Kynsjúkdómar sem smitast með bakteríum eða lúsum er oftast hægt að lækna með lyfjum. Aftur á móti eru kynsjúkdómar sem smitast með veirum oftast ólæknandi og einungis hægt að draga úr einkennum og hindra framgang þeirra tímabundið.
Hvaða kynsjúkdómar eru til?
Til eru yfir 30 kynsjúkdómar en þeir algengustu á Íslandi eru kynfæravörtur, kynfæraáblástur og klamydía. Aðrir kynsjúkdómar, sem eru ekki eins útbreiddir, eru t.d. HIV, lifrarbólga B, lekandi, sárasótt, tríkómónassýking, flatlús og kláðamaur.
Eru kynsjúkdómar hættulegir?
HIV/alnæmi, sárasótt og lifrarbólga B geta verið alvarlegir og lífshættulegir sjúkdómar. HIV/alnæmi er alltaf ólæknandi en sárasótt er hægt að lækna með sýklalyfjum. Lifrarbólga B gengur oftast yfir án meðferðar en í vissum tilfellum þarf að meðhöndla sjúkdóminn. Klamydía er einnig alvarlegur kynsjúkdómur þar sem hún leiðir stundum til ófrjósemi og er reyndar ein algengasta ástæða ófrjósemi ungra kvenna. Lekandi getur líka valdið ófrjósemi, en auk þess getur bakterían dreift sér víða um líkamann.
Kynfæravörtur og kynfæraáblástur geta við vissar aðstæður verið hættulegir sjúkdómar. Sýnt hefur verið fram á að kynfæravörtum tengist aukin hætta á leghálskrabbameini. Kynfæraáblástur er stundum mjög svæsinn sjúkdómur, sérstaklega í upphafi. Báðir þessir sjúkdómar valda oft töluverðum óþægindum þegar þeir blossa upp og oft er erfitt að meðhöndla þá. Tríkómónassýking, flatlús og kláðamaur eru einnig óþægilegir kynsjúkdómar en valda ekki líkamstjóni.
Vissir þú?
Sumir kynsjúkdómar fylgja þeim sem smitast alla ævi. Þetta á við kynsjúkdóma sem orsakast af veirum eins og HIV, kynfæravörtur og kynfæraáblástur.
Aðra kynsjúkdóma getur maður fengið aftur og aftur. Það myndast ekki ónæmi gegn þeim þótt maður hafi áður fengið meðferð við þeim.
Að vera með einn kynsjúkdóm getur auðveldað smit á öðrum kynsjúkdómum. Það er því hægt að hafa fleiri en einn kynsjúkdóm samtímis.
Sumir kynsjúkdómar geta smitað fóstur á meðgöngu eða barn í fæðingu.
Álíka margir karlar og konur fá kynsjúkdóma.
Útgáfa
Kynsjúkdómar á Íslandi - greinargerð og tillögur um aðgerðir
Kynsjúkdómar. Smitleiðir, einkenni, meðferð, forvarnir Bæklingur
Leiðbeiningar um greiningu og meðferð lekanda, klamydíu, sárasóttar og HIV. 2. útg. September 2023
Listi yfir kynsjúkdóma
Hvað er flatlús?
Flatlús (Phthirus pubis) er sníkjudýr sem er aðallega að finna í hárunum í kringum kynfærin. Hún getur líka verið í handarkrika, bringuhárum, augnabrúnum og augnhárum. Flatlús er sjaldgæf í hársverði.
Hvernig smitast flatlús?
Flatlús smitast við nána snertingu en einnig með handklæðum, sængurfatnaði og fötum.
Hver eru einkenni af völdum flatlúsar?
Flatlús veldur oftast miklum staðbundnum kláða.
Er hægt að fá meðferð við flatlús?
Hægt er að kaupa lúsaáburð án lyfseðils í lyfjaverslunum. Hann er borinn á alla hærða staði nema hársvörðinn. Farðu nákvæmlega eftir leiðbeiningunum í pakkanum. Bólfélaginn og fjölskyldumeðlimir verða líka að fá meðferð svo smit eigi sér ekki stað aftur. Sængurver og föt skal þvo á venjulegan hátt.
Smitar HIV í daglegri umgengni?
HIV smitar ekki í daglegri umgengni. Algjörlega hættulaust er því að búa á sama heimili eða vera í daglegu samneyti við þann sem er smitaður af HIV/alnæmi.
Hvernig get ég komið í veg fyrir smit?
Smokkurinn er EINA vörnin gegn smiti. Til þess að hann veiti hámarksvörn verður að nota hann rétt. Sprautufíklar skulu gæta þess að deila aldrei sprautum eða sprautunálum með öðrum.
Er HIV hættulegur sjúkdómur?
HIV er alvarlegur og lífshættulegur sjúkdómur, þróist sjúkdómurinn án meðferðar. Engin lækning er til við honum og hún er heldur ekki í augsýn.
Hver eru einkenni HIV og hvenær koma þau í ljós?
Hluti nýsmitaðra fá einkenni fáeinum dögum eða vikum eftir smit. Helstu einkennin eru almennur slappleiki, hálssærindi, eitlastækkanir, útbrot, höfuðverkur og vöðva- og liðverkir sem ganga oftast yfir á 1–2 vikum. Eftir það eru flestir einkennalausir í mörg ár, en veiran vinnur smám saman á vörnum líkamans og skemmir ónæmiskerfið.
Hvað er alnæmi?
Alnæmi er lokastig sjúkdómsins og vísar orðið til sjúkdóma og einkenna sem HIV-jákvæðir fá þegar ónæmiskerfið fer að bresta. Þetta gerist oftast mörgum árum eftir smit. Þegar fólk er komið með alnæmi fær það sjúkdóma sem ósmitað fólk fær sjaldan, þar sem ónæmiskerfi þeirra hefur misst getuna til að berjast við sjúkdóma. Sá sem er kominn með alnæmi deyr oftast innan fárra ára, sé ekki beitt lyfjameðferð, en hún bætir horfurnar verulega.
Hvernig er hægt að greina HIV/alnæmi?
HIV-smit er greint með blóðprufu sem hægt er að taka hjá hvaða lækni sem er. Blóðprufan er ókeypis og farið er með hana í trúnaði. Þegar HIV kemst inn í blóðið þróar líkaminn mótefni sem hægt er að finna með HIV-mótefnamælingu allt að þremur mánuðum eftir smit. Jákvætt HIV-próf þýðir að það hafa fundist mótefni gegn HIV í blóðinu og að þú sért því HIV-smitaður. Neikvætt HIV-próf þýðir aftur á móti að þú sért ekki smitaður af HIV. Niðurstöður HIV-prófs fást nokkrum dögum eftir að blóðprufa er tekin.
Er hægt að fá meðferð við HIV/alnæmi?
Dagleg inntaka HIV-lyfja það sem eftir er ævinnar getur dregið úr fjölgun veirunnar í líkamanum og þar með bætt líðan og lengt líf HIV-jákvæðra. Lyfjatökunni geta fylgt aukaverkanir.
Hvað með þá sem ég hef sofið hjá?
Hafir þú sofið hjá einhverjum frá því þú smitaðist, getur verið að einhver þeirra hafi smitast af HIV. Því er mikilvægt að fyrri bólfélagar séu látnir vita. Þú getur sjálf/sjálfur látið þá vita eða þú getur beðið lækninn um að skrifa þeim án þess að nafn þíns sé getið. Í öllum tilvikum er þó skylt að gefa upplýsingar um bólfélaga. Með því að hvetja þá sem þú hefur sofið hjá til að fara í skoðun getur þú komið í veg fyrir að þeir smiti þá sem þeir sofa hjá í framtíðinni. Þannig getur þú komið í veg fyrir útbreiðslu þessa alvarlega sjúkdóms.
HIV sýking er tilkynningarskyldur sjúkdómur til sóttvarnalæknis, en til þeirra teljast sjúkdómar sem ógnað geta almannaheill.
Þegar grunur vaknar um slíka sýkingu eða hún er staðfest ber læknum, forstöðumönnum rannsóknastofa, sjúkradeilda og annarra heilbrigðisstofnana að senda sóttvarnalækni upplýsingar án tafar og samkvæmt nánari fyrirmælum sóttvarnalæknis.
HPV og bólusetning gegn HPV-sýkingum og leghálskrabbameini
HPV (Human Papilloma Virus) er grunnorsök forstigsbreytinga- og krabbameins í leghálsi. Veiran er mjög algeng og er talið að um 80% kvenna smitist af henni einhvern tímann á ævinni. Veiran smitast við kynmök og er einkum algeng hjá ungu fólki sem lifir virku kynlífi.
HPV hefur meira en 100 undirtegundir. Um það bil 40 þeirra geta valdið sýkingum í kynfærum bæði karla og kvenna og þar af eru 15–17 stofnar sem tengjast krabbameini (há-áhættu stofnar). Sýking af völdum há-áhættu stofna HPV getur leitt til forstigsbreytinga í leghálsi og leghálskrabbameins. Þessar sömu tegundir geta einnig valdið sýkingum í öðrum líffærum sem geta þróast yfir í krabbamein, s.s. í endaþarmi, leggöngum og í ytri kynfærum bæði kvenna og karla, en einnig getur veiran valdið krabbameini í munnholi, hálsi og berkjum og smitast þá við munnmök. HPV af öðrum stofnum (lág-áhættu stofnar) geta valdið vörtum, t.d. á kynfærum.
Faraldsfræði
Leghálskrabbamein er næstalgengasta krabbameinið hjá konum um heim allan. Á Íslandi greinast árlega um 1700 konur með forstigsbreytingar í leghálsi og 15-20 konur með leghálskrabbamein. Meðalaldur kvenna með forstigsbreytingar er um 30 ár og kvenna með leghálskrabbamein um 45 ár og lifa um 80% þeirra síðarnefndu í fimm ár eða lengur frá greiningu. Sjá nánar á vef Krabbameinsfélags Íslands.
Tíðni HPV í öðrum krabbameinum á Íslandi er ekki eins vel þekkt en hefur farið vaxandi hér á landi og víða um heim á undanförnum áratugum. Hér á landi hefur verið staðfest að HPV 16 er algengasta veirugerðin í krabbameinum í koki.
Talið er að HPV eigi þátt í þróun 5% allra krabbameina á heimsvísu.
Einkenni
Sýkingar af völdum veirunnar geta verið þrálátar en í langflestum tilfellum eyðir ónæmiskerfi líkamans þeim innan fárra mánaða án nokkurra afleiðinga. Ef sýking nær fótfestu og verður viðvarandi aukast líkur á forstigsbreytingum og síðar krabbameini ef ekkert er að gert.
Forstigsbreytingar í leghálsi valda ekki augljósum einkennum um sýkingu en hafi breytingarnar þróast yfir í krabbamein geta komið fram einkenni eins og:
Blæðing úr leggöngum eftir samfarir
Óeðlileg útferð úr leggöngum
Verkir í kynfærum
Þessi einkenni eru ekki bara bundin við leghálskrabbamein. Sýkingar af öðrum orsökum geta valdið sams konar einkennum. Verði þessara einkenna vart er nauðsynlegt að leita til læknis þrátt fyrir að síðasta leghálsstrok kunni að hafa verið eðlilegt.
HPV-tengd krabbamein á öðrum stöðum, s.s. í endaþarmi, munnholi/koki eða á ytri kynfærum geta komið fram sem fyrirferðir eða þykkildi, geta valdið verkjum og það getur blætt frá þeim.
Meðferð
Engin meðferð er til við HPV-sýkingum en hægt er að greina forstigsbreytingar krabbameins með frumustroki frá leghálsi. Ef forstigsbreytingarnar eru vægar er fylgst með þróun þeirra og hvort ónæmiskerfi líkamans vinnur á sýkingunni. Það er gert með reglulegri læknisskoðun þar sem tekið er frumustrok frá leghálsi sem er sent frumurannsóknarstofu Krabbameinsfélagsins til nánari skoðunar frumubreytinga undir smásjá og/eða sérstakrar leitar að HPV.
Alvarlegar og/eða þrálátar forstigsbreytingar eru meðhöndlaðar með keiluskurði en hafi krabbamein þegar myndast er þremur meginaðferðum beitt, þ.e. skurðaðgerð, geislum og krabbameinslyfjameðferð.
Bóluefnin
Á Íslandi hafa verið notuð tvö bóluefni gegn þeim tegundum HPV sem einkum valda leghálskrabbameini. Bóluefnin eru Cervarix og Gardasil 9. Síðarnefnda bóluefnið inniheldur að auki mótefnavaka gegn þeim tegundum veirunnar (HPV-6/11) sem valda kynfæravörtum.
Bóluefnið Cervarix inniheldur mótefnavaka HPV-16 og HPV-18 sem eru langalgengustu há-áhættu stofnar HPV. Bóluefnið hefur þar að auki sýnt umtalsverð krossónæmisáhrif gegn týpum 31/33/45 sem einnig geta valdið krabbameini. Cervarix var notað í almennum bólusetningum fyrir stúlkur 2011-2023. Gardasil 9 inniheldur einnig mótefnavaka HPV-16/18 en að auki mótefnavaka há-áhættu stofna 31/33/45/52/58. Það er nú notað óháð kyni fyrir öll 12 ára börn. HPV-bóluefnin verja ekki gegn öllum stofnum veirunnar sem geta valdið leghálskrabbameini en með bólusetningu má koma í veg fyrir meirihluta krabbameinstilfella. Ekki er hægt að fullyrða með vissu í hve langan tíma áhrif bóluefnisins vara en allt bendir til að sá tími sé mörg ár, hugsanlega ævilangt.
Bólusetning
Í samræmi við samþykkt Alþingis frá því í lok árs 2010 hófu heilbrigðisyfirvöld bólusetningar gegn HPV haustið 2011. Byrjað var að bólusetja stúlkur fæddar 1998 og 1999 en lengst hefur bólusetningin eingöngu átt við 12 ára stúlkur þar sem megintilgangur var að hindra þróun leghálskrabbameins. Frá 2023 nær bólusetningin til allra 12 ára barna, óháð kyni, og er HPV-bólusetningin þar með hluti af almennum bólusetningum allra barna.
Bólusetningin er fyrst og fremst fyrirbyggjandi en læknar ekki sjúkdóma sem orsakast af HPV-sýkingum. Bóluefnið er gefið í tveimur sprautum með að minnsta kosti 6 mánaða millibili. Einn skammtur veitir töluverða vörn og eru bólusetningar í sumum löndum nú miðaðar við einn skammt. Hér á landi eru upplýsingar um ávinning bólusetningar til að draga úr útbreiðslu HPV sýkinga enn að koma fram og hefur ekki verið álitið tímabært að fækka skömmtum úr tveimur í einn.
Eldri einstaklingar eiga kost á að fá bóluefnið gegn lyfseðli og með því að greiða fyrir það.
Þar sem ekki fæst full vörn gegn krabbameinsvaldandi HPV með bólusetningunni er mikilvægt fyrir konur að fara reglulega í leghálskrabbameinsleit þar sem tekið er frumustrok frá leghálsi til greiningar forstigsbreytinga eða krabbameins á byrjunarstigi. Breiðvirkari bóluefni og útbreiddari bólusetningar á heimsvísu munu mögulega draga úr notagildi skimunar í framtíðinni, en skimun er enn mjög mikilvæg til að hindra þróun krabbameins meðan HPV er enn útbreidd í samfélaginu.
Klamydía er kynsjúkdómur sem smitast með bakteríunni Chlamydia trachomatis. Bakterían tekur sér bólfestu á slímhúð kynfæra, þvagrásar eða í endaþarmi og getur valdið bólgum á þessum stöðum. Bakterían getur líka farið í slímhúð augna og jafnvel í háls og valdið þar sýkingu. Um 2000 Íslendingar greinast árlega með klamydíu.
Smitleiðir
Smit á sér stað við samfarir þegar sýkt slímhúð annars einstaklings kemst í snertingu við slímhúð hins. Smitun getur einnig átt sér stað við endaþarms- og munnmök.
Viss hætta er á því að klamydía geti borist í augu ef sýktur einstaklingur snertir kynfærin og nuddar síðan augun. Þess vegna er góður handþvottur mikilvægur, t.d. eftir að farið er á salerni. Nýburar geta smitast af augnsýkingu í fæðingu ef móðir er smituð af Klamydíu.
Komið í veg fyrir smit
Smokkurinn er EINA vörnin gegn smiti. Til þess að hann veiti hámarksvörn verður að nota hann rétt.
Er klamydía hættuleg?
Klamydíubakterían er hættuleg af því að hún getur valdið ófrjósemi hjá konum vegna bólgu í eggjaleiðurum sem síðan geta lokast. Klamydía er ein algengasta ástæða ófrjósemi ungra kvenna. Vegna þessarar hættu er mikilvægt að meðhöndla sjúkdóminn tímanlega. Meðhöndlun klamydíu er einföld, en það getur verið erfitt að vita hvort maður er smitaður eða ekki þar sem sjúkdómurinn er oft einkennalaus.
Einkenni klamydíu
Eins og gildir um marga kynsjúkdóma eru margir smitaðir af klamydíu án þess að vera með nein einkenni.
Þegar einkenni koma fram eru þau eftirfarandi:
Konur
Breytt útferð eða blæðing milli tíða.
Sviði við þvaglát og/eða tíð þvaglát.
Verkir í grindarholi. Fáir þú einnig hita, ættir þú að leita læknis samdægurs.
Karlar
Glær vökvi, gul eða hvít útferð úr þvagrásinni (það á aldrei að vera útferð úr þvagrás karla).
Sviði við þvaglát og/eða tíð þvaglát.
Eymsli og/eða verkir í pung.
Klamydíusýking getur í einstaka tilvikum valdið liðverkjum og liðbólgum bæði hjá körlum og konum.
Hvenær koma einkenni klamydíu eftir smit?
Ef þú á annað borð færð einkenni koma þau oft í ljós 1-3 vikum eftir kynmökin sem leiddu til smitsins. Í sumum tilvikum geta einkenni komið fáeinum dögum eftir smit.
Greining klamydíu
Karlmenn sem sofa hjá konum skila þvagsýni. Rannsókn hjá konum er strok frá leggöngum. Eftir atvikum þarf stundum að taka fleiri sýni, sjá upplýsingar á vef húð- og kynsjúkdómadeildar Landspítala.
Hægt er að fara í sýnatöku á öllum heilsugæslustöðvum og á göngudeild húð og kynsjúkómadeild Landspítala.
Sýnataka og meðferð klamydíu er skjólstæðingi að kostnaðarlausu.
Meðferð við klamydíu
Hægt er að meðhöndla klamydíu með sýklalyfjum. Passa þarf vel upp á að taka allar töflurnar sem gefnar eru og fylgja fyrirmælum læknis. Mikilvægt er að bólfélagi fái meðhöndlun samtímis, annars gætuð þið smitað hvort annað aftur.
Einnig gæti hinn aðilinn smitað aðra sem hann/hún stundar kynlíf með fái hann/hún ekki meðhöndlun. Ekki má stunda kynlíf fyrr en rannsókn og meðferð er að fullu lokið (allt að viku til 10 dögum eftir að meðferð byrjar, eftir því hvaða meðferð er gefin).
Ef annar aðilinn heldur áfram að vera með einhver einkenni verður að taka nýja prufu, þó ekki fyrr en 3–4 vikum eftir að meðferð lýkur. Mælt er með að allir sem stunda skyndikynni fari reglulega í kynsjúkdómaskoðun og láti athuga klamydíusmit.
Hvað með þá sem ég hef stundað kynlíf með?
Ef þú hefur fengið að vita að þú sért með klamydíu eru miklar líkur á því að einhverjir bólfélaga þinna síðustu 6-12 mánuðina séu með sjúkdóminn. Þess vegna er mikilvægt að allir sem þú hefur stundað kynlíf með sl. 12 mánuði séu látnir vita svo þeir geti fengið meðhöndlun ef þörf er á. Þetta kallast smitrakning.
Þú getur sjálf/sjálfur látið þá vita eða beðið lækninn um að hafa samband án þess að nafns þíns sé getið. Í öllum tilvikum er þó skylt að gefa upplýsingar um bólfélaga. Með því að hvetja þá sem þú hefur stundað kynlíf með til að fara í skoðun getur þú komið í veg fyrir að þeir smiti aðra í framtíðinni. Þannig getur þú komið í veg fyrir útbreiðslu þessa alvarlega sjúkdóms.
Klamydía er tilkynningarskyldur sjúkdómur.
Hvað er kláðamaur?
Kláðamaur (scabies) er sníkjudýr sem lifir í húð manna. Þetta er algengur húðsjúkdómur um allan heim sem getur smitast við kynmök.
Hvernig smitar maurinn?
Kláðamaur smitar við nána snertingu en einnig á annan hátt, svo sem ef sofið er í rúmi smitaðs einstaklings þar sem ekki hefur verið skipt um rúmföt eða notuð eru sömu handklæði. Afar ólíklegt er að smit geti átt sér stað þótt smitaður einstaklingur heilsi með handabandi, en ef haldist er lengi í hendur og húðin er heit og þvöl kemur maurinn fram á yfirborðið og getur smitað. Smit á klósettsetum er afar ólíklegt. Maurinn getur lifað í tvo til þrjá sólarhringa utan líkamans. Það tekur fjórar til sex vikur frá smitun þar til einkenni koma í ljós, hafi viðkomandi aldrei fengið kláðamaur, en hafi hann fengið kláðamaur áður geta einkenni komið fram eftir fáeina daga.
Hver eru einkenni af völdum kláðamaurs?
Kláðamaurinn veldur útbrotum og kláða. Útbrotin koma gjarnan á þá staði líkamans þar sem maurinn kann best við sig; milli fingra, á úlnliðum, í mittinu, á baki og kringum kynfærin. Afar óvenjulegt er að maurinn komi í andlit. Kláðinn er oft mestur á nóttinni undir hlýrri sæng.
Er hægt að fá meðferð við kláðamaur?
Meðferðin felst í því að smyrja allan líkamann (nema andlit og hársvörð) með áburði sem drepur maurinn. Áburðinn er hægt að kaupa án lyfseðils í lyfjaverslunum og leiðbeiningar fylgja í pakkanum.
Bólfélagi og fjölskyldumeðlimir verða að fá meðferð samtímis svo smitun eigi sér ekki stað að nýju. Sængurfatnaður og föt eru þvegin á venjulegan hátt. Kláðinn getur haldið áfram í nokkrar vikur eftir að meðferð lýkur þótt maurinn sjálfur sé horfinn.
Sjá einnig upplýsingar á Heilsuveru.
Kynfæraáblástur er sýking af völdum veirunnar Herpes simplex, tegund 2, sem orsakar litlar blöðrur og sár á kynfærum. Veiran berst frá húðsmitinu og sest í taugahnoð við mænuna. Þar getur hún legið í dvala árum saman, oftast að skaðlausu fyrir þann sem er smitaður. Veiran getur þó leitað til baka eftir tauginni til húðar eða slímhúðar, venjulega til sama staðar og í upphafi. Oft getur liðið langur tími þangað til sýkingin kemur fram aftur. Einkennin minnka og hverfa oftast alveg með tímanum. Kynfæraáblástur er algengur sjúkdómur.
Hvernig smitast kynfæraáblástur?
Kynfæraáblástursveiru er að finna í sýktum sárum og sáravökvum. Veiran smitar aðallega þegar sár eða sáravökvi snertir slímhúð kynfæris, endaþarms, augna, vara eða munns bólfélagans.
Smit getur einnig átt sér stað ef maður fær sýktan sáravökva á hendurnar og snertir síðan eigin slímhúð eða slímhúð annarra.
Komið í veg fyrir smit
Smokkurinn getur bara verndað þá hluta kynfæranna sem hann hylur. Veira í sári sem er ekki hulin smokki getur því smitað við samfarir. Smithættan er mest þegar sjúkdómurinn er með sýnilegum blöðrum og sárum og rétt áður en blöðrurnar koma fram. Þú ættir því ekki að hafa samfarir þegar ástand þitt er þannig. Þegar engar blöðrur eða sár eru á húð eða slímhúð er smithættan minni.
Góður handþvottur þegar sár og blöðrur koma fram getur komið í veg fyrir að þú smitir aðra með höndunum.
Er kynfæraáblástur hættulegur?
Kynfæraáblástur getur verið mjög svæsinn sjúkdómur, sérstaklega í upphafi smitsins, og getur valdið töluverðum óþægindum. Hann er samt hættulaus fyrir konuna en veiran getur valdið alvarlegri sýkingu hjá nýfæddum börnum sem geta smitast af móðurinni í fæðingu. Því er mikilvægt fyrir þungaðar konur að láta lækninn vita um kynfæraáblásturssýkingu.
Einkenni
Fyrstu einkenni eru sviði eða verkur í húð eða slímhúð en síðan koma fram misstórar blöðrur. Blöðrurnar springa oft fljótt og verða að sársaukafullum sárum. Samtímis koma oft eymsli í nárann vegna eitlastækkana ef sýkingin er í kynfærum. Auk þess getur sýkingin valdið hita, höfuðverk, slappleika og í undantekningartilfellum heilahimnubólgu.
Í fyrsta sinn sem blöðrur og sár myndast gróa þau vanalega innan þriggja vikna. Þegar endursýking á sér stað koma sárin yfirleitt á sama stað og áður en eru vægari, sársaukaminni og gróa oftast hraðar.
Hvenær koma einkennin í ljós eftir smit?
Einkennin koma vanalega í ljós einni til þremur vikum eftir smit. Sumir fá einkennin seinna og eru dæmi um að liðið geti langur tími þar til einkennin koma fram. Flestir sem smitast fá reyndar aldrei sár og blöðrur og margir vita því aldrei um að þeir eru smitaðir af kynfæraáblæstri.
Greining
Auðvelt er að greina kynfæraáblástur, ef einkennin eru komin fram, með skoðun læknis og/eða sýnatöku til rannsóknar.
Meðferð
Ennþá er engin lækning til við kynfæraáblæstri. Aftur á móti er til meðferð sem getur dregið úr einkennum og stytt tímann sem þú ert með blöðrur og sár. Til þess að meðferðin virki þarf að hefja hana eins fljótt og unnt er. Þú þarft ekki meðhöndlun ef sárin eru þér ekki til ama.
Hvað er lekandi?
Lekandi er kynsjúkdómur sem stafar af bakteríunni Neisseria gonorroheae, en bakterían tekur sér bólfestu í kynfærum, þvagrás, endaþarmi eða hálsi.
Hvernig smitast lekandi?
Smit á sér stað við samfarir þegar sýkt slímhúð kemst í snertingu við slímhúð bólfélaga. Smitun getur einnig átt sér stað við endaþarms- og munnmök. Smit getur einnig orðið í fæðingu og valdið augnsýkingu hjá nýburum.
Hvernig get ég komið í veg fyrir smit?
Smokkurinn er EINA vörnin gegn smiti. Til þess að hann veiti hámarksvörn verður að nota hann rétt.
Er lekandi hættulegur?
Lekandi er alvarlegur sjúkdómur því hann getur valdið ófrjósemi eins og klamydía. Þetta á bæði við um konur og karla. Lekandi getur einnig valdið sýkingu og bólgu í liðum, augnsýkingum og í verstu tilvikum sýkingu í legi, eggjaleiðurum hjá konum og kviðarholi.
Hver eru einkenni lekanda?
Bakterían veldur bólgu í leghálsi og þvagrás kvenna og karla en getur einnig sýkt leg og eggjaleiðara kvenna en eistu og eistnalyppur karla. Þá eru dæmi þess að bakterían geti borist í blóð einstaklinga og valdið sýkingu í húð og liðum. Lekandasýking er þekktur orsakavaldur ófrjósemi meðal kvenna og karla.
Einkenni lekanda eru svipuð og einkenni klamydíu, en einkennin og bólgurnar eru gjarnan meiri en í klamydíu. Lekandi getur líka verið einkennalaus. Venjuleg einkenni eru breyting á lit og lykt á útferð úr leggöngum eða þvagrás, aukin útferð úr þvagrás, sársauki við þvaglát (eins og að pissa rakvélarblöðum) eða verkur í grindarholi, hjá bæði konum og körlum. Sýking getur einnig komið í háls og endaþarm.
Hvenær koma einkennin í ljós eftir smit?
Fáir þú einkenni koma þau oftast fram 1-7 dögum eftir smit en geta komið fram síðar.
Hvernig er hægt að greina lekanda?
Hægt er að staðfesta lekanda með þvagsýni hjá karlmönnum sem sofa hjá konum. Konur skila stroki frá leggöngum. Eftir atvikum þarf stundum stroksýni úr þvagrás, leggöngum, hálsi eða endaþarmi. Hægt er að fá sýnatökur á öllum heilsugæslum og hjá göngudeild húð- og kynsjúkdóma Landspítala.
Meðferð við lekanda
Notuð eru sýklalyf við lekanda. Margir stofnar lekandabakteríunnar eru ónæmir gegn ýmsum sýklalyfjum. Þess vegna er nauðsynlegt að taka sýni til ræktunar til að kanna næmi bakteríunnar fyrir sýklalyfjum svo hægt sé að tryggja að rétt sýklalyf hafi verið valið. Þú verður alltaf að fara í skoðun eftir meðferðina til að tryggja árangur hennar.
Hvað með þá sem ég hef stundað kynlíf með?
Hafir þú stundað kynlíf með einhverjum síðasta árið frá smiti, eru miklar líkur á því að einhverjir þeirra hafi smitast af lekanda. Því er mikilvægt að allir sem þú hefur stundað kynlíf með sl. 12 mánuði séu látnir vita svo þeir geti fengið meðhöndlun ef þörf er á. Þetta kallast smitrakning.
Þú getur sjálf/sjálfur látið þá vita eða beðið lækninn um að hafa samband án þess að nafn þíns sé getið. Í öllum tilvikum er þó skylt að gefa upplýsingar um bólfélaga.
Með því að hvetja þá sem þú hefur stundað kynlíf með til að fara í skoðun getur þú komið í veg fyrir að þeir smiti aðra. Þannig getur þú komið í veg fyrir útbreiðslu þessa alvarlega sjúkdóms.
Lekandi er tilkynningarskyldur sjúkdómur.
Lifrarbólga B (hepatitis B) er víða algeng en fremur sjaldan þarf að bólusetja skammtímaferðalanga. Veiran smitast milli manna við nána snertingu (samfarir, til barns frá móður í fæðingu eða jafnvel ef smitaður einstaklingur bítur annan) eða við stunguóhöpp, blóðgjafir ef ekki er skimað fyrir veirunni o.þ.h. Tvo skammta með minnst 4 vikna millibili þarf fyrir ferð og þann þriðja 6–12 mánuðum eftir fyrsta skammtinn ef langtímavörn þarf. Ekki er þörf á örvunarskömmtum eftir að viðeigandi 3ja skammta röð er lokið.
Hvað er lifrarbólga B?
Lifrarbólga B (hepatitis B) þýðir að það sé bólga í lifrinni sem lifrarbólguveira B veldur, en hún er ein af mörgum veirum sem getur orsakað lifrarbólgu. Fyrstu einkenni sýkingarinnar eru vegna bráðrar lifrarbólgu B, sem gengur yfir, en ekki fá allir einkenni. Hluti smitaðra fær viðvarandi lifrarbólgu, einkum ef smitið verður á barnsaldri.
Hvernig smitast lifrarbólga B?
Veiran finnst í líkamsvessum eins og blóði, sæði og leggangavökva/slími. Við samfarir smitast veiran með þessum líkamsvessum á kynfæri, í munn og endaþarm. Veiran getur einnig smitast með blóðblöndun og nálarstungum. Barn getur smitast í fæðingu ef móðirin er smitandi.
Hvernig get ég komið í veg fyrir smit?
Rétt notkun smokksins getur komið í veg fyrir smit. Sprautufíklar skulu gæta þess að deila aldrei sprautum eða sprautunálum með öðrum.
Er lifrarbólga B hættuleg?
Bráð lifrarbólga getur í einstaka tilfellum leitt til dauða. Þegar lifrarbólga B er viðvarandi getur hún verið alvarleg og lífshættuleg. Þá getur hún þróast yfir í skorpulifur og lifrarkrabbamein.
Hver eru einkenni lifrarbólgu B?
Bráð lifrarbólga veldur oft kviðverkjum og gulri húð (gulu). Ógleði, hiti og slappleiki eru líka einkennandi ásamt rauðbrúnum lit á þvaginu og ljósum hægðum. Sumir fá einnig liðverki. Lifrarbólga getur líka verið alveg einkennalaus.
Hvenær koma einkennin í ljós eftir smit?
Einkenni bráðrar lifrarbólgu koma oftast í ljós tveimur til þremur mánuðum eftir smit.
Hvernig er hægt að greina lifrarbólgu B?
Sjúkdómurinn er greindur með blóðprufu sem hægt er að taka hjá öllum læknum og liggja niðurstöðurnar fyrir innan nokkurra daga.
Er hægt að fá meðferð við lifrarbólgu B?
Meðferð er til við bráðri lifrarbólgu B en er aðeins beitt í alvarlegri tilvikum. Þeir sem smitast á fullorðinsaldri batnar oft eftir sína sýkingu en börnin fá iðulega viðvarandi sýkingu. Ef lifrarbólgan þróast yfir í viðvarandi lifrarbólgu er í vissum tilfellum hægt að gefa meðferð gegn henni. Hægt er að fá fyrirbyggjandi meðferð með bólusetningu og getur fólk, sem gæti verið í smithættu en er ekki smitað, látið bólusetja sig. Mælt er með bólusetningu nýfæddra barna strax eftir fæðingu ef móðirin er með langvarandi sýkingu.
Hvernig smitast sárasótt?
Bakterían (Treponema pallidum)sem veldur sárasótt smitast við óvarin kynmök og frá móður til fósturs. Sýktir einstaklingar eru aðallega smitandi þegar þeir eru með sár. Áður fyrr óttaðist fólk sárasótt mest allra kynsjúkdóma. Hér á landi hefur sárasótt verið sjaldgæfur sjúkdómur en aukning orðið á síðustu árum. Þá er stundum um gamalt smit að ræða og einstaklingarnir því ekki smitandi.
Hvernig get ég komið í veg fyrir smit?
Koma má í veg fyrir sárasóttarsmit við kynmök með notkun smokka. Smokkurinn verndar einungis þann hluta kynfæranna sem hann hylur.
Slímhúð og húð sem ekki er hulin getur því sýkst.
Er sárasótt hættuleg?
Ef fullnægjandi meðferð er ekki gefin á fyrstu stigum sjúkdómsins getur bakterían valdið ýmsum sjúkdómum síðar á ævinni eins og hjarta-, heila- og taugasjúkdómum. Ómeðhöndluð sárasótt á meðgöngu getur valdið fósturskaða og/eða fósturláti.
Hver eru einkenni sárasóttar?
Fyrstu einkenni sárasóttar eru sár á þeim stað sem bakterían komst í snertingu við, oftast á kynfærum, í endaþarmi eða munni ásamt eitlastækkunum. Nokkru síðar geta myndast útbrot í húðinni. Við langt gengna ómeðhöndlaða sárasótt koma einkenni frá miðtaugakerfi og hjarta- og æðakerfi.
Hvenær koma einkenni í ljós eftir smit?
Fyrstu einkenni sárasóttar koma í ljós 10 dögum til 10 vikum (oftast 3 vikum) eftir smit.
Hvernig er hægt að greina sárasótt?
Sárasótt er greind með blóðprufu sem er hægt að láta taka hjá öllum læknum og á göngudeild húð- og kynsjúkdóma Landspítala.
Er hægt að fá meðferð við sárasótt?
Sýklalyf (yfirleitt penisillín) er gefið við sárasótt og læknar sjúkdóminn.
Hvað með þá sem ég hef stundað kynlíf með?
Hafir þú sofið hjá einhverjum síðasta árið frá smiti, eru miklar líkur á því að einhverjir þeirra hafi smitast af sárasótt. Því er mikilvægt að fyrri bólfélagar séu látnir vita svo þeir geti fengið meðhöndlun ef þörf er á. Þú getur sjálf/sjálfur látið þá vita eða beðið lækninn um að skrifa þeim án þess að nafn þíns sé getið. Í öllum tilvikum er þó skylt að gefa upplýsingar um bólfélaga.
Með því að hvetja þá sem þú hefur sofið hjá til að fara í skoðun getur þú komið í veg fyrir að þeir smiti þá sem þeir sofa hjá í framtíðinni. Þannig getur þú komið í veg fyrir útbreiðslu þessa alvarlega sjúkdóms.
Sárasótt er tilkynningarskyldur sjúkdómur.
Hvað er tríkómónassýking?
Tríkómónassýking orsakast af sníkjudýrinu Trichomonas vaginalis.
Hvernig smitar tríkómónassníkjudýrið?
Sníkjudýrið smitar við óvarðar samfarir.
Er sýkingin hættuleg?
Tríkómónassýking er hættulaus.
Hver eru einkenni tríkómónassýkingar?
Hún getur valdið eymslum í leggöngum og leghálsi kvenna, aukinni útferð sem lyktar illa, er gulgræn á litinn og „freyðir". Jafnframt getur bólgin slímhúð í leggöngum og leghálsi valdið eymslum við samfarir og sviða við þvaglát.
Karlar geta einnig fengið sviða við þvaglát en yfirleitt fá þeir lítil eða engin einkenni.
Er hægt að fá meðferð við tríkómónassýkingu?
Sýkinguna er hægt að meðhöndla á áhrifaríkan hátt með stuttri sýklalyfjameðferð. Einnig ætti að meðhöndla bólfélagann.
Þjónustuaðili
Embætti landlæknis