Skráningarskyldir sjúkdómar eru sjúkdómar sem geta breiðst út í samfélaginu en ekki hefur hagnýta þýðingu að þekkja til einstaklinganna. Sóttvarnalækni eru því sendar ópersónugreinanlegar upplýsingar um þessa sjúkdóma frá meðhöndlandi læknum og heilsugæslustöðvum.
Með vöktun á skráningarskyldum sjúkdómum er hægt að fylgjast með útbreiðslu og þróun þeirra í samfélaginu og eftir þörfum upplýsa almenning og heilbrigðisstarfsmenn og gefa ráðleggingar. Til greina kemur að grípa til aðgerða við óvænta aukningu á fjölda tilfella.
Adenóveirur eru algengasta orsök tárubólgu (conjunctivitis) en að auki geta þær valdið sýkingum með einkennum frá m.a. loftvegum, meltingafærum og miðtaugakerfi. Sýkingar af völdum adenóveira eru í gangi allt árið og oft verður vart tímabundinnnar aukningar á tilfellum í samfélaginu. Einnig eru faraldrar af völdum adenóveira vel þekktir, einkum við náin samskipti margra einstaklinga. Helstu dæmi eru sumarbúðir barna ásamt her- og æfingabúðum.
Lýst hefur verið a.m.k. 51 mismunandi sermisgerð (serotypes) adenóveiru í mönnum og er þeim skipt í 6 undirflokka frá A–F. Margar sermisgerðir eru tengdar ákveðnum sýkingum og einnig er sermisgerðin háð aldri sjúklings, ákveðnar sermisgerðir eru því algengari í börnum en fullorðnum eða öfugt. Sýking af tiltekinni sermisgerð gefur ágæta vörn gegn framtíðarsýkingum sömu sermisgerðar.
Helstu sýkingar af völdum adenóveiru og tengsl við sermisgerðir
Hornhimnutárubólga í faröldrum (epidemic keratoconjunctivitis) tengist sermisgerðum 8, 19 og 37.
Koktáruhiti (pharyngoconjunctival fever) tengist sermisgerðum 3 og 7.
Efri og neðri loftvegasýkingar með kvefeinkennum, hálssærindum, hósta og hita tengist sermisgerðum 1, 2 og 4 hjá börnum og 3, 4 og 7 hjá fullorðnum.
Iðrasýkingar með niðurgangi tengist sermisgerðum 2, 3, 5, 40 og 41.
Blöðrubólga tengist sermisgerðum 7, 11 og 21.
Sýkingar í miðtaugakerfi tengist sermisgerðum 2, 6, 7 og 12.
Smitleiðir
Algengustu smitleiðir eru:
Manna á milli með höndum.
Bein snerting við vessa úr auga úr sýktum einstakling.
Óbein snerting við sýkta vessa með snertingu við mengað yfirborð, menguð áhöld eða mengaða vökva.
Oft má rekja upphaf smits hjá starfsfólki í verksmiðjum til vökva sem notaðir eru til augnskolunar eftir minniháttar augnslys; smit á sér þá stað með fingrum, áhöldum eða öðrum menguðum hlutum. Svipaðir faraldrar hafa einnig komið upp á augndeildum og læknastofum og smit meðal starfsfólks getur viðhaldið faraldrinum. Algengt er að smit verði innan fjölskyldna, einkum þegar börn eru á heimilinu. Áverki á auga, jafnvel þótt lítilfjörlegur sé, eykur líkur á smitun.
Meðgöngutími: Tíminn frá smiti þar til einkenni koma í ljós er venjulega 4 til 12 dagar en getur verið lengri.
Tímabil sem sýktur einstaklingur er smitandi: Sýktur einstaklingur getur verið smitandi frá því skömmu áður einkenna verður vart upp í 14 daga frá upphafi einkenna.
Greining: Greining á adenóveiru er gerð á veirurannsóknarstofu Landspítala, oftast með greiningu á erfðaefni veirunnar. Einnig er hægt að rækta veiruna og mæla mótefni.
Sýkingavarnir við hugsanlegt eða staðfest smit
Sá smitaði:
Brýna skal fyrir smitberum að þvo sér oft um hendur og forðast snertingu við augað.
Nota ber einnota pappírsþurrkur. Verði því ekki viðkomið skal sá sýkti vera með eigið handklæði þar til tekist hefur að útvega pappírsþurrkur.
Smitandi einstaklingar mega ekki að deila augnlyfjum, dropagjöfum, augnsnyrtivörum né öðru sem snertir augun með öðrum.
Smit á heilbrigðisstofnunum/augnalæknastofum
Sjúklingum og heilbrigðisstarfsmönnum með hugsanlega sýkingu ber að forðast umgengni við aðra sjúklinga.
Starfsmenn skulu þvo sér um hendur fyrir og eftir alla snertingu við hvern sjúkling. Nota ber hanska ef minnsti grunur er um smit og þurrka hendur vandlega með einnota pappírsþurrkum að loknum handþvotti.
Margnota áhöld, sem notuð eru við augnskoðun, skal þvo vandlega og dauðhreinsa (með viðurkenndri aðferð) að notkun lokinni.
Öllum augnlyfjum eða dropum, sem komist hafa í snertingu við augnlok eða slímhimnur, skal hent eftir notkun.
Ef faraldurinn er viðvarandi þarf að herða enn á varúðarráðstöfunum, meðal annars með því að taka á móti hugsanlega sýktum sjúklingum í sérstökum móttökuherbergjum.
Þrífa þarf vel allt umhverfi hins sýkta með vatni og sápu og sótthreinsa jafnframt með mildri klórlausn yfirborð sem mengast með vessum úr augum eða nefi.
Við faraldra þarf að rekja smitleiðir til uppruna smitsins (t.d. menguð augnlyf eða skolvökva) og gera viðeigandi ráðstafanir til að hindra frekari útbreiðslu.
Hvað er flatlús?
Flatlús (Phthirus pubis) er sníkjudýr sem er aðallega að finna í hárunum í kringum kynfærin. Hún getur líka verið í handarkrika, bringuhárum, augnabrúnum og augnhárum. Flatlús er sjaldgæf í hársverði.
Hvernig smitast flatlús?
Flatlús smitast við nána snertingu en einnig með handklæðum, sængurfatnaði og fötum.
Hver eru einkenni af völdum flatlúsar?
Flatlús veldur oftast miklum staðbundnum kláða.
Er hægt að fá meðferð við flatlús?
Hægt er að kaupa lúsaáburð án lyfseðils í lyfjaverslunum. Hann er borinn á alla hærða staði nema hársvörðinn. Farðu nákvæmlega eftir leiðbeiningunum í pakkanum. Bólfélaginn og fjölskyldumeðlimir verða líka að fá meðferð svo smit eigi sér ekki stað aftur. Sængurver og föt skal þvo á venjulegan hátt.
Höfuðlúsin er lítið skorkvikindi sem hefur aðlagað sig manninum og lifir sníkjulífi í mannshári á höfði og nærist á því að sjúga blóð úr hársverðinum. Hún er ekki talin bera neina sjúkdóma og því skaðlaus hýslinum. Allir geta smitast en staðfest smit er algengast hjá 3–12 ára börnum. Höfuðlúsasmit er ekki talið bera vitni um sóðaskap.
Mikilvægt er að þeir sem greinast með höfuðlús eða forráðamenn þeirra bregðist strax við smitinu, með þeim aðferðum sem ráðlagðar eru hér á eftir, til að komið sé í veg fyrir dreifingu til annarra.
Frá árinu 1999 hefur höfuðlús verið skráningarskyldur sjúkdómur og safna heilsugæslustöðvar, hver á sínu svæði, og skólahjúkrunarfræðingar upplýsingum um lúsasmit og senda til sóttvarnalæknis, einu sinni í mánuði.
Almenningur er beðinn um að tilkynna um lúsasmit til sinnar heilsugæslustöðvar.
Skoða má myndband um höfuðlús og kembingu á Youtube.
Lífsferill
Fullorðin höfuðlús er 2–3 millimetrar að stærð (svipað og sesamfræ), gráhvít eða ljósbrún á lit. Lífsferill hennar hefst í eggi sem kallað er nit. Á sex til tíu dögum klekst út úr nitinni, unglús (nymph), pínulítil, sem á 9–12 dögum þroskast yfir í fullorðna karl- eða kvenlús. Innan 24 klst. frá kynmökum, sem eiga sér stað í eitt skipti, byrjar kvenlúsin að verpa og festa nitina á hár og getur hún verpt allt að tíu eggjum á dag.
Lúsin hefur sex fætur og sérhannaðar klær til að komast um í hárinu og getur skriðið 6–30 cm á mínútu. Hún getur ekki flogið, stokkið né synt. Lífslengd kven- og karlhöfuðlúsa er allt að 30 dagar en ef þær detta úr hárinu út í umhverfið fjærri hlýjum, rökum og blóðríkum hársverðinum, veslast þær upp og deyja á 15–20 klukkustundum.
Nit - lúsaregg
Egg lúsarinnar eru kölluð nit og getur hún verpt allt að tíu eggjum á dag. Hún „límir" þau við höfuðhár með sérstöku efni sem hún framleiðir, um 1 cm frá hársverði en til að þau klekjist út þarf hitinn að vera um 22°C.
Nit er 0,8 mm löng og sést með berum augum og getur litið út eins og flasa en ólíkt flösu er hún föst í hárinu. Þegar nitin hefur klakist út sitja tóm egghylki áfram í hárinu og erfitt getur verið að sjá hvort þau eru full eða tóm en ef þau eru langt frá hársverðinum er líklegt að þau séu tóm eða lúsin í þeim dauð. Algengast er að finna nit í hárinu ofan við eyrun og við hárlínuna aftan á hnakkanum.
Ekki er hægt að smitast af lús með nitinni. Þó nit sé í hári er það ekki ótvírætt merki um lúsasmit.
Smitleiðir
Lúsin getur farið á milli hausa ef bein snerting verður frá hári til hárs í nægilega langan tíma til að hún geti skriðið á milli en hún getur hvorki stokkið, flogið né synt.
Höfuðlús sem fallið hefur út í umhverfi verður strax löskuð og veikburða og getur þ.a.l. ekki skriðið á annað höfuð og sest þar að. Þess vegna er talið að smit með fatnaði og innanstokksmunum sé afar ólíklegt en ekki er þó hægt að útiloka að greiður, burstar, húfur og þess háttar, sem notað er af fleiri en einum innan stutts tíma, geti hugsanlega borið smit á milli.
Einkenni smits
Tveir af hverjum þremur sem smitaðir eru af höfuðlús hafa engin einkenni.
Einn af hverjum þremur fær kláða. Kláðinn stafar af ofnæmi, sem myndast með tímanum (frá nokkrum vikum að þremur mánuðum), gegn munnvatni lúsarinnar sem hún spýtir í hársvörðinn þegar hún sýgur blóð. Kláðinn getur orðið mikill og húðin roðnað og bólgnað þegar viðkomandi klórar sér og í einhverjum tilfellum geta komið sár sem geta sýkst af bakteríum.
Greining
Leita þarf að lús í höfuðhárinu með nákvæmri skoðun, en það er best gert með kembingu með lúsakambi yfir hvítum fleti eða spegli og hafa góða birtu.
Mörgum finnst þægilegra að kemba blautt hár sem í er hárnæring (sjá nánari lýsingu um kembingu) en öðrum finnst þægilegra að kemba hárið þurrt.
Finnist lús, jafnvel bara ein, er það merki um að viðkomandi er með höfuðlús og þarf meðferð. Meðferðin getur falist í kembingu eingöngu (einu sinni á dag í 14 daga) eða meðferð með lúsadrepandi efnum.
Nit lítur í fljótu bragði út eins og flasa, en ólíkt flösu er hún föst við hárið og er helst að finna ofan við eyrun og við hárlínu aftan á hálsi.
Lúsakamburinn
Mikilvægt er að nota góðan lúsakamb. Bilið milli teinanna má ekki vera meira en 0–3 mm. Best er að nota kamba með stífum teinum.
Kembing í leit að höfuðlús í blautu hári
Þvo hár með venjulegri aðferð, skola og setja venjulega hárnæringu sem höfð er áfram í hárinu og hárið haft blautt.
Greiða burtu allar flækjur - hárið er enn blautt.
Skipta hárinu upp í minni svæði, til að auðvelda skoðun alls hársins.
Skipta frá greiðu/bursta yfir í lúsakamb og hafa undir hvítt blað eða spegil, til að auðveldara sé að sjá hvort lús fellur úr hárinu.
Draga kambinn frá hársverði að hárendum og endurtaka þar til farið hefur verið vandlega í gegnum allt höfuðhárið.
Eftir hverja stroku skal skoða hvort lús hefur komið í kambinn og þurrka úr með bréfþurrku áður en næsta stroka er gerð.
Nit lúsarinnar, sem líkist flösu í fljótu bragði en er föst við hárið, er oft að finna ofan við eyrun og við hárlínu aftan á hálsi. Nit ein og sér er ekki órækt merki um smit, sérstaklega ekki ef hún er langt frá hársverðinum því þá er lúsin í henni að öllum líkindum dauð.
Eftir kembingu alls hársins skal skola úr hárnæringuna.
Kemba aftur til að athuga hvort einhver lús hefur orðið eftir.
Ef lús finnst við kembingu þarf að þvo hárnæringuna úr og þurrka hárið, áður en meðferð með lúsadrepandi efni hefst.
Þrífa kambinn með heitu sápuvatni og þurrka.
Meðferð við höfuðlús
Til að greina höfuðlús í hári þarf að kemba hárið með góðum lúsakambi.
Einungis skal meðhöndla með lúsadrepandi efni, þá sem hafa í hári sínu lifandi lús.
Höfuðlúsaeyðing með „náttúrulegum" efnum
Rannsóknir hafa sýnt að jurtaseyði og ýmis gömul húsráð (s.s. að setja júgursmyrsli eða vaselín í hárið, majonesu, ólívuolíu, jurtaolíu o.s.frv.) drepa ekki höfuðlýs þó eitthvert gagn hafi reynst vera af Tea tree olíu.
Ekki er hægt að mæla með notkun ilmolíu í baráttunni við höfuðlús og líklegt er að slíkt geri ekkert gagn - engar rannsóknir eru til að styðja notkun slíkra efna.
Aldrei skal setja í hárið eldfim efni og eitruð, s.s. bensín eða kerósón, né efni sem ætluð eru til nota á dýrum.
Ef meðferð ber ekki árangur er líklegast að ekki hafi verið rétt staðið að henni s.s. að ekki hafi verið notað rétt efni, að ekki hafi verið notað nægilega mikið efni, að efnið hafi ekki verið haft nægilega lengi í hárinu eða að endursmit verði frá sýktum einstaklingum í umhverfinu s.s. fjölskyldumeðlimum eða nánum vinum.
Þrif í umhverfi
Ekki er þörf á sérstökum umhverfisþrifum til að ráða niðurlögum lúsasmits. Höfuðlýs í umhverfinu eru til lítils megnugar þegar þær eru ekki í hlýju höfuðhárs og með aðgang að mannsblóði og deyja á 15–20 klst., þ.e.a.s. innan sólarhrings.
Ef talin er þörf á, t.d. þar sem er sameiginleg greiða eða bursti, er rétt að þvo slík áhöld með heitu sápuvatni eða hella yfir þau heitu vatni og láta standa í nokkrar mínútur.
Sjá upplýsingar um höfuðlús á Heilsuveru.is
Sjá einnig Liceworld
Hvað er kláðamaur?
Kláðamaur (scabies) er sníkjudýr sem lifir í húð manna. Þetta er algengur húðsjúkdómur um allan heim sem getur smitast við kynmök.
Hvernig smitar maurinn?
Kláðamaur smitar við nána snertingu en einnig á annan hátt, svo sem ef sofið er í rúmi smitaðs einstaklings þar sem ekki hefur verið skipt um rúmföt eða notuð eru sömu handklæði. Afar ólíklegt er að smit geti átt sér stað þótt smitaður einstaklingur heilsi með handabandi, en ef haldist er lengi í hendur og húðin er heit og þvöl kemur maurinn fram á yfirborðið og getur smitað. Smit á klósettsetum er afar ólíklegt. Maurinn getur lifað í tvo til þrjá sólarhringa utan líkamans. Það tekur fjórar til sex vikur frá smitun þar til einkenni koma í ljós, hafi viðkomandi aldrei fengið kláðamaur, en hafi hann fengið kláðamaur áður geta einkenni komið fram eftir fáeina daga.
Hver eru einkenni af völdum kláðamaurs?
Kláðamaurinn veldur útbrotum og kláða. Útbrotin koma gjarnan á þá staði líkamans þar sem maurinn kann best við sig; milli fingra, á úlnliðum, í mittinu, á baki og kringum kynfærin. Afar óvenjulegt er að maurinn komi í andlit. Kláðinn er oft mestur á nóttinni undir hlýrri sæng.
Er hægt að fá meðferð við kláðamaur?
Meðferðin felst í því að smyrja allan líkamann (nema andlit og hársvörð) með áburði sem drepur maurinn. Áburðinn er hægt að kaupa án lyfseðils í lyfjaverslunum og leiðbeiningar fylgja í pakkanum.
Bólfélagi og fjölskyldumeðlimir verða að fá meðferð samtímis svo smitun eigi sér ekki stað að nýju. Sængurfatnaður og föt eru þvegin á venjulegan hátt. Kláðinn getur haldið áfram í nokkrar vikur eftir að meðferð lýkur þótt maurinn sjálfur sé horfinn.
Sjá einnig upplýsingar á Heilsuveru.
Kynfæravörtur eru sýking af völdum Human Papilloma Virus sem skammstafast HPV. Margar gerðir eru þekktar af þessari veiru og hafa sumar þeirra verið tengdar leghálskrabbameini. Það eru einkum tvær tegundir veirunnar (HPV 6 og HPV 11) sem valda vörtum sem koma á slímhúð og húð, sérstaklega á ytri kynfæri og við endaþarmsop. Margt bendir til þess að þetta sé algengasti kynsjúkdómurinn á Vesturlöndum. Talið er að meira en helmingur þeirra sem eru virkir í kynlífi hafi sýkst af veirunni.
Njálgur er lítill, hvítur hringormur sem er algeng sýking hjá fólki á öllum aldri en algengastur hjá börnum og á stofnunum þar sem mörg börn koma saman t.d. leikskólum og skólum og hjá aðstandendum þeirra sem sýkjast.Hann er talinn vera eitt fárra landlægra sníkjudýra í mönnum á Íslandi og hefur verið það frá landnámstíð. Til að ráða niðurlögum njálgsmits þarf skerpt hreinlæti og lyfjagjöf. Njálgur er skráningarskyldur sjúkdómur sem þýðir að sóttvarnalæknir safnar upplýsingum um tíðni hans án persónuauðkenna þeirra sem sýkjast.
Áhættuþættir og faraldsfræði
Þeir sem eru líklegastir til að smitast af njálgi eru börn yngri en 18 ára, umönnunaraðilar þeirra og fólk sem dvelur á stofnunum. Maðurinn er eini hýsill njálgs. Gæludýr s.s. hundar og kettir geta ekki smitast.
Lífsferill
Eftir að njálgsegg hafa verið gleypt klekjast þau út í smágirninu og þróast þar yfir í fullorðin dýr og færa sig síðan í ristilinn. Þessi þroskaferill tekur einn mánuð en heildarlíftími njálgs er talinn geta verið tveir mánuðir. Í útliti er njálgur hvítur, lítill og viðkvæmur hringormur. Fullorðið kvendýr er 8–13 mm langt og 0,5 mm þykkt. Fullorðið karldýr er 2–5 mm langt og 0,2 mm þykkt. Eftir kynmök drepast karldýrin en kvendýrin flytja sig niður í ristilinn og í endaþarminn. Þar fara þau út á yfirborðið, vanalega við svefn að nóttu til, og verpa miklu magni af eggjum á svæðið umhverfis endaþarminn. Að því búnu drepast þau. Eggin eru aflöng, hálfgegnsæ með þykka skel með flatri hlið og ekki greinanleg með berum augum. Í hverju eggi er lirfa sem getur verið orðið smitandi 4–6 klst. eftir klak. Í sumum tilfellum klekjast egg út á svæðinu umhverfis endaþarminn og skríða lirfurnar þá inn um endaþarminn, upp ristilinn og í smágirnið þar sem þær þroskast áður en þær fara aftur niður í ristilinn. Við varpið verður erting og kláði við endaþarminn og sá sýkti fer að klóra sér og getur þannig fengið egg á fingurna og dreift þeim í umhverfið við snertingu.
Smitleiðir
Sýking verður þegar njálgsegg komast í meltingarveg eftir að hafa borist í munn og verið kyngt. Sjálfssýking og viðhald sýkingar verður þegar egg berast í munn með höndum sem hafa klórað á endaþarmssvæði eða fengið á sig egg með snertingu við önnur menguð svæði. Eggin geta borist yfir í nærfatnað, rúmföt, hurðarhúna, leikföng og í umhverfið og berast auðveldlega milli fjölskyldumeðlima og leikfélaga við snertingu. Í einhverjum tilfellum geta einstaka egg orðið loftborin og komist þannig í öndunarfæri og munn og þaðan í meltingarveg með kyngingu. Það fer eftir hita- og rakastigi umhverfisins hversu lengi njálgsegg eru smitandi. Í röku og köldu umhverfi geta lirfurnar lifað í allt að 2–3 vikur í eggjunum en í heitu og þurru lofti drepast þær mun fyrr. Rannsóknir hafa sýnt að lirfur í 90% njálgseggja eru dauðar eftir tvo daga í stofuhita.
Einkenni smits
Njálgsmit er oft einkennalaust (hjá einum af hverjum þremur) en kláði við endaþarm er helsta einkennið. Kláðinn ágerist á nóttunni og getur valdið svefntruflunum. Ef hinn sýkti klórar sér mikið getur húðin orðið rauð og aum og sýkst af bakteríum. Ef njálgssýkingin er mikil þ.e. mjög mikið af ormum, getur hún lýst sér með lystarleysi, kviðverkjum og uppköstum. Önnur einkenni sem komið geta fram eru pirringur, óróleiki, tanngnístur, svefntruflanir og minnkuð matarlyst.
Greining
Þegar grunur er um njálgsýkingu eru þrjár aðferðir til að greina smitið:
Ef um barn er að ræða geta foreldrar skoðað svæðið umhverfis endaþarminn 2–3 klst. eftir að barnið er sofnað t.d. með því að lýsa á svæðið með vasaljósi eða skoða endaþarmsopið snemma að morgni áður en barnið vaknar. Oft er þá hægt að sjá orma við endaþarmsopið og stundum sjást þeir utan á saur. Eggin er hins vegar ekki hægt að sjá með berum augum.
Önnur greiningaraðferð er að þrýsta límbandi að húðinni við endaþarmsopið strax og viðkomandi vaknar til að fanga egg og skoða límbandið síðan í smásjá. Ef viðkomandi er smitaður sjást egg á límbandinu. Límbandsprófið ætti að endurtaka þrjá morgna í röð, strax og viðkomandi vaknar og áður en þvottur á sér stað, því fjöldi orma getur verið misjafn milli daga og mismikið getur verið af eggjum við endaþarminn.
Þriðja greiningaraðferðin væri að taka skaf undan nöglum hjá þeim sýkta og skoða það í smásjá í leit að eggjum.
Hægðasýni gagnast ekki til greiningar á njálgssmiti því lítið er af ormum og eggjum í hægðum. Ekki er til aðferð til greiningar á njálgssmiti með blóðprófi.
Meðferð
Til að ráða niðurlögum njálgs þarf lyfjameðferð og eru tvö lyf skráð hér á landi, Vermox og Vanquin. Bæði lyfin eru til sem töflur eða mixtúra og seld í apótekum án lyfseðils nema ef gefa þarf Vermox börnum undir tveggja ára eða barnshafandi konum þarf það að gerast í samráði við lækni. Vanquin hefur ekki verið fáanlegt lengi á Íslandi (skrifað í des. 2023). Lyfin þarf að taka í tveimur skömmtum þ.e. fyrst einn skammtur og síðan annar skammtur u.þ.b. 2 vikum síðar.
Vermox (mebendazól) hindrar efnaskipti orma, sem veldur því að ormarnir drepast. Vermox hamlar einnig þroska ormaeggja og er breiðvirkt lyf og virkar gegn fleiri ormategundum en njálgi en þá notað í öðruvísi skömmtum. Skammtastærðir við meðhöndlun á njálgi eru þær sömu við meðferð hjá börnum og fullorðnum, 100 mg (1 tafla eða 5 ml af mixtúru (20mg/ml)) sem stakur skammtur. Meðferðina skal endurtaka eftir u.þ.b. 2 vikur til að koma í veg fyrir endursýkingu. Mælt er með því að allir innan sömu fjölskyldu fái meðferð á sama tíma til að koma í veg fyrir útbreiðslu smitsins. Meðferðina má endurtaka með 2–3ja vikna millibili ef hún tekst ekki í fyrstu tilraun. Þar sem lítil reynsla er af notkun lyfsins hjá börnum yngri en 2 ára og áhrif lyfsins á barnshafandi konur er ekki nægilega vel þekkt, er þeim ekki ráðlagt að nota lyfið nema samkvæmt læknisráði. Lyfið getur valdið tímabundnum kviðverkjum og ofnæmisviðbrögðum hefur verið lýst.
Vanquin (pyrvínembónat) hefur ekki verið fáanlegt lengi á Íslandi (des. 2023). Vanquin hefur sérhæfða verkun gegn njálgi. Lyfið drepur bæði njálginn og lirfur hans og kemur þannig í veg fyrir að smitandi egg verði til. Lyfið hefur ekki áhrif á þau egg sem þegar eru til og er mikilvægt að hafa það í huga við meðhöndlun, því endursýking er algeng vegna þess að lifandi egg halda áfram að berast út úr líkamanum með hægðum í allt að 2 vikur eftir lyfjagjöf. Vegna lífsferils njálgs er ráðlagt að allir fjölskyldumeðlimir og nánir leikfélagar séu meðhöndlaðir á sama tíma og að allir endurtaki meðferðina 2–3 vikum síðar til að koma í veg fyrir áframhaldandi smitun. Skömmtun lyfsins er miðuð við 1 töflu eða 5 ml af mixtúru á hver 10 kg líkamsþyngdar. Fullorðin manneskja tekur mest 8 töflur og skulu þær allar teknar inn í einum skammti. Virka efnið í Vanquin er sterkt litarefni og litar hægðir rauðar. Liturinn festist auðveldlega í fötum og húsgögnum ef mixtúran hellist niður eða er kastað upp. Gleypa skal töflurnar en ekki tyggja þar sem þær geta litað tennur og munn. Aukaverkanir af lyfinu eru helstar ógleði og einstaka sinnum uppköst og þá frekar eftir inntöku mixtúrunnar. Magaverkir og niðurgangur þekkjast sem aukaverkun. Ofnæmi er sjaldgæft.
Endurteknar sýkingar ætti að meðhöndla eins og þá fyrstu þ.e. taka einn skammt af lyfinu og endurtaka meðferðina að u.þ.b. tveimur vikum liðnum. Á heimilum þar sem fleiri en einn heimilsmanna er sýktur og sýkingar jafnvel endurtekið að koma upp er mælt með að allir fjölskyldumeðlimir séu meðhöndlaðir á sama tíma. Sama á við um leikfélaga barna. Ef njálgssýkingar gera vart við sig í skólum og á leikskólum, þarf að tilkynna það forráðamönnum barnanna. Ekki eru fastmótaðar reglur til um hvernig skuli bregðast við slíkum aðstæðum en æskilegt er að heilsugæslustöð í næsta nágrenni skólans komi að slíkum málum, gefi ráðleggingar og haldi utan um aðgerðir.
Aðgerðir til að draga úr dreifingu njálgssmits og endursýkingu
Handþvottur með vatni og sápu og þurrkun með hreinu handklæði eftir salernisferðir, bleiuskipti og fyrir meðhöndlun matar er áhrifaríkasta leiðin til að hindra njálgssmit og koma í veg fyrir áframhaldandi smit. Mikilvægt er að kenna börnum að þvo hendur og sjá til þess að þau geri það.
Aðrar mikilvægar aðgerðir til að ráða niðurlögum smits:
Bað að morgni dags því það minnkar líkur á dreifingu eggja frá endaþarmi. Sturta er betri en bað í kari því baðvatn getur mengast af eggjum.
Hrein nærföt daglega og tíð náttfata- og sængurfataskipti. Hrista ekki tauið, setja það beint í þvottavél og þvo við ≥ 40°C. Æskilegt að þurrka í þurrkara.
Ekki klóra húð við endaþarm.
Hafa neglur stuttklipptar og hreinar. Ekki naga neglurnar.
Gott almennt hreinlæti í umhverfi.
Eftir hverja lyfjameðferð þarf að skipta um nærfatnað, náttföt og sængurfatnað.
Heimildir
Skírnisson K. Um njálginn og líffræði hans. Læknablaðið, 1998;84: 208–2013
Pinworm infection. Centers for Disease Control and Prevention (CDC)
Niðurgangur af völdum nóróveira er algeng orsök þarmasýkinga út um allan heim. Hún greindist í fyrsta sinn í tengslum við hópsýkingu í grunnskóla í Norwalk, Ohio í Bandaríkjunum árið 1972 og er fyrsta veiran sem tengd var einkennum frá meltingarvegi.
Nóróveirur ásamt sapóveirum flokkast undir caliciveirur. Nóróveiran er með fimm mismunandi arfgerðir, en einungis þrjár þeirra valda sýkingum í mönnum.
Sýkingin kemur oftast í hrinum á veturna í umhverfi þar sem fólk er í nánd við hvert annað eins og á sjúkrahúsum og öðrum heilbrigðisstofnunum, en þar geta sýkingahrinur af völdum nóróveira verið alvarlegt vandamál þegar þær koma upp og því mikilvægt að hindra útbreiðslu veirunnar innan sjúkrastofnana. Einnig eru sýkingahrinur á leikskólum, skemmtiferðaskipum og hótelum vel þekktar.
Meðgöngutími sýkingarinnar, þ.e. tími frá smiti til einkenna, er einn til tveir sólarhringar.
Einkenni
Fólk á öllum aldri getur smitast og veikst vegna nóróveiru. Algengustu einkennin eru uppköst og/eða niðurgangur sem fylgt geta kviðverkir, beinverkir, höfuðverkur og stundum vægur hiti. Sjúkdómurinn gengur í langflestum tilfellum yfir á einum til tveimur sólarhringum án nokkurrar meðferðar. Ung börn og eldra fólk er sérstaklega viðkvæmt fyrir vökvatapi vegna niðurgangs og uppkasta.
Smitleiðir
Nóróveirusýking er mjög smitandi. Smithætta er helst frá einstaklingum með einkenni sýkingarinnar (niðurgang og/eða uppköst) en einnig er talið að smit geti borist skömmu áður en einkenni koma fram og í nokkra daga eftir að bata er náð. Veiran getur lifað lengi á yfirborði t.d. á snertiflötum eins og hurðarhúnum og smit óbeint úr umhverfi er því hugsanlegt. Smitleiðir eru margar og getur veiran smitast beint manna á milli við snertingu og sem dropasmit, en einnig eru líkur á að við uppköst geti smitið verið loftborið. Önnur algeng smitleið er með mengaðri fæðu og vatni og er mengun matvæla frá sýktum einstaklingum algeng smitleið. Matur getur mengast í framleiðslu, pakkningu eða við framreiðslu (uppvörtun) en einnig við að deila mat. Smit með hráum ostrum er líka vel þekkt, en smitið berst í ostrurnar með nóróveirumenguðu vatni.
Greining
Veiran finnst auðveldast með greiningu á erfðaefni hennar (PCR-prófi) í saursýni frá einstakling sem er sýktur. Einnig er hægt að greina hana í stroki frá endaþarmi eða í uppköstum.
Meðferð
Sýklalyfjagjöf kemur ekki að gagni. Verkjalyf (paracetamol) geta dregið úr einkennum, einkum ef sýkinni fylgja beinverkir og höfuðverkur. Mikilvægt er að drekka vel á meðan á veikindum stendur. Í einstaka tilfellum reynist nauðsynlegt að leggja viðkomandi inn á sjúkrahús til vökvagjafar í æð.
Fylgikvillar
Sýkingin getur valdið verri einkennum hjá einstaklingum sem eru veikir fyrir.
Forvarnir
Einstaklingar með nóróveirusýkingu eru smitandi meðan á veikindum stendur en eru í flestum tilfellum lausir við smit tveimur til þremur sólarhringum eftir að einkenni eru horfin. Þó eru dæmi um smitandi einstaklinga allt að 10 dögum eftir bata.
Ekki er hægt að bólusetja gegn nóróveirusýkingum.
Góður handþvottur er ávallt mikilvægur og árangursríkasta leiðin til að koma í veg fyrir smit.
Gæta skal varúðar þegar hreinsað er eftir einstaklinga með nóróveirusýkingu þar sem uppköst og niðurgangur eru bráðsmitandi.
Yfirborðsfleti í umhverfi þess veika ætti að þvo vel með vatni og sápu og sótthreinsa (t.d. með klórblöndu). Einnig skal þvo tau eins og fatnað, rúmföt og handklæði á háum hita. Einstaklingar með einkenni um nóróveirusýkingu skulu ekki elda eða framreiða mat fyrir aðra eða deila sínum mat með öðrum.
Elda skelfisk vel og þvo ávexti og grænmeti fyrir notkun. Á sjúkrastofnunum ber að einangra viðkomandi eftir bestu getu meðan á veikindum stendur og í að minnsta kosti tvo sólarhringa eftir að einkenni eru horfin. Starfsfólki á sjúkrastofnunum ber að vera heima í að minnsta kosti tvo sólarhringa eftir að það hefur náð sér áður en það kemur aftur til vinnu.
Sóttvarnalæknir hefur gefið út bækling um hvernig draga má úr útbreiðslu nóróveirusmits. Bæklinginn getur hver og einn prentað út og brotið saman sem þríblöðung. Í honum er að finna lýsingar á einkennum nóróveirusýkingar og hvað hver og einn getur gert til að vernda sjálfa sig og aðra gegn smiti.
Skarlatssótt er sjúkdómur sem orsakast af keðjukokkabakteríunni Streptococcus pyogenes. Bakterían er í daglegu tali oftast kölluð einfaldlega streptókokkar eða grúppu A streptókokkar (GAS). Algengasta birtingarform slíkra sýkinga er hálsbólga. Streptókokkar smitast með dropasmiti t.d. við hósta eða hnerra og einnig við nána umgengni við smitaða (dropa- og snertismit).
Skarlatssótt er algengust hjá börnum og unglingum undir 18 ára aldri og fylgir stundum áðurnefndri hálsbólgu.
Meðgöngutími sjúkdómsins þ.e.a.s. sá tími sem líður frá því að einstaklingur smitast þar til hann fer að fá einkenni er oft 2–5 dagar. Það geta liðið nokkrar klukkustundir til 1–2 dagar frá því veikindi byrja þar til útbrotin koma.
Einkenni
Helstu einkenni eru eymsli í hálsi (hálsbólga), útbrot, hiti, slappleiki, höfuðverkur og stundum eyrnaverkur og uppköst.
Útbrot tengd skarlatssótt einkennast oft af talsverðum roða í andliti, oft með fölleitari húð kringum munninn og útbrotum kringum kynfæri, á bringu, hnakka og í nára. Útbrotin eru oft rauðleitir upphleyptir dílar á bringu og maga sem eru örlítið hrjúf viðkomu eins og fínn sandpappír. Síðar geta útbrotin breiðst út um allan líkamann og orðið að stærri útbrotum. Tungan verður gjarnan mjög rauð og einkennandi útbrot á tungu eru svokölluð „jarðaberjatunga“ Það er algengt að húðin flagni inn í lófum og undir iljum 1-2 vikum eftir að sjúkdómur hefst.
Greining
Greining byggist oft á einkennum en sjúkdómurinn getur líkst tilteknum veirusýkingum s.s. adenoveirusýkingum og því æskilegt að staðfesta greiningu hjá a.m.k. einum fjölskyldumeðlim ef margir eru með svipuð einkenni. Oftast er það gert með því að taka hálsstrok í hraðpróf hjá lækni og/eða á heilbrigðisstofnun. Stundum er tekin ræktun úr hálsi með hálsstroki.
Meðferð
Mikilvægt er að meðhöndla skarlatssótt alltaf með sýklalyfjum (oftast penisillíni) . GAS geta valdið alvarlegum sýkingum og því skal hafa samband strax við lækni ef ástand sjúklings versnar, þótt meðferð sé hafin. Mikilvægt er að taka sýklalyfin samkvæmt fyrirmælum læknis, bæði hvað varðar skammt og tímalengd meðferðar.
Bakterían Borrelia burgdorferi veldur sjúkdóminum borrelíósu eða Lyme-sjúkdómi í mönnum. Bakterían berst í menn eftir bit skógarmítils (Ixodes ricinus í Evrópu, Ixodes scapularis og pacificus í Bandaríkjunum) þegar hann nærist á blóði.
Kjöraðstæður skógarmítils eru skógi vaxin svæði og dýralífið þar, sem sér mítlinum fyrir blóði. Á undanförnum þrjátíu árum hefur þessi sjúkdómur breiðst talsvert út og tengist það aukinni útbreiðslu skóglendis og villtra spendýra þar ásamt loftslagsbreytingum og aukinni útivist fólks með meiri frítíma.
Í Bandaríkjunum er Lyme-sjúkdómurinn hvað algengastur á Nýja-Englandi, í mið-vesturríkjunum, Kaliforníu og í Oregon. Í Evrópu er sjúkdómurinn algengastur í Þýskalandi, Austurríki, Slóveníu, Svíþjóð, Finnlandi og Eystrasaltslöndunum. Sjúkdóminn er einnig að finna staðbundið í Rússlandi, Kína og Japan. Í seinni tíð hefur borið á sjúkdómnum í vaxandi mæli á Bretlandseyjum.
Skógarmítill (Ixodes ricinus)
Samkvæmt upplýsingum frá Náttúrufræðistofnun Íslands fannst skógarmítill fyrst hér á landi á farfugli 1967. Á síðari árum hefur hann fundist af og til, einkum hin síðari ár, og telur stofnunin að hann sé að öllum líkindum orðinn landlægur, enda hefur útbreiðslusvæði hans færst norður á bóginn með hlýnandi loftslagi.
Þar sem skógarmítill berst með farfuglum er ekki ólíklegt að hann hafi borist til landsins af og til í aldir en ekki fest rætur hér. Ekki er þó kunnugt um að neinn hafi sýkst af Lyme-sjúkdómi á Íslandi.
Lífshættir skógarmítils á Íslandi eru lítt kannaðir, en líkur hafa verið leiddar að því að óstöðug veðrátta og takmarkað skóglendi minnki líkur á því að hann festi rætur hér á landi. Þetta kann að breytast ef veðurfar fer hlýnandi og skóglendi vex hér á landi.
Skógarmítill, sem er liðfætla, er svokölluð smitferja (vector) sem ber smit milli spendýra og fugla. Hann getur verið varasamur mönnum því að hann getur borið bakteríur (Borrelia burgdorferi) og veirur sem valda heilabólgu (sjá umfjöllun um mítilborna heilabólgu (tick-borne encephalitis, TBE)). Hann heldur sig í gróðri, einkum á skógarbotni og krækir sig fastan í blóðgjafann.
Æviskeið mítilsins eru þrjú. Eftir að hann klekst úr eggi verður hann sexfætt lirfa sem liggur í dvala yfir vetur. Að vori skríður lirfan upp eftir gróðri og sætir færis á að ná til hýsils til að sjúga blóð. Ef allt tekst vel til er skipt um ham síðsumars og verður mítillinn þá áttfætt ungviði sem aftur leggst í dvala yfir veturinn.
Að vori tekur hann upp sama háttarlag og breytist í fullorðinn mítil eftir heppnaða blóðmáltíð, leggst í dvala enn einn veturinn og endurtekur leikinn að vori. Karlinn drepst svo en kvendýrið verpir eggjum áður en það fylgir maka sínum. Fullorðnir mítlar eru 0,5–1,1 cm að lengd en ungviðið er miklu smærra.
Fullorðinn mítill er mjög þaninn eftir blóðmáltíð og nær því að vera eins og kaffibaun að stærð.
Sjúkdómseinkenni
Eftir bit sem leiðir til sýkingar getur myndast húðroði (erythema migrans) sem dreifir sér í hring út frá bitinu. Tekið getur 3–30 daga fyrir húðroðann að dreifa sér.
Fljótlega getur farið að bera á þreytu, hita, hrolli og höfuðverk ásamt vöðva- og liðverkjum sem varað geta vikum saman. Útbreidd sýki verður þegar bakterían dreifir sér um líkamann og sest að í húð, miðtaugakerfi, hjarta eða liðum. Þetta getur gerst vikurnar eftir sýkingu ef ekki er gefin meðferð. Venjulega gengur þó sýkingin yfir eftir einhverjar vikur eða mánuði þótt engin meðferð sé veitt. Fyrir kemur að sýkingin valdi viðvarandi liðbólgum. Sjaldgæfir fylgikvillar eru minnisleysi, síþreyta og hjartsláttartruflanir sem haldast þótt bakterían hafi verið upprætt.
Greining
Greining er venjulega gerð með mótefnamælingu í blóði, stundum í mænuvökva. Mótefnin finnast oft ekki fyrr en nokkrum vikum eftir sýkingu. Stundum er þó hægt að finna bakteríuna sjálfa í húðsýni frá húðroða. Þá hefur líkum verið að því leitt að vegna óljósra einkenna, sem átt geta við aðra sjúkdóma, kunni sjúkdómurinn að vera ofgreindur í mörgum tilvikum.
Meðferð
Sýklalyf eru gefin við Lyme-sjúkdómi. Venjulega er gefið doxýcýklín, penicillín, amoxicíllín eða cefalósporín í 2-4 vikur eftir alvarleika sjúkdómsins. Ef sýkingin svarar ekki vel sýklalyfjameðferð þarf stundum að gefa bólgueyðandi lyfjameðferð.
Fyrirbyggjandi aðgerðir
Skynsamlegt er að afla upplýsinga um hvort skógarmítla sé að finna á því svæði sem dvalist er á.
Kynna sér hvernig skógarmítill lítur út.
Reynist skógarmítlar á svæðinu er rétt að vera útbúinn oddmjórri pinsettu.
Klæðast fatnaði sem hylur líkamann vel, s.s. síðbuxum og langerma bol eða skyrtu, einkum ef farið er um skóg eða kjarrlendi. Nota ljós föt svo að mítlarnir sjáist betur.
Nota mýflugnafælandi áburð.
Þegar komið er af varasömu svæði þarf að skoða líkamann vel til að kanna hvort mítill hafi bitið sig fast í húðina.
Ef mítill hefur sogið sig fast til að nærast á blóði er rétt að fara að öllu með gát þegar mítillinn er fjarlægður. Það er best gert með því að klemma pinsettuodda um munnhluta mítilsins og lyfta honum beint upp frá húðinni. Forðast skal að snúa honum í sárinu. Þetta kemur í veg fyrir að innihald úr mítlinum geti spýst í sárið eða hluti hans verði eftir.
Almennt er talið að ekki sé hætta á sýkingu fyrr en eftir að mítillinn hefur dvalið í sólarhring í húðinni.
Lundalús
Þekkt er önnur tegund mítla, svokölluð lundalús (Ixodes uriae). Lundalúsin finnst í sjófuglum hér á landi. Hefur verið sýnt fram á að í þeim finnast bakteríur af ættinni Borrelia. Ekki hefur verið sýnt fram á að lundaveiðimenn hafi sýkst af völdum Borrelia þótt þeir hafi verið bitnir af lundalús.
Skráningarskylda
Borrelíósa eða Lyme-sjúkdómur er skráningarskyldur sjúkdómur.
Heimildir
Náttúrufræðistofnun Íslands.
Sigurður Richter, Dýralæknaritið 1981; 2:14–17.
Kári Sigurbergsson, Lyme gikt. Tímarit gigtarfélags Íslands. 1984; 2: 5.
Ólafur Steingrímsson Ó &, Kolbeinsson A. Lyme sjúkdómur. Læknablaðið. 1989; 75: 71–74.
Svenungsson B & Lindh G. Infection 1997; 25:140–3.
Wilson ER & Smith KJ. Scottish Forestry, 2009; 63: 3–11.
Sýklafræðideild Landspítala. Upplýsingar frá Ólafi Steingrímssyni 28.10.2009.
Þjónustuaðili
Embætti landlæknis