Mannauðstorg ríkisins: Heilsa, öryggi og vinnuumhverfi
Tilkynning og atvikaskráning vinnuslysa og óhappa
Vinnuslys er skylt að tilkynna til Vinnueftirlitsins og Sjúkratrygginga Íslands. Einnig skal tilkynna öll slys eða óhöpp þar sem möguleiki er að hættuleg efni eða efnavörur geti valdið mengun.
Tilkynningarskylda vegna vinnuslysa ríkisstarfsmanna hvílir á hlutaðeigandi stofnun. Æskilegt er að stofnanir feli ákveðnu starfsfólki að sinna þessari tilkynningarskyldu þannig að hægt sé að bregðast skjótt við þegar og ef vinnuslys eiga sér stað.
Sérstakt eyðublað fyrir tilkynningar um vinnuslys er að finna á vef Vinnueftirlitsins. Samkvæmt leiðbeiningum um tilkynningu vinnuslysa skal tilkynna alvarleg slys á vinnustað til Vinnueftirlitsins eins fljótt sem verða má og eigi síðar en innan sólarhrings.
Sjá einnig eyðublað fyrir tilkynningu um vinnuslys til Sjúkratrygginga Íslands.
Atvikaskráning
Stofnun þarf að halda atvikaskrá yfir öll vinnuslys sem eiga sér stað á vinnustaðnum og leiða til óvinnufærni starfsmanns í einn eða fleiri daga eða andláts. Hið sama gildir um þá sjúkdóma sem stofnun hefur rökstuddan grun eða vitneskju um að eigi rætur sínar að rekja til starfsins eða annarra aðstæðna á vinnustaðnum. Einnig skal stofnun skrá óhöpp sem eiga sér stað á vinnustaðnum og eru til þess fallin að valda slysum.
Markmiðið er að fá betri yfirsýn yfir þau vinnuslys og óhöpp sem verða á vinnustaðnum og auka þannig líkur á því að geta fyrirbyggt að þau endurtaki sig eða brugðist betur við gerist þau aftur.
Nauðsynlegt er að endurskoða áhættumatið fyrir vinnustaðinn þegar slys eða óhöpp verða eða hætta á heilsutjóni er meiri en áður hafði verið talið.
Tengt efni
Finnurðu ekki það sem þig vantar?
Hvernig getum við aðstoðað?
Mannauðstorg ríkisins
Ábyrgðaraðilar síðunnar eru Kjara- og mannauðssýsla ríkisins og Mannauðssvið Fjársýslunnar.