Fara beint í efnið

Mannauðstorg ríkisins: Vinnutími og viðvera

Námsleyfi

Kveðið er á um námsleyfi starfsfólks í kjarasamningum (oftast í 10. kafla þeirra). Í flestum þeirra greinir að starfsfólk sem hefur unnið í fjögur ár hjá sömu stofnun vinni sér inn ákveðinn rétt á leyfi á hverju ári (oftast 1 til 2 vikur) til að stunda endurmenntun/framhaldsnám sem fellur að endurmenntunar-/starfsþróunaráætlun viðkomandi stofnunar eða starfsmanns sé hún til staðar.  

Eftir fjögur ár í starfi á starfsfólk því uppsafnaðan rétt (4-8 vikur) í námsleyfi. Uppsafnaður réttur getur þó aldrei orðið meiri en sex mánuðir. 

Réttur til námsleyfis greiðist ekki út við starfslok. Réttur til námsleyfis færist ekki með starfsmanni hætti viðkomandi störfum á einni stofnun og hefji störf á annarri stofnun. Undantekning á því er ef starfsmaður er fluttur til í starfi samkvæmt 7.gr. starfsmannalaga. 

Heimilt er að veita skemmri eða lengri námsleyfi á skemmra eða lengra árabili. Þá getur verið heimilt að greiða ferða- og dvalarkostnað samkvæmt ákvæðum í kjarasamningi. 

Sérstakar reglur geta gilt um námsleyfi ákveðinna stétta samkvæmt kjarasamningum þeirra, til dæmis um námsleyfi lækna. 

Flest stéttarfélög veita félagsmönnum sínum styrki til náms og starfsþróunar, m.a. vegna greiðslu skóla- eða námskeiðagjalda. 

Starfsþróunaráætlun stofnunar. Þrátt fyrir að stofnun hafi ekki sett sér starfsþróunaráætlun á starfsmaður sama rétt til námsleyfis enda sé um að ræða nám sem tengist starfi viðkomandi.  Stofnun er heimilt að hafna umsókn ef hún fellur ekki að starfsþróunaráætlun stofnunar.   

Er stofnun heimilt að neita starfsmanni um námsleyfi á grundvelli niðurskurðar eða takmarkaðra fjárveitinga? Komi til þess að aðsókn eftir því að nýta sér námsleyfi valdi erfiðleikum í rekstri hefur stofnun heimild samkvæmt kjarasamningum (oftast ákvæði 10.1.3. eða í sér bókun) til að takmarka þann fjölda sem nýtir réttinn við 10% á ári, annað hvort miðað við fjölda vikna eða fjölda starfsmanna. 

Laun í námsleyfi - starfsfólk heldur reglubundnum launum í námsleyfi.

Hefur mismunandi starfshlutfall á ávinnslutíma áhrif?  Starfsfólk á almennt rétt á námsleyfi miðað við það starfshlutfall sem það er í þegar sótt er um leyfið. Athuga þarf þó vel rétt til námsleyfis ef viðkomandi hefur verið í mjög skertu starfshlutfalli. 

Ávinnur starfsmaður sér námsleyfi í fæðingarorlofi?  Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laga um fæðingarorlof reiknast fæðingarorlof til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, þar með talið um ávinnslu námsleyfis. 

Launakerfið Orri - Vinnustund. Skrá skal í Orra á tegundina Mánaðarlaun námsleyfi viðkomandi starfsmann þegar verið er að taka út námsleyfi. 

Tengt efni

Finnurðu ekki það sem þig vantar?

Hvernig getum við aðstoðað?

merki

Mannauð­s­torg ríkisins

Ábyrgðaraðilar síðunnar eru Kjara- og mannauðssýsla ríkisins og Mannauðs- og launasvið Fjársýslu ríkisins.