Fara beint í efnið

Ísland.is appið

Með ríkið í vasanum

Persónuafsláttur og skattþrep við breytingar á störfum

Ef eitthvað breytist varðandi það hvaðan þú færð laun og lífeyri er mikilvægt að gæta að réttri notkun á persónuafslætti og skattþrepum.

Þetta á til dæmis við ef þú:

  • Skiptir um vinnu eða bætir við þig aukastarfi

  • Ferð í fæðingarorlof

  • Byrjar að fá greiddan lífeyri eða lífeyrisgreiðslur breytast

Sjá nánar um persónuafslátt og skattþrep aldraðra og lífeyrisþega.

Það er á þína ábyrgð að launagreiðendur hafi réttar upplýsingar um það hvernig á að nota þinn persónuafslátt og hvort aðrar greiðslur til þín geti haft áhrif á rétt skattþrep.

Lykilatriði við breytingar á störfum

Þegar þú skiptir um vinnu eða annað breytist varðandi störf þín þarft þú að upplýsa launagreiðendur um:

  1. Hvort þú ætlir að nýta persónuafslátt og þá hvaða dagsetningu á að miða við

  2. Hvort að þú eigir uppsafnaðan persónuafslátt

  3. Hvaða skattþrep á að nota

1: Rétt notkun persónuafsláttar

Þegar skipt er um vinnu eða farið í fæðingarorlof kemur oft fyrir að fleiri en einn launagreiðandi dregur þinn persónuafslátt frá skattgreiðslum. Til dæmis ef fyrri launagreiðandi á eftir að greiða þér uppsafnað orlof eða aðrar greiðslur.

Það er því mikilvægt að þú tilkynnir fyrri launagreiðanda um það hvenær þú vilt að nýting persónuafsláttar færist annað.

Ef greiðslur frá einum launagreiðanda eru að jafnaði hærri en 230.000 krónur á mánuði er einfaldast að nýta allan persónuafsláttinn þar. Annars er hægt að skipta persónuafslættinum milli greiðenda – og þú þarft þá að tilkynna þeim hversu mikið hver má nýta.

Reiknivél staðgreiðslu gæti hjálpað þér að ákveða bestu nýtingu persónuafsláttar. Mögulega getur launagreiðandi einnig veitt ráð.

2: Uppsafnaður persónuafsláttur

Ef þú átt uppsafnaðan persónuafslátt, til dæmis ef þú ert að koma úr hlutastarfi eða námi, getur þú látið launagreiðanda vita að þú viljir nýta þann afslátt til að draga frá skattgreiðslum.

Þú getur séð þína stöðu á þjónustusíðum Skattsins og borið hana saman við hámarksnýtingu eftir mánuðum.

Yfirlit yfir nýtingu persónuafsláttar

Á þjónustuvef Skattsins

Sjá nánar um uppsafnaðan persónuafslátt.

3: Rétt skattþrep

Ef þú færð tekjur frá fleiri en einum launagreiðanda skiptir máli að allir reikni skatta í réttu skattþrepi.

Ef mánaðarlaun fara yfir 472.005 kr. hjá einum launagreiðanda þurfa aðrir launagreiðendur að reikna staðgreiðslu af launum í næsta skattþrepi fyrir ofan. Ef mánaðarlaun fara yfir 1.325.127 kr. reiknast staðgreiðsla í þrepi þrjú af þeim hluta sem fer yfir þá upphæð.

Sjá nánar um persónuafslátt og skattþrep.

Þjónustuaðili

Skatt­urinn