Persónuafsláttur maka
Hjón og samskattað sambúðarfólk geta nýtt persónuafslátt hvors annars, til dæmis ef annar makinn er ekki með reglulegar tekjur.
Skipta má persónuafslættinum eftir þörfum, en leyfilegt hámark fyrir samnýtingu persónuafsláttar er tvöfalt hámark einstaklings. Sjá leyfilega hámarksnýtingu eftir mánuðum.
Eigi að nýta persónuafslátt maka þarf að upplýsa launagreiðanda um það, meðal annars hversu hátt hlutfall á að nýta og frá hvaða tíma.
Ef maki á uppsafnaðan persónuafslátt er hægt að nýta hann, en gæta þarf þess að fara ekki yfir hámarksnýtingu ársins.
Hægt er að sækja upplýsingar um nýtingu persónuafsláttar á þjónustuvef Skattsins og senda launagreiðanda. Ef samnýting persónuafsláttar er þegar í gangi þarf að skoða yfirlit beggja maka (sjá neðar).
Hætt að nýta persónuafslátt maka
Ef annað hjóna eða samskattaðra (maki A) hefur nýtt persónuafslátt hins (maki B) á árinu, en ætlunin er að breyta því, er nauðsynlegt að gæta að upplýsingagjöf til launagreiðenda.
Huga þarf að eftirfarandi:
Tilkynna launagreiðanda A að hætta eigi nýtingu frá og með ákveðnum tíma
Athuga hvort einhver persónuafsláttur sé ónýttur
Tilkynna launagreiðanda B að byrja megi að nýta persónuafslátt frá ákveðnum tíma
Upplýsa launagreiðanda B um stöðu nýtingar. Mikilvægt er að skoða yfirlit yfir nýtingu persónuafsláttar bæði hjá A og B til að fá rétta heildarmynd.
Lesið rétt úr yfirlitum
Athugið að þar sem yfirlitið yfir nýtingu persónuafsláttar af þjónustuvef Skattsins sýnir bara nýtingu einstaklings getur það gefið villandi mynd þegar um samsköttun er að ræða. Þá er annar makinn (maki A) skráður með ofnýttan persónuafslátt og hinn (maki B) með samsvarandi uppsafnaðan persónuafslátt, en nýtingin verður gerð upp í lok ársins.
Í dæminu hér fyrir ofan þarf því maki B að passa að launagreiðandi hafi réttar upplýsingar um stöðuna þegar breytingin er gerð.
Umsókn um samsköttun í nýrri sambúð
Einstaklingar í óvígðri sambúð geta óskað eftir samsköttun og þar með nýtt persónuafslátt hvors annars. Hafi sambúðarfólk óskað eftir samsköttun á framtali þarf ekki að sækja um það aftur.
Hjón eru ávallt samskatta og þurfa ekki að sækja um.
Skilyrði er að umsækjendur séu skráðir í sambúð í Þjóðskrá og uppfylli eitt af eftirfarandi skilyrðum:
Sambúð hefur varað samfellt í 12 mánuði eða lengur
Umsækjendur eiga barn saman
Umsækjendur eiga von á barni saman
Heimild til samsköttunar og nýtingar persónuafsláttar maka á staðgreiðsluári er veitt til bráðabirgða og endanleg nýting persónuafsláttar við álagningu ræðst af því að sameiginlegu skattframtali hafi verið skilað og að forsendur til samsköttunar séu til staðar.
Hvernig er persónuafsláttur samskattaðra gerður upp?
Við álagningu opinberra gjalda eftir að skattframtölum hefur verið skilað gildir eftirfarandi:
Persónuafsláttur kemur til lækkunar á tekjuskatti og útsvari ársins hjá viðkomandi.
Ef afgangur verður af persónuafslætti færist hann til maka.
Ef enn er eftir ónýttur persónuafsláttur ganga 22/31 (tæp 71%) til greiðslu á skatti á fjármagnstekjur.
Það sem þá kann að standa eftir fellur niður.

Þjónustuaðili
Skatturinn