Fara beint í efnið

Mislingar greinast á Íslandi

3. febrúar 2024

Sóttvarnalæknir fékk tilkynningu frá Landspítala í dag vegna mislinga sem greindust hjá fullorðnum einstakling sem kom erlendis frá miðvikudaginn 31. janúar síðastliðinn.

Mislingar

Einstaklingurinn fékk útbrot þann 1. febrúar og leitaði til heilbrigðisþjónustu 2. febrúar. Viðkomandi einstaklingur er í einangrun á sjúkrahúsi. Haft hefur verið samband við alla sem voru hugsanlega útsettir fyrir smiti þessa daga.

Sérstaklega var haft samband við þau flugfélög sem fluttu viðkomandi þann 31. janúar og farþegar upplýstir um smithættu en hún er mest áður en útbrot koma fram en eftir það dvínar smithættan og gengur yfir á nokkrum dögum.

Mislingar eru bráðsmitandi skæður veirusjúkdómur sem smitar frá öndunarvegi. Einkenni geta komið fram hjá smituðum 1–3 vikum eftir smit. Þau sem hafa verið bólusett fyrir mislingum eða fengið mislinga áður smitast mjög ólíklega en ef það gerist eru einkenni oftast væg. Óbólusettir eru hins vegar í áhættu fyrir smiti og veikindum.

Ef haft hefur verið samband við þig vegna hugsanlegrar útsetningar og þú færð einkenni (hita, kvefeinkenni, augnroða og/eða útbrot á húð), sérstaklega ef þú hefur ekki verið bólusett(ur) við mislingum, eða ekki fengið mislinga, hvetjum við þig eindregið til að hafa samband við lækni/heilsugæslu símleiðis eða gegnum netspjall Heilsuveru. Vinsamlegast mætið ekki á heilsugæslu eða sjúklingamóttöku án þess að hafa fyrst samband.

Ef þú telur þig vera óbólusettan og vilt láta bólusetja þig við mislingum, hafðu samband við lækni/heilsugæslu símleiðis eða gegnum netspjall Heilsuveru. Athugið að bólusetning vegna útsetningar þarf að eiga sér stað ekki seinna en 5. febrúar.

Leiðrétting 4.2.2024:

Komið hefur í ljós að hinn smitaði kom með flugi til landsins þann 1. febrúar en ekki 31. janúar eins og áður var talið. Skilaboð hafa verið send til farþega sem eiga í hlut.

Frekari upplýsingar um mislinga má finna á vef embættis landlæknis.

Sóttvarnalæknir