Prentað þann 21. nóv. 2024
920/2006
Reglugerð um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum.
Efnisyfirlit
- Reglugerðin
- I. KAFLI Gildissvið, markmið og orðskýringar.
- II. KAFLI Öryggistrúnaðarmenn, öryggisverðir og öryggisnefndir.
- 4. gr. Fyrirtæki með færri en tíu starfsmenn.
- 5. gr. Fyrirtæki með tíu starfsmenn eða fleiri.
- 6. gr. Fyrirtæki með 50 starfsmenn eða fleiri.
- 7. gr. Fyrirtæki með útibú eða sjálfstæðar starfseiningar.
- 8. gr. Sérstök öryggisnefnd við meiriháttar verklegar framkvæmdir.
- 9. gr. Þagnarskylda.
- 10. gr. Vernd í starfi.
- III. KAFLI Tilnefning öryggisvarða og kosning öryggistrúnaðarmanna.
- IV. KAFLI Starfshættir öryggisnefnda.
- V. KAFLI Helstu verkefni öryggistrúnaðarmanna og öryggisvarða.
- VI. KAFLI Réttindi og skyldur aðila.
- VII. KAFLI Fræðsla og þjálfun.
- VIII. KAFLI Áætlun um öryggi og heilbrigði og heilsufarsskoðanir.
- IX. KAFLI Skyndihjálp, slökkvistarf og brottflutningur.
- X. KAFLI Ýmis ákvæði.
- Viðauki.
I. KAFLI Gildissvið, markmið og orðskýringar.
1. gr. Gildissvið.
Reglugerð þessi gildir um alla starfsemi þar sem einn eða fleiri menn vinna, hvort sem um er að ræða eigendur fyrirtækja eða starfsmenn og lög nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, gilda um.
Ákvæði annarra laga, reglna eða reglugerða, sem hafa að geyma strangari reglur um heilsuvernd og öryggi starfsmanna en reglugerð þessi mælir fyrir um skulu halda gildi sínu.
2. gr. Markmið.
Markmið reglugerðar þessarar er að koma á kerfisbundnu vinnuverndarstarfi innan vinnustaða í þeim tilgangi að:
- stuðla að því að starfsmenn séu verndaðir gegn hvers konar heilsuvá eða heilsutjóni sem stafa kann af vinnu þeirra eða vinnuskilyrðum,
- stuðla að því að vinnu sé hagað þannig að starfsmenn fái verkefni við hæfi og stuðla að andlegri og líkamlegri aðlögun þeirra að starfsumhverfinu,
- draga úr fjarvistum frá vinnu vegna veikinda og slysa með því að auka öryggi og viðhalda heilsu starfsmanna á vinnustað,
- stuðla að andlegri og líkamlegri vellíðan starfsmanna.
3. gr. Orðskýringar.
Í reglugerð þessari merkir:
- Atvinnurekandi: Hver sá sem rekur atvinnustarfsemi. Framkvæmdastjóri fyrirtækis telst atvinnurekandi eða ef um opinberan rekstur er að ræða, sá er hefur umsjón með starfseminni. Sé starfsemi rekin af tveimur einstaklingum eða fleiri í sameiningu, telst einungis einn þeirra atvinnurekandi en hinn/hinir starfsmenn. Skal það tilkynnt Vinnueftirliti ríkisins hver sé talinn atvinnurekandi.
- Áhætta: Líkur á því að starfsmaður verði fyrir heilsutjóni eða slysi á vinnustað.
- Áhættumat: Greining áhættuþátta í starfi og mat á líkum á því að starfsmaður verði fyrir heilsutjóni eða slysi á vinnustað.
- Forvarnir: Allar aðgerðir eða ráðstafanir sem hafa það að markmiði að fyrirbyggja eða draga úr hættu á atvinnutengdu heilsutjóni og slysum og stuðla að vellíðan starfsmanna eða aðgerðir sem miða að því að draga úr tjóni hafi orðið slys eða óhapp.
- Fyrirtæki: Þeir sem reka starfsemi, hvort sem um er að ræða stofnanir, félagasamtök, einstaklinga eða aðra aðila. Um einstaklinga gildir einu, hvort þeir vinna einir eða hafa aðra í þjónustu sinni.
- Heilsuvernd á vinnustað: Forvarnir byggðar á áhættumati og aðrar aðgerðir til að stuðla að andlegri og líkamlegri vellíðan starfsmanna.
- Starfsmaður: Hver sá sem vinnur launað starf í annarra þjónustu, þar með taldir nemar og lærlingar, jafnvel þótt þeir inni af hendi vinnu án endurgjalds, enda sé vinna þeirra liður í skipulögðu námi.
- Viðurkenndur þjónustuaðili: Aðili sem hlotið hefur viðurkenningu Vinnueftirlits ríkisins til að veita þjónustu á sviði öryggis og heilbrigðis á vinnustöðum.
- Vinnuaðstæður: Taka til allra þátta vinnunnar, þ.e. vinnuumhverfis, vinnuskipulags og framkvæmdar vinnunnar.
- Vinnustaður: Umhverfi innan húss eða utan, þar sem starfsmaður hefst við eða þarf að fara um vegna starfa sinna.
- Vinnuverndarstarf: Allar aðgerðir eða ráðstafanir er stuðla að bættum aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi á vinnustöðum.
- Öryggisnefnd: Nefnd skipuð fulltrúum atvinnurekanda, öryggisvörðum, og fulltrúum starfsmanna, öryggistrúnaðarmönnum, í fyrirtækjum þar sem starfsmenn eru 50 eða fleiri.
- Öryggistrúnaðarmaður: Fulltrúi starfsmanna í öryggismálum og heilsuvernd, í fyrirtækjum þar sem starfsmenn eru tíu eða fleiri.
- Öryggisvörður: Atvinnurekandi/fulltrúi atvinnurekanda í öryggismálum og heilsuvernd, í fyrirtækjum þar sem starfsmenn eru tíu eða fleiri.
II. KAFLI Öryggistrúnaðarmenn, öryggisverðir og öryggisnefndir.
4. gr. Fyrirtæki með færri en tíu starfsmenn.
Í fyrirtækjum þar sem eru einn til níu starfsmenn skal atvinnurekandi og/eða verkstjóri hans stuðla að góðum aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi á vinnustað í nánu samstarfi við starfsmenn fyrirtækisins og félagslegan trúnaðarmann þeirra, sbr. þó 2. mgr.
Forstjóri Vinnueftirlits ríkisins getur ákveðið, ef þurfa þykir, að fyrirkomulag það sem um ræðir í 5. gr. reglugerðar þessarar gildi einnig fyrir starfshópa sem getið er í ákvæði þessu þegar sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, sbr. til dæmis 40. og 44. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.
5. gr. Fyrirtæki með tíu starfsmenn eða fleiri.
Í fyrirtækjum þar sem starfsmenn eru tíu eða fleiri skal atvinnurekandi tilnefna af sinni hálfu öryggisvörð og starfsmenn skulu kjósa öryggistrúnaðarmann úr sínum hópi.
Sé starfsmannafjöldi sveiflukenndur skal miðað við meðalfjölda næsta árs á undan en þó tekið tillit til aukningar eða minnkunar á umsvifum fyrirtækisins.
6. gr. Fyrirtæki með 50 starfsmenn eða fleiri.
Í fyrirtækjum þar sem starfsmenn eru 50 eða fleiri skal stofna öryggisnefnd. Starfsmenn kjósa úr sínum hópi tvo fulltrúa og atvinnurekandi tilnefnir tvo fulltrúa. Báðir fulltrúar atvinnurekanda í öryggisnefnd teljast öryggisverðir og báðir fulltrúar starfsmanna öryggistrúnaðarmenn.
Sé starfsmannafjöldi sveiflukenndur skal miðað við meðalfjölda næsta árs á undan en þó tekið tillit til aukningar eða minnkunar á umsvifum fyrirtækisins.
Kosning og tilnefning fulltrúa í öryggisnefnd skal, eftir því sem kostur er, miðast við að fulltrúarnir hafi í daglegum störfum sínum yfirsýn yfir sem mestan hluta starfseminnar og/eða að þeir séu til staðar eins mikinn hluta starfstímans og kostur er.
7. gr. Fyrirtæki með útibú eða sjálfstæðar starfseiningar.
Fari starfsemi fyrirtækisins fram í sjálfstæðum starfseiningum eða útibúum þannig að ætla megi að öryggisnefnd fyrirtækisins hafi ekki nægilega yfirsýn yfir starfsemina, geta atvinnurekandi og þeir aðilar sem undirbúa kosningu öryggistrúnaðarmanna, sbr. 12. gr. reglugerðar þessarar, gert með sér samkomulag um að fyrirkomulag samkvæmt 4.-6. gr. reglugerðar þessarar skuli viðhaft í einstökum starfseiningum eða útibúum.
8. gr. Sérstök öryggisnefnd við meiriháttar verklegar framkvæmdir.
Þar sem meiriháttar verklegar framkvæmdir með aðild fleiri en eins atvinnurekanda standa yfir, svo sem virkjanaframkvæmdir og bygging stóriðjuvera, skal skipuð sérstök öryggisnefnd með aðild öryggisvarða og öryggistrúnaðarmanna hinna einstöku atvinnurekenda og annarra aðila eftir því sem ástæða er til. Aðilar sem undirbúa kosningar meðal starfsmanna, sbr. 12. gr. reglugerðar þessarar, og hlutaðeigandi atvinnurekendur skulu gera með sér samkomulag um skipan öryggisnefndar og skipulag á störfum hennar. Hlutverk hennar er meðal annars að stuðla að samræmingu vinnuverndarstarfs einstakra atvinnurekenda við slíkar verklegar framkvæmdir.
9. gr. Þagnarskylda.
Öryggistrúnaðarmönnum og öryggisvörðum, sbr. 5. og 6. gr. reglugerðar þessarar, er óheimilt að láta í té upplýsingar sem þeir fá vegna trúnaðarstarfa sinna ef upplýsingarnar varða:
- persónulega hagi einstakra starfsmanna eða stjórnenda, eða
- tæknibúnað, framleiðsluhætti eða viðskiptahagsmuni.
Enn fremur er óheimilt að láta óviðkomandi aðila í té afrit af eða upplýsingar um innihald skýrslna um vinnuslys eða atvinnusjúkdóma.
Þó er heimilt að gera frávik frá þagnarskyldu skv. 1. mgr. þannig að heimilt er að greina starfsmönnum eða stjórnendum frá atvikum sem falla undir a- eða b-lið 1. mgr. enda liggi fyrir samþykki hlutaðeigandi aðila og slíkt frávik er talið nauðsynlegt til þess að vara megi starfsmenn eða stjórnendur við slysa- eða sjúkdómahættu.
10. gr. Vernd í starfi.
Öryggistrúnaðarmenn, sbr. 5. og 6. gr. reglugerðar þessarar, skulu njóta þeirrar verndar sem ákveðin er í 11. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.
III. KAFLI Tilnefning öryggisvarða og kosning öryggistrúnaðarmanna.
11. gr. Tilnefning öryggisvarða.
Atvinnurekanda er skylt, ef hann er ekki sjálfur öryggisvörður eða í öryggisnefnd, að tilnefna í sinn stað aðila sem öryggisvörð með fullu umboði, sbr. 5. og 6. gr. reglugerðar þessarar.
Tilnefningin skal að jafnaði vera til tveggja ára í senn.
12. gr. Undirbúningur og framkvæmd kosningar öryggistrúnaðarmanna.
Félagslegir trúnaðarmenn starfsmanna eða trúnaðarmenn viðkomandi stéttarfélaga skulu sjá um undirbúning og framkvæmd kosningar öryggistrúnaðarmanna. Sá framangreindra aðila sem frumkvæði hefur skal tilkynna hinum aðilanum um fyrirætlanir sínar.
13. gr. Kosning öryggistrúnaðarmanna.
Kosning öryggistrúnaðarmanna, sbr. 5. og 6. gr. reglugerðar þessarar, skal fara fram með skriflegri atkvæðagreiðslu, sem stendur a.m.k. einn vinnudag eða á starfsmannafundi er hefur verið boðaður með a.m.k. tveggja sólarhringa fyrirvara, þar sem öllum starfsmönnum, sem kosningarétt hafa, er gefinn kostur á þátttöku.
Kjörgengir eru allir starfsmenn fyrirtækisins nema stjórnendur en æskilegt er að sá sem gefur kost á sér til starfans hafi starfað a.m.k. eitt ár við fyrirtækið og hafi í daglegum störfum sínum yfirsýn yfir sem mestan hluta starfseminnar og/eða sé til staðar eins mikinn hluta vinnutímans og kostur er, sbr. 3. mgr. 6. gr. reglugerðar þessarar.
Kosningarétt hafa allir starfsmenn fyrirtækisins nema stjórnendur án tillits til ráðningarforms, ráðningartíma og starfshlutfalls.
Kosning öryggistrúnaðarmanna skal að jafnaði vera til tveggja ára í senn.
14. gr. Tilkynning til Vinnueftirlits ríkisins.
Atvinnurekandi skal tilkynna Vinnueftirliti ríkisins um þá aðila sem tilnefndir eru sem öryggisverðir og kosnir eru sem öryggistrúnaðarmenn. Þeir sem undirbúa kosningu öryggistrúnaðarmanna, sbr. 12. gr. reglugerðar þessarar, skulu tilkynna viðkomandi stéttarfélögum um sömu aðila.
IV. KAFLI Starfshættir öryggisnefnda.
15. gr. Kosning formanns og ritara.
Öryggisnefnd kýs sér sjálf formann og ritara, hvorn um sig til eins árs í senn, og skulu þeir til skiptis vera úr röðum öryggisvarða og öryggistrúnaðarmanna.
16. gr. Helstu málefni öryggisnefnda.
Öryggisnefnd skal taka til umfjöllunar mál er varða aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, sbr. einnig V. kafla reglugerðar þessarar. Nefndin skal sérstaklega taka til umfjöllunar slys, óhöpp og atvinnusjúkdómstilfelli með það fyrir augum að finna orsakir og koma með tillögur um úrbætur svo koma megi í veg fyrir endurtekningu.
Leggja skal fyrir öryggisnefnd til umfjöllunar áætlanir og áform um meiriháttar framkvæmdir eða aðrar þær breytingar á rekstri fyrirtækisins sem áhrif geta haft á vinnuaðstæður á vinnustað.
17. gr. Fundir og afgreiðsla mála.
Öryggisnefnd heldur fundi eins oft og hún sjálf telur þörf á, en þó eigi sjaldnar en fjórum sinnum á ári. Nefndinni er skylt að halda fund ef tveir eða fleiri nefndarmenn krefjast þess.
Nefndin tekur mál til umfjöllunar að frumkvæði nefndarmanna eða samkvæmt ósk atvinnurekanda eða einhvers starfsmanns fyrirækisins. Nefndin skal í störfum sínum leitast við að finna lausn á þeim málum sem til umfjöllunar eru og gera tillögur um úrbætur telji hún þörf á.
Náist ekki samstaða í nefndinni um afgreiðslu mála skal færa sjónarmið allra aðila til bókar og er þá hverjum nefndarmanni heimilt að vísa málinu til umfjöllunar Vinnueftirlits ríkisins.
18. gr. Gerðabók.
Öryggisnefnd skal halda gerðabók. Til bókar skal færa þau atriði sem tekin eru upp í nefndinni svo og allar ákvarðanir.
Starfsmönnum Vinnueftirlits ríkisins skal heimill aðgangur að gerðabókum öryggisnefnda en þeir eru bundnir þagnarskyldu skv. 83. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.
V. KAFLI Helstu verkefni öryggistrúnaðarmanna og öryggisvarða.
19. gr. Almennt.
Öryggistrúnaðarmenn og öryggisverðir, sbr. 5. og 6. gr. reglugerðar þessarar, skulu samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar vinna að bættum aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi á vinnustöðum fyrirtækisins og fylgjast með því að ráðstafanir á þessu sviði komi að tilætluðum notum.
Atvinnurekandi skal sjá til þess að öryggistrúnaðarmenn og öryggisverðir fái hæfilegan tíma miðað við verkefnasvið til þess að gegna skyldum sínum skv. 1. mgr. Atvinnurekandi skal veita þeim fyrirfram og tímanlega hlutdeild í skipulagningu að því er varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum fyrirtækisins og sjá til þess að þeir geti komið sjónarmiðum á framfæri varðandi framkvæmd vinnuverndarstarfsins.
Öryggistrúnaðarmönnum og öryggisvörðum skal skýrt frá öllum vinnuslysum, óhöppum og atvinnusjúkdómum sem eiga sér stað í fyrirtækinu til að auðvelda þeim að sinna skyldum sínum skv. 1. mgr. Enn fremur skulu þeim kynntar mælingar og rannsóknir á hollustuháttum og öryggi og skal auk þess skýra þeim frá bilunum eða aðstæðum sem upp koma og þýðingu geta haft fyrir aðbúnað, öryggi og hollustuhætti á vinnustað. Þá skal kynna þeim ábendingar og fyrirmæli Vinnueftirlits ríkisins sem varða fyrirtækið.
Þar sem öryggistrúnaðarmenn og öryggisverðir eru ekki fyrir hendi, vegna smæðar fyrirtækis, sbr. 4. gr. reglugerðar þessarar, skal atvinnurekandi ráðfæra sig við starfsmenn og félagslegan trúnaðarmann þeirra að því er varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustaðnum.
Skyldur öryggistrúnaðarmanna á þessu sviði hafa ekki áhrif á ábyrgð atvinnurekanda skv. lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum og reglugerð þessari.
20. gr. Helstu verkefni öryggistrúnaðarmanna og öryggisvarða.
Öryggisverðir og öryggistrúnaðarmenn í öryggisnefndum taka þátt í gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustað, sbr. 65.-66. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, og VIII. kafla reglugerðar þessarar, og fylgjast með því hvernig henni er framfylgt. Í því felst þátttaka í gerð áhættumats og áætlunar um heilsuvernd þar sem meðal annars kemur fram áætlun um forvarnir.
Þar sem öryggisnefnd er ekki til staðar taka öryggistrúnaðarmaður og öryggisvörður, sbr. 5. gr. reglugerðar þessarar, eða félagslegur trúnaðarmaður starfsmanna, sbr. 4. gr. reglugerðar þessarar, þátt í gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustað og fylgjast með hvernig henni er framfylgt, sbr. 1. mgr.
Aðilar skv. 1. og 2. mgr. skulu fara í eftirlitsferðir um vinnustaðinn svo oft sem þurfa þykir og sérstaklega aðgæta að:
- vélar og tæknibúnaður, hættuleg efni og starfsaðferðir stofni ekki lífi og heilsu starfsmanna í hættu,
- öryggisbúnaður og persónuhlífar séu til staðar í góðu ástandi eins og til er ætlast og að starfsmenn noti þann búnað eða hlífar sem eru til staðar,
- ekki viðgangist ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi á vinnustaðnum,
- starfsmönnum sé kynnt sú áhætta sem er á vinnustaðnum að því er varðar öryggi þeirra og heilsu. Þannig skal kynna efni áætlunar fyrirtækisins um öryggi og heilbrigði á vinnustað, þar á meðal áhættumat þess, forvarnaraðgerðir og neyðaráætlun fyrir starfsmönnum sem og starfsmönnum annarra atvinnurekenda sem starfa á viðkomandi vinnustað, sbr. 22. gr. reglugerðar þessarar,
- skráningu vinnuslysa, óhappa og atvinnusjúkdóma sé sinnt, sbr. 78. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum,
- starfsmenn fái nauðsynlega fræðslu og þjálfun með tilliti til aðbúnaðar, hollustuhátta og öryggis á vinnustað,
- til staðar sé neyðaráætlun í samræmi við IX. kafla reglugerðar þessarar,
- leitað sé eftir umsögn Vinnueftirlits ríkisins hvað varðar umtalsverðar breytingar hjá fyrirtækinu, sbr. XIII. kafla laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.
VI. KAFLI Réttindi og skyldur aðila.
21. gr. Almennt.
Atvinnurekandi ber ábyrgð á að koma á vinnuverndarstarfi sem tekur til fyrirtækisins í heild og allra vinnuaðstæðna sem geta haft áhrif á öryggi og heilsu starfsmanna, sbr. lög nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, og reglugerðar þessarar. Í því skyni skal m.a. gera skriflega áætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað, sbr. 65. gr. laganna og VIII. kafla reglugerðar þessarar, sem markar stefnu varðandi aðbúnað, öryggi og hollustuhætti á vinnustaðnum.
Þegar gerð áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustað, krefst færni sem atvinnurekandi eða starfsmenn hans hafa ekki yfir að ráða skal atvinnurekandi fá til liðs við sig þjónustuaðila sem hlotið hefur viðurkenningu Vinnueftirlits ríkisins til þeirra starfa. Slíkur þjónustuaðili skal hafa aðgang að nauðsynlegum upplýsingum til að geta sinnt starfinu og skal atvinnurekandi upplýsa hann um þá þætti sem vitað er eða grunur leikur á að hafi áhrif á öryggi og heilbrigði starfsmanna, sbr. 66. gr. a laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.
Enda þótt atvinnurekandi njóti þjónustu slíkra aðila ber hann engu að síður ábyrgð á að áætlunin sé gerð og henni fylgt eftir.
Atvinnurekandi skal tryggja að samstarf um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs samkvæmt reglugerð þessari geti orðið sem best og tekur þátt í samstarfi um þessi mál.
Starfsmönnum er skylt að taka þátt í samstarfi um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs samkvæmt reglugerð þessari.
Atvinnurekandi ber kostnað vegna starfs að bættum aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi innan fyrirtækisins og bætir þeim, sem að því vinna, tekjutap sem af kann að hljótast.
Enn fremur skal atvinnurekandi greiða allan kostnað vegna ráðstafana sem gerðar eru til þess að bæta aðbúnað, hollustuhætti og öryggi innan fyrirtækisins. Óheimilt er að leggja slíkan kostnað á starfsmenn.
22. gr. Atvinnurekendur sem eiga aðild að starfsemi á sama vinnustað.
Þar sem fleiri en einn atvinnurekandi á aðild að starfsemi á sama vinnustað, skulu þeir og aðrir, sem þar starfa, sameiginlega stuðla að því að tryggja góðan aðbúnað og heilsusamlegar og öruggar vinnuaðstæður á vinnustaðnum. Skulu atvinnurekendur upplýsa hvern annan og starfsmenn sína og/eða öryggistrúnaðarmann eða félagslegan trúnaðarmann starfsmanna um atriði er varða aðbúnað, öryggi og hollustuhætti á vinnustaðnum.
Sérhver atvinnurekandi skal sjá til þess að vinnuaðstæður hjá eigin fyrirtæki séu þannig að öryggi og heilsa starfsmanna annarra atvinnurekenda á sama vinnustað sé einnig sem best tryggð.
Sá atvinnurekandi sem ber ábyrgð á aðalstarfsemi vinnustaðarins skal hafa frumkvæði að samræmingu vinnuverndarstarfs á vinnustaðnum.
Þar sem engin aðalstarfsemi er skilgreind skulu viðkomandi atvinnurekendur gera með sér samkomulag um samræmingu vinnuverndarstarfs á vinnustaðnum þar sem meðal annars er tekið fram til hvaða vinnusvæða og verkefna samkomulagið nái.
Þegar starfsemi er í eðli sínu hættuleg og/eða þar sem aðstæður gefa tilefni til, skal samkomulag skv. 4. mgr. vera skriflegt og skal þá tilnefna atvinnurekanda sem skal hafa frumkvæði að samræmingu vinnuverndarstarfs á vinnustaðnum.
Atvinnurekandi skal tryggja að starfsmenn annarra fyrirtækja sem hafa með höndum verk innan fyrirtækis hans hafi í raun fengið viðeigandi leiðbeiningar um áhættu er varðar aðbúnað, öryggi og hollustuhætti sem tengist aðstæðum í fyrirtæki hans.
Hafi atvinnurekandi undir stjórn sinni starfsmenn frá starfsmannaleigu eða öðrum atvinnurekanda skal hann tryggja öryggi þeirra, aðbúnað og hollustuhætti meðan þeir eru í þjónustu hans með sama hætti og eigin starfsmanna.
Ákvæði 1.-6. mgr. hefur engin áhrif á skyldur hvers og eins atvinnurekanda samkvæmt lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, og reglugerð þessari, sbr. 36. gr. laganna.
Um samræmingu vinnuverndarstarfs á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð gilda auk þess reglur um aðbúnað, hollustuhætti og öryggisráðstafanir á byggingarvinnustöðum og við aðra tímabundna mannvirkjagerð.
23. gr. Skyldur starfsmanna.
Starfsmenn skulu stuðla að því að vinnuaðstæður innan verksviðs þeirra séu fullnægjandi að því er varðar aðbúnað, hollustuhætti og öryggi. Þeir skulu einnig stuðla að því að þeim ráðstöfunum, sem gerðar eru til þess að auka öryggi og bæta aðbúnað og hollustuhætti samkvæmt lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, og reglugerð þessari sé framfylgt.
Starfsmönnum ber m.a. skylda til í samræmi við þá fræðslu og þjálfun sem þeir hafa fengið að:
- nota vélar, tæki, verkfæri, hættuleg efni, flutningatæki og annan búnað á réttan hátt,
- nota persónuhlífar sem þeim er séð fyrir á réttan hátt og skila þeim á sinn stað eftir notkun,
- taka ekki úr sambandi, né heldur breyta eða fjarlægja að geðþótta uppsettan öryggisbúnað, svo sem við vélar, tæki, verkfæri, búnað og byggingar, og að nota öryggisbúnaðinn rétt,
- upplýsa atvinnurekanda og/eða fulltrúa atvinnurekanda, svo sem verkstjóra eða öryggisvörð, eða öryggistrúnaðarmann eða félagslegan trúnaðarmann starfsmanna án tafar um allar aðstæður við vinnu þar sem ljóst má telja að öryggi og heilbrigði sé bráð hætta búin og um alla ágalla á fyrirkomulagi sem ætlað er til verndar starfsmönnum.
Telji starfsmaður að á vinnustað sé tiltekin slysa- eða sjúkdómahætta skal hann þegar í stað koma ábendingum þar að lútandi á framfæri við atvinnurekanda og/eða fulltrúa hans, svo sem verkstjóra eða öryggisvörð, og öryggistrúnaðarmann sem skulu í sameiningu gera ráðstafanir til að bægja hættunni frá. Telji starfsmaður að viðhlítandi ráðstafanir séu ekki gerðar skal hann vísa málinu til umfjöllunar öryggisnefndar fyrirtækisins, sé hún fyrir hendi, en ella til Vinnueftirlits ríkisins.
VII. KAFLI Fræðsla og þjálfun.
24. gr. Fræðsla og þjálfun öryggisvarða og öryggistrúnaðarmanna.
Atvinnurekandi skal sjá um að öryggisverðir og öryggistrúnaðarmenn fái viðeigandi fræðslu og þjálfun með því að sækja námskeið varðandi aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum sem gera þessum aðilum kleift að afla sér grunnþekkingar á málum er snerta aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á viðkomandi vinnustað.
Vinnueftirlit ríkisins gefur út leiðbeiningar varðandi þau atriði sem æskilegt er að fjallað sé um á námskeiðum skv. 1. mgr.
25. gr. Þjálfun starfsmanna.
Atvinnurekandi skal tryggja að hver starfsmaður fái nægilega þjálfun að því er varðar aðbúnað, öryggi og hollustuhætti á vinnustað, meðal annars með upplýsingum og tilsögn sem sniðin er að vinnuaðstæðum hans og starfi, í eftirfarandi tilvikum:
- um leið og starfsmaður er ráðinn til starfa,
- ef starfsmaður er fluttur á annan stað eða í annað starf,
- ef nýr búnaður er tekinn í notkun eða búnaði er breytt,
- ef ný tækni er innleidd.
Þjálfunina skal laga að nýjum eða breyttum áhættuþáttum og nýrri þekkingu og endurtaka reglulega ef þörf er á. Þegar áhætta í starfi er mikil samkvæmt áhættumati skulu vera til skriflegar verklagsreglur um hvernig starfið skuli framkvæmt.
Atvinnurekandi skal gera viðeigandi ráðstafanir sem tryggja að einungis þeir starfsmenn sem hlotið hafa nægilega tilsögn hafi aðgang að svæðum þar sem alvarleg og sérstök hætta er á ferðum.
Atvinnurekandi skal greiða kostnað við þjálfun skv. 1.-2. mgr. og skal þjálfunin fara fram á vinnutíma.
VIII. KAFLI Áætlun um öryggi og heilbrigði og heilsufarsskoðanir.
26. gr. Almennt.
Atvinnurekandi ber ábyrgð á gerð skriflegrar áætlunar um öryggi og heilbrigði á vinnustað, sbr. 65. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum. Áætlunin skal tryggja að vinnuverndarstarf fyrirtækisins verði markvisst. Skal hún meðal annars fela í sér sérstakt áhættumat, sbr. 27. gr. reglugerðar þessarar, sem og áætlun um heilsuvernd, þar á meðal áætlun um forvarnir, sem byggð er á áhættumati, sbr. 28. gr. reglugerðar þessarar. Áætlunin á að gefa gott yfirlit yfir áhættu- og álagsþætti og forvarnir til að koma í veg fyrir eða draga úr hættu á heilsutjóni og slysum vegna vinnuaðstæðna og til að stuðla að öryggi, heilbrigði og vellíðan starfsmanna.
Atvinnurekandi skal sjá til þess að áætlun um öryggi og heilbrigði skv. 1. mgr. sé framfylgt í daglegri starfsemi fyrirtækisins og að vinnuverndarstarfið sé órjúfanlegur þáttur hennar. Árangur af hinu kerfisbundna starfi skal metinn reglulega í samráði við öryggisvörð og öryggistrúnaðarmann eða öryggisnefnd fyrirtækisins og úrbætur gerðar eftir því sem niðurstöður árangursmatsins gefa tilefni til.
Áætlun um öryggi og heilbrigði skv. 1. mgr. skal fela í sér ferli stöðugra umbóta. Áður en breytingar eru gerðar á starfsemi fyrirtækis skal atvinnurekandi meta, hvort þær feli í sér áhættu með tilliti til öryggis og heilsu starfsmanna og hvort úrbóta sé þörf. Í forvarnaskyni skal gera a.m.k. árlega samantekt yfir vinnuslys, óhöpp og atvinnutengda sjúkdóma sem upp hafa komið frá síðustu samantekt.
Áætlun um öryggi og heilbrigði skv. 1. mgr. skal vera aðgengileg innan fyrirtækisins fyrir þá sem annast vinnuverndarstarfið, svo og aðra starfsmenn. Á sama hátt skal áætlunin vera aðgengileg starfsmönnum Vinnueftirlits ríkisins óski þeir eftir því.
27. gr. Áhættumat.
Áhættumat skal vera skriflegt og taka til vinnuaðstæðna starfsmanna. Við gerð áhættumats skal meta áhættu í starfi með tilliti til öryggis og heilsu starfsmanna og áhættuþátta í vinnuumhverfi. Hafa skal hliðsjón af eðli starfseminnar sem og stærð og skipulagi fyrirtækisins. Jafnframt skal sérstaklega litið til starfa þar sem fyrirsjáanlegt er að öryggi og heilsu starfsmanna sem sinna þeim sé meiri hætta búin en öðrum starfsmönnum. Við áhættumatið skal vega saman alvarleika hættunnar og líkurnar á því að hætta skapist.
Aðferðir við gerð áhættumats eru valfrjálsar en sú aðferð sem valin er hverju sinni skal vera til þess fallin að greina þá áhættu sem getur verið til staðar í fyrirtækinu. Tryggt skal að áhættumatið feli í sér eftirfarandi:
- Greiningu - að vinnuaðstæður séu skoðaðar á kerfisbundinn hátt og áhættuþættir í vinnuumhverfi, vinnuskipulagi og við framkvæmd vinnu greindir og skráðir.
- Mat - að allir áhættuþættir séu metnir, þ.e. eðli, alvarleiki, umfang og orsök hættunnar.
- Samantekt - að gerð sé samantekt á niðurstöðum áhættumatsins.
Vinnueftirlit ríkisins gefur út leiðbeiningar um gerð áhættumats og áætlunar um heilsuvernd, þar á meðal áætlunar um forvarnir, sem skulu taka mið af breytilegum aðstæðum einstakra atvinnugreina.
28. gr. Áætlun um heilsuvernd og framkvæmd hennar.
Þegar áhættumat skv. 27. gr. liggur fyrir ber atvinnurekandi ábyrgð á að gerð sé áætlun um heilsuvernd, þar á meðal áætlun um forvarnir.
Áætlun skv. 1. mgr. skal fela í sér að gerðar séu nauðsynlegar úrbætur í samræmi við niðurstöður áhættumatsins.
Tilgreina skal til hvaða aðgerða er gripið af hálfu atvinnurekanda til að koma í veg fyrir eða draga úr þeirri áhættu sem kom í ljós við áhættumatið, svo sem úrbætur varðandi skipulag og framkvæmd vinnunnar, leiðbeiningar, fræðslu, þjálfun, val á tækjum, efnum eða efnablöndum, notkun öryggis- eða hlífðarbúnaðar, innréttingar á vinnustað eða aðrar forvarnir.
Þegar í stað skal bregðast við bráðri áhættu og þeirri áhættu sem auðvelt er að draga úr eða koma í veg fyrir. Í áætlun skv. 1. mgr. skal forgangsraða úrbótum sem grípa þarf til vegna áhættu á vinnustað og tímasetja hvenær þeim verði lokið.
Við val á aðgerðum skal taka mið af þeim almennu viðmiðum um forvarnir sem fram koma í viðauka I. Eftir að áhættan hefur verið metin á þann hátt sem nauðsynlegt er skulu forvarnarráðstafanir felldar inn í alla starfsemi vinnustaðarins á öllum stigum þar sem þær eiga við. Atvinnurekandi skal laga þessar ráðstafanir að breyttum kringumstæðum og hafa að markmiði að bæta ríkjandi aðstæður.
29. gr. Eftirfylgni.
Atvinnurekandi skal tryggja eftirfylgni að úrbótum loknum með því að meta úrbætur að ákveðnum tíma liðnum og gera endurbætur ef þörf krefur.
30. gr. Endurskoðun áætlunar um öryggi og heilbrigði.
Endurskoða skal áætlun um öryggi og heilbrigði þegar breytingar á vinnuaðstæðum, vinnutilhögun eða framleiðsluaðferðum breyta forsendum hennar. Þegar vinnuslys eða alvarleg óhöpp verða eða komi upp atvinnutengdir sjúkdómar eða önnur atvik eða aðstæður sem benda til áhættu skal endurskoða þá þætti áætlunarinnar sem eiga við.
31. gr. Heilsufarsskoðanir.
Starfsmenn skulu eiga kost á heilsufarsskoðunum á kostnað atvinnurekanda áður en þeir eru ráðnir til starfa, meðan þeir eru í starfi og þegar við á eftir að þeir eru hættir störfum, enda séu vinnuaðstæður þeirra slíkar að heilsutjón geti hlotist af og ástæða til þess að ætla að með heilsufarsskoðunum megi koma í veg fyrir eða hefta atvinnusjúkdóma og atvinnutengda sjúkdóma.
Heilsufarsskoðanir skv. 1. mgr. skulu vera í höndum heilbrigðisstarfsmanna og taka mið af áhættumati viðkomandi fyrirtækja og starfsgreina og einnig þeim reglum sem í gildi eru um mismunandi starfshópa.
IX. KAFLI Skyndihjálp, slökkvistarf og brottflutningur.
32. gr. Fyrirbyggjandi ráðstafanir og tilnefning framkvæmdaraðila.
Atvinnurekandi skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til skyndihjálpar, slökkvistarfs og brottflutnings starfsmanna í samræmi við eðli starfseminnar og stærð fyrirtækis og að teknu tilliti til annarra sem kunna að vera á staðnum.
Lýsing á ráðstöfunum skv. 1. mgr. skulu koma fram í áætlun um heilsuvernd skv. 28. gr.
Atvinnurekandi skal tilnefna þá starfsmenn sem koma ráðstöfunum skv. 1. mgr. í framkvæmd. Fjöldi starfsmanna, þjálfun þeirra og búnaður sem þeir hafa yfir að ráða skal vera eins og hæfir stærð fyrirtækisins og/eða sérstakri hættu sem kann að vera til staðar.
Eldvarnaeftirlit eigenda og forráðamanna atvinnuhúsnæðis fer eftir gildandi lögum um brunavarnir og reglugerð um eigið eftirlit eigenda og forráðamanna með brunavörnum í atvinnuhúsnæði.
33. gr. Bráð hætta á heilsutjóni eða vinnuslysi.
Ef atvinnurekanda eða starfsmönnum sem falin hefur verið verkstjórn, öryggisvarsla eða öryggistrúnaðarstarf verður ljóst að skyndilega hafi komið upp bráð hætta á heilsutjóni eða vinnuslysum starfsmanna á vinnustað, svo sem vegna loftmengunar, eitraðra, eldfimra eða hættulegra efna, hættu á hruni jarðvegs, vörustæðu eða burðarvirkis, fallhættu, sprengihættu eða annarrar alvarlegrar hættu, er þeim skylt að hlutast til um að starfsemin verði stöðvuð þegar í stað og/eða að starfsmenn hverfi frá þeim stað þar sem hættuástand ríkir.
Atvinnurekanda ber jafnframt að tryggja að starfsmenn geti sjálfir, ef öryggi þeirra eða annarra er stefnt í bráða hættu, gripið til viðeigandi ráðstafana til að komast hjá afleiðingum hættunnar þegar ekki er unnt að ná sambandi við yfirmann eða starfsmann sem falin hefur verið öryggisvarsla eða öryggistrúnaðarstarf.
Aðgerðir skv. 1. eða 2. mgr. gera þá aðila sem þar greinir ekki ábyrga fyrir því tjóni, sem fyrirtækið kann að verða fyrir vegna stöðvunar eða fráhvarfa starfsmanna af vinnustað, þar sem hið bráða hættuástand var talið ríkja og er óheimilt að láta þá gjalda fyrir ákvörðun sína á nokkurn hátt.
Atvinnurekandi skal, svo fljótt sem auðið er, upplýsa alla starfsmenn sem kunna að lenda í bráðri hættu, um hver áhættan er og til hvaða aðgerða hefur verið gripið eða á að grípa til, í verndarskyni.
Vinnueftirliti ríkisins skal gert aðvart svo fljótt sem verða má, og skal það umsvifalaust senda fulltrúa sinn á staðinn til að meta ástand og kringumstæður og til að úrskurða um hvort starfsemin skuli stöðvuð áfram, hafi hún verið stöðvuð, og um nauðsynlegar úrbætur, sem gera þarf til þess að starfsemin og vinnustaðurinn teljist hættulaus.
34. gr. Tilkynning vinnuslysa.
Atvinnurekandi skal án ástæðulausrar tafar tilkynna Vinnueftirliti ríkisins öll slys þar sem starfsmaður deyr eða verður óvinnufær í einn eða fleiri daga, auk þess dags sem slysið varð. Slys þar sem líkur eru á að starfsmaður hafi orðið fyrir langvinnu eða varanlegu heilsutjóni skal tilkynna Vinnueftirlitinu eigi síðar en innan sólarhrings. Að öðru leyti fer um tilkynningu atvinnurekanda skv. 79. og 80. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.
X. KAFLI Ýmis ákvæði.
35. gr. Eftirlit.
Vinnueftirlit ríkisins hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar, sbr. 82. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.
36. gr. Kæruheimild.
Heimilt er að kæra ákvarðanir Vinnueftirlits ríkisins sem teknar eru á grundvelli reglugerðar þessarar til félagsmálaráðuneytis innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina, sbr. 98. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.
37. gr. Viðurlög.
Brot á ákvæðum reglugerðar þessarar geta varðað við ákvæði 99. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum.
38. gr. Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 7., 17., 38., 39., 40. og 65. gr., 65. gr. a, 66. gr., 66. gr. a og 67. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, með síðari breytingum, að fenginni umsögn stjórnar Vinnueftirlits ríkisins og landlæknis, til innleiðingar á tilskipun nr. 89/391/EBE, um lögleiðingu ráðstafana er stuðla að bættu öryggi og heilsu starfsmanna á vinnustöðum, sem vísað er til í 8. lið XVIII. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, öðlast þegar gildi. Enn fremur falla úr gildi reglur nr. 77/1982, um heilbrigðis- og öryggisstarfsemi innan fyrirtækja.
Félagsmálaráðuneytinu, 9. nóvember 2006.
Magnús Stefánsson.
Hanna Sigr. Gunnsteinsdóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.