Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Persónuafsláttur við flutning til Íslands

Einstaklingar búsettir erlendis eiga almennt ekki rétt á persónuafslætti á Íslandi. Einstaklingar sem flytja til Íslands eða dvelja hér tímabundið vegna starfa hér eiga almennt rétt á persónuafslætti frá komudegi til brottfarardags.

Frá því eru þó undantekningar (sjá kafla um ríkisborgara utan EES/EFTA).

Flutningur til Íslands

Réttur til persónuafsláttar er bundinn við þann tíma sem dvalið er á Íslandi. Eigi að nýta persónuafslátt þarf að upplýsa launagreiðanda um komudag til landsins og ítreka að aðeins megi nota afsláttinn frá þeim degi.

Á þjónustuvef Skattsins er hægt að sækja yfirlit um stöðu nýtingar persónuafsláttar sem margir launagreiðendur biðja um. Yfirlitið gefur ekki rétta mynd af rétti til uppsafnaðs persónuafsláttar hjá þeim sem búið hafa erlendis á árinu.

Yfirlitið byggir á því að viðkomandi hafi safnað rétti til persónuafsláttar frá áramótum en það á ekki við um þau sem búa erlendis.

Yfirlit yfir nýtingu persónuafsláttar

Á þjónustuvef Skattsins

Ríkisborgarar ríkja utan EES/EFTA

Einstaklingar sem koma til Íslands frá ríkjum öðrum en EES/EFTA-ríkjum þurfa að vera með lögheimili á Íslandi til að nýta persónuafslátt. Það er ekki nóg að sýna eingöngu fram á dvöl á landinu.

Til að eiga rétt á persónuafslætti þarf viðkomandi að vera með ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi. Það þýðir að allar tekjur og eignir, hvaðan sem þær koma eða eru staðsettar í heiminum, eru skattskyldar á Íslandi nema í gildi sé tvísköttunarsamningur sem kveði á um annað.

Heimild til nýtingar persónuafsláttar er því frá þeim tíma sem lögheimili er skráð í Þjóðskrá.

Undantekningin er sú að ef einstaklingur fær launatekjur áður en lögheimili er skráð á hann rétt til persónuafsláttar vegna þeirra greiðslna á grundvelli takmarkaðrar skattskyldu. Í þeim tilvikum má ekki flytja ónýttan persónuafslátt til þess maka sem er með lögheimili á Íslandi.

Nýting persónuafsláttar maka

Til að eiga rétt á millifærðum persónuafslætti frá maka þurfa báðir aðilar að vera með lögheimili á Íslandi og uppfylla skilyrði um samsköttun. Sjá nánar um persónuafslátt maka.

Ef skráning lögheimilis hefur verið gerð afturvirkt í Þjóðskrá, þá er hægt að óska eftir því á skattframtali að nýta persónuafslátt maka frá því að skráningin tók gildi.

Þjónustuaðili

Skatt­urinn