Uppsafnaður persónuafsláttur
Persónuafsláttur, sem ekki er nýttur innan mánaðarins, safnast upp og leyfilegt er að nýta hann síðar á árinu.
Hægt er að skoða töflu um leyfilega hámarksnýtingu eftir mánuðum til að sjá hvort persónuafsláttur hafi safnast upp á árinu.
Nýting uppsafnaðs persónuafsláttar
Ef nota á uppsafnaðan persónuafslátt við útborgun launa þarf að óska sérstaklega eftir því við launagreiðanda.
Á yfirliti yfir nýtingu persónuafsláttar á þjónustuvef Skattsins er hægt að nota hnappinn „Sækja yfirlit til launagreiðanda“ (fyrir neðan töfluna) og senda skjalið til launagreiðanda. Best er að gera það eftir sautjánda hvers mánaðar þegar allar upplýsingar hafa borist.
Einstaklingar búsettir erlendis eiga almennt ekki rétt á persónuafslætti á Íslandi. Þetta á einnig við um íslenska ríkisborgara. Einstaklingar sem flytja til Íslands eða dvelja hér tímabundið vegna starfa hér eiga almennt rétt á persónuafslætti frá komudegi til brottfarardags. Sjá nánar um persónuafslátt við flutning til Íslands.
Afsláttur ekki fullnýttur á árinu
Persónuafsláttur sem ekki hefur verið nýttur færist ekki á milli ára.
Þegar tekjur ársins eru gerðar upp við álagningu (eftir að skattframtali hefur verið skilað) er nýting persónuafsláttar yfirfarin – ásamt nýtingu maka ef við á. Ef afgangur er af persónuafslætti gæti það skilað sér sem endurgreiðsla á ofgreiddum skatti.
Við álagningu er persónuafslætti ráðstafað í þessari röð:
Persónuafsláttur kemur til lækkunar á tekjuskatti og útsvari ársins hjá viðkomandi.
Ef afgangur verður af persónuafslætti færist hann til maka (ef við á).
Ef enn er eftir ónýttur persónuafsláttur ganga 22/31 (tæp 71%) til greiðslu á skatti á fjármagnstekjur.
Það sem þá kann að standa eftir fellur niður.
Hafa þarf í huga að möguleg endurgreiðsla tekur mið af því hversu mikið hefur verið greitt á árinu og hverjar niðurstöður álagningarinnar eru. Inneign gæti verið skuldajafnað á móti öðrum skuldum eftir viðeigandi reglum.
Sótt um endurgreiðslu á uppsöfnuðum persónuafslætti
Hafir þú greitt skatt á árinu en ljóst er að í árslok verði hluti persónuafsláttar ónýttur, mátt þú sækja um endurgreiðslu á greiddum skatti.

Þjónustuaðili
Skatturinn