Persónuafsláttur og skattþrep launatekna
Skattur af launum og lífeyri er reiknaður við hverja mánaðarlega útborgun og því er talað um staðgreiðslu skatta. Staðgreiðslan skiptist í tekjuskatt til ríkissjóðs og útsvar til viðkomandi sveitarfélags.
Staðgreiðsla miðast við skattstofn, sem er í stuttu máli laun og lífeyrir að frádregnum greiðslum (til dæmis í lífeyrissjóð og séreignasparnað).
Sjá nánar um skattstofn og útsvar á vef Skattsins.
Skattþrep
Það hversu hátt hlutfall er greitt í skatt er breytilegt eftir tekjum og í gildi eru þrjú skattþrep:
Skattþrep | Af tekjum | Skatthlutfall |
|---|---|---|
Skattþrep 1 | 0 - 472.005 kr. | 31,49% |
Skattþrep 2 | 472.006 - 1.325.127 kr. | 37,99% |
Skattþrep 3 | yfir 1.325.127 kr. | 46,29% |
Ef launagreiðendur eru fleiri en einn þarf að upplýsa þá um hvaða skattþrep þú vilt nota hjá hverjum og einum svo réttur skattur sé dreginn af heildarlaunum.
Ef launagreiðendur eru fleiri en einn þarf að gæta þess að hver og einn noti viðeigandi skattþrep.
Persónuafsláttur
Allir einstaklingar búsettir á Íslandi, 16 ára og eldri, mega draga fasta upphæð (persónuafslátt) frá skattgreiðslum í hverjum mánuði.
Persónuafsláttur er nú 68.691 króna á mánuði, eða 824.288 krónur fyrir allt árið.
Það er á ábyrgð hvers og eins hvernig persónuafsláttur er nýttur og að upplýsa launagreiðanda þannig að réttur skattur sé dreginn af launum við útborgun. Þetta á sér í lagi við ef launagreiðendur eru fleiri en einn.
Á þjónustuvef Skattsins er hægt að sjá hvernig persónuafsláttur hefur verið nýttur, best er að skoða það eftir sautjánda hvers mánaðar þegar allar upplýsingar hafa borist frá launagreiðendum.
Sjá nánar um skattgreiðslur barna og unglinga og persónuafslátt við flutning til Íslands.
Nýting persónuafsláttar
Persónuafsláttur safnast upp frá mánuði til mánaðar og ekki má ofnýta hann.
Ef persónuafsláttur er ekki fullnýttur, til dæmis hjá þeim sem vinna ekki allt árið, má nýta uppsafnaðan afslátt fyrir lok árs. Sjá nánar um uppsafnaðan persónuafslátt og persónuafsláttur við flutning til Íslands.
Makar geta samnýtt persónuafslátt, til dæmis ef annar er ekki með reglulegar tekjur. Sjá nánar um nýtingu persónuafsláttar maka.
Ef persónuafsláttur er ofnýttur eða ef staðgreiðsluskattur er greiddur í of lágu skattþrepi er mikilvægt að bregðast við því sem fyrst svo ekki verði skuld í lok árs.
Ofnýting á persónuafslætti getur til dæmis orðið við breytingar á borð við nýtt starf, fæðingarorlof eða þegar taka lífeyris hefst. Skatturinn sendir reglulega tilkynningar til þeirra sem hafa ofnýtt persónuafslátt og/eða greitt í röngu skattþrepi. Sjá nánar um ofnýttan persónuafslátt.
Nánar um persónuafslátt og skattþrep
Upplýsingar um stöðu persónuafsláttar á þjónustuvef Skattsins
Launagreiðendur og persónuafsláttur

Þjónustuaðili
Skatturinn