Fara beint í efnið

Kynsjúkdómar

Hvar er hægt að fara í kynsjúkdómapróf?

Kynsjúkdómar eru algengir en oft einkennalausir. Mikilvægt er að fara í kynsjúkdómapróf eftir kynlíf með nýjum kynlífsfélaga, sérstaklega ef smokkur er ekki notaður. Klamydía og lekandi greinast ekki fyrr en 7 til 14 dögum eftir hugsanlegt smit og 6 til 12 vikur þurfa að líða svo áreiðanleg niðurstaða fáist úr blóðprufum sem greina HIV og sárasótt. Klamydía, lekandi, HIV og sárasótt eru tilkynningarskyldir sjúkdómar og skylt er að rekja smit.

Göngudeild húð- og kynsjúkdóma, deild A1, Landspítala Fossvogi

Einstaklingar með rafræn skilríki óska eftir rannsóknum og ráðgjöf í gegnum Landspítala-appið. Appið má nálgast á Google Play og í Apple Store undir nafninu Landspítali. Sjá nánari upplýsingar á vef göngudeildar húð- og kynsjúkdóma. Einstaklingar sem ekki eiga rafræn skilríki geta hringt í síma: 543 6050 milli kl. 9:00–12:00 og 13:00–15:00 virka daga og óskað eftir þjónustu.

Þjónusta deildarinnar er öllum opin og er gjaldfrjáls.

Heilsugæslustöðvar

Miðlæg upplýsingaþjónusta heilsugæslunnar veitir ráðleggingar á netspjalli Heilsuveru og í síma 1700.

Á öllum heilsugæslustöðvum landsins er hægt að fara í kynsjúkdómapróf Sjá þjónustuvefsjá. Heilsugæslustöðin á Akureyri býður auk þess upp á móttöku ungs fólks á þriðjudögum frá kl. 13:00–16:00, bóka þarf tíma í síma 432-4600, sjá nánar á vef heilsugæslunnar.

Þjónusta heilsugæslustöðva vegna kynsjúkdóma er gjaldfrjáls.

Göngudeild smitsjúkdóma, deild A3, Landspítala Fossvogi

Hægt er að hafa samband við göngudeildina vegna HIV-prófa og lifrarbólgu B og C prófa í síma 543 6040 eða með tölvupóstfangi: smita3@landspitali.is. Sjá nánari upplýsingar á vef göngudeildar smitsjúkdóma.

Þjónusta deildarinnar er öllum opin og er gjaldfrjáls

Sérfræðilæknar á einkastofum

Flestir læknar geta sent beiðni um rannsóknir vegna gruns um kynsjúkdóm.

Læknavaktin og bráðamóttökur

Fyrir bráð vandamál sem ekki þola bið til næsta virka dags er hægt að leita á Læknavaktina sem er opin milli kl. 17:00–22:00 alla virka daga og milli kl. 9:00–22:00 um helgar og á frídögum. Einnig má leita með bráð vandamál til skipulagðrar bráðaþjónustu á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu.

Samantekt

  • Hægt er að óska eftir kynsjúkdómarannsóknum og ráðgjöf á göngudeild húð- og kynsjúkdóma Landspítala Fossvogi í gegnum Landspítala appið eða með því að hringja á opnunartíma deildarinnar.

  • Einnig er hægt að hafa samband við heilsugæslur um allt land.

  • Hægt er að fá HIV-próf alla virka daga með beiðni frá lækni. Allir sem greinast með kynsjúkdóm ættu að fara a.m.k. einu sinni í HIV-próf.

  • Fyrir bráð vandamál utan dagvinnutíma sem ekki þola bið er hægt að leita á Læknavaktina og aðra skipulagða bráðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni.

  • Bíða þarf í fáeina daga eftir niðurstöðum prófa, það er nauðsynlegt til þess að tryggja gæði niðurstaðanna. Ferlið tekur mislangan tíma eftir því hvaða sjúkdóm er verið að greina. Unglingar jafnt sem aðrir hafa aðgengi að ofangreindum stöðum.

Þjónustuaðili

Embætti land­læknis