Fara beint í efnið

D-vítamín

D-vítamín, öðru nafni kólíkalsiferól, er fituleysið vítamín. Það myndast í húðinni fyrir tilstilli útfjólublárra geisla sólar en það fæst einnig úr fæðu (aðallega úr feitum fiski og D-vítamínbættum vörum) og fæðubótarefnum (t.d. lýsi, lýsisperlum, D-vítamíntöflum og D-vítamínúða).

D-vítamín gegnir mikilvægu hlutverki

D-vítamín gegnir mikilvægu hlutverki í líkamanum. Það er til dæmis nauðsynlegt til að stýra kalk og fosfór efnaskiptum í líkamanum og er nauðsynlegt fyrir uppbyggingu beina þar sem það örvar frásog kalks í meltingarvegi og stuðlar að eðlilegum kalkstyrk í blóði (1).

Einnig eru vísbendingar um að D-vítamín geti lækkað dánartíðni almennt sem og dánartíðni vegna krabbameina. Miðað við stöðu þekkingar í dag þá er D-vítamín ekki talið vernda gegn því að greinast með krabbamein. Það er þó mikilvægt að vera ávallt með góðan D-vítamínbúskap óháð því hvort viðkomandi er að glíma við sjúkdóma s.s. krabbamein eða ekki (1).

Einkenni D-vítamínskorts eru beinkröm hjá börnum, þar sem bein í fótleggjum bogna og rifbein svigna, en meðal fullorðinna og aldraðra lýsir skorturinn sér sem mjúk kalklítil bein og kallast það beinmeyra (osteomalasia) (1).

Ráðlagðir dagskammtar (RDS)

Mikil fræðileg vinna liggur að baki því að setja fram ráðleggingar um neyslu á vítamínum og steinefnum. Norrænn sérfræðihópur birti árið 2013 endurskoðaðar ráðleggingar fyrir D-vítamín (2) og aftur árið 2023 þar sem ekki var talin þörf á að breyta fyrri ráðleggingum (1). Norrænar næringarráðleggingar gefa lægri ráðlagða dagskammta eða 10 µg á dag fyrir alla 70 ára og yngri (1,2). Ástæðan fyrir hærri ráðleggingum á Íslandi er lega landsins sem veldur því að við getum ekki nýtt sólarljósið stóran hluta ársins til að framleiða D-vítamín.

Íslenskir ráðlagðir dagskammtar (RDS) fyrir D-vítamín voru árið 2013 hækkaðir úr 10 míkrógrömmum (µg) á dag í 15 µg á dag fyrir 10-70 ára. Fyrir 71 árs og eldri var RDS fyrir D-vítamín hækkaður í 20 µg á dag en fyrir ungbörn og börn 1–9 ára var RDS óbreytt eða 10 µg á dag.

Ráðlagðir dagskammtar (RDS) fyrir D-vítamín á Íslandi:

  • Ungbörn* og börn 1-9 ára -10 μg, 400 AE

  • 10 ára-70 ára, 15 μg, 600 AE

  • 71 árs og eldri, 20 μg, 800 AE

*Frá 1–2 vikna aldri er ráðlagt er að gefa ungbörnum D-vítamíndropa (10 μg/dag).

Eins og fram kemur í nýlegri grein sem var birt á Vísindavefnum (3) er mikilvægt að árétta að ráðlagðir dagskammtar af D-vítamíni miðast við að viðhalda fullnægjandi styrk D-vítamíns í blóði en miðast ekki við að leiðrétta D-vítamínskort. Ef einstaklingur mælist með mjög lágan styrk af D-vítamíni í blóði þá gæti verið æskilegt að gefa tímabundið hærri skammta sem eru umfram ráðlagða dagskammta, þar til fullnægjandi styrk í blóði er náð. Í þeim tilfellum er æskilegast að gera það í samráði við heilbrigðisstarfsfólk.

Nánar um ráðlagða dagskammta (RDS) og heimildir

Þjónustuaðili

Embætti land­læknis