Hafir þú stundað sjómennsku gætir þú átt rétt á að taka út ellilífeyri almannatrygginga frá 60 ára aldri.
Réttur til ellilífeyris
Þú getur átt rétt á ellilífeyri sjómanna ef:
þú hefur stundað sjómennsku á lögskráðu íslensku skipi eða skipi gert út af íslenskum aðilum í 25 ár eða lengur,
fjöldi lögskráðra daga á sjó er að lágmarki 180 dagar að meðaltali á ári á 25 ára tímabili.
Fjárhæðir ellilífeyris
Fullur ellilífeyrir er:
333.194 krónur á mánuði, eða
3.998.328 krónur á ári
Þú getur líka átt rétt á heimilisuppbót og öðrum greiðslum, svo sem barnalífeyri eða bifreiðastyrk.
Tekjuáætlun
Upphæð ellilífeyris er tengd tekjum. Frítekjumörk ráða hversu mikið ellilífeyrir lækkar í hlutfalli við aðrar tekjur. Því er mikilvægt að tekjuáætlun þín sé alltaf rétt.
Þú getur breytt tekjuáætlun á Mínum síðum Tryggingastofnunar.
Umsóknarferli
Fylgigögn
Til að sækja um ellilífeyri sjómanna þarf staðfestingu á fjölda daga sem umsækjandi hefur verið lögskráður á sjó, til dæmis:
yfirlit af stöðuskráningu sjómanns frá Samgöngustofu,
sjóferðabækur sem gefnar voru út af Siglingastofnun Íslands,
skattframtöl,
siglingavottorð frá sýslumanni.
Auk þess þarf:
staðfestingu á að sótt hafi verið um ellilífeyri hjá öllum lífeyrissjóðum sem þú átt rétt í,
að gera áætlun um tekjur þínar í framtíðinni,
upplýsingar um nýtingu persónuafsláttar.
Svona sækir þú um
Smelltu á Sækja um
Skráðu þig inn með rafrænum skilríkjum
Veldu Umsóknir
Veldu umsóknina Ellilífeyri
Fylltu út umsóknina og hengdu við fylgigögn ef þú ert með þau tiltæk
Smelltu á Senda umsókn
Einnig er hægt að sækja um:
í þjónustumiðstöð Tryggingastofnunar
hjá umboðsmönnum, sem eru staðsettir hjá sýslumönnum utan höfuðborgarsvæðisins.
Niðurstaða
Þegar niðurstaða liggur fyrir færðu tölvupóst og tilkynningu á Mínum síðum TR undir Mín skjöl.
Þar getur þú einnig séð upphæðir út árið í greiðsluáætlun.
Ef þú ert ósammála ákvörðuninni getur þú:
óskað eftir rökstuðningi á Mínum síðum TR,
sent erindi til umboðsmanns viðskiptavina TR,
Fyrirkomulag greiðslna
Ellilífeyrir er fyrirframgreiddur fyrsta dag hvers mánaðar og þú færð upphæðina inn á bankareikninginn þinn sem gefinn er upp á Mínum síðum.
Hægt er að fá eina greiðslu á ári ef inneign er til staðar að loknu uppgjöri Tryggingastofnunar.
Kosturinn við að fá greitt einu sinni á ári á grundvelli skattframtals er að þú færð nákvæmlega það sem þú átt rétt á. Þá er engin hætta á að fá kröfu við uppgjör vegna ofgreiddra greiðslna.
Áhrif tekna á ellilífeyri - algengar spurningar
Þjónustuaðili
Tryggingastofnun