Skattgreiðslur barna og unglinga
Mörkin milli þess að vera barn eða fullorðinn í skattgreiðslum liggja við 16 ára aldur. Miðað er við árið sem viðkomandi verður 16 ára – en ekki afmælisdaginn sjálfan.
Skattárið 2025 teljast þau sem eru fædd 2010 eða síðar vera börn.
Þau sem verða 16 ára á árinu
Á því ári sem þú verður 16 ára gilda sömu reglur um þig og fullorðna varðandi persónuafslátt og skattþrep.
Þú getur því frá 1. janúar nýtt fullan persónuafslátt, sem er núna 68.691 króna á mánuði.
Persónuafsláttur
Ef þú nýtir ekki persónuafsláttinn jafnóðum safnast hann upp og þú getur nýtt hann síðar á árinu, til dæmis á móti staðgreiðslu af sumarlaunum. Þú þarft þá að passa að láta launagreiðanda þinn vita að þú eigir uppsafnaðan persónuafslátt.
Ef þú hefur háar tekjur í stuttan tíma, til dæmis í sumarstarfi, getur komið fyrir að þú greiðir staðgreiðsluskatt af einhverjum launagreiðslum – en átt síðan ónýttan persónuafslátt í árslok. Ofgreiddur skattur er þá endurgreiddur í júní árið eftir, þegar þú hefur skilað framtali og tekjuárið hefur verið gert upp.
Á þjónustuvef Skattsins er hægt að sjá yfirlit yfir launagreiðslur og hvernig persónuafsláttur hefur verið nýttur, best er að skoða það eftir sautjánda hvers mánaðar þegar allar upplýsingar hafa borist frá launagreiðendum.
Mögulegt er að sækja um endurgreiðslu fyrr í sérstökum tilfellum, meðal annars fyrir námsmenn.
Persónuafslátt ungmenna er ekki hægt að nýta af öðrum (t.d. foreldrum).
Að skila fyrsta framtalinu
Þú þarft að skila þínu fyrsta skattframtali árið sem þú verður 17 ára.
Skattframtal er samantekt þeirra atriða sem geta haft áhrif á álagningu skatta, t.d. launatekjur, vaxtatekjur, ýmsar eignir, kaup og sala þeirra og skuldir.
Skattframtali á að skila í mars á hverju ári óháð því hvort þú hafir haft tekjur eða ekki.
Álagning er uppgjör á þeim sköttum sem greiða þarf vegna ársins á undan og byggir á skattframtalinu. Álagningin liggur fyrir í lok maí ár hvert og þá kemur í ljós hvort þú þurfir að greiða meiri skatt eða fáir endurgreitt.
Skattar barna
Börn greiða ekki skatt af tekjum (launum) undir 180.000 kr. á ári. Það er kallað frítekjumark.
Fyrir tekjur sem fara yfir 180.000 kr. á ári er greiddur 6% skattur.
Dæmi: Barn hefur alls 250.000 kr. tekjur á árinu. Fyrst er frítekjumark dregið frá og þá eru eftir 70.000 kr. Af þeim er greiddur 6% skattur, sem eru 4.200 krónur.
(Skattgreiðslan skiptist í 4% tekjuskatt til ríkisins og 2% útsvar til sveitarfélags).

Þjónustuaðili
Skatturinn