Persónuafsláttur og skattar þeirra sem búa erlendis
Námsmenn erlendis
Námsmönnum sem flytja lögheimili sitt erlendis vegna náms er ráðlagt að nota aðeins persónuafslátt þá daga sem dvalið er á Íslandi.
Upplýsa þarf launagreiðanda um komudag til landsins og ítreka að aðeins megi nota persónuafsláttinn frá þeim degi.
Á þjónustuvef Skattsins er hægt að sækja yfirlit um stöðu nýtingar persónuafsláttar sem margir launagreiðendur biðja um. Yfirlitið gefur ekki rétta mynd af rétti til uppsafnaðs persónuafsláttar hjá þeim sem búið hafa erlendis á árinu.
Yfirlitið byggir á því að viðkomandi hafi safnað rétti til persónuafsláttar frá áramótum en það á ekki við um þau sem búa erlendis.
Á skattframtali árið eftir geta námsmenn sótt um að halda skattalegum réttindum (skattaleg heimilisfesti) á Íslandi, þrátt fyrir búsetu erlendis. Verði sú umsókn samþykkt fæst persónuafsláttur fyrir allan námstímann á tekjuárinu, ekki bara fyrir dvalartíma á Íslandi.
Sjá nánar um skattalega heimilisfesti.
Persónuafsláttur á móti lífeyrisgreiðslum og fæðingarorlofi
Einstaklingar sem búsettir eru erlendis en fá greiðslur frá Íslandi geta átt rétt á persónuafslætti hér. Það veltur á því hvort gerður hefur verið tvísköttunarsamningur við ríkið sem viðkomandi býr í og þá hvað samningurinn kveður á um.
Þetta getur átt við um greiðslur svo sem:
Lífeyrisgreiðslur (frá almannatryggingum (TR) og almennum- og opinberum lífeyrissjóðum)
Örorkulífeyri
Fæðingarorlof
Atvinnuleysisbætur
Einstaklingar sem búsettir eru á einhverju öðru Norðurlandanna greiða fullan tekjuskatt og útsvar hérlendis vegna eftirlauna eða lífeyrisgreiðslna frá Íslandi. Tekið er tillit til persónuafsláttar á móti slíkum greiðslum.
Sama á við um einstaklinga sem búsettir eru í ríki sem ekki hefur gert tvísköttunarsamning við Ísland.
Einstaklingar sem búsettir eru t.d. í Póllandi eða á Spáni geta sótt um undanþágu frá greiðslu tekjuskatts og útsvars vegna eftirlauna, lífeyrisgreiðslna eða almannatrygginga frá Íslandi.
Að öðru leyti gilda ákvæði tvísköttunarsamninga sé einstaklingur búsettur í ríki sem gert hefur samning við Ísland.
Nánari upplýsingar um skattskyldu
Tekjur að fullu skattskyldar erlendis
Kveði tvísköttunarsamningur á um að launa- eða lífeyristekjur frá Íslandi séu skattskyldar í búseturíki má sækja um undanþágu frá greiðslu staðgreiðslu á Íslandi á eyðublaði RSK 5.49.

Þjónustuaðili
Skatturinn