Mislingar
Mislingar eru mjög smitandi sjúkdómur af völdum mislingaveiru. Mislingar byrja með kveflíkum einkennum sem koma yfirleitt fram 7–12 dögum eftir að þú smitaðist. Nokkrum dögum seinna byrja mislingaútbrot að koma fram.
Veikindin vara vanalega í 7–10 daga.
Besta vörnin gegn mislingum er að láta bólusetja sig með tveimur skömmtum af MMR bóluefni (ver gegn mislingum, rauðum hundum og hettusótt). Á Íslandi eru börn bólusett 18 mánaða og aftur 12 ára. Ekki má bólusetja barnshafandi konur og ráðlagt að komast hjá því að verða barnshafandi í einn mánuð eftir bólusetningu.
Ef þú hefur fengið mislinga hefur líkaminn myndað ónæmi gegn mislingaveirunni og afar ólíklegt að þú fáir aftur mislinga.
Gæti ég verið með mislinga?
Ef þú hefur fengið mislinga áður eða ert fullbólusettur með 2 skömtum af MMR bóluefni er ólíklegt að þú sért með mislinga. Fyrstu einkenni eru:
Kvefeinkenni svo sem almenn vanlíðan, nefrennsli, hnerri og hósti.
Roði og væta í augum og þau eru viðkvæm fyrir ljósi.
Líkamshiti er yfir 38°C og getur farið upp í 40°C.
Litlir hvítir punktar eru innan í kinnum (koma hjá flestum og áður en útbrotin koma fram, hverfur eftir nokkra daga, oft horfnir á öðrum degi útbrota).
Engin matarlyst.
Þreyta, pirringur og orkuleysi.
Mislingaútbrotin
Koma um 2–4 dögum eftir að fyrstu einkenni byrjuðu. Þau fölna og hverfa á u.þ.b. einni viku.
Versta líðanin er á 1. og 2. degi eftir að útbrotin koma fram.
Útbrotin samanstanda af litlum rauðbrúnum flötum eða örlítið upphækkuðum blettum, sem geta sameinast í stærri flekki.
Koma fyrst á höfuð og háls en dreifast síðan yfir allan líkamann.
Sumum klæjar.
Geta líkst útbrotum sem fylgja barnasjúkdómum t.d. rauðum hundum, fimmtu veikinni (roseola) o.fl.
Mjög ólíklegt er að útbrotin séu mislingar ef þú hefur fengið bólusetningu með tveimur skömmtum bóluefnis gegn mislingum.
Ef þú telur að þú gætir verið með mislinga er best að hafa strax samband við heilsugæsluna til að fá ráðleggingar um framhaldið.
Hvernig á að meðhöndla mislinga?
Til að lina einkenni mislinga:
Taka parasetamól eða íbúprófen til að lækka hita og draga úr verkjum og sársauka. Betri líðan með þessari meðferð stuðlar að betri vökvainntöku og lægri hiti dregur úr vökvatapi.
Drekka vel af vatni til að koma í veg fyrir þurrk.
Hafa dregið fyrir glugga til að draga úr ljósnæmi.
Nota raka bómull til að hreinsa í kringum augun.
Hafa góða loftræstingu.
Í alvarlegum tilfellum getur þurft að leggja þann veika inn á spítala:
Ef viðkomandi drekkur ekki vel, sérstaklega börn
Ef viðkomandi er andstuttur
Skarpur brjóstverkur
Blóð kemur með hósta
Syfja
Rugl
Krampar/flog
Hafðu samband við heilsugæsluna (netspjall Heilsuveru, skilaboð á Heilsuveru eða hringja) ef þú hefur verið í námunda við einstakling með mislinga og þú ert ekki bólusett/-ur eða hefur ekki fengið mislinga.
Stöðva dreifingu mislinga
Til að draga úr hættu á dreifingu smits þarf hinn smitaði að vera heima í einangrun í a.m.k. í 5 daga frá því útbrotin byrjuðu, ef veikindi vara lengur er rétt að hafa hægt um sig þar til líðan er mun betri. Fólk með mislinga er almennt smitandi í 4 daga áður en það veikist og í 4 daga eftir að útbrot byrja en lengur ef áfram með einkenni eins og hita.
Ekki fara til vinnu, í skóla eða í leikskóla, eða í verslanir eða á hvers kyns samkomur.
Forðastu að vera nálægt ungum börnum og barnshafandi konum.
Ef barn í leikskóla eða skóla fær mislinga þarf að gera skólanum viðvart svo hægt sé að grípa til ráðstafana.
Hvernig má komast hjá að fá mislinga
Bólusetning gegn mislingum með tveimur skömmtum af MMR bóluefninu (ver gegn mislingum, hettusótt og rauðum hundum) er örugg vörn.
Á Íslandi er MMR bólusetning gefin við 18 mánaða aldur og endurtekin við 12 ára aldur.
Ekki má bólusetja barnshafandi konur.
Þeir sem hafa fengið mislinga eru varðir með mótefnum sem hafa myndast í líkama þeirra.
Ef einstaklingur sem ekki getur fengið bólusetningu hefur orðið útsettur fyrir smiti er möguleiki að gefa honum immúnóglóbúlín, sem er blóðafurð. Þetta á við um:
Börn undir 6 mánaða aldri.
Barnshafandi konur sem eru ekki fullbólusettar eða hafa ekki fengið mislinga áður.
Fólk með veiklað ónæmiskerfi
Fylgikvillar mislinga
Oftast batna mislingar án þess að valda meiri vandamálum. Þeir sem eru í mestri hættu á fá fylgikvilla eru:
Börn sem eru yngri en 1 árs.
Vannærð börn.
Börn með veiklað ónæmiskerfi t.d. vegna hvítblæðis.
Unglingar og fullorðnir.
Minnsta hættan er á fylgikvillum hjá börnum á skólaaldri.
Ef barnshafandi einstaklingur fær mislinga er mikil hætta á fósturláti, fyrirburafæðingu og fleiri vandamálum hjá móður og fóstri/nýbura.
Algengir fylgikvillar
Niðurgangur og uppköst sem getur leitt til ofþornunar.
Sýkingar í miðeyra sem getur valdið eyrnaverk.
Aðrar sýkingar, s.s. augnsýkingar, lungnabólga o.fl.
Aukin tíðni ýmissa bakteríusýkinga í a.m.k. nokkra mánuði eftir mislingaveikindin.
Óalgengir fylgikvillar
Blinda og önnur augnvandamál.
Heilahimnubólga eða heilabólga (lífshættulegt ástand).
Mislingalungnabólga (lífshættulegt ástand).
Lifrarbilun.
Síðkomin hæggeng herslisheilabólga (e. subacute sclerosing panencephalitis) getur komið fram seint hjá um einum af hverjum þúsund sem fá mislinga, oftast 7–10 árum eftir mislingasýkinguna, og er banvæn.
Sjá nánar:
Sýkingavarnir gegn mislingum. Útgefið í febrúar 2024
Mislingar greinast á Íslandi. Frétt á vef 3. febrúar 2024
Tilkynningarskylda
Tilkynningarskyldir sjúkdómar eru þeir sjúkdómar sem náð geta mikilli útbreiðslu í samfélaginu og jafnframt ógnað almannaheill. Læknum ber að tilkynna sóttvarnalækni um einstaklinga sem veikjast af mislingum með persónuauðkennum hins smitaða en einnig berast tilkynningar til sóttvarnalæknis frá rannsóknarstofum sem staðfesta sjúkdómsgreininguna. Tilgangur tilkynningar um smitsjúkdóm er að hindra útbreiðslu smits með markvissum aðgerðum t.d. með einangrun, meðferð smitaðra og rakningu smits milli einstaklinga. Til þess að fullnægja þessum skilyrðum verða upplýsingar um líklegan smitunarstað, smitunartíma og einkenni að fylgja tilkynningum. Þannig má tengja smitaða einstaklinga með faraldsfræðilegum hætti, meta áhrif smitsins og grípa til viðbragða.
Þjónustuaðili
Embætti landlæknis