Fara beint í efnið

Jurtafæði - leiðbeiningar

Vinsældir jurtafæðis hafa aukist að undanförnu og er það af ýmsum ástæðum, t.d. umhverfis- og heilsufarsástæðum eða vegna dýravelferðar. Hollt mataræði og umhverfissjónarmið haldast í hendur og hefur hugtakið „sjálfbært mataræði" (Sustianable diets) haslað sér völl síðustu árin. Þetta felur í sér að opinberar ráðleggingar um mataræði taki ekki eingöngu mið af hollustu heldur einnig atriðum eins og kolefnisspori matvæla. Þessi markmið passa vel saman þar sem rannsóknir sýna að það er heilsufarslegur ávinningur af því að borða mikið af grænmeti, ávöxtum, berjum, ertum, baunum og öðrum mat úr jurtaríkinu eins og mælt er með í opinberum ráðleggingum um mataræði. Ávallt er mikilvægt að hafa fjölbreytnina í fyrirrúmi, einnig fyrir þá sem neyta jurtafæðis.

Ráðleggingar um grænkerafæði gefnar út í september 2022

Nýlega voru gefnar út ráðleggingar fyrir þá sem kjósa grænkerafæði (vegan mataræði), annars vegar fyrir barnshafandi konur og konur með barn á brjósti og hins vegar fyrir börn frá fæðingu til sex ára aldurs.

Ráðleggingarnar byggja á Norrænu næringarráðleggingunum og sambærilegum ráðlegginum um grænkerafæði á Norðurlöndunum. Ráðleggingarnar voru unnar með Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu og Menntavísindasviði Háskóla Íslands í samvinnu við Samtök grænkera á Íslandi.

Þessar ráðleggingar eru ætlaðar þeim sem kjósa grænkerafæði og vilja fræðast frekar um hvaða næringarefni eru mikilvæg á þessum tímabilum ævinnar. Þær geta einnig verið stuðningur fyrir þá sem þurfa að útiloka ákveðnar fæðutegundir úr mataræði sínu eða sem fylgja grænmetismataræði sem inniheldur einhverjar fæðutegundir úr dýraríkinu.

Þjónustuaðili

Embætti land­læknis