Einstæðir foreldrar, fjárhagsaðstoð
Ef foreldrar barns eru ekki í hjónabandi eða skráðri sambúð við fæðingu fer móðirin ein með forsjá þess nema samið hafi verið um að forsjáin sé sameiginleg. Þá er ákveðið hjá hvoru forsjárforeldrinu barnið skuli eiga lögheimili. Sá sem fer með forsjá barnsins á rétt á meðlagi.
Mæðralaun/Feðralaun
Mæðralaun/feðralaun er heimilt að greiða einstæðum foreldrum, búsettum hér á landi sem hafa á framfæri tvö börn eða fleiri undir 18 ára aldri.
Námsmenn
Einstæðir foreldrar og námsmenn geta sótt um niðurgreiðslu daggæslu- og leikskólagjalda. Í flestum sveitarfélögum þurfa einstæðir foreldrar að skila inn vottorði um hjúskaparstöðu og búsetuvottorði.
Námsmenn þurfa að skila inn vottorði skóla um fullt nám og skal vottorðið endurnýjað á hverri önn. Nánari upplýsingar um niðurgreiðslur fást á vefjum sveitarfélaga.
Barnalífeyrir
Barnalífeyrir er greiddur með börnum yngri en 18 ára ef annað foreldra er látið eða nýtur örorku-, elli- eða endurhæfingarlífeyris. Tvöfaldur barnalífeyrir er greiddur fyrir hvert barn ef báðir foreldrar eru látnir eða eru örorkulífeyrisþegar. Þá er greiddur barnalífeyri með ungmenni 18 til 20 ára vegna náms eða starfsþjálfunar.
Húsnæðisbætur
Hjá fjölskyldu- og velferðar/félagsþjónustu sveitarfélaganna er hægt að sækja um húsnæðisbætur og fjárhagsaðstoð.
Húsnæðisbætur eru til þess hugsaðar að lækka húsnæðiskostnað leigjenda og draga úr aðstöðumun á húsnæðismarkaði. Við útreikning húsnæðisbóta er tekið mið af leigufjárhæð, tekjum, eignum að frádregnum skuldum og framfærslu barna.
Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga
Markmið velferðar/félagsþjónustu sveitarfélaga er meðal annars að tryggja fjárhagslegt öryggi íbúanna. Rétt á fjárhagsaðstoð eiga þeir sem eiga lögheimili í sveitarfélaginu og hafa tekjur undir ákveðnum viðmiðunarmörkum.
Þegar sótt er um aðstoð metur velferðar/félagsþjónustan þörfina, en tilgangur aðstoðarinnar er að hjálpa einstaklingnum eða fjölskyldunni til sjálfshjálpar. Aðstoðin getur verið lán eða styrkur. Öll fjárhagsaðstoð til framfærslu er skattskyld.