Fara beint í efnið
Embætti landlæknis Forsíða
Embætti landlæknis Forsíða

Embætti landlæknis

Bólusetningar við mænusótt/lömunarveiki vegna ferðalaga

6. janúar 2020

Lömunarveikitilfellum (e. poliomyelitis) hefur fjölgað á heimsvísu undanfarna mánuði samanborið við síðasta ár og er tilefni til að minna á að rétt er að bólusetja einstaklinga sem hyggja á ferðalög á ákveðin svæði.

Landlæknir logo - Fréttamyndir

Lömunarveikitilfellum (e. poliomyelitis) hefur fjölgað á heimsvísu undanfarna mánuði samanborið við síðasta ár og er tilefni til að minna á að rétt er að bólusetja einstaklinga sem hyggja á ferðalög á ákveðin svæði ef langt er liðið frá síðustu bólusetningu við mænusótt/lömunarveiki.

Hætta á lömunarveiki vegna villtrar veiru (WPV; wild type polio virus) er til staðar í:

  • Afganistan

  • Pakistan

  • Nígeríu (hverfandi en sjá hér að neðan)

Hætta á lömunarveiki vegna breyttrar bóluefnisveiru úr lifandi bóluefni (cVDPV) er til staðar víða en sérstaklega í eftirfarandi löndum:

  • Í Afríku: Angóla, Benin, Kamerún, Miðafríkulýðveldið, Chad, Fílabeinsströndin, Austur-Kongó, Eþíópía, Gana, Mósambík, Níger, Nígería, Sómalía, Tógó, Zambía

  • Í Asíu: Kína, Filippseyjar, Indónesía, Malasía, Myanmar

Ef einstaklingur hefur ekki fengið mænusóttarbóluefni eftir 1.1.2010 er rétt að hann fái það fyrir ferðalag til þessara landa, óháð lengd ferðar. Í einhverjum tilvikum, s.s. fyrir dvöl lengri en 4 vikur á svæðum þar sem faraldur er í gangi, getur verið viðeigandi að mæla með bólusetningu ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá síðustu mænusóttarbólusetningu við komu til landsins.

Athugið að rétt er að skrá slíka bólusetningu í alþjóðlegt bólusetningaskírteini (gula bók) þar sem hugsanlegt er að ferðalangar verði krafðir um sönnun á bólusetningu við fyrstu landamæri eftir brottför af þessum svæðum þótt þær kröfur eigi í raun aðeins við um íbúa eða við langtímadvöl.

Ef um endurbólusetningu er að ræða er bólusetningin talin gild um leið og hún hefur verið gefin en rétt er að gera hana 4 vikum fyrir ferð ef hægt er. Grunnbólusetning áður óbólusettra er 2 skammtar með mánaðarmillibili (fyrir ferð) og örvunarskammtur ekki fyrr en við 6 mánuði frá fyrsta skammti (má vera eftir ferð).

Sjá einnig: 

Sóttvarnalæknir