Fara beint í efnið

Kæruleiðir vegna úrskurða Tryggingastofnunar

Ef þú ert ósammála niðurstöðu, meðferð eða úrlausn umsókna eða beiðna þinna til Tryggingastofnunar getur þú:

Senda erindi til umboðsmanns

Umboðsmaður veitir leiðbeiningar  um meðferð mála hjá Tryggingastofnun og aðstoðar þau sem telja sig ekki hafa fengið efnislega umfjöllun eða úrlausnir í samræmi við gildandi lög og reglur.

Netfang umboðsmanns er umbodsmadur@tr.is

Þangað sendir þú:

  • lýsingu á málinu,

  • hvaða úrbóta eða breytinga er óskað varðandi meðferð eða úrlausn málsins.

Umboðsmaður tekur mál ekki fyrir ef það:

  • er í vinnslu innan TR,

  • er til meðferðar hjá kæruferli hjá úrskurðarnefnd velferðarmála, Umboðsmanni Alþingis eða hjá dómstólum og niðurstaða liggur ekki fyrir

  • eru meira en tvö ár liðin frá niðurstöðu málisins hjá TR

Kæra til úrskurðarnefndar velferðarmála

Úrskurðarnefnd velferðarmála er stjórnsýslunefnd sem úrskurðar í kærumálum velferðarmála. Nefndin er sjálfstæð og óháð í störfum sínum og heyrir undir félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.

Kæruferli

Til að kæra ákvörðun TR til úrskurðarnefndar velferðarmála þarft þú:

  • að kæra innan þriggja mánaða frá því að þér var tilkynnt ákvörðun TR

  • afrit af bréfinu með niðurstöðu TR, hægt er að nálgast það undir Mín skjöl á Mínum síðum

Hægt er að óska eftir rökstuðningi TR fyrir ákvörðuninni til að hafa með í kærugögnum, en það er ekki krafa.

Ekki er nauðsynlegt að fá lögfræðing til að kæra til úrskurðarnefndar. Allir geta sent inn kæru til nefndarinnar vegna sinna mála.

Nánari upplýsingar má finna á vef úrskurðarnefndarinnar.

Þjónustuaðili

Trygg­inga­stofnun