Vinsældir jurtafæðis hafa aukist að undanförnu og er það af ýmsum ástæðum, t.d. umhverfis- og heilsufarsástæðum eða vegna dýravelferðar. Hollt mataræði og umhverfissjónarmið haldast í hendur og hefur hugtakið „sjálfbært mataræði" (Sustianable diets) haslað sér völl síðustu árin. Þetta felur í sér að opinberar ráðleggingar um mataræði taki ekki eingöngu mið af hollustu heldur einnig atriðum eins og kolefnisspori matvæla. Þessi markmið passa vel saman þar sem rannsóknir sýna að það er heilsufarslegur ávinningur af því að borða mikið af grænmeti, ávöxtum, berjum, ertum, baunum og öðrum mat úr jurtaríkinu eins og mælt er með í opinberum ráðleggingum um mataræði. Ávallt er mikilvægt að hafa fjölbreytnina í fyrirrúmi, einnig fyrir þá sem neyta jurtafæðis.
Mataræði marga byggir að einhverjum hluta á jurtavörum án þess að borðað sé einungis úr jurtaríkinu. Til eru nokkrar skilgreiningar á mataræði háð því hvaða fæðutegundir eru algengar í mataræðinu. Sjá nánari skilgreiningar hér að neðan:
Grænkerafæði (Vegan) sem er eingöngu jurtafæði þá er allt úr dýraríkinu útilokað það er að segja kjöt, fiskur, egg og mjólkurvörur.
Jurtafæði með eggjum (Ovo vegetarian).
Jurtafæði með mjólkurvörum (Lacto vegetarian).
Jurtafæði með mjólkurvörum og eggjum (Lacto-ovo vegetarian).
Jurtafæði með fiski (Pescetarian), þá er auk jurtafæðis borðaður fiskur og sjávarafurðir og oft einnig mjólkurvörur og egg.
Vistkeri (Flexitarian), þá er aðallega borðað jurtafæði en af og til dýraafurðir.
Hér kemur upptalning á fæðutegundum sem borða ætti daglega til að tryggja fjölbreytni í mataræðinu og þar með tryggja að við fáum nóg af mismunandi næringarefnum. Í þessari upptalningu er fiskur, mjólkurvörur og egg einnig höfð með þar sem þessar vörur passa inn fyrir sumar skilgreiningar á jurtafæði. Ef þessum dýraafurðum er sleppt er mikilvægt að huga að fjölbreytni í öðrum fæðutegundum sem eru rík af próteini s.s. baunum, hnetum og hnetusmjöri, fræjum og heilkorni. Mælt er með að borða daglega (með fyrirvara um að þessi upptalning passi ekki fyrir allar tegundir af jurtafæði):
Belgjurtir, eins og baunir, ertur og linsur, sojaost (tófú) og aðrar sojavörur
Fisk og annað sjávarfang og egg (þarf ekki daglega)
Heilkornavörur, t.d. hafra, bygg, hirsi, kínóa, hýðishrísgrjón, heilkornabrauð og heilkornapasta
Grænmeti
Ávexti og ber
Hnetur og fræ og vörur unnar úr þeim
Hreinar og fituminni mjólkurvörur og osta
Vítamín- og kalkbætt jurtamjólk t.d. soja-, hafra og hrísmjólk og/eða jurtajógúrt. Rétt er að benda á að hrísmjólk og vörur úr hrísmjólk eru ekki ætlaðir fyrir börn yngri en 6 ára þar sem þessar vörur geta innihaldið arsen í of miklu magni
Fljótandi jurtaolíur, t.d. repjuolíu, ólífuolíu og valhnetuolíu
Fyrir þau sem ekki borða fisk eða fiskiolíu þá er mælt með að nota þörungaolíu til að fá langar ómega-3 fitusýrur (EPA og DHA), sérstaklega fyrir börn á aldrinum sex mánaða til tveggja ára.
Öllum sem búa á Íslandi er ráðlagt að taka D-vítamín sem bætiefni þar sem D-vítamín finnst í fáum matvælum í nægu magni (finnst aðallega í feitum fiski). Nánari upplýsingar um D-vítamín. Öllum konum á barneignaraldri er líka ráðlagt að taka fólat sem bætiefni.
Mælt er með að þau sem ekki borða dýraafurðir eins og fisk, mjólk og egg taki B12-vítamín sem bætiefni. Að lokum er mælt með að barnshafandi konur og konur með barn á brjósti sem ekki borða fisk, sjávarfang eða mjólk og mjólkurvörur taki joð daglega sem bætiefni (fjölvítamín sem inniheldur 150 míkrógrömm af joði).
Einstaklingar sem fylgja grænkeramataræði, eða sem borða lítið af fisk og mjólkurvörum, ættu einnig að skoða hvort þau þurfi að taka joð og kalk sem bætiefni. Ýmsar jurtavörur eru þó bæði kalk- og joðbættar og þarf því að meta þetta einstaklingsbundið.
Ráðleggingar um grænkerafæði gefnar út í september 2022
Ráðleggingarnar byggja á Norrænu næringarráðleggingunum og sambærilegum ráðlegginum um grænkerafæði á Norðurlöndunum. Ráðleggingarnar voru unnar með Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu og Menntavísindasviði Háskóla Íslands í samvinnu við Samtök grænkera á Íslandi.
Þessar ráðleggingar eru ætlaðar þeim sem kjósa grænkerafæði og vilja fræðast frekar um hvaða næringarefni eru mikilvæg á þessum tímabilum ævinnar. Þær geta einnig verið stuðningur fyrir þá sem þurfa að útiloka ákveðnar fæðutegundir úr mataræði sínu eða sem fylgja grænmetismataræði sem inniheldur einhverjar fæðutegundir úr dýraríkinu.