæði (vegan mataræði) byggir eingöngu á mat úr jurtaríkinu og sneytt er hjá öllum mat úr dýraríkinu (kjöt, fiskur, egg og mjólkurvörur).
Fæðuval
Almennt er auðveldara að viðhalda góðu næringarástandi ef fjölbreytni er í fæðuvali. Því fleiri matvæli og fæðuflokkar sem eru útilokuð þeim mun meira þarf að vanda fæðuval svo að maturinn, ásamt réttum bætiefnum, uppfylli þörf fyrir bæði orku og næringarefni. Til þess að fá öll þau næringarefni sem líkaminn þarfnast úr grænkerafæði ætti meðal annars að velja matvæli úr eftirtöldum fæðuflokkum á hverjum degi:
Belgjurtir, t.d. baunir, ertur og linsur, tófú og aðrar sojavörur
Heilkornavörur, t.d. hafra, bygg, hýðishrísgrjón, kínóa, hirsi, heilkornabrauð og heilkornapasta
Grænmeti
Ávexti og ber
Hnetur og fræ
Drykkjarvörur eins og vítamín- og steinefnabætta jurtamjólk, t.d. soja- og haframjólk. Vatn er besti svaladrykkurinn
Jurtaolíur, t.d. repjuolíu, ólífuolíu og valhnetuolíu.
Takmarka ætti mikið unnar vörur sem innihalda mikið af mettaðri fitu, salti og/eða sykri.
Þjónustuaðili
Embætti landlæknis