Sambúðarslit
Beiðni um gerð samnings vegna slita á sambúð
Við sambúðarslit fólks sem ekki á saman barn/börn undir 18 ára aldri nægir að tilkynna Þjóðskrá um breytt heimilisfang.
Sambúðarslit þegar aðilar eiga saman barn/börn undir 18 ára aldri
Panta þarf viðtalstíma hjá sýslumanni til að slíta skráðri sambúð einstaklinga sem eiga saman barn/börn undir 18 ára aldri. Hægt er að fylla út beiðni um gerð samnings vegna slita á sambúð stafrænt eða bóka tíma hjá sýslumanni í því umdæmi sem annað foreldranna býr.
Við sambúðarslit þarf að ákveða:
Hver fer með forsjá barns/barna
Hjá hvoru foreldri barn/börn eiga lögheimili
Hvort foreldra greiðir meðlag, frá hvaða tíma og hversu hátt
Við sambúðarslit er foreldrum skylt að tryggja að barn hafi umgengni við báða foreldra eftir sambúðarslitin. Foreldri eða foreldrar geta óskað eftir að sýslumaður taki til meðferðar umgengnismál samhliða máli vegna sambúðarslita.
Viðtal vegna sambúðarslita
Viðtalið fer fram hjá sýslumanni eða löglærðum fulltrúa hans, sem veitir upplýsingar um þær lagareglur sem reynir á við sambúðarslitin. Afstaða foreldra til forsjár, lögheimilis og meðlags barns/barna eru bókaðar á fundinum.
Foreldrar geta annað hvort mætt saman í viðtal eða hvort í sínu lagi. Ef annað foreldri kýs að mæta eitt, er hitt boðað til viðtals síðar. Heimilt er að viðtöl fari fram í gegnum síma eða fjarfundabúnað.
Heimilt er að hafa einhvern með sér í viðtali en foreldrar þurfa að vera sammála um það hverjir eru viðstaddir.
Hægt er að óska eftir því að viðtalið fari fram á ensku en ef þörf er á túlki, þarf viðkomandi sjálfur að útvega hann.
Staðfesting vegna sambúðarslita
Ef foreldrar eru sammála um forsjá barns/barna, lögheimili og meðlagsgreiðslur, gefur sýslumaður út staðfestingu vegna sambúðarslita og sendir tilkynningu um breytt lögheimili til Þjóðskrár Íslands.
Sá sem getur ekki gefið upp breytt lögheimili við fyrirtökuna, þarf að senda sína tilkynningu til Þjóðskrár Íslands sjálfur. Hægt er að gera það rafrænt.
Sýslumaður getur neitað að staðfesta samning um lögheimili og meðlag ef honum þykir samningurinn andstæður hag og þörfum barnsins/barnanna.
Kostnaður
Staðfestingu sýslumanns vegna sambúðarslita kostar 2.500 kr.
Ágreiningur
Ágreiningur um forsjá eða lögheimili barns
Ef foreldra greinir á um forsjá eða lögheimili barns/barna er málinu vísað í sáttameðferð. Ef samkomulag næst ekki í sáttameðferð, getur sýslumaður ekki staðfest samning vegna sambúðarslita, fyrr en búið er að höfða dómsmál til úrlausnar ágreiningsins.
Ef samkomulag næst í sáttameðferð staðfestir sýslumaður samning vegna sambúðarslita og tilkynnir það til Þjóðskrár Íslands.
Ágreiningur um meðlagsgreiðslur
Ef forelda greinir á um meðlagsgreiðslur getur lögheimilisforeldri óskað eftir úrskurði sýslumanns um meðlag.
Fjárskipti
Sýslumaður kemur ekki að fjárskiptum vegna sambúðarslita. Greini aðila á er þeim bent á að leita sér aðstoðar lögmanns.
Skráning í sambúð að nýju
Ef foreldrar skrá sig í sambúð að nýju á vef Þjóðskrár, verður forsjá sameiginleg að nýju og staðfesting sýslumanns vegna sambúðarslita fellur niður.
Lög og reglugerðir
Lög um breytingu á hjúskaparlögum og fleiri lögum og um brottfall laga um staðfesta samvist
Almannatryggingar, félagsþjónusta o.fl., reglugerðasafn dómsmálaráðuneytis
Beiðni um gerð samnings vegna slita á sambúð
Þjónustuaðili
Sýslumenn