Fara beint í efnið

Mannauðstorg ríkisins: Vinnutími og viðvera

Vinnutími á ferðum á vegum vinnuveitenda

Tími starfsfólks sem varið er í ferðir, til annars áfangastaðar en fastrar eða hefðbundinnar starfsstöðvar, í því skyni að inna af hendi störf eða skyldur á öðrum stað, að kröfu vinnuveitanda, telst vinnutími í skilningi laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sjá 1. tl. 52. gr. að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Ferðir til og/eða frá fastri eða hefðbundinni starfsstöð telst aftur á móti ekki til vinnutíma.

Með fastri eða hefðbundinni starfsstöð er átt við vinnustað þar sem vinna fer að jafnaði fram. Vinnustaður á að vera skilgreindur í ráðningarsamningi líkt og fram kemur í reglum um form ráðningarsamninga og um skyldu til að upplýsa starfsmenn um ráðningarkjör. Í einhverjum tilvikum er starfsfólk ráðið á fleiri en einn vinnustað og skal þá tilgreina þá sérstaklega í ráðningarsamningi.

Samkvæmt 17. gr. starfsmannalaga ákveður forstöðumaður vinnutíma starfsfólks sem starfar hjá stofnun að því marki sem lög og kjarasamningar leyfa.

Þegar ferðast er til annars áfangastaðar en fastrar eða hefðbundinnar starfsstöðvar, t.d. erlendis, á ferð að hefjast frá fastri eða hefðbundinni starfsstöð starfsfólks og ljúka þegar á dvalarstað er komið t.d. hótel og hefst þá hvíldartími. Í þeim tilvikum þegar starfsfólk fer í beinu framhaldi úr ferð í vinnu að kröfu vinnuveitanda eins og t.d. á fund, tekur vinnutími á öðrum forsendum við vinnutíma vegna ferðar. Ávallt þarf samanlagður tími að samræmast reglum um hámarksvinnutíma, sjá nánar leiðbeiningar um hvíldartíma. Sömu sjónarmið gilda þegar ferðast er heim þ.e. ferðatími hefst þegar lagt er af stað frá dvalarstað, t.d. hóteli og lýkur þegar á fasta eða hefðbundna starfsstöð er komið. Í undantekningartilvikum er hægt að gera samkomulag um að ferð hefjist eða ljúki á öðrum stað eins og t.d. á heimili starfsfólks.

Ferð telst ekki farin að kröfu vinnuveitanda óski starfsfólk sjálft eftir því að fara á t.d. ráðstefnu eða námskeið innanlands eða utan. Þetta er óháð því hvort ráðstefnan eða námskeiðið komi til með að nýtast starfsfólki í störfum og hvort það hafi fengið launað leyfi til að fara í ferðina eða hvort ferðin sé styrkt af stéttarfélagi.

Finnurðu ekki það sem þig vantar?

Hvernig getum við aðstoðað?

merki

Mannauð­s­torg ríkisins

Ábyrgðaraðilar síðunnar eru Kjara- og mannauðssýsla ríkisins og Mannauðssvið Fjársýslunnar.