Það er valfrjálst fyrir skóla að taka þátt í heilsueflandi starfi í samstarfi við embætti landlæknis. Fyrir þau sem taka þátt er veittur aðgangur að gátlistum sem meðal annars fjalla um aðgengi að hollum mat en þar er einnig fjallað um fæðuofnæmi og óþol.
Í gátlistunum er rík áhersla lögð á að starfsmönnum mötuneyta bjóðist að afla sér reglulega endurmenntunar, svo sem að sækja námskeið um gerð sérfæðis fyrir einstaklinga með fæðuofnæmi og fæðuóþol.
Einnig þarf að passa vel að allt starfsfólk mötuneyta viti hvaða nemendur eru á sérfæði, að til séu verklagsreglur og þeim fylgt.
Grunn- og framhaldsskólar eru einnig beðnir um að fara reglulega yfir hversu margir nemendur eru í áskrift að skólamat. Þá eru skólar á öllum stigum einnig beðnir um að kanna reglulega ánægju nemenda, foreldra og starfsfólks með skólamatinn. Í könnun til foreldra/forráðamanna er spurt um ástæður þess ef barnið þeirra er ekki í mataráskrift þar sem ofnæmi og óþol gæti verið einn svarmöguleikinn. Í flestum skólum landsins eru börn með ofnæmi eða óþol og því mikilvægt að fylgjast vel með því að þau hafi jafnan aðgang að skólamatnum eins og aðrir nemendur.