Barnaveiki er sjúkdómur af völdum bakteríu sem er mjög smitandi og leggst í byrjun á efri öndunarveg. Sjúkdómurinn lýsir sér sem svæsin hálsbólga með skánum á slímhúðum í munni og nefi. Bakterían sjálf framleiðir eiturefni sem berst út í blóðið og er skaðlegt vefjum líkamans t.d. hjartavöðva, nýrum og taugakerfi. Sýklalyf drepa bakteríuna, en koma ekki í veg fyrir eituráhrifin. Barnaveiki getur orðið mjög alvarlegur sjúkdómur og leitt til dauða en 40-50% þeirra sem ekki fá meðferð við sjúkdómnum deyja af völdum hans.
Faraldsfræði
Barnaveiki var mjög algengur sjúkdómur á árum áður en sjaldgæfur í dag vegna þess hve öflug og víðtæk bólusetningin gegn honum er. Síðast greindist barnaveiki á Íslandi á árinu 1953. Sjúkdómurinn smitast auðveldlega milli manna og sýnir reynsla margra Austur-Evrópuríkja að þessi sjúkdómur eins og aðrir sjúkdómar geta breiðst út ef slakað er á bólusetningum. Óbólusett börn undir 5 ára aldri og fullorðnir einstaklingar yfir 60 ára eru útsettastir fyrir smiti.
Smitleiðir og meðgöngutími
Barnaveiki er mjög smitandi. Bakterían berst milli manna með dropa- eða úðasmiti frá öndunarfærum þ.e. með hósta, hnerra eða hlátri sem síðan berst með höndum í slímhúðir munns eða nefs. Það líða einungis 2-4 dagar frá smiti og þar til einkenni sjúkdómsins koma fram. Bakterían getur einnig borist í líkamann í gegnum sár á húð. Dæmi eru um að einkennalausir einstaklingar geti verið smitberar án þess að veikjast sjálfir.
Sjúkdómseinkenni
Einkenni sjúkdómsins geta verið einstaklingsbundin. Algengustu einkennin eru mikil hálsbólga með grárri skán sem leggst yfir slímhúð í munni og koki með tilheyrandi kyngingar- og öndunarerfiðleikum. Við þetta bætist stækkaðir eitlar á hálsi, hæsi og óskýr rödd, hraður hjartsláttur, særindi í nefslímhúð, bólginn efrigómur, hitavella, tvísýni og ónot.
Sjúkdómurinn getur orðið mjög alvarlegur. Þykk skán sem fylgir sjúkdómnum getur lagst yfir öndunarveginn og komið í veg fyrir að viðkomandi geti andað. Þá gefur bakterían frá sér eiturefni sem getur borist með blóði til hinna ýmsu líffæra þ.m.t. til nýrna, hjarta og taugakerfis og þannig skert starfsemi þeirra eða valdið varanlegum skaða jafnvel lömun.
Ef barnaveikisbakterían berst í líkamann gegnum húð eru einkennin yfirleitt vægari en til viðbótar öðrum einkennum geta myndast gulir blettir eða eymsli í húð.
Greining
Í byrjun þá líkjast einkenni barnaveiki slæmri hálsbólgu með hitaslæðingi og bólgnum eitlum. En það sem greinir barnaveiki frá öðrum áþekkum sjúkdómum er eiturefni sem bakterían gefur frá sér og myndar þykka gráa skán sem sest á slímhúðir í nefi, koki og öndunarvegum og getur valdið öndunar- og kyngingarörðuleikum. Hægt er að greina sjúkdóminn með því að taka sýni frá hálsi og setja í ræktun.
Meðferð
Nær alltaf þarf að leggja þá sem veikjast af barnaveiki inn á sjúkrahús og eru þeir hafðir í einangrun. Þegar greining liggur fyrir er gefið mótefni gegn eituráhrifum bakteríunnar en einnig penicillin. Aðrar afleiðingar af völdum eiturs sem bakterían gefur frá sér s.s. á hjartavöðva og nýru eru meðhöndlaðar sérstaklega. Þegar sjúkdómurinn er mjög alvarlegur getur sjúklingurinn þurft að fara í öndunarvél.
Nauðsynlegt er að bólusetja alla í nánasta umhverfi þess sem sýktur er til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu. Þegar sjúklingur hefur náð sér eftir veikindin á 4-6 vikum þarf hann bólusetningu til að koma í veg fyrir að hann fái sjúkdóminn aftur síðar.
Forvarnir
Bólusetning er eina vörnin gegn sjúkdómnum. Barnaveiki er mjög sjaldgæf nú á dögum vegna þess hve öflug og víðtæk bólusetningin er gegn henni. Endurtaka þarf bólusetningu gegn barnaveiki á 10 ára fresti ef hætta er á smiti. Hætta á smiti getur orðið við ferðalög til vanþróaðra landa eða svæða þar sem barnaveiki er landlæg.
Tilkynningarskylda - skráningarskylda
Tilkynningarskyldir sjúkdómar eru þeir sem náð geta mikilli útbreiðslu í samfélaginu og jafnframt ógnað almannaheill. Læknum ber að tilkynna sóttvarnalækni um einstaklinga sem veikjast af barnaveiki með persónuauðkennum hins smitaða en einnig berast tilkynningar til sóttvarnalæknis frá rannsóknarstofum sem staðfesta sjúkdómsgreininguna. Tilgangur tilkynningar um smitsjúkdóm er að hindra útbreiðslu smits með markvissum aðgerðum t.d. með einangrun, meðferð smitaðra og rakningu smits milli einstaklinga. Til þess að fullnægja þessum skilyrðum verða upplýsingar um líklegan smitunarstað, smitunartíma og einkenni að fylgja tilkynningum. Þannig má tengja smitaða einstaklinga með faraldsfræðilegum hætti, meta áhrif smitsins og grípa til viðbragða.
Stífkrampi er alvarleg sýking sem orsakast af bakteríu sem nefnist Clostridium tetani. Baktería þessi er til staðar víða í náttúrunni, svo sem í jarðvegi og húsdýraskít en hún finnst í þörmum manna og dýra (sem eru grasætur) án þess að valda þar skaða. Þegar bakterían berst í sár framleiðir hún eitur sem leggst á miðtaugakerfi manna, veldur stífleika og krömpum sem geta verið lífshættulegir.
Faraldsfræði
Stífkrampabakterían finnst í öllum löndum. Hún er algengust í heitum löndum en finnst einnig hér á landi einkum á sumrin. Sýkingar af völdum bakteríunnar eru sjaldgæfar í þeim löndum þar sem bólusetning gegn henni er almenn en í þeim löndum sem ekki er bólusett er dánartíðni há.
Smitleiðir og meðgöngutími
Smit verður vegna óhreininda sem komast í stungusár eða opin sár. Bakterían býr um sig í sárinu og fer að framleiða eitur sem berst með blóðrásinni um líkamann og leggst einkum á miðtaugakerfið og vöðva. Frá því að smit verður geta liðið allt frá einum degi upp í einn mánuð fyrir einkenni að koma fram en algengast er að þau komi fram eftir 6-8 daga. Smit berst ekki á milli manna.
Einkenni sjúkdómsins
Fyrstu einkenni sýkingar geta verið hiti, sviti, hraður púls, pirringur og staðbundnir verkir í vöðvum næst sárinu. Einnig getur sést stífleiki í kjálka, samdráttur í andlitsvöðvum, erfiðleikar við kyngingu og öndun. Kramparnir og stífleikinn geta breiðst út um allan líkamann s.s. til kvið- og bakvöðva og valdið öndunar- og hjartastoppi.
Greining
Sjúkdómurinn er yfirleitt greindur af sögu og einkennunum. Hægt er einnig að greina bakteríuna í stroki frá sárinu.
Meðferð
Til er móteitur sem virkar ef nægilega fljótt er gripið til þess. Önnur meðferð er sárameðferð, sýklalyf og lyf við krömpum. Alvarleg sýking af völdum stífkrampa krefst sjúkrahússinnlagnar.
Forvarnir
Eina örugga vörnin er bólusetning. Hér á landi eru börn bólusett við 3, 5 og 12 mánaða aldur og endurbólusett við 4ra og 14 ára aldur. Þar sem að verndandi áhrif bólusetningar endist ekki ævilangt þá er mælt með endurbólusetningu ef liðin eru meira en 10 ár frá síðustu bólusetningu hjá einstaklingi sem fær óhreinindi í sár. Ekki er mælt með reglubundinni endurbólusetningu fullorðinna.
Stífkrampi er tilkynningarskyldur sjúkdómur.
Sjá nánar:
http://www.ecdc.europa.eu/en/healthtopics/tetanus/Pages/index.aspx
Kíghósti er alvarleg öndunarfærasýking hjá börnum einkum á fyrstu mánuðum ævinnar en hjá unglingum og fullorðnum þekkist sjúkdómurinn af langvarandi og þrálátum hósta en í raun er algengara að sýkingin valdi einfaldlega kvefeinkennum hjá þessum aldurshópum. Sýkingin stafar af bakteríu sem framleiðir eiturefni sem veldur slæmum hóstaköstum sem geta verið lífshættuleg hjá börnum á fyrstu 6 mánuðum ævinnar.
Faraldsfræði
Á árunum í kringum 1930–1940 létust þúsundir manna af völdum kíghósta en með tilkomu bóluefnis gegn sjúkdómnum hefur dregið mjög úr dánartíðni af völdum hans. Útbreiðsla sjúkdómsins hefur þó farið vaxandi síðustu 20 árin og telur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin að á milli 20–40 milljónir tilfella komi upp árlega í heiminum og þá aðallega í þróunarlöndum.
Þrátt fyrir góða þátttöku í bólusetningu gegn kíghósta þá hafa komið upp faraldrar á 3–5 ára fresti í mörgum löndum hjá fullorðnum og eldri börnum. Ástæðan er sú að verndandi áhrif bólusetningarinnar eru mest fyrstu árin í kjölfar bólusetningar og þarf endurtekna örvunarskammta til að viðhalda verndinni. Bólusetning ver þar að auki ekki alfarið gegn smiti, heldur fyrst og fremst gegn alvarlegum veikindum.
Smitleiðir og meðgöngutími
Smit berst milli manna með úða frá öndunarfærum (t.d. með hósta og hnerra). Einstaklingar eru smitandi frá því einkenni koma fram og almennt í 2 vikur eftir að hósti byrjar. Meðgöngutími sjúkdómsins, það er sá tími sem líður frá því að einstaklingur smitast og þar til sjúkdómseinkenni koma fram, er yfirleitt um 2–3 vikur.
Einkenni sjúkdómsins
Einkennin eru í fyrstu vægt kvef, síðan vaxandi hósti, slímsöfnun og slæm hóstaköst, sérstaklega á næturnar. Eftir um það bil tvær vikur færast einkennin í vöxt með áköfum hóstaköstum og fylgir þeim einkennandi soghljóð við innöndun. Önnur einkenni eru hnerri, nefrennsli og hiti. Einkenni sjúkdómsins geta verið til staðar í allt að 10 vikur. Ungum börnum á fyrstu 6 mánuðum ævinnar er sérlega hætt við alvarlegum afleiðingum sýkingarinnar sem geta verið öndunarstopp, krampar, lungnabólga, truflun á heilastarfsemi og dauði.
Greining
Sjúkdóminn má staðfesta með sýnatöku úr nefi/nefkoki og leit að erfðaefni bakteríunnar (PCR-próf). Taka skal sýni sem fyrst eftir upphaf veikinda. Hálsstrok er mun lakara sýni til að greina kíghósta en nefkoksstrok.
Ræktun bakteríunnar úr nefi/nefkoki og mótefnamælingar í blóði eru mögulegar rannsóknaraðferðir sem er lítið beitt núorðið.
Meðferð
Meðferð fer eftir hversu alvarlegur sjúkdómurinn er. Sýklalyf gera lítið gagn, nema mjög snemma á sjúkdómsferlinum, þá fyrst og fremst til að draga úr smiti bakteríunnar til annarra. Önnur meðferð lítur að hvíld, vökvainntöku og næringu. Lítil börn með kíghósta þurfa iðulega að dveljast langtímum á sjúkrahúsi.
Forvarnir
Bólusetning er áhrifarík til að koma í veg fyrir sjúkdóminn hjá ungum börnum. Mikilvægt er að byrja að bólusetja ung börn því sjúkdómurinn er hættulegastur hjá börnum yngri en 6 mánaða. Hér á landi eru börn bólusett við 3, 5 og 12 mánaða aldur og endurbólusett við 4 og 14 ára aldur. Bóluefnið verndar ekki lengur en í um 10 ár og því er möguleiki á að smitast síðar á ævinni. Víða erlendis hefur verið mælt með reglubundinni endurbólusetningu fullorðinna en hér á landi er eingöngu mælt með reglubundinni endurbólusetningu heilbrigðisstarfsmanna.
Bólusetning barnshafandi kvenna dregur verulega úr sjúkdómi hjá börnum á fyrsta ári, sérstaklega börnum undir 3ja mánaða aldri sem hafa ekki fengið bólusetningu sjálf. Frá árinu 2019 hefur öllum barnshafandi konum verið boðin bólusetning gegn kíghósta í mæðravernd.
Stöðva dreifingu kíghósta
Frá því að einkenni byrja þurfa einstaklingar með kíghósta að draga eins og kostur er úr umgengni við ungbörn og í u.þ.b. tvær vikur eftir að hósti byrjar (ef bólusettir innan 10 ára) eða lengur (óbólusettir eða lengra en 10 ár frá síðasta skammti). Fólk með kíghósta er almennt smitandi þegar einkenni koma fram og í 2 vikur eftir að hósti byrjar, samtals oft um 4 vikur. Óbólusettir geta verið smitandi lengur.
Forðastu að vera nálægt ungum börnum (<1 árs) og barnshafandi konum meðan þú ert smitandi.
Forðastu fjölmennar samkomur í u.þ.b. tvær vikur og notaðu andlitsgrímu ef þú þarft að fara á staði þar sem aðrir eru meðan einkenni eru veruleg.
Ef barn í leikskóla eða skóla fær kíghósta er rétt að fjölskylda barnsins geri skólanum viðvart svo hægt sé að upplýsa aðstandendur annarra barna um kíghóstasmit í skólanum. Fjölskyldur í viðkvæmri stöðu vegna kíghósta geta þá fengið ráðleggingar hjá sínum lækni um aðgerðir til að draga úr smithættu innan fjölskyldunnar.
Hafðu samband við heilsugæsluna (netspjall, skilaboð á Heilsuveru eða hringja) ef þú hefur verið í námunda við einstakling með kíghósta og þú ert ekki bólusett/-ur.
Hvernig má komast hjá að börn fái kíghósta?
Bólusetning gegn kíghósta með tveimur skömmtum bóluefninu er örugg vörn.
Á Íslandi er kíghósta bólusetning gefin við 3, 5 og 12 mánaða aldur og endurbólusett við 4 og 14 ára aldur.
Fylgikvillar kíghósta
Oftast batnar kíghósti án þess að valda verulegum vandamálum. Þau sem eru í mestri hættu á fá fylgikvilla eru börn sem eru yngri en 1 árs, sérstaklega yngri en 6 mánaða og óbólusett.
Minni hætta er á fylgikvillum hjá eldri börnum og fullorðnum og hjá bólusettum almennt.
Bólusetning barnshafandi kvenna dregur verulega úr sjúkdómi hjá börnum á fyrsta ári, sérstaklega börnum undir 3ja mánaða aldri sem hafa ekki fengið bólusetningu sjálf. Mælt er með bólusetningu gegn kíghósta á hverri meðgöngu.
Hjá börnum yngri en 6 mánaða og sérstaklega yngri en 3ja mánaða, sem ekki eru bólusett, er mikil hætta á alvarlegum veikindum með fylgikvillum eins og öndunarstoppi, krömpum, lungnabólgu, heilabólgu og jafnvel dauða.
Algengir fylgikvillar
Yngri en 1 árs:
Öndunarstopp
Lungnabólga
Krampar
Eldri börn og unglingar (í tengslum við hóstaköst):
Yfirlið
Rifbrot
Sjaldgæfir fylgikvillar
Yngri en 1 árs:
Heilabólga
Dauði
Sjá nánar:
Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins - ECDC. Kíghósti (pertussis)
Kíghósti greinist á Íslandi. Frétt á vef 10. apríl 2024
Tilkynningarskylda
Tilkynningarskyldir sjúkdómar eru þeir sjúkdómar sem náð geta mikilli útbreiðslu í samfélaginu og jafnframt ógnað almannaheill. Læknum ber að tilkynna sóttvarnalækni um einstaklinga sem veikjast af kíghósta með persónuauðkennum hins smitaða en einnig berast tilkynningar til sóttvarnalæknis frá rannsóknarstofum sem staðfesta sjúkdómsgreininguna. Tilgangur tilkynningar um smitsjúkdóm er að hindra útbreiðslu smits með markvissum aðgerðum t.d. með einangrun, meðferð smitaðra og rakningu smits milli einstaklinga. Til þess að fullnægja þessum skilyrðum verða upplýsingar um líklegan smitunarstað, smitunartíma og einkenni að fylgja tilkynningum. Þannig má tengja smitaða einstaklinga með faraldsfræðilegum hætti, meta áhrif smitsins og grípa til viðbragða.
Mænusótt eða lömunarveiki er smitsjúkdómur af völdum veiru sem leggst getur á taugakerfi líkamans og valdið lömun sem leitt getur til dauða. Þeir sem eru í mestri hættu á að veikjast af sjúkdómnum eru nýburar, ung börn og óbólusettir einstaklingar. Hættan á að lamast af völdum sjúkdómsins eykst með hækkuðum aldri.
Faraldsfræði
Frá því að byrjað var að bólusetja gegn sjúkdómnum árið 1955 hefur náðst mikill árangur og hefur nánast tekist að útrýma sjúkdómnum úr heiminum. Samt sem áður ógnar mænusótt enn ungum börnum í fátækari löndum þar sem aðgengi að bóluefni er takmarkað.
Smitleiðir og meðgöngutími
Mænusóttarveiran er mjög smitandi og getur borist í menn með úðasmiti þ.e. með úða frá öndunarfærum (t.d. með hnerra) en einnig með saurmengun í drykkjarvatni og mat. Veiran getur verið til staðar í margar vikur í hægðum þeirra sem eru smitaðir. Til að verjast smiti er hreinlæti mikilvægt og er þar góður handþvottur mikilvægastur.
Einkenni sjúkdómsins
Langflestir eða um 90-95% af þeim sem veikjast fá væg flensulík einkenni sem geta lýst sér sem almennur slappleiki, hiti, minnkuð matarlyst, ógleði, uppköst, særindi í hálsi, hægðatregða og magaverkir. Alvarlegri einkenni eru verkir og minnkaður kraftur í stoðkerfi líkamans, hnakkastífleiki, vöðvarýrnun, hæsi, erfiðleikar við öndun og kyngingu. Í alvarlegustu tilfellunum verður vöðvalömun, lömun á þvagblöðru og einkenni eins og óróleiki, ósjálfrátt slef og þaninn kviður.
Greining
Auk læknisskoðunar er hægt að greina mænusóttarveiruna með því að mæla mótefni gegn veirunni í blóði og í heila-og mænuvökva. Einnig er hægt að greina veiruna í saur- eða þvagsýni og í stroki frá hálsi.
Meðferð
Engin meðferð eða lyf eru til sem lækna sjúkdóminn. Almennt beinist meðferð að því að draga úr einkennum.
Forvarnir
Bólusetning er áhrifarík til að koma í veg fyrir sjúkdóminn hjá ungum börnum. Mikilvægt er að byrja að bólusetja ung börn því sjúkdómurinn er hættulegastur yngstu börnunum. Hér á landi eru börn bólusett við 3, 5 og 12 mánaða aldur og endurbólusett við 14 ára aldur. Bóluefnið verndar ekki lengur en í 10 ár og því er möguleiki á að smitast síðar á ævinni. Mælt er með að fullorðnir láti bólusetja sig gegn mænusótt á 10 ára fresti ef þeir ferðast til landa þar sem hætta er á smiti.
Tilkynningarskylda
Tilkynningarskyldir sjúkdómar eru þeir sjúkdómar sem náð geta mikilli útbreiðslu í samfélaginu og jafnframt ógnað almannaheill. Læknum ber að tilkynna sóttvarnalækni um einstaklinga sem veikjast af mænusótt með persónuauðkennum hins smitaða en einnig berast tilkynningar til sóttvarnalæknis frá rannsóknarstofum sem staðfesta sjúkdómsgreininguna. Tilgangur tilkynningar um smitsjúkdóm er að hindra útbreiðslu smits með markvissum aðgerðum t.d. með einangrun, meðferð smitaðra og rakningu smits milli einstaklinga. Til þess að fullnægja þessum skilyrðum verða upplýsingar um líklegan smitunarstað, smitunartíma og einkenni að fylgja tilkynningum. Þannig má tengja smitaða einstaklinga með faraldsfræðilegum hætti, meta áhrif smitsins og grípa til viðbragða.
Sjá nánar:
Bólusetningar við mænusótt/lömunarveiki vegna ferðalaga (frétt janúar 2020)
Haemophilus influenzae er hópur baktería sem eru flokkaðar eftir gerð þeirra. Haemophilus influenzae b eða Hib getur orsakað alvarlega sjúkdóma svo sem heilahimnubólgu, barkabólgu, lungnabólgu, blóðsýkingu og liðbólgur auk annarra vægari sýkinga sem geta þó verið þrálátar s.s.sýkingu í efri loftvegum, kinnholum og eyrnabólgum. Alvarlegustu sýkingarnar af völdum bakteríunnar eru barkabólga, blóðsýkingar og heilahimnubólga sem getur verið lífshættuleg og er það einkum sú tegund sýkingar sem fjallað er um hér.
Faraldsfræði
Hib var algengasta orsök heilahimnubólgu af völdum baktería hjá börnum frá tveggja mánaða til fimm ára aldurs. Um 10% þeirra sem fengu heilahimnubólgu af völdum Hib dóu. Bólusetning gegn þessari bakteríu hefur verið mjög árangursrík. Frá því byrjað var að bólusetja gegn Hib hér á Íslandi árið 1989, hefur ekkert tilfelli greinst af heilahimnubólgu eða öðrum alvarlegum sýkingum af völdum bakteríunnar, en fyrir þann tíma greindust u.þ.b. 10 börn á ári með heilahimnubólgu. Börn sem ekki hafa verið bólusett eru í sérstakri hættu ekki síst ef þau eru á leikskólaaldri. Fullorðnir geta líka sýkst af bakteríunni.
Smitleiðir og meðgöngutími
Haemophilus influenzae baktería berst oftast á milli manna með úða frá öndunarfærum (t.d. hósta og hnerra), Einstaklingar sem bera bakteríuna getað smitað aðra þrátt fyrir að vera einkennalausir.
Einkenni sjúkdómsins
Einkenni heilahimnubólgu af völdum Hib svipar til einkenna heilahimnubólgu af völdum annarra baktería eða veira. Helstu einkenni geta verið hiti, höfuðverkur, ljósfælni, hnakkastífleiki, liðverkir, uppköst, minnkuð meðvitund, krampar auk óróleika hjá ungum börnum og að þau neiti öllum mat. Blóðsýkingar af völdum Hib geta komið fram á öllum aldri. Barkabólga er algengust í aldurshópnum 5–10 ára.
Greining
Mikilvægt er að greina sýkingu af völdum haemophilus influenzae b fljótt svo hægt sé að hefja meðferð sem fyrst. Bakterían er greind með sýni frá sýkingarstað.
Meðferð
Helsta meðferð við haemophilus influenzae eru sýklalyf. Önnur meðferð lítur að hvíld, vökvainntekt og næringu.
Forvarnir
Bóluefni gegn Haemophilus inflenzae b hefur verið í notkun síðan á níunda áratug síðustu aldar. Bóluefnið er hluti af bóluefni gegn kíghósta, barnaveiki, stífkrampa og mænusótt (gefið í einni sprautu). Börn eru bólusett við 3ja , 5 og 12 mánaða aldur og gefur bólusetningin um 95% vörn. Þátttaka á Íslandi í bólusetningu gegn þessum sjúkdómum hefur verið með ágætum á undanförnum árum eða tæplega 95%. Foreldrar eru hvattir til að halda áfram góðri þátttöku í bólusetningum því aðeins á þann hátt má halda þessum alvarlega smitsjúkdómi frá landinu. Hægt er að gefa einstaklingum sem útsettir eru fyrir smiti viðeigandi sýklalyf í forvarnarskyni.
Tilkynningarskylda
Tilkynningarskyldir sjúkdómar eru þeir sem náð geta mikilli útbreiðslu í samfélaginu og jafnframt ógnað almannaheill. Læknum ber að tilkynna sóttvarnalækni um einstaklinga sem veikjast af haemophilus influenzae b sjúkdómi með persónuauðkennum hins smitaða en einnig berast tilkynningar til sóttvarnalæknis frá rannsóknarstofum sem staðfesta sjúkdómsgreininguna. Tilgangur tilkynningar um smitsjúkdóm er að hindra útbreiðslu smits með markvissum aðgerðum t.d. með einangrun, meðferð smitaðra og rakningu smits milli einstaklinga. Til þess að fullnægja þessum skilyrðum verða upplýsingar um líklegan smitunarstað, smitunartíma og einkenni að fylgja tilkynningum. Þannig má tengja smitaða einstaklinga með faraldsfræðilegum hætti, meta áhrif smitsins og grípa til viðbragða.
Pneumókokkar (Streptococcus pneumoniae) eru bakteríur sem geta valdið alvarlegum og lífshættulegum sjúkdómum einkum hjá ungum börnum og fullorðnum einstaklingum yfir 60 ára. Bakterían finnst í slímhúðum í nefi og hálsi hjá frískum einstaklingum í öllum aldurshópum einkum ungum börnum án þess að valda sjúkdómseinkennum. Bakteríurnar geta tekið sig upp, dreift sér um líkamann og valdið sjúkdómum.
Algengustu sýkingar af völdum pneumókokka eru bráðar og þrálátar miðeyrnabólgur, kinnholusýkingar og lungnabólgur hjá ungum börnum. Hættulegustu sýkingarnar eru heilahimnubólga og blóðsýkingar sem geta komið fram sem aðskildir sjúkdómar eða samhliða og kallast þá ífarandi sýkingar. Í dag eru pneumókokkar algengasta orsök heilahimnubólgu af völdum baktería.
Faraldsfræði
Sjúkdómar af völdum pneumókokka hafa verið viðvarandi heilsufarsvandamál hér á landi. Svo virðist sem tíðni alvarlegra sýkinga af völdum þessara baktería sé hærri hér á landi en í mörgum nálægum löndum. Ífarandi pneumókokkasýkingar hafa verið nokkuð stöðugar sl. 10 ár en að jafnaði greinast um 50 einstaklingar á ári með alvarlega sýkingu, þar af eru um 10 börn undir 5 ára aldri og síðan eru það einkum fullorðnir einstaklingar sem komnir eru yfir sextugt sem sýkjast. Ífarandi sýkingar eru sjaldgæfar meðal barna og fullorðinna í öðrum aldurshópum. Eftir að almenn bólusetning gegn pneumókokkum var tekin inn í barnabólusetningar á árinu 2011 hefur ífarandi sýkingum hjá börnum fækkað. Dánartíðni af völdum þessara sjúkdóma er um 10% hér á landi.
Smitleiðir og meðgöngutími
Bakterían smitast á milli manna með úða frá öndunarvegum. Talið er að einungis 1–3 dagar líði frá smiti þar til sjúkdómseinkenni koma fram.
Einkenni sjúkdómsins
Sýkingar af völdum pneumókokka koma oft í kjölfar kvefpesta eða flensu og líkjast einkennin því oft sýkingum af völdum annarra baktería eða veira. Algengar sýkingar af völdum pneumókokka eru sýkingar í miðeyra, bólgur í kinnholum, í slímhúðum augna og lungnabólga. Einkenni heilahimnubólgu eða blóðsýkingar geta komið mjög snöggt með háum hita, hnakkastífleika, óróleika og sljóleika, í kjölfarið geta komið fram krampar, minnkuð meðvitund og lost. Þetta skal alltaf hafa í huga hjá börnum undir 3 ára aldri með óútskýrðan hita og áberandi veikindi.
Greining
Greina má pneumókokka í smásjá og með ræktun sýna.
Meðferð
Nauðsynlegt er að meðhöndla sjúklinga með alvarlega pneumókokkasýkingu með sýklalyfjum sem fyrst á sjúkrahúsi. Til eru um hundrað hjúpgerðir pneumókokka og eru flestar þeirra næmar fyrir penicillíni, en sýklalyfjaónæmi hefur látið á sér bera hér á landi. Mikilvægt er að fara að læknisráði við töku sýklalyfja og klára þann skammt sem lagt er upp með.
Forvarnir
Bólusetning gegn sjúkdómnum er öflugasta forvörnin. Með því að bólusetja gegn hættulegustu stofnum bakteríunnar má koma í veg fyrir allt að 90% sjúkdóma af völdum pneumókokka hjá börnum yngri en fimm ára. Einnig má ætla að bólusetning dragi úr bráðum og þrálátum miðeyrnabólgum hjá börnum um allt að 30% og lungnabólgum hjá sama aldurshópi um allt að 37%. Þá er þess vænst að árleg sýklalyfjanotkun hjá þessum hópi minnki um allt að fjórðung en það myndi draga úr hættunni á útbreiðslu sýklalyfjaónæmra pneumókokka. Frá árinu 2011 eru börn hér á landi bólusett gegn pneumókokkum við 3, 5 og 12 mánaða aldur.
Bóluefni
Í dag eru til tvenns konar bóluefni gegn pneumókokkum, fjölsykrubóluefni og proteintengd bóluefni. Fjölsykrubóluefni hafa verið á markaði í nokkurn tíma og hefur verið mælt með notkun þeirra hjá einstklingum eldri en 60 ára og einstaklingum með ónæmisbælandi sjúkdóma. Sjá hér leiðbeiningar um notkun pneumókokkabóluefna. Fjölsykrubóluefni gagnast hins vegar ekki börnum yngri en 2 ára og því eru á markaði próteintengd bóluefni fyrir þennan aldurshóp.
Aukaverkanir beggja bóluefnanna eru vægar og svipar til aukaverkana annarra bóluefna.
Alvarlegum aukaverkunum hefur ekki verið lýst.
Pnemókokkasýking er tilkynningarskyldur sjúkdómur.
Sjá einnig upplýsingar um pneumókokka á vef Sóttvarnarstofnunar Evrópu (ECDC)
Sjúkdómurinn
Heilahimnubólga og blóðsýking af völdum meningókokka baktería, Neisseria meningitides, valda svonefndum meningókokkasjúkdómi. Slíkar sýkingar leiða oftast til dauða ef ekki er brugðist skjótt við með viðeigandi greiningu og meðferð. Sjúkdómurinn er algengastur í börnum en getur komið fyrir á öllum aldri. Útbreiðsla hans er oft tilviljanakennd en hann getur stundum orðið að faraldri. Því er mikilvægt að fylgst sé náið með sjúkdómnum svo hægt sé að grípa til aðgerða ef fjöldi tilfella verður mikill.
Faraldsfræði og forvarnir
Sjúkdómurinn hefur í gegnum tíðina verið alvarlegt heilsufarsvandamál á Íslandi. Á síðasta áratug 20. aldar var meningókokka-sjúkdómur sérlega algengur hér, með nýgengi um þrefalt hærra en á hinum Norðurlöndunum af óþekktum orsökum. Hæst fór nýgengið upp í 11 tilfelli á hverja 100.000 íbúa á ári. Dánartíðni hérlendis hefur verið um 8,6% greindra tilfella en almennt er reiknað með um 10% dánartíðni við meningókokkasjúkdóm, þrátt fyrir meðferð. Meningókokkar skiptast í margar mismunandi gerðir, en þær sem helst valda sjúkdómi eru gerðir A, B, C, W, X og Y. Hjúpgerðirnar hafa mismunandi landfræðilega dreifingu. Hér á landi hafa einkum gerð B og C valdið sjúkdómi, en eftir að bólusetning gegn meningókokkum C hófst á Íslandi 2002 hefur sú hjúpgerð horfið af sjónarsviðinu hér á landi. Ýmis Evrópulönd hafa átt við faraldra vegna hjúpgerðar C á undanförnum 5 árum, en bóluefnið er ekki í útbreiddri notkun í flestum löndum Evrópu. Hjúpgerð B hefur verið algengust orsök meningókokkasjúkdóms víða á Vesturlöndum, þ.m.t. á Íslandi eftir 2002. Bóluefni við gerð B var lengi í þróun en nú eru komin 2 bóluefni á Evrópumarkað. Annað þeirra er notað hjá ungbörnum t.d. í Bretlandi og má einnig gefa unglingum, en hitt bóluefnið er eingöngu ætlað til notkunar hjá eldri einstaklingum. Sem stendur er tíðni meningókokka B mjög lág á Íslandi og bóluefni því ekki í bólusetningaráætlun okkar. Þau eru fáanleg gegn lyfseðli á kostnað einstaklings.
Sýkingar vegna hjúpgerða X og W hafa færst í aukana í Evrópu á undanförnum árum. Bóluefni við hjúpgerð W er nú notað í ungbarnabólusetningum og er einnig fáanlegt þar sem ferðamannabólusetningar eru framkvæmdar en bóluefni við hjúpgerð X hefur ekki verið þróað.
Vísbendingar eru um að annað bóluefnanna við hjúpgerð B kunni að hafa krossónæmisverkun gegn hjúpgerð X en frekari rannsókna er þörf. Bóluefni gegn hjúpgerðum A, B, C, W og Y (fimmgilt bóluefni) er í þróun, a.m.k. fyrir eldri börn og fullorðna.
Einkenni sjúkdómsins
Einkenni sjúkdómsins geta verið lúmsk og í upphafi líkst venjulegri kvefpest eða flensu. Ungbörn veikjast oft með ósértækum einkennum eins og minnkaðri meðvitund, óróleika, höfnun á fæðu, ógleði eða niðurgangi og hita.
Sértæk einkenni eru hnakkastífleiki eða bungun á hausamótum ef þau eru enn opin og punktblæðingar, rauðleit útbrot sem lýsast ekki ef beitt er þrýstingi á þær. Síðkomin einkenni eru hátóna skrækir, meðvitundarleysi, höfuð fett aftur, lost og útbreiddir marblettir og greinilegar blæðingar í húð.
Hjá eldri börnum og fullorðnum eru ósértæk einkenni höfuðverkur, ógleði og bak- og liðverkir. Sértæk einkenni eru hnakkastífleiki, ljósfælni, ruglástand og punktblæðingar eða marblettir.
Heilahimnubólgu eða blóðsýkingu skal alltaf hafa í huga hjá barni með óútskýrðan hita og áberandi veikindi. Hnakkastífleiki er ekki alltaf til staðar og er því mikilvægt að líta eftir húðblæðingum eða marblettum. Ef saman fer hiti og húðblæðingar þarf sjúklingur að komast á spítala án tafar.
Meðferð
Nauðsynlegt er að meðhöndla sjúklinga með meningókokkasjúkdóm sem fyrst á sjúkrahúsi með sýklalyfjum. Þrátt fyrir öflugar nútímalækningar er dánartala sjúkdómsins há eða tæp 9% hér á landi.
Þegar einstaklingur greinist með alvarlega meningókokkasýkingu geta einstaklingar í nánasta umhverfi þurft á fyrirbyggjandi lyfjagjöf að halda. Ef faraldur kemur upp vegna hjúpgerðar sem til er bólusetning við er mikilvægt að beita viðeigandi bólusetningum til að hefta útbreiðslu.
Meningókokkasjúkdómur er tilkynningarskyldur sjúkdómur.
Hlaupabóla orsakast af varicella zoster (herpes zoster) veiru sem er skyld herpes simplex (frunsu) veirunni. Yfirleitt er um vægan sjúkdóm að ræða en í einstaka tilfellum getur hlaupabóla orðið að alvarlegum sjúkdómi. Í kjölfar hlaupabólusýkingar tekur veiran sér bólfestu í taugum líkamans og liggur þar dulin. Hún getur síðar tekið sig upp og valdið svokölluðum ristli sem einkennist af sársaukafullum staðbundnum útbrotum.
Faraldsfræði
Hér á landi fá nánast allir hlaupabólu einhvern tímann á lífsleiðinni en á suðlægari slóðum er sjúkdómurinn ekki eins algengur. Íslensk rannsókn sem birt var 2009 (sjá tengil hér að neðan) leiddi í ljós að 97,5% íslenskra barna mynda mótefni gegn hlaupabólu á aldrinum 1–10 ára og 50% á aldrinum 1–4 ára. Því er ljóst að mikill fjöldi íslenskra barna fær hlaupabólu á leikskólaaldri.
Hlaupabóla virðist ekki ganga í stórum faröldrum eins og margir aðrir barnasjúkdómar en er viðvarandi í samfélaginu allt árið. Árstíðabundnar sveiflur eru þó oft á tíðni sjúkdómsins og eiga flest tilfelli sér stað um miðjan vetur fram á vor.
Einkenni sjúkdómsins
Sjúkdómurinn varir í 7–10 daga hjá börnum en lengur hjá fullorðnum. Oftast stafar engin hætta af sjúkdómnum og flestir fá hlaupabólu bara einu sinni á ævinni.
Sjúkdómurinn lýsir sér með útbrotum á bol og andliti til að byrja með en einnig geta þau komið fram í hársverði og á útlimum. Stundum berast útbrotin yfir í slímhúðir og kynfæri. Oft verður vart við slappleika og vægan hita í einn til tvo daga áður en útbrot koma fram og varir hitinn áfram hjá börnum og unglingum í 2–3 daga samhliða útbrotunum. Útbrotin byrja sem litlar rauðar bólur sem eftir nokkra klukkutíma verða að vessafylltum blöðrum, blöðrurnar verða síðan að sárum á 1–2 dögum, loks myndast hrúður og þær þorna upp. Nýjar bólur geta bæst við í 3–6 daga. Það er mjög mismunandi hversu mikil útbrot hver einstaklingur fær. Önnur einkenni geta verið höfuðverkur, særindi í hálsi, lystarleysi og mögulega uppköst.
Helstu fylgikvillar sem geta komið í kjölfar hlaupabólu eru húðsýkingar og lungnabólga. Í sumum tilfellum getur hlaupabóla valdið heilabólgu og hjartavöðvabólgu. Alvarlegar hlaupabólusýkingar eru algengari hjá unglingum og fullorðnum heldur en yngri börnum. Dauðsföll eru fátíð, en koma fyrir, jafnvel hjá áður hraustum börnum. Ónæmisbælandi sjúkdómar s.s. hvítblæði, sterameðferð (t.d. vegna astma; ekki innúðasterar) og ónæmisbælandi meðferð, s.s. eftir líffæraígræðslu eða vegna krabbameins, auka verulega hættu á alvarlegri hlaupabólu og fylgikvillum.
Á árinu 2009 birtist grein um faraldsfræði hlaupabólu á Íslandi og þá fylgikvilla sem sjást hjá íslenskum börnum. Þar kom fram að 58 börn höfðu verið lögð inn á Landspítala á 20 ára tímabili með alvarlega fylgikvilla hlaupabólu.
Ristill getur komið fram hvenær sem er eftir hlaupabólusjúkdóm, jafnvel endurtekið og þá oft á sama stað á líkamanum. Ristilútbrot eru yfirleitt staðbundin við dreifingarsvæði einnar húðtaugar. Þeim fylgir yfirleitt kláði en þau geta líka verið mjög sársaukafull og eru kölluð vítiseldur (helvetesild) á norsku. Yfirleitt ganga einkenni yfir á nokkrum vikum en örfáir fá viðvarandi taugakvilla í kjölfarið. Ef ristill kemur fram á höfði/í andliti getur hann valdið blindu.
Greining
Útbrot hlaupabólu eru einkennandi fyrir sjúkdóminn og byggir greiningin á þeim. Einnig er hægt er að greina veiruna með ræktun frá útbrotum eða með blóðrannsókn í vafatilvikum. Sama er að segja um ristil.
Smitleiðir og meðgöngutími
Hlaupabóla er mjög smitandi sjúkdómur og er algengastur hjá börnum. Sjúkdómurinn smitast á milli manna með úða frá öndunarvegum og með beinni snertingu við vessa frá útbrotum.
Meðgöngutími sjúkdómsins þ.e.a.s. sá tími sem líður frá því að einstaklingur smitast þar til hann fer að fá einkenni geta verið 10–21 dagur. Einstaklingur getur smitað aðra allt að þremur dögum áður en hann fær sjálfur útbrot og er smitandi þar til allar bólur hafa sprungið og þornað upp. Einstaklingur með ristil getur smitað aðra af hlaupabólu.
Hafi einstaklingur ekki fengið hlaupabólu eru 90% líkur á að hann fái sjúkdóminn veikist einhver á heimilinu meðan það eru 10–35% líkur að börn sem eru í skólaumhverfi smitist. Einstaklingar með ristilútbrot geta líka smitað út frá sér, en smithættan fyrir næma heimilismenn er í kringum 20%, mun minni en við hlaupabólu.
Meðferð
Meðferðin felst einkum í því að halda kyrru fyrir, drekka vel og að draga úr kláða. Hægt er að lina kláðann með köldum bökstrum eða böðum. Haframjöl, matarsódi og kartöflumjöl hafa verið notuð í bakstra eða út í böð til að draga úr kláða. Einnig eru fáanleg í apótekum áburðir og froður til útvortis notkunar sem draga úr kláðanum. Þessi lyf draga einungis úr kláðanum tímabundið og við notkun þeirra ber að hafa í huga að þau geta valdið sviða í stutta stund. Ef kláðinn verður svo mikill að hann truflar svefn barnsins, er hægt að gefa því kláðastillandi lyf, andhistamín, sem þó getur haft sljóvgandi áhrif. Rétt er að fá ráðleggingar læknis um val á slíku lyfi og viðeigandi skammt fyrir barnið. Hægt er að gefa hitalækkandi lyf en gæta verður þess að þau innihaldi EKKI asetýlsalisýlsýru (aspirín).
Einnig er hægt að meðhöndla hlaupabólu með sértækum veirulyfjum og best er að hefja meðferðina á fyrstu 1–2 dögum veikindanna. Slík meðferð á helst við hjá ónæmisbældum einstaklingum eða þeim sem umgangast ónæmisbælda einstaklinga eða aðra sem eru í hættu á alvarlegum sýkingum og fylgikvillum hlaupabólu.
Forvarnir
Árið 1995 kom á markað lifandi bóluefni gegn hlaupabólu sem er mjög virkt og öruggt. Töluverður áhugi hefur verið á notkun þess og hefur framboð ekki annað eftirspurn. Bólusetning gegn hlaupabólu er nú hluti af almennum bólusetningum barna á Íslandi sem fædd eru 2019 eða síðar. Bóluefni má áfram gefa eldri börnum og fullorðnum einstaklingum sem ekki hafa alvarlega ónæmisbælingu eða aðrar frábendingar, gegn lyfseðli og á kostnað einstaklinganna sjálfra.
Hlaupabóla er tilkynningarskyldur sjúkdómur til sóttvarnalæknis, en til þeirra teljast sjúkdómar sem ógnað geta almannaheill.
Þegar grunur vaknar um þannig sýkingu eða hún hefur verið staðfest nægir að tilkynna til sóttvarnalæknis ef sjúklingur er lagður inná sjúkrahús.
Mislingar eru mjög smitandi sjúkdómur af völdum mislingaveiru. Mislingar byrja með kveflíkum einkennum sem koma yfirleitt fram 7–12 dögum eftir að þú smitaðist. Nokkrum dögum seinna byrja mislingaútbrot að koma fram.
Veikindin vara vanalega í 7–10 daga.
Besta vörnin gegn mislingum er að láta bólusetja sig með tveimur skömmtum af MMR bóluefni (ver gegn mislingum, rauðum hundum og hettusótt). Á Íslandi eru börn bólusett 18 mánaða og aftur 12 ára. Ekki má bólusetja barnshafandi konur og ráðlagt að komast hjá því að verða barnshafandi í einn mánuð eftir bólusetningu.
Ef þú hefur fengið mislinga hefur líkaminn myndað ónæmi gegn mislingaveirunni og afar ólíklegt að þú fáir aftur mislinga.
Gæti ég verið með mislinga?
Ef þú hefur fengið mislinga áður eða ert fullbólusettur með 2 skömtum af MMR bóluefni er ólíklegt að þú sért með mislinga. Fyrstu einkenni eru:
Kvefeinkenni svo sem almenn vanlíðan, nefrennsli, hnerri og hósti.
Roði og væta í augum og þau eru viðkvæm fyrir ljósi.
Líkamshiti er yfir 38°C og getur farið upp í 40°C.
Litlir hvítir punktar eru innan í kinnum (koma hjá flestum og áður en útbrotin koma fram, hverfur eftir nokkra daga, oft horfnir á öðrum degi útbrota).
Engin matarlyst.
Þreyta, pirringur og orkuleysi.
Mislingaútbrotin
Koma um 2–4 dögum eftir að fyrstu einkenni byrjuðu. Þau fölna og hverfa á u.þ.b. einni viku.
Versta líðanin er á 1. og 2. degi eftir að útbrotin koma fram.
Útbrotin samanstanda af litlum rauðbrúnum flötum eða örlítið upphækkuðum blettum, sem geta sameinast í stærri flekki.
Koma fyrst á höfuð og háls en dreifast síðan yfir allan líkamann.
Sumum klæjar.
Geta líkst útbrotum sem fylgja barnasjúkdómum t.d. rauðum hundum, fimmtu veikinni (roseola) o.fl.
Mjög ólíklegt er að útbrotin séu mislingar ef þú hefur fengið bólusetningu með tveimur skömmtum bóluefnis gegn mislingum.
Ef þú telur að þú gætir verið með mislinga er best að hafa strax samband við heilsugæsluna til að fá ráðleggingar um framhaldið.
Hvernig á að meðhöndla mislinga?
Til að lina einkenni mislinga:
Taka parasetamól eða íbúprófen til að lækka hita og draga úr verkjum og sársauka. Betri líðan með þessari meðferð stuðlar að betri vökvainntöku og lægri hiti dregur úr vökvatapi.
Drekka vel af vatni til að koma í veg fyrir þurrk.
Hafa dregið fyrir glugga til að draga úr ljósnæmi.
Nota raka bómull til að hreinsa í kringum augun.
Hafa góða loftræstingu.
Í alvarlegum tilfellum getur þurft að leggja þann veika inn á spítala:
Ef viðkomandi drekkur ekki vel, sérstaklega börn
Ef viðkomandi er andstuttur
Skarpur brjóstverkur
Blóð kemur með hósta
Syfja
Rugl
Krampar/flog
Hafðu samband við heilsugæsluna (netspjall, skilaboð á Heilsuveru eða hringja) ef þú hefur verið í námunda við einstakling með mislinga og þú ert ekki bólusett/-ur eða hefur ekki fengið mislinga.
Stöðva dreifingu mislinga
Til að draga úr hættu á dreifingu smits þarf hinn smitaði að vera heima í einangrun í a.m.k. í 5 daga frá því útbrotin byrjuðu, ef veikindi vara lengur er rétt að hafa hægt um sig þar til líðan er mun betri. Fólk með mislinga er almennt smitandi í 4 daga áður en það veikist og í 4 daga eftir að útbrot byrja en lengur ef áfram með einkenni eins og hita.
Ekki fara til vinnu, í skóla eða í leikskóla, eða í verslanir eða á hvers kyns samkomur.
Forðastu að vera nálægt ungum börnum og barnshafandi konum.
Ef barn í leikskóla eða skóla fær mislinga þarf að gera skólanum viðvart svo hægt sé að grípa til ráðstafana.
Hvernig má komast hjá að fá mislinga
Bólusetning gegn mislingum með tveimur skömmtum af MMR bóluefninu (ver gegn mislingum, hettusótt og rauðum hundum) er örugg vörn.
Á Íslandi er MMR bólusetning gefin við 18 mánaða aldur og endurtekin við 12 ára aldur.
Ekki má bólusetja barnshafandi konur.
Þeir sem hafa fengið mislinga eru varðir með mótefnum sem hafa myndast í líkama þeirra.
Ef einstaklingur sem ekki getur fengið bólusetningu hefur orðið útsettur fyrir smiti er möguleiki að gefa honum immúnóglóbúlín, sem er blóðafurð. Þetta á við um:
Börn undir 6 mánaða aldri.
Barnshafandi konur sem eru ekki fullbólusettar eða hafa ekki fengið mislinga áður.
Fólk með veiklað ónæmiskerfi
Fylgikvillar mislinga
Oftast batna mislingar án þess að valda meiri vandamálum. Þeir sem eru í mestri hættu á fá fylgikvilla eru:
Börn sem eru yngri en 1 árs.
Vannærð börn.
Börn með veiklað ónæmiskerfi t.d. vegna hvítblæðis.
Unglingar og fullorðnir.
Minnsta hættan er á fylgikvillum hjá börnum á skólaaldri.
Ef barnshafandi einstaklingur fær mislinga er mikil hætta á fósturláti, fyrirburafæðingu og fleiri vandamálum hjá móður og fóstri/nýbura.
Algengir fylgikvillar
Niðurgangur og uppköst sem getur leitt til ofþornunar.
Sýkingar í miðeyra sem getur valdið eyrnaverk.
Aðrar sýkingar, s.s. augnsýkingar, lungnabólga o.fl.
Aukin tíðni ýmissa bakteríusýkinga í a.m.k. nokkra mánuði eftir mislingaveikindin.
Óalgengir fylgikvillar
Blinda og önnur augnvandamál.
Heilahimnubólga eða heilabólga (lífshættulegt ástand).
Mislingalungnabólga (lífshættulegt ástand).
Lifrarbilun.
Síðkomin hæggeng herslisheilabólga (e. subacute sclerosing panencephalitis) getur komið fram seint hjá um einum af hverjum þúsund sem fá mislinga, oftast 7–10 árum eftir mislingasýkinguna, og er banvæn.
Sjá nánar:
Sýkingavarnir gegn mislingum. Útgefið í febrúar 2024
Mislingar greinast á Íslandi. Frétt á vef 3. febrúar 2024
Tilkynningarskylda
Tilkynningarskyldir sjúkdómar eru þeir sjúkdómar sem náð geta mikilli útbreiðslu í samfélaginu og jafnframt ógnað almannaheill. Læknum ber að tilkynna sóttvarnalækni um einstaklinga sem veikjast af mislingum með persónuauðkennum hins smitaða en einnig berast tilkynningar til sóttvarnalæknis frá rannsóknarstofum sem staðfesta sjúkdómsgreininguna. Tilgangur tilkynningar um smitsjúkdóm er að hindra útbreiðslu smits með markvissum aðgerðum t.d. með einangrun, meðferð smitaðra og rakningu smits milli einstaklinga. Til þess að fullnægja þessum skilyrðum verða upplýsingar um líklegan smitunarstað, smitunartíma og einkenni að fylgja tilkynningum. Þannig má tengja smitaða einstaklinga með faraldsfræðilegum hætti, meta áhrif smitsins og grípa til viðbragða.
Hettusótt er bráð og mjög smitandi veirusýking sem leggst oftar á börn en fullorðna. Sýkingin er yfirleitt hættulaus og gengur fljótt yfir en hún er þekkt fyrir að valda alvarlegum fylgikvillum sérstaklega hjá unglingum og fullorðnum. Flestir fá hettusótt bara einu sinni á ævinni.
Ef þú telur að þú gætir verið með hettusótt er best að hafa strax samband við heilsugæsluna til að fá ráðleggingar um framhaldið.
Faraldsfræði
Árin 2005/2006 og 2015 kom upp faraldur hettusóttar á Íslandi og voru það einkum einstaklingar um tvítugt sem ekki höfðu smitast af hettusótt sem börn eða fengið fullnægjandi bólusetningu gegn sjúkdómnum. Dregið hefur úr algengi sjúkdómsins hér á landi eftir að byrjað var að bólusetja gegn honum 1989. Það eru helst þeir sem fæddir eru fyrir þann tíma og hafa ekki fengið sjúkdóminn sem er hætt við að fá hann og svo óbólusettir einstaklingar.
Smitleiðir og meðgöngutími
Hettusótt smitast með munnvatni og dropum úr öndunarfærum og snertingu við þá, en droparnir eru það stórir að þeir berast skammt frá hinum smitaða (<1 metra). Einstaklingur sem fær hettusótt er smitandi frá tveimur dögum áður og í fimm daga eftir að einkenni koma fram.
Til að rjúfa smitleiðirnar er ráðlagt að einstaklingur með hettusótt forðist að vera innan um aðra frá því að sjúkdómurinn greinist þar til 5 dagar eru liðnir frá því bólgan kom í ljós með því að vera heima frá vinnu eða skóla, helst einn í herbergi ef aðrir á heimilinu eru næmir fyrir hettusótt. Ef þeir sem sinna hinum veika eru næmir fyrir hettusóttinni (hafa ekki fengið hettusótt eða eru ekki bólusettir) ættu þeir að hafa hlífðargrímu fyrir vitum sínum ef þeir eru í miklu návígi (innan við 1 metra), nota hlífðarhanska ef snerta þarf munnvatn eða slím úr öndunarvegi og þvo hendur eftir snertingu við mengað yfirborð á meðan smitandi tímabil varir. Þrífa má á hefðbundinn hátt með vatni og sápu og strjúka yfir helstu snertifleti í umhverfi hins smitaða með yfirborðsvirku sótthreinsiefni (t.d. 70% umhverfisspritti) á meðan veikindi standa.
Hafðu samband við heilsugæsluna (netspjall Heilsuveru, skilaboð á Heilsuveru eða hringja) ef þú hefur verið í námunda við einstakling með hettusótt og þú ert ekki bólusett/-ur eða hefur ekki fengið hettusótt.
Einkenni sjúkdómsins
Einkenni sjúkdómsins eru oftast væg hjá börnum en leggjast þyngra á unglinga og fullorðna. Helstu einkenni eru hiti, slappleiki, bólga og særindi í munnvatnskirtlum, höfuðverkur, erfiðleikar við að tyggja og lystarleysi.
Unglingar og fullorðnir fá frekar fylgikvilla en börn. Alvarlegir fylgikvillar geta verið, heilabólga, heyrnarskerðing, bólga í brjóstum, briskirtli, eggjastokkum eða eistum. Bólga í síðast töldu líffærunum getur valdið ófrjósemi.
Greining
Grunsemdir um sjúkdóminn fást með læknisskoðun, en staðfesting fæst með mótefnamælingu í blóði eða ræktun veirunnar í munnvatni.
Meðferð
Engin sértækt meðferð er til gegn hettusóttarveirunni. Einstaklingum með hettusótt er ráðlagt að drekka vel, vera í hvíld og nota verkjalyf. Halda skal börnum heima þar til einkenni sjúkdómsins hafa gengið yfir. Í alvarlegri tilvikum getur þurft að leggja sjúklinga inn á sjúkrahús.
Forvarnir
Bólusetning gegn hettusótt hófst hér á landi 1989 sem hluti af barnabólusetningum. Í dag eru börn bólusett með MMR (bóluefni gegn hettusótt, mislingum og rauðum hundum saman í einni sprautu) við 18 mánaða og 12 ára aldur sem hluti af almennri barnabólusetningu og gefur það góða vörn gegn sjúkdómnum.
Bólusetning eftir útsetningu er ekki með vissu gagnleg til varnar hettusóttarveikindum, því er ekki mælt með bólusetningu fólks með þekkta útsetningu fyrr en a.m.k. 3 vikum eftir síðustu umgengni við smitandi einstakling. Hinsvegar er rétt að óbólusett eða vanbólusett heimilisfólk, skólafélagar og samstarfsfólk útsettra fái bólusetningu sem fyrst, til að draga úr hættu á frekari dreifingu. Ekki er mælt með bólusetningu þeirra sem hafa fengið hettusótt, nema það vanti mislingabólusetningu.
Hverjir ættu að fá MMR bólusetningu vegna hettusóttar í nærumhverfi án beinnar útsetningar:
Áður vitanlega óbólusettir (enginn skammtur) einstaklingar fæddir 1980-2023 sem hafa náð 6 mánaða aldri þegar bólusetning er boðin.
Einstaklingar fæddir 1988-2011 sem eingöngu hafa fengið einn skammt af MMR bóluefni
Starfsmenn í heilbrigðisþjónustu sem hafa ekki með vissu fengið tvo skammta af MMR bóluefni, fæddir 1970-2000.
Starfsmenn í bráðaheilbrigðisþjónustu sem hafa fengið tvo skammta af MMR en liðin eru 10 ár frá skammti #2 mega fá þriðja skammt
Hverjir ættu ekki að fá MMR bólusetningu:
Barnshafandi.
Ónæmisbældir (skert frumubundið ónæmissvar) – algengasta orsök bælingar á frumubundnu ónæmi er notkun ónæmisbælandi lyfja (stera, krabbameinslyfja og líftæknilyfja).
Aldur undir 6 mán.
Gelatínofnæmi.
Fólk sem þegar er bólusett með tveimur skömmtum af MMR sem ekki starfar í bráðaheilbrigðisþjónustu.
Bólusetningar fara fram á heilsugæslustöðvum og þarf að hafa samband við heilsugæsluna á dagvinnutíma, t.d. í skilaboðum eða netspjalli á Heilsuveru, til að fá upplýsingar um aðgengi, ráðleggingar eða tíma í bólusetningu.
Tilkynningarskylda
Tilkynningarskyldir sjúkdómar eru þeir sem náð geta mikilli útbreiðslu í samfélaginu og jafnframt ógnað almannaheill. Læknum ber að tilkynna sóttvarnalækni um einstaklinga sem veikjast af hettusótt með persónuauðkennum hins smitaða en einnig berast tilkynningar til sóttvarnalæknis frá rannsóknarstofum sem staðfesta sjúkdómsgreininguna. Tilgangur tilkynningar um smitsjúkdóm er að hindra útbreiðslu smits með markvissum aðgerðum t.d. með einangrun, meðferð smitaðra og rakningu smits milli einstaklinga. Til þess að fullnægja þessum skilyrðum verða upplýsingar um líklegan smitunarstað, smitunartíma og einkenni að fylgja tilkynningum. Þannig má tengja smitaða einstaklinga með faraldsfræðilegum hætti, meta áhrif smitsins og grípa til viðbragða.
Rauðir hundar er veirusjúkdómur sem veldur oftast vægum einkennum hjá börnum en getur lagst þyngra á fullorðna. Í stöku tilfellum getur þessi veirusýking valdið liðbólgum og heilabólgu hjá heilbrigðum einstaklingum. Veikist kona af rauðum hundum á meðgöngu er hætta á alvarlegum fósturskaða einkum ef það gerist á fyrstu þrem mánuðum meðgöngunnar. Fósturskaði getur verið heyrnarskerðing, blinda, vansköpun, hjartagalli, vaxtarskerðing og jafnvel fósturlát. Hafi stúlka ekki verið bólusett þykir það kostur að hún fái sjúkdóminn áður en hún verður kynþroska.
Faraldsfræði
Almenn bólusetning undanfarna áratugi gegn rauðum hundum hefur komið í veg fyrir faraldra af völdum sjúkdómsins hér á landi. Af og til koma þó upp tilfelli á meðal óbólusettra. Þeim sem er hættast er við að fá sjúkdóminn er nokkuð stór hópur óbólusettra karlar sem fæddir eru fyrir 1988 og hafa ekki fengið sjúkdóminn.
Smitleiðir og meðgöngutími
Sjúkdómurinn berst með andrúmsloftinu (úðasmiti) á milli manna og geta liðið tvær til þrjár vikur þar til sjúkdómseinkenni koma fram. Sjúkdómurinn er mest smitandi þegar hann hefur náð hámarki en einnig er hann smitandi vikuna áður en útbrot koma fram og vikuna eftir að þau hverfa.
Einkenni sjúkdómsins
Einkenni geta verið mismunandi eftir einstaklingum en algengustu einkennin eru rauð eða brúnleit útbrot sem byrja oft í kringum eyrun eða í andliti en breiðast síðan fljótt út um líkamann og geta nánast orðið að einni samfelldri hellu. Einnig fylgir oftast vægur hiti, stækkaðir eitlar á hálsi og höfuðverkur. Einkennin ganga vanalega til baka á u.þ.b. þremur dögum. Þessi einkenni geta svipað til annarra veirusjúkdóma eins og mislinga og hlaupabólu. Dæmi eru um að sjúkdómseinkenni geta verið svo væg að viðkomandi verður þeirra ekki var.
Greining
Hægt er að skera úr um hvort um rauða hunda er að ræða með því að taka strok frá hálsi eða með blóðsýni þar sem leitað er mótefna.
Meðferð
Engin sérstök meðferð er við sjúkdómnum önnur en sú að fólki er ráðlagt að hafa hægt um sig meðan sjúkdómurinn gengur yfir. Allir í nánasta umhverfi þess sem veikur er eru í smithættu hafi þeir ekki verið bólusettir gegn rauðum hundum eða fengið sjúkdóminn.
Forvarnir
Með bólusetningu allra í þjóðfélaginu er hægt að hindra að faraldra af rauðum hundum komi upp. Bólusetning gegn rauðum hundum hófst hér á landi árið 1977 hjá konum á barnseignaraldri sem ekki höfðu mótefni gegn veirunni en því fyrirkomulagi var hætt árið 2001. Almenn bólusetning allra 18 mánaða barna hófst árið 1989 með MMR bóluefni. Endurbólusetning hófst síðan hjá 9 ára börnum árið 1997 en árið 2001 var aldur endurbólusetningar hækkaður í 12 ár. Full bólusetning í dag er því við 18 mánaða og 12 ára aldur hjá bæði drengjum og stúlkum.
Þunguðum konum sem ekki mælast með mótefni gegn rauðum hundum er ráðlagt að fá bólusetningu eftir fæðingu barnsins þannig að nær allar konur á barnseignaraldri hér á landi eru ónæmar gegn rauðum hundum. Talið er að 90% fóstra geti skaðast sýkist móðurinn á fyrsta þriðjungi meðgöngu. Stúlkur sem bólusettar eru gegn rauðum hundum ættu að forðast að verða þungaðar á næstu þrem mánuðum á eftir.
Rauðir hundar er tilkynningarskyldur sjúkdómur.
Sjá einnig upplýsingar um rauða hunda á vef Sóttvarnarstofnunar Evrópu (ECDC).
HPV og bólusetning gegn HPV-sýkingum og leghálskrabbameini
HPV (Human Papilloma Virus) er grunnorsök forstigsbreytinga- og krabbameins í leghálsi. Veiran er mjög algeng og er talið að um 80% kvenna smitist af henni einhvern tímann á ævinni. Veiran smitast við kynmök og er einkum algeng hjá ungu fólki sem lifir virku kynlífi.
HPV hefur meira en 100 undirtegundir. Um það bil 40 þeirra geta valdið sýkingum í kynfærum bæði karla og kvenna og þar af eru 15–17 stofnar sem tengjast krabbameini (há-áhættu stofnar). Sýking af völdum há-áhættu stofna HPV getur leitt til forstigsbreytinga í leghálsi og leghálskrabbameins. Þessar sömu tegundir geta einnig valdið sýkingum í öðrum líffærum sem geta þróast yfir í krabbamein, s.s. í endaþarmi, leggöngum og í ytri kynfærum bæði kvenna og karla, en einnig getur veiran valdið krabbameini í munnholi, hálsi og berkjum og smitast þá við munnmök. HPV af öðrum stofnum (lág-áhættu stofnar) geta valdið vörtum, t.d. á kynfærum.
Faraldsfræði
Leghálskrabbamein er næstalgengasta krabbameinið hjá konum um heim allan. Á Íslandi greinast árlega um 1700 konur með forstigsbreytingar í leghálsi og 15-20 konur með leghálskrabbamein. Meðalaldur kvenna með forstigsbreytingar er um 30 ár og kvenna með leghálskrabbamein um 45 ár og lifa um 80% þeirra síðarnefndu í fimm ár eða lengur frá greiningu. Sjá nánar á vef Krabbameinsfélags Íslands.
Tíðni HPV í öðrum krabbameinum á Íslandi er ekki eins vel þekkt en hefur farið vaxandi hér á landi og víða um heim á undanförnum áratugum. Hér á landi hefur verið staðfest að HPV 16 er algengasta veirugerðin í krabbameinum í koki.
Talið er að HPV eigi þátt í þróun 5% allra krabbameina á heimsvísu.
Einkenni
Sýkingar af völdum veirunnar geta verið þrálátar en í langflestum tilfellum eyðir ónæmiskerfi líkamans þeim innan fárra mánaða án nokkurra afleiðinga. Ef sýking nær fótfestu og verður viðvarandi aukast líkur á forstigsbreytingum og síðar krabbameini ef ekkert er að gert.
Forstigsbreytingar í leghálsi valda ekki augljósum einkennum um sýkingu en hafi breytingarnar þróast yfir í krabbamein geta komið fram einkenni eins og:
Blæðing úr leggöngum eftir samfarir
Óeðlileg útferð úr leggöngum
Verkir í kynfærum
Þessi einkenni eru ekki bara bundin við leghálskrabbamein. Sýkingar af öðrum orsökum geta valdið sams konar einkennum. Verði þessara einkenna vart er nauðsynlegt að leita til læknis þrátt fyrir að síðasta leghálsstrok kunni að hafa verið eðlilegt.
HPV-tengd krabbamein á öðrum stöðum, s.s. í endaþarmi, munnholi/koki eða á ytri kynfærum geta komið fram sem fyrirferðir eða þykkildi, geta valdið verkjum og það getur blætt frá þeim.
Meðferð
Engin meðferð er til við HPV-sýkingum en hægt er að greina forstigsbreytingar krabbameins með frumustroki frá leghálsi. Ef forstigsbreytingarnar eru vægar er fylgst með þróun þeirra og hvort ónæmiskerfi líkamans vinnur á sýkingunni. Það er gert með reglulegri læknisskoðun þar sem tekið er frumustrok frá leghálsi sem er sent frumurannsóknarstofu Krabbameinsfélagsins til nánari skoðunar frumubreytinga undir smásjá og/eða sérstakrar leitar að HPV.
Alvarlegar og/eða þrálátar forstigsbreytingar eru meðhöndlaðar með keiluskurði en hafi krabbamein þegar myndast er þremur meginaðferðum beitt, þ.e. skurðaðgerð, geislum og krabbameinslyfjameðferð.
Bóluefnin
Á Íslandi hafa verið notuð tvö bóluefni gegn þeim tegundum HPV sem einkum valda leghálskrabbameini. Bóluefnin eru Cervarix og Gardasil 9. Síðarnefnda bóluefnið inniheldur að auki mótefnavaka gegn þeim tegundum veirunnar (HPV-6/11) sem valda kynfæravörtum.
Bóluefnið Cervarix inniheldur mótefnavaka HPV-16 og HPV-18 sem eru langalgengustu há-áhættu stofnar HPV. Bóluefnið hefur þar að auki sýnt umtalsverð krossónæmisáhrif gegn týpum 31/33/45 sem einnig geta valdið krabbameini. Cervarix var notað í almennum bólusetningum fyrir stúlkur 2011-2023. Gardasil 9 inniheldur einnig mótefnavaka HPV-16/18 en að auki mótefnavaka há-áhættu stofna 31/33/45/52/58. Það er nú notað óháð kyni fyrir öll 12 ára börn. HPV-bóluefnin verja ekki gegn öllum stofnum veirunnar sem geta valdið leghálskrabbameini en með bólusetningu má koma í veg fyrir meirihluta krabbameinstilfella. Ekki er hægt að fullyrða með vissu í hve langan tíma áhrif bóluefnisins vara en allt bendir til að sá tími sé mörg ár, hugsanlega ævilangt.
Bólusetning
Í samræmi við samþykkt Alþingis frá því í lok árs 2010 hófu heilbrigðisyfirvöld bólusetningar gegn HPV haustið 2011. Byrjað var að bólusetja stúlkur fæddar 1998 og 1999 en lengst hefur bólusetningin eingöngu átt við 12 ára stúlkur þar sem megintilgangur var að hindra þróun leghálskrabbameins. Frá 2023 nær bólusetningin til allra 12 ára barna, óháð kyni, og er HPV-bólusetningin þar með hluti af almennum bólusetningum allra barna.
Bólusetningin er fyrst og fremst fyrirbyggjandi en læknar ekki sjúkdóma sem orsakast af HPV-sýkingum. Bóluefnið er gefið í tveimur sprautum með að minnsta kosti 6 mánaða millibili. Einn skammtur veitir töluverða vörn og eru bólusetningar í sumum löndum nú miðaðar við einn skammt. Hér á landi eru upplýsingar um ávinning bólusetningar til að draga úr útbreiðslu HPV sýkinga enn að koma fram og hefur ekki verið álitið tímabært að fækka skömmtum úr tveimur í einn.
Eldri einstaklingar eiga kost á að fá bóluefnið gegn lyfseðli og með því að greiða fyrir það.
Þar sem ekki fæst full vörn gegn krabbameinsvaldandi HPV með bólusetningunni er mikilvægt fyrir konur að fara reglulega í leghálskrabbameinsleit þar sem tekið er frumustrok frá leghálsi til greiningar forstigsbreytinga eða krabbameins á byrjunarstigi. Breiðvirkari bóluefni og útbreiddari bólusetningar á heimsvísu munu mögulega draga úr notagildi skimunar í framtíðinni, en skimun er enn mjög mikilvæg til að hindra þróun krabbameins meðan HPV er enn útbreidd í samfélaginu.
Þjónustuaðili
Embætti landlæknis