Fara beint í efnið

Ákveðnir sjúkdómar eru tilkynningarskyldir. Læknar, forstöðumenn rannsóknastofa og heilbrigðisstofnana skulu tilkynna sóttvarnalækni um einstaklinga sem hafa smitast af tilkynningarskyldum smitsjúkdómi eða ef grunur er um slíkan sjúkdóm. Allar upplýsingar eru trúnaðarmál.

Hvaða sjúkdómar eru tilkynningarskyldir?

Þeir sjúkdómar, sjúkdómsvaldar og atburðir sem sóttvarnalög fjalla um eru skráningarskyldir og geti þeir ógnað almannaheill eru þeir jafnframt tilkynningarskyldir. Með skráningarskyldu er átt við skyldu til að senda sóttvarnalækni ópersónugreindar upplýsingar en með tilkynningarskyldu er átt við skyldu til að senda persónugreindar upplýsingar um sjúkdómstilvik.

Tilkynningarskyldir eru þeir sjúkdómar, sjúkdómsvaldar og atburðir sem náð geta mikilli útbreiðslu í samfélaginu og geta jafnframt ógnað almannaheill. Einnig skal tilkynna um sérhverja þá atburði sem geta haft alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar á meðal þjóða heims, þ.m.t. atburði sem eru af óþekktri orsök eða uppruna.

Ráðherra ákveður með reglugerð, að fengnum tillögum sóttvarnaráðs, hvaða smitsjúkdómar eða sjúkdómar af völdum eiturefna og geislavirkra efna eru skráningarskyldir og hvaða sjúkdómar eru tilkynningarskyldir. Alvarlegir smitsjúkdómar geta verið tilkynningarskyldir þó ólíklegt sé að þeir nái mikilli útbreiðslu hér á landi.

Tilkynningar um einstaklinga með tilkynningarskylda sjúkdóma berast frá rannsóknarstofum og meðhöndlandi læknum. Læknum, sem greina tilkynningarskyldan sjúkdóm, ber að senda tilkynningu á þar til gerðum eyðublöðum með faraldsfræðiupplýsingum. Þessar upplýsingar eru mikilvægar til að fylgjast með faraldsfræði sjúkdómanna, greina hrinu tilfella, hópsýkingar eða faraldur og grípa til viðeigandi aðgerða.

Tilkynningarskyldir sjúkdómar

Þjónustuaðili

Embætti land­læknis