Bólusetning er ónæmisaðgerð sem ætlað er að koma í veg fyrir alvarlegan smitsjúkdóm. Bóluefnin eru ýmist unnin úr heilum, veikluðum eða deyddum sýklum (veirum, bakteríum) eða þau innihalda efni sem finnast í þessum sýklum. Bóluefnin sjálf valda oftast litlum einkennum en kenna varnarkerfi líkamans, ónæmiskerfinu, að þekkja sýkla. Ef ónæmiskerfið þekkir sýkil um leið og hann kemur inn í líkamann bregst það fljótt við til að hreinsa sýkil úr líkamanum. Þannig kemur bólusetning oft alveg í veg fyrir veikindi sem hún beinist gegn en sumar bólusetningar draga úr alvarleika veikinda en hindra þau ekki alveg.
Bólusetningar hafa verið almennar hér á landi í marga áratugi og þátttaka í þeim er mikil, einkum í bólusetningu barna. Þetta er mjög mikilvægt þar sem farsóttum s.s. mislingum verður ekki haldið í skefjum nema þorri fólks sé bólusettur.
Brýnt er að bólusetningar barna nái til nær allra barna í hverjum fæðingarárgangi. Með því móti er unnt að mynda svonefnt hjarðónæmi gegn skæðum smitsjúkdómum, sem þýðir að ónæmi gegn þeim verður nægilega algengt í landinu til þess að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdómanna, jafnvel þótt vart verði við einstök tilfelli.
Grundvallarforsendur þess að bólusetning sé gerð almenn hér á landi:
Eða
Sjúkdómur getur valdið alvarlegum faröldrum þar sem margir veikjast á stuttum tíma, með mögulegum varanlegum fylgikvillum, t.d. blindu, heyrnarleysi, flogum, tapi á útlim, ófrjósemi og/eða dauða. Dæmi um þetta eru m.a. heilahimnubólga, mislingar og hettusótt.
Fylgikvillar sem þarf að meðhöndla eða sem eru varanlegir koma fram hjá u.þ.b. 1/1000 allt upp í 1 af hverjum þremur sem veikjast af þeim sjúkdómum sem bólusett er gegn í almennum bólusetningum hér á landi.
Hvað kostar bólusetning?
Vegna góðrar almennrar þátttöku landsmanna í bólusetningum hefur ekki verið talin þörf á að gera bólusetningu að skyldu. Almennar bólusetningar barna sem eiga lögheimili á Íslandi eru forráðamönnum þeirra að kostnaðarlausu því þær gegna tvíþættu hlutverki, að vernda barnið gegn sjúkdómi og draga úr hættu á að sjúkdómur nái útbreiðslu á Íslandi með tilheyrandi kostnaði fyrir samfélagið. Fullorðnir og ferðamenn greiða sjálfir kostnað við bólusetningar sem ekki þjóna þeim tilgangi að hindra útbreiðslu sýkinga á Íslandi, heldur fyrst og fremst að verja einstaklinginn. Sérstakar bólusetningar, sem gripið er til sem opinberra sóttvarnaráðstafana vegna hættu á útbreiðslu og áhrifum á samfélagið eru fólki að kostnaðarlausu.
Aukaverkanir bólusetninga
Alvarlegar aukaverkanir bólusetninga eru mjög fátíðar. Ofnæmi er yfirleitt algengasta alvarlega aukaverkunin og sést við u.þ.b. eina af 1.000.000 bólusetningum. Hugsanlegur skaði af bólusetningu er því jafnan margfalt minni en sá skaði sem hlýst af sjúkdómnum sem bólusetningin kemur í veg fyrir. Fyrir sum COVID-bóluefni eru alvarlegar aukaverkanir algengari, af stærðargráðunni 1/100.000 til 1/50.000 bólusettum og voru því settar takmarkanir á notkun þeirra bóluefna til að draga úr hættu á slíkum aukaverkunum.