Fara beint í efnið

Mannauðstorg ríkisins: Heilsa, öryggi og vinnuumhverfi

Áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað

Samkvæmt lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og reglugerð um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum ber forstöðumaður ábyrgð á að til sé skrifleg áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað.

  1. Fyrsti liður slíkrar áætlunar er áhættumat, kerfisbundin athugun á vinnuaðstæðum til að kanna hvort eitthvað í vinnuumhverfinu, vinnuskipulaginu eða við framkvæmd vinnunnar geti hugsanlega leitt til andlegs eða líkamlegs tjóns, þar á meðal eineltis.

  2. Að því búnu skal sett áætlun um heilsuvernd og forvarnir þar sem tilgreindar eru fyrirhugaðar úrbætur í samræmi við niðurstöður áhættumatsins.

  3. Loks skal þess gætt að eftirfylgni sé tryggð og áætlunin endurskoðuð reglulega.

Vinnueftirlitið hefur eftirlit með framkvæmd áhættumats og reglugerðar um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Áætlun vinnustaðar ætti að innihalda:

  • Skilgreiningu á hugtökunum einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundin áreitni, kynbundið ofbeldi og ofbeldi á vinnustað

  • Dæmi um birtingarform eineltis, áreitis og ofbeldis jafnt kynferðislegu sem kynbundnu

  • Stefnuyfirlýsingu stofnunar um afstöðu til eineltis og annars áreitis á vinnustað

  • Fyrirbyggjandi aðgerðir og forvarnir

  • Upplýsingar um hvert starfsfólk geti leitað telji það sig verða fyrir einelti, kynferðislegri-, kynbundinni áreitni eða ofbeldi

  • Upplýsingar um hvert starfsfólk geti leitað verði það vitni að einelti, kynferðislegri-, kynbundinni áreitni eða ofbeldi

  • Viðbragðsáætlun í formi verklagsreglna vinnustaðar, fyrirfram skilgreindar aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri-, kynbundinni áreitni eða ofbeldi

Til að áætlun stofnunar og verklagsreglur þjóni tilgangi sínum þurfa þær að vera kunnar öllum starfsfólki. Hvetja ætti til opinskárrar umræðu á vinnustaðnum um efni áætlunarinnar og veita almenna fræðslu um einelti, áreiti og ofbeldi. Þannig ætti öllum að vera ljóst að slík háttsemi líðist ekki á vinnustaðnum, að tilkynningar um slíkt verði litnar alvarlegum augum og að tekið verði á þeim eftir markvissum leiðum.

Hlutverk stjórnenda er að ganga á undan með góðu fordæmi, leysa ágreiningsmál og vanda alla stjórnunarhætti til að fyrirbyggja og taka á einelti, áreiti og ofbeldi.

Finnurðu ekki það sem þig vantar?

Hvernig getum við aðstoðað?

merki

Mannauð­s­torg ríkisins

Ábyrgðaraðilar síðunnar eru Kjara- og mannauðssýsla ríkisins og Mannauðs- og launasvið Fjársýslu ríkisins.