Fjölmargir smitsjúkdómar eru landlægir í suðlægum löndum, einkum í hitabeltinu. Rétt er að undirbúa ferðir á þau svæði vel, ráðfæra sig við lækni um þá heilsufarslegu hættu sem kann að vera fyrir hendi og hvaða bólusetningar eru nauðsynlegar þegar farið er á þessi landssvæði. Enda þótt bólusetningar geti verið mikilvægar ferðamönnum er ekki er síður mikilvægt að huga að ýmsum almennum atriðum í tengslum við ferðir til annarra landa.
Hvar er bólusett?
Upplýsingamiðstöð heilsugæslunnar getur ráðlagt fólki hvort og þá hvaða bólusetningu það þarf þegar það fer til útlanda. Hægt er að hafa samband við netspjall Heilsuveru eða við Upplýsingamiðstöð heilsugæslunnar í síma 513-1700 til að fá ráðgjöf.
Ferðabólusetningar eru gerðar á öllum heilsugæslustöðvum, í Þönglabakka 1, Reykjavík og öðrum aðilum sem fengið hafa til þess leyfi frá sóttvarnalækni s.s. Vinnuvernd, Kópavogi og Heilsuvernd, Kópavogi.
Bólusetningar
Erfitt er að gefa einhlítar ráðleggingar um bólusetningu ferðamanna. Þeir þættir sem ráða því hvort og með hvaða bóluefni viðkomandi verði bólusettur eru:
Saga um fyrri bólusetningar
Til hvaða lands og landsvæðis er verið að fara?
Hversu lengi mun viðkomandi dvelja í landinu og við hvaða aðstæður?
Hversu algengir eru sjúkdómar sem bólusett er gegn á ferðasvæði viðkomandi?
Upplýsingar á Heilsuveru um bólusetningar ferðamanna
Alþjóðlegt bólusetningaskírteini - WHO (gula bókin, hægt að fá hjá heilsugæslunni)
Bólusetningar ferðamanna
Á þessum síðum geturðu valið land sem ferðast er til og séð þá hvaða bólusetningar þú þarft.
Fit For Travel - Lýðheilsustofnun Skotlands
Vaccination.dk - Sóttvarnastofnun Danmörku
CDC Traveler's Health - Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna
International Travel and Health (WHO) - Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin
International Society of Travel Medicine - Samtök um ferðamannabólusetningar - Bandaríkin
Lifrarbólga A (hepatitis A) er algengur sjúkdómur víða um heim. Veiran smitast með mat, skólpmenguðu vatni eða af saurmenguðum höndum einstaklinga sem eru með sjúkdóminn eða að jafna sig af honum. Veikindin geta verið svæsin en bólusetningin er með þeim virkustu sem þekkjast. Einn skammtur nægir til að fá skammtímavörn, a.m.k. 10 dögum áður en komið er á svæði þar sem hætt er við smiti. Til að fá langtímavörn þarf tvo skammta af bóluefninu með 6–12 mánaða millibili. Ekki er þörf á örvunarskömmtum eftir að þessum tveimur skömmtum er lokið.
Einkenni
Í fyrstu eru undanfarandi einkenni gulu ráðandi með sem líkjast flensueinkennum, ónotum í efri hluta kviðar, lystarleysi og ógleði, hita allt að 39°C og stöku sinnum vöðva- og liðverkjum. Nokkrum dögum síðar getur komið fram gula og dökknar þá þvag og hægðir lýsast. Gula og kláði geta varað vikum og mánuðum saman. Ekki fá allir sem sýkjast einkenni, en flestir finna fyrir þreytu og lítilli matarlyst í vikur eða mánuði. Börn fá sjaldnar einkenni en fullorðnir og stærstur hluti barna undir sex ára aldri er einkennalaus en þau geta hæglega borið smitið áfram. Lifrarbólga A gengur alltaf yfir, þ.e. sýkingin verður aldrei langvinn.
Meðgöngutími lifrarbólgu A, þ.e. tími frá smiti til upphafs einkenna, er oftast um fjórar vikur, en getur verið allt frá tveimur til sex vikur.
Greining
Lifrarbólga A er greind með mótefnamælingum í blóði. Niðurstöður liggja fyrir innan nokkurra daga frá því að próf er tekið.
Meðferð
Lifrarbólga A gengur sjálfkrafa yfir án nokkurrar meðferðar.
Forvarnir
Gæta ber fyllstu varúðar við val matar og vatns í löndum þar sem hreinlæti gæti verið ábótavant. Hægt er að fyrirbyggja lifrarbólgu A með bólusetningu eða með því að gefa mótefni í vöðva. Mótefnin veita vörn í einungis 2–3 mánuði. Bóluefnið er gefið í tveimur sprautum með 6–12 mánaða millibili einstaklingum eins árs og eldri og talið er að það veiti vörn í a.m.k. 20 ár. Þegar kunnugt er um smit ber viðkomandi að hafa í huga að góður handþvottur eftir salernisferðir og áður en matvæli eru handleikin er áhrifamesta vörnin gegn því að smita aðra.
Lifrarbólga B (hepatitis B) er algeng víða. Veiran smitast milli manna við nána snertingu (samfarir, til barns frá móður í fæðingu eða jafnvel ef smitaður einstaklingur bítur annan) eða við stunguóhöpp, blóðgjafir ef ekki er skimað fyrir veirunni og þess háttar.
Hvað er lifrarbólga B?
Lifrarbólga B þýðir að það sé bólga í lifrinni sem lifrarbólguveira B veldur, en hún er ein af mörgum veirum sem getur orsakað lifrarbólgu. Fyrstu einkenni sýkingarinnar eru vegna bráðrar lifrarbólgu, sem gengur yfir, en ekki fá allir einkenni. Hluti smitaðra fær viðvarandi lifrarbólgu, einkum ef smitið verður á barnsaldri.
Hvernig smitast lifrarbólga B?
Veiran finnst í líkamsvessum eins og blóði, sæði og leggangavökva/slími, jafnvel áður en einkenni koma fram og hjá einkennalausum smituðum. Við samfarir smitast veiran með þessum líkamsvessum á kynfæri, í munn og endaþarm. Veiran getur einnig smitast með blóðblöndun og nálarstungum. Barn getur smitast í fæðingu ef móðirin er smitandi.
Hvernig get ég komið í veg fyrir smit?
Bólusetning gegn lifrarbólgu B er áhrifarík forvörn gegn smiti. Ekki er bólusett gegn lifrarbólgu B í almennum barnabólusetningum hér á landi en hægt er að fá bólusetningu hjá heilsugæslum, á sjúkrastofnunum og þar sem boðið er upp á ferðamannabólusetningar.
Tvo skammta með minnst 4 vikna millibili þarf fyrir skammtímavörn (vörn í allt að 18 mánuði) og þann þriðja 6–12 mánuðum eftir fyrsta skammtinn ef langtímavörn þarf. Ekki er þörf á örvunarskömmtum eftir að viðeigandi 3ja skammta röð er lokið.
Rétt notkun smokksins getur komið í veg fyrir smit. Fólk sem notar vímuefni í æð skal gæta þess að deila aldrei sprautum eða sprautunálum með öðrum.
Er lifrarbólga B hættuleg?
Bráð lifrarbólga B getur í einstaka tilfellum leitt til dauða. Þegar lifrarbólga B er viðvarandi getur hún verið alvarleg og lífshættuleg. Þá getur hún þróast yfir í skorpulifur og lifrarkrabbamein.
Hver eru einkenni lifrarbólgu B?
Bráð lifrarbólga B veldur oft kviðverkjum og gulri húð (gulu). Ógleði, hiti og slappleiki eru líka einkennandi ásamt rauðbrúnum lit á þvaginu og ljósum hægðum. Sumir fá einnig liðverki. Lifrarbólga getur líka verið alveg einkennalaus.
Hvenær koma einkennin í ljós eftir smit?
Einkenni bráðrar lifrarbólgu B koma oftast í ljós tveimur til þremur mánuðum eftir smit.
Hvernig er hægt að greina lifrarbólgu B?
Lifrarbólg B er greind með blóðprufu sem hægt er að taka hjá öllum læknum og liggja niðurstöðurnar fyrir innan nokkurra daga.
Er hægt að fá meðferð við lifrarbólgu B?
Meðferð er til við bráðri lifrarbólgu B en er aðeins beitt í alvarlegri tilvikum. Þeim sem smitast á fullorðinsaldri batnar oft eftir sína sýkingu en börn fá iðulega viðvarandi sýkingu. Ef lifrarbólga B þróast yfir í viðvarandi lifrarbólgu er í vissum tilfellum hægt að gefa meðferð gegn henni.
Hægt er að fá fyrirbyggjandi meðferð með bólusetningu og getur fólk, sem gæti verið í smithættu en er ekki smitað, látið bólusetja sig. Mælt er með bólusetningu nýfæddra barna strax eftir fæðingu ef móðirin er með langvarandi sýkingu.
Taugaveiki er tilkynningarskyldur sjúkdómur til sóttvarnalæknis, en til þeirra teljast sjúkdómar sem ógnað geta almannaheill.
Þegar grunur vaknar um þannig sýkingu eða hún hefur verið staðfest nægir að tilkynning komi frá rannsóknarstofu, til sóttvarnalæknis.
Gulusótt er tilkynningarskyldur sjúkdómur til sóttvarnalæknis, en til þeirra teljast sjúkdómar sem ógnað geta almannaheill.
Þegar grunur vaknar um gulusótt eða slík sýking er staðfest ber læknum, forstöðumönnum rannsóknastofa, sjúkradeilda og annarra heilbrigðisstofnana að senda sóttvarnalækni upplýsingar án tafar og skv. nánari fyrirmælum sóttvarnalæknis.
Heilahimnubólga af völdum meningókokka (meningococcal meningitis), sérlega af hjúpgerð A sem ekki er bólusett við á Íslandi, er algengt að gangi í faröldrum á savanna-svæðum í Vestur- og Mið-Afríku sunnan Sahara á þurrkatímanum, frá desember til júní ár hvert. Sjúkdómurinn er oft banvænn og sjúkdómsgangur getur verið mjög hraður. Til eru bóluefni við hjúpgerð A eingöngu í þessum löndum, en hjá þeim sem sinna ferðamannabólusetningum á Íslandi er hægt að fá bólusetningu við hjúpgerðum A, C, W135 og Y saman. Ástæða getur verið til endurbólusetningar eftir 1–5 ár ef farið er endurteknar ferðir á svæðið á þeim árstíma sem hættan er mest.
Hundaæði (rabies) er banvæn veirusýking. Sjúkdómurinn smitast við bit, klór eða sleikjur (yfir sár eða slímhúð) frá dýrum sem bera sjúkdóminn og eru oft augljóslega veik en ekki alltaf. Misjafnt er eftir löndum hvaða dýr eru líklegust til að smita menn, oftast hundar (Evrópa, Asía, Afríka) eða leðurblökur (Ameríka), en öll spendýr geta smitast og til er að fólk smitist af köttum, öpum eða ýmsum öðrum skógardýrum s.s. refum, kattardýrum eða þvottabjörnum. Fæstir ferðamenn þurfa bólusetningu við hundaæði en mjög mikilvægt er að bregðast á viðeigandi hátt við áverka sem dýr veldur. Verðir þú fyrir biti eða skrámum af völdum dýrs erlendis skaltu:
Þvo sárið vandlega með sápuvatni eða skola sárið.
Hafa samband við lækni. Vera kann að þú þurfir meðhöndlun við hundaæði og oft þarf að gefa sýklalyf eftir dýrabit.
Hafa upp á eiganda dýrsins, ef þess er nokkur kostur. Gakktu úr skugga um það hvort dýrið er bólusett gegn hundaæði. Eigandanum ber að láta vita af því ef dýrið veikist eða deyr innan 2 vikna.
Í stöku tilvikum getur verið ástæða til að fá bólusetningu fyrirfram sem einfaldar meðferðina ef bit kemur til, s.s. þegar ferð er farin gagngert til að vinna við merkingar skógardýra eða farið er mjög afskekkt þar sem sjúkdómur er fremur algengur og ekki er hægt að fá viðeigandi læknishjálp ef eitthvað kemur uppá, t.a.m. í Nepal.
Japönsk heilabólga (Japanese encephalitis). Japönsk heilabólga er moskítóborin veirusýking sem valdið getur alvarlegum einkennum. Líkurnar á því að fá sjúkdóminn eru litlar en ráðlegt er að bólusetja sig gegn honum ef dvalist er í sveitum landa þar sem hann er landlægur. Hann kemur fyrir víða um Asíu en er mjög misalgengur og gengur gjarnan í faröldrum, sums staðar árlega en oft óreglulega. Útbreiðsla sjúkdómsins er árstíðarbundin og fylgir algengi moskítófluga. Í Kína og Kóreu og á öðrum tempruðum svæðum er sjúkdómurinn algengastur að sumri til og á hausti. Á hitabeltissvæðum er áhættan tengd rigningartímanum sem getur verið breytilegur frá landi til lands. Hættan á því að smitast af japanskri heilabólgu er þó að öllum líkindum mjög lítil. Til er bóluefni gegn japanskri heilabólgu. Bólusetning er fyrst og fremst ráðlögð fyrir þá sem ætla að dvelja í sveitum þar sem sjúkdómurinn er landlægur í fjórar vikur eða lengur og þegar þekkt er að faraldur er í gangi.
Kólera (cholera) er smitsjúkdómur sem berst með menguðu vatni og matvælum og veldur svæsnum niðurgangi. Hættan á smitun er mjög lítil. Bóluefni sem notuð hafa verið gegn þessum sjúkdómi hafa verið gagnslítil. Kólerubólusetning er því að jafnaði ekki ráðlögð nema í undantekningartilvikum, s.s. fyrir þá sem hafa magasár og eru á meðferð sem vinnur gegn magasýru. Endurbætt bóluefni hafa komið fram en þau veita þó ekki vörn gegn öllum afbrigðum kóleru. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin gerir ekki kröfu um bólusetningu til ferðamanna.
Mælt með ferðamannabólusetningum við barnaveiki og lömunarveiki/mænusótt fyrir öll ferðalög erlendis, fyrir 24 ára og eldri sem ekki hafa fengið slíkar bólusetningar á sl. 10 árum.
Sjá nánar í frétt á vef embættis landlæknis frá 13.10.2022
Barnaveiki er sjúkdómur af völdum bakteríu sem er mjög smitandi og leggst í byrjun á efri öndunarveg. Sjúkdómurinn lýsir sér sem svæsin hálsbólga með skánum á slímhúðum í munni og nefi. Bakterían sjálf framleiðir eiturefni sem berst út í blóðið og er skaðlegt vefjum líkamans t.d. hjartavöðva, nýrum og taugakerfi. Sýklalyf drepa bakteríuna, en koma ekki í veg fyrir eituráhrifin. Barnaveiki getur orðið mjög alvarlegur sjúkdómur og leitt til dauða en 40-50% þeirra sem ekki fá meðferð við sjúkdómnum deyja af völdum hans.
Faraldsfræði
Barnaveiki var mjög algengur sjúkdómur á árum áður en sjaldgæfur í dag vegna þess hve öflug og víðtæk bólusetningin gegn honum er. Síðast greindist barnaveiki á Íslandi á árinu 1953. Sjúkdómurinn smitast auðveldlega milli manna og sýnir reynsla margra Austur-Evrópuríkja að þessi sjúkdómur eins og aðrir sjúkdómar geta breiðst út ef slakað er á bólusetningum. Óbólusett börn undir 5 ára aldri og fullorðnir einstaklingar yfir 60 ára eru útsettastir fyrir smiti.
Smitleiðir og meðgöngutími
Barnaveiki er mjög smitandi. Bakterían berst milli manna með dropa- eða úðasmiti frá öndunarfærum þ.e. með hósta, hnerra eða hlátri sem síðan berst með höndum í slímhúðir munns eða nefs. Það líða einungis 2-4 dagar frá smiti og þar til einkenni sjúkdómsins koma fram. Bakterían getur einnig borist í líkamann í gegnum sár á húð. Dæmi eru um að einkennalausir einstaklingar geti verið smitberar án þess að veikjast sjálfir.
Sjúkdómseinkenni
Einkenni sjúkdómsins geta verið einstaklingsbundin. Algengustu einkennin eru mikil hálsbólga með grárri skán sem leggst yfir slímhúð í munni og koki með tilheyrandi kyngingar- og öndunarerfiðleikum. Við þetta bætist stækkaðir eitlar á hálsi, hæsi og óskýr rödd, hraður hjartsláttur, særindi í nefslímhúð, bólginn efrigómur, hitavella, tvísýni og ónot.
Sjúkdómurinn getur orðið mjög alvarlegur. Þykk skán sem fylgir sjúkdómnum getur lagst yfir öndunarveginn og komið í veg fyrir að viðkomandi geti andað. Þá gefur bakterían frá sér eiturefni sem getur borist með blóði til hinna ýmsu líffæra þ.m.t. til nýrna, hjarta og taugakerfis og þannig skert starfsemi þeirra eða valdið varanlegum skaða jafnvel lömun.
Ef barnaveikisbakterían berst í líkamann gegnum húð eru einkennin yfirleitt vægari en til viðbótar öðrum einkennum geta myndast gulir blettir eða eymsli í húð.
Greining
Í byrjun þá líkjast einkenni barnaveiki slæmri hálsbólgu með hitaslæðingi og bólgnum eitlum. En það sem greinir barnaveiki frá öðrum áþekkum sjúkdómum er eiturefni sem bakterían gefur frá sér og myndar þykka gráa skán sem sest á slímhúðir í nefi, koki og öndunarvegum og getur valdið öndunar- og kyngingarörðuleikum. Hægt er að greina sjúkdóminn með því að taka sýni frá hálsi og setja í ræktun.
Meðferð
Nær alltaf þarf að leggja þá sem veikjast af barnaveiki inn á sjúkrahús og eru þeir hafðir í einangrun. Þegar greining liggur fyrir er gefið mótefni gegn eituráhrifum bakteríunnar en einnig penicillin. Aðrar afleiðingar af völdum eiturs sem bakterían gefur frá sér s.s. á hjartavöðva og nýru eru meðhöndlaðar sérstaklega. Þegar sjúkdómurinn er mjög alvarlegur getur sjúklingurinn þurft að fara í öndunarvél.
Nauðsynlegt er að bólusetja alla í nánasta umhverfi þess sem sýktur er til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu. Þegar sjúklingur hefur náð sér eftir veikindin á 4-6 vikum þarf hann bólusetningu til að koma í veg fyrir að hann fái sjúkdóminn aftur síðar.
Lömunarveiki/mænusótt (poliomyelitis)
Mælt með ferðamannabólusetningum við barnaveiki og lömunarveiki/mænusótt
fyrir öll ferðalög erlendis, fyrir 24 ára og eldri sem ekki hafa fengið slíkar bólusetningar á sl. 10 árum.
Sjá nánar í frétt á vef embættis landlæknis frá 13.10.2022
Mænusótt eða lömunarveiki er smitsjúkdómur af völdum veiru sem leggst getur á taugakerfi líkamans og valdið lömun sem leitt getur til dauða. Þeir sem eru í mestri hættu á að veikjast af sjúkdómnum eru nýburar, ung börn og óbólusettir einstaklingar. Hættan á að lamast af völdum sjúkdómsins eykst með hækkuðum aldri.
Faraldsfræði
Frá því að byrjað var að bólusetja gegn sjúkdómnum árið 1955 hefur náðst mikill árangur og hefur nánast tekist að útrýma sjúkdómnum úr heiminum. Samt sem áður ógnar mænusótt enn ungum börnum í fátækari löndum þar sem aðgengi að bóluefni er takmarkað.
Smitleiðir og meðgöngutími
Mænusóttarveiran er mjög smitandi og getur borist í menn með úðasmiti þ.e. með úða frá öndunarfærum (t.d. með hnerra) en einnig með saurmengun í drykkjarvatni og mat. Veiran getur verið til staðar í margar vikur í hægðum þeirra sem eru smitaðir. Til að verjast smiti er hreinlæti mikilvægt og er þar góður handþvottur mikilvægastur.
Einkenni sjúkdómsins
Langflestir eða um 90-95% af þeim sem veikjast fá væg flensulík einkenni sem geta lýst sér sem almennur slappleiki, hiti, minnkuð matarlyst, ógleði, uppköst, særindi í hálsi, hægðatregða og magaverkir. Alvarlegri einkenni eru verkir og minnkaður kraftur í stoðkerfi líkamans, hnakkastífleiki, vöðvarýrnun, hæsi, erfiðleikar við öndun og kyngingu. Í alvarlegustu tilfellunum verður vöðvalömun, lömun á þvagblöðru og einkenni eins og óróleiki, ósjálfrátt slef og þaninn kviður.
Greining
Auk læknisskoðunar er hægt að greina mænusóttarveiruna með því að mæla mótefni gegn veirunni í blóði og í heila-og mænuvökva. Einnig er hægt að greina veiruna í saur- eða þvagsýni og í stroki frá hálsi.
Meðferð
Engin meðferð eða lyf eru til sem lækna sjúkdóminn. Almennt beinist meðferð að því að draga úr einkennum.
Flestir hér á landi hafa verið bólusettir gegn stífkrampa á barnsaldri og þurfa því ekki að öllu jöfnu að láta bólusetja sig á fullorðinsárum. Viss hætta er á stífkrampa um allan heim ef óhreinindi komast í sár, s.s. við iðkun áhættuíþrótta. Því er ráðlagt að ferðamenn séu bólusettir ef meira en 10 ár hafa liðið frá síðustu bólusetningu.
Stífkrampi er alvarleg sýking sem orsakast af bakteríu sem nefnist Clostridium tetani. Baktería þessi er til staðar víða í náttúrunni, svo sem í jarðvegi og húsdýraskít en hún finnst í þörmum manna og dýra (sem eru grasætur) án þess að valda þar skaða. Þegar bakterían berst í sár framleiðir hún eitur sem leggst á miðtaugakerfi manna, veldur stífleika og krömpum sem geta verið lífshættulegir.
Smitleiðir og meðgöngutími
Smit verður vegna óhreininda sem komast í stungusár eða opin sár. Bakterían býr um sig í sárinu og fer að framleiða eitur sem berst með blóðrásinni um líkamann og leggst einkum á miðtaugakerfið og vöðva. Frá því að smit verður geta liðið allt frá einum degi upp í einn mánuð fyrir einkenni að koma fram en algengast er að þau komi fram eftir 6-8 daga. Smit berst ekki á milli manna.
Einkenni sjúkdómsins
Fyrstu einkenni sýkingar geta verið hiti, sviti, hraður púls, pirringur og staðbundnir verkir í vöðvum næst sárinu. Einnig getur sést stífleiki í kjálka, samdráttur í andlitsvöðvum, erfiðleikar við kyngingu og öndun. Kramparnir og stífleikinn geta breiðst út um allan líkamann s.s. til kvið- og bakvöðva og valdið öndunar- og hjartastoppi.
Greining
Sjúkdómurinn er yfirleitt greindur af sögu og einkennunum. Hægt er einnig að greina bakteríuna í stroki frá sárinu.
Meðferð
Til er móteitur sem virkar ef nægilega fljótt er gripið til þess. Önnur meðferð er sárameðferð, sýklalyf og lyf við krömpum. Alvarleg sýking af völdum stífkrampa krefst sjúkrahússinnlagnar.
Berklar er alvarlegur smitsjúkdómur, sem orsakast af bakteríunni Mycobacterium tuberculosis. Mycobacterium bovis, sem veldur berklum í nautgripum, getur einnig orsakað sýkingar í mönnum. Bakterían berst manna á milli með loftbornu smiti um öndunarfæri, þaðan berst hún um líkamann með blóðrásinni og getur hreiðrað um sig í ýmsum líffærum. Sýking í lungum er algengust en bakterían getur einnig lagst á önnur líffæri eins og nýru, miðtaugakerfi og bein. Talið er að 10% þeirra sem smitast fái sjúkdóm með virkri berklasýkingu á fyrstu tveimur árunum eftir smit. Þeir sem hafa smitast en fá ekki einkenni um sjúkdóm eru með leynda berkla. Við leynda berkla er bakterían til staðar í líkamanum en veldur ekki sýkingu og viðkomandi er ekki smitandi.
Hægt er að bera berklabakteríuna alla ævi án þess að sjúkdómur komi fram, þar sem heilbrigt ónæmiskerfi getur haldið smitinu í skefjum. Við veiklað ónæmiskerfi geta bakteríurnar fjölgað sér og sjúkdómurinn tekið sig upp. Við leynda berkla er gefin meðferð til að koma í veg fyrir útbreiðslu bakteríunnar í líkamanum síðar.
Faraldsfræði
Berklar bárust líklega til Íslands strax á landnámsöld, en það er þó ekki fyrr en um aldamótin 1900 að þeir urðu mjög útbreiddir hér á landi. Árlega dóu um 150-200 manns á tímabilinu 1912–1920. Í kringum 1950 dró mjög úr berklum með tilkomu berklalyfja. Á síðustu árum hafa greinst hér á landi milli 10–20 berklatilfelli á ári.
Um miðjan níunda áratug síðustu aldar jókst tíðni berkla á ný og má það einkum rekja til útbreiðslu HIV-veirunnar og áhrif alnæmisfaraldursins á tíðni berkla í fátækum löndum og þar með á heimsvísu.
HIV-smitaðir eru í meiri hættu á að fá virka berkla. HIV-veiran veikir ónæmiskerfið og kemur þannig í veg fyrir að það geti unnið á berklabakteríunni. Samhliða sýking af völdum berkla og HIV-veirunnar er því lífshættuleg.
Berklabakterían er mjög útbreidd í heiminum og er talið að um 1/3 jarðarbúa séu með leynda berkla sem þýðir að þeir eru ekki smitandi en við ónæmisbælingu getur sýkingin orðið virk.
Smitleiðir og meðgöngutími
Berklasmit berst langoftast með úða og dropum sem verða til við hósta og hnerra þeirra sem eru með berklabakteríur í hráka. Berklar í raddböndum, sem eru frekar sjaldséðir eru hvað mest smitandi. Þrátt fyrir að berklabakterían sé smitandi, berst hún ekki jafnauðveldlega og t.d. inflúensu- og mislingaveirur. Hún er líklegri til að smitast milli einstaklinga sem eru í nánum samskiptum eins og fjölskyldumeðlima og vinnufélaga, auk þess sem smit í þröngsetnum fangelsum hafa verið vandamál.
Einkenni
Helstu einkenni berklasýkingar eru hósti, þyngdartap, slappleiki, hiti, nætursviti, kuldahrollur og lystarleysi.
Berklabakterían leggst helst á lungu og veldur einkennum eins og langvarandi hósta með eða án blóðugs uppgangs, brjóstverkjum og/eða verkjum við öndun og hósta.
Berklar geta einnig lagst á aðra líkamshluta eins og nýru, mænu og bein. Einkenni sýkingar fara eftir staðsetningu í líkamanum. Sýking í mænu veldur bakverkjum, sýking í nýrum veldur blóði í þvagi og sýking í beinum veldur verkjum í stoðkerfi.
Greining
Greining á berklum er margþætt og byggir á sjúkdómsmynd, húðprófi (PPD) eða blóðprufu sem mælir frumubundið ónæmi gegn berklabakteríum. Best er að fá hrákasýni/önnur sýni frá neðri öndunarfærum eða frá öðrum sýkingarstöðum í smásjárskoðun og berklaræktun en einnig er hægt að gera PCR (greina erfðaefni berklabakteríunnar). Myndgreining er einnig mikilvæg rannsóknaraðferð við greiningu á berklum.
Meðferð
Til að uppræta smitandi berkla þurfa einstaklingar að fara á samfellda fjöllyfjameðferð í a.m.k. sex mánuði til að koma í veg fyrir að bakteríurnar myndi ónæmi fyrir lyfjunum. Við hefðbundna meðferð eru fjögur lyf gefin fyrstu tvo mánuðina og svo tvö lyf í fjóra mánuði. Ef sjúklingurinn er meðferðarheldinn og tekur lyfin eins og fyrir hann er lagt, þá er árangur meðferðar mjög góður. Einstaklingur sem hefur verið tvær vikur á réttri meðferð vegna berklasýkingar á ekki að vera smitandi lengur. Við fjölónæma berkla er meðferðin lengri og flóknari, velja þarf lyf eftir næmi bakteríunnar og ef mögulegt er, vera með a.m.k. fjögur virk lyf til meðferðar.
Við leynda berkla er gefin meðferð til að koma í veg fyrir útbreiðslu bakteríunnar í líkamanum síðar. Hefðbundin lágmarksmeðferð við leyndum berklum er eitt berklalyf í a.m.k. sex mánuði.
Forvarnir
Forgangsatriði berklavarna er góð heilbrigðisþjónusta sem greinir skjótt og meðhöndlar fljótt til að tilfellin nái ekki að smita út frá sér. Leitað er í umhverfi smitbera til að unnt sé að veita þeim sem hafa smitast varnandi meðferð.
Hin síðari ár er einkum tvennt sem hefur áhrif á útbreiðslu berkla. Annars vegar er það HIV-smit og alnæmi sem er algengt í löndum þar sem berklar eru landlægir en HIV-smit eykur líkur á að berklasmitaður einstaklingur fái berkla að minnsta kosti hundraðfalt. Hins vegar hafa myndast fjölónæmir stofnar af berklabakteríunni, það eru stofnar sem hafa komið sér upp ónæmi fyrir sýklalyfjum þannig að lyfin vinna ekki á sjúkdómnum.
Fjölónæmar berklabakteríur eru vaxandi ógn á heimsvísu. Ekki hafa komið fram ný berklalyf um nokkurt skeið, og meðferðarhorfur eru mun lakari við sýkingar af völdum fjölónæmra berkla, auk þess sem meðferðin er margfalt dýrari. Til að koma í veg fyrir myndun ónæmis, er mikilvægt að læknar og sjúklingar fylgi lágmarkskröfum um berklameðferð.
Bólusetning
Bóluefni (BCG) kom á markað á fyrrihluta 20. aldar en hefur ekki verið tekið inn í almennar bólusetningar hér á landi. Bóluefnið er notað víða um heim og er mjög gagnlegt til að hindra lífshættulega berklasýkingu hjá ungbörnum
Á fleiri tungumálum:
Enska: Instructions for patients with contagious tuberculosis outside of hospital
Pólska: Instrukcje dla pacjentów z gruźlicą zakaźną poza szpitalem
Litháíska: Instrukcijos užkrečiamąja tuberkulioze sergantiems pacientams, kurie gydosi ne
Úkraínska: Інструкція для хворих на заразний туберкульоз поза стаціонаром
Filippíska: Mga tagubilin para sa mga pasyenteng may nakakahawang tuberkulosis sa labas ng ospita
Berklar er tilkynningarskyldur sjúkdómur.
Tilkynningarskylda - skráningarskylda
Tilkynningarskyldir sjúkdómar eru þeir sem náð geta mikilli útbreiðslu í samfélaginu og jafnframt ógnað almannaheill. Læknum ber að tilkynna sóttvarnalækni um einstaklinga sem veikjast af berklum með persónuauðkennum hins smitaða en einnig berast tilkynningar til sóttvarnalæknis frá rannsóknarstofum sem staðfesta sjúkdómsgreininguna. Tilgangur tilkynningar um smitsjúkdóm er að hindra útbreiðslu smits með markvissum aðgerðum t.d. með einangrun, meðferð smitaðra og rakningu smits milli einstaklinga. Til þess að fullnægja þessum skilyrðum verða upplýsingar um líklegan smitunarstað, smitunartíma og einkenni að fylgja tilkynningum. Þannig má tengja smitaða einstaklinga með faraldsfræðilegum hætti, meta áhrif smitsins og grípa til viðbragða.
Sjá nánar:
Tuberculosis - Mayo Clinic
Hvað eru berklar? - Vísindavefurinn
Þjónustuaðili
Embætti landlæknis